Eru þau „gáfuð“?
HEGRINN fer á veiðar með agn í nefbroddinum. Þegar hann kemur auga á fisk í ánni lætur hann agnið, sem er fjöður, detta. Um leið og fiskurinn kemur upp til að grípa agnið hefur hegrinn krækt sér í hádegisverð — hann hefur veitt sér fisk eins og færasta aflakló með stöng og flugu.
Ber þessi veiðiaðferð vott um greind og gáfur? Samkvæmt einni skilgreiningu telja vísindamenn gáfur vera „þann hæfileika að vera sér meðvitandi um sjálfan sig sem sjálfstæða veru í umhverfi sínu, og geta aflað sér og varðveitt þekkingu, lært og skilið af reynslunni, leyst vandamál og brugðist rétt við síbreytilegum aðstæðum.“
Svo virðist sem hegrinn hafi lært af reynslunni og leyst vandamál. Þess vegna myndu sumir, samkvæmt þessari skilgreiningu, kalla hann „gáfaðan.“ Og fleiri dæmi mætti nefna.
Hunangsflugan er önnur lífvera sem virðist „gáfuð.“ Í þeim tilgangi að prófa „gáfnafar“ hennar lagði dr. James Gould, sem rannsakar hátterni býflugna við Princeton-háskóla, út æti handa býflugum en færði það til í hvert sinn sem þær flugu í bú sitt. Hver færsla var fjórðungi lengri en fyrri fjarlægð frá búinu. Áður en langt um leið höfðu býflugurnar séð við vísindamanninum. Hann fann þær hringsólandi í kringum blettinn þar sem hann ætlaði að koma ætinu fyrir næst.
Dr. Gould álítur hins vegar að flest merki um gáfur dýra séu í raun eðlishvöt. Ef svo er, getur hann þá skýrt hvernig býflugurnar drógu ályktun af fyrri reynslu? „Ég get það ekki,“ svaraði hann og bætti svo við: „Ég vildi óska að þær hefðu ekki gert þetta!“
Hvort sem dýr láta „gáfur“ eða eðlisávísun ráða gerðum sínum er þeirri spurningu ósvarað hvaðan þeim komi viskan. Þótt dr. Gould viðurkenni að hann kunni ekki svar við því er afstaða hans í meginatriðum þessi: „Þróun getur áskapað mjög smáum heila mjög flókna hegðun.“ En er ekki rökréttari niðurstaða að slík ‚gáfuleg‘ hegðun stafi af gáfulegri hönnun frekar en blindri þróun? Biblían setur hegðun hinna vængjuðu dýra í samband við skaparann og segir: „Spyr þú skepnurnar og þær munu kenna þér, fugla loftsins og þeir munu fræða þig. Hver þeirra veit ekki, að hönd [Jehóva] hefir gjört þetta?“ — Jobsbók 12:7, 9; sjá einnig Orðskviðina 30:24-28.
Hvað segja þessar sköpunarverur þér? Ef þær gætu talað myndu þær segja: ‚Skaparinn getur áskapað mjög smáum heila mjög flókna hegðun.‘ Þótt þróunarsinnar kunni að „óska að þær hefðu ekki gert“ svona forvitnilega hluti eignar Biblían skapara þessara dýra, Jehóva Guði, visku þeirra, hvort heldur hún er áunnin eða eðlislæg. — 1. Mósebók 1:20-22; Rómverjabréfið 1:20.