Öruggur akstur — aðkallandi nauðsyn
SAGT hefur verið um akstur bifreiðar að „engin önnur athöfn sé til sem felur í sér jafnmikla hættu á stórfelldum líkamsmeiðingum og þjáningum en krefst jafnlítillar símenntunar og ábyrgðartilfinningar.“ Hefur þú nokkur tíma þurft að víkja þér undan til að forðast árekstur við aðvífandi bifreið? Hefur þú einhvern tíma orðið vitni að umferðarslysi og látið í ljós áhyggjur þínar af þeim blóðsúthellingum sem eiga sér stað á götum og þjóðvegum?
„Síðastliðin fimm ár hafa sífellt fleiri fótgangandi vegfarendur látist eða slasast alvarlega“ í umferðarslysum á Bretlandseyjum. — The Times.
„Árlega látast um 4000 karlar, konur og börn í umferðarslysum í Kanada.“ — The Toronto Star.
Frá 1981 til 1985 létust 233.200 í umferðarslysum í Bandaríkjunum. — The World Almanac, 1987.
„Bifreiðin . . . drepur fleiri í Rio de Janeiro [í Brasilíu] en berklar, krabbamein og hjartasjúkdómar.“ — O Estado de S. Paulo.
Hve margir týna lífi í umferðarslysum í öllum heiminum?
Umferðin kostar sitt
Ætlað er að ár hvert látist um fjórðungur úr milljón manna í heiminum af völdum umferðarslysa! Að sögn The Toronto Star eru það „fleiri en látast samanlagt ár hvert af völdum styrjalda, glæpa og vinnuslysa.“
Áætlað er að hvert banaslys í umferðinni á Bretlandseyjum kosti 252.000 sterlingspund (ríflega 16 milljónir íslenskra króna). Hvers vegna svo mikið? Tekið er með í reikninginn það sem fjárfest hefur verið í hinum látna, tapaðir tekjumöguleikar hans svo og eignatjónið, sjúkraaksturinn, sjúkrahússkostnaðurinn og annar þjónustukostnaður. Gáleysi í umferðinni er sannarlega dýr!
‚Möguleiki til að drepa‘
John Moore, fyrrum samgönguráherra Breta, finnst það „furðulegt að ár hvert skuli þurrkast út um 5000 mannslíf á Bretlandseyjum — en þó örlar vart á mótmælum í fjölmiðlum eða frá breskum almenningi.“ Þrýstihópar, sem einbeita sér að öryggi í umferðinni, halda því sumir fram að það „sé að verða viðurkennd tegund manndráps að drepa með ökutæki.“
Þótt mönnum virðist mikið til standa á sama um umferðarslysin er ein niðurstaða óumflýjanleg: Ökulag þitt getur skipt sköpum um líf eða dauða fyrir einhvern, ef til vill sjálfan þig. Alex Miller, yfirprófdómari ökuprófa hjá lögreglunni í Strathclyde í Skotlandi, segir: „Hver einasta bifreið er drápsvopn sem gefur ökumanninum möguleika til að drepa.“
Hvað þýðir þetta fyrir þig sem ökumann? Það er að minnsta kosti umhugsunarvert. Þrátt fyrir það gefa margir bifreiðarstjórar því lítinn gaum sem er að gerast í kringum þá, einkum þeir sem aka undir áhrifum áfengis.
Frá þýska sambandslýðveldinu berast þær fregnir að „árið 1984 hafi orðið 40.332 umferðarslys þar sem fólk lést eða varð fyrir alvarlegu líkamstjóni og 20.000 sem ollu verulegu eignatjóni — öll af völdum drukkinna ökumanna.“ Víða um lönd, svo sem á Bretlandseyjum og í Danmörku, er áfengi tengt þriðja hverju banaslysi í umferðinni en hérlendis fjórða eða fimmta hverju.
Fæla slíkar tölur menn frá því að aka bifreið undir áhrifum áfengis? Ekki að sögn talsmanns lögreglunnar á Englandi sem sagði: „Enn er verulegur fjöldi ökumanna reiðubúinn að taka áhættuna og stofna sjálfum sér, fjölskyldum sínum og öðrum vegfarendum í hættu.“ Prófessor Robert Kendell við Edinborgarháskóla heldur því fram að „eitthvað í námunda við tíu af hundraði karlmanna á Bretlandseyjum aki bifreið að minnsta kosti einu sinni í viku með ólöglegt áfengismagn í blóðinu.“ Hvað er það annað en hrein sjálfselska?
Sumir áfengisframleiðendur á Bretlandseyjum reyna að sporna gegn þessu vandamáli með því að beita sér fyrir því að mönnum sé ekið til og frá uppáhaldskránni sinni, óháð því í hvaða ásigkomulagi þeir eru. Eru þá leigðar til þess bifreiðar, stórar eða litlar. Þá er reynt að fá smáa hópa ökumanna til að tala sig saman um hver þeirra skuli halda sér við óáfenga drykki og sjá um að aka hinum heim. Hafa þessar lofsverðu tilraunir borið góðan árangur? Samkvæmt fregnum í dagblaðinu Glasgow Herald hafa þær „ekki dugað til að draga merkjanlega úr því að menn aki undir áhrifum áfengis.“
Hvað er þá hægt að gera til að leysa þetta vandamál? „Okkur þarf að takast að gera það illa þokkað að aka undir áhrifum áfengis,“ segir lögreglustjórinn í Warwickshire, Peter Joslin. Hann bætir við: „Okkar einasta ráðlegging er þessi: ‚Ekki aka undir áhrifum.‘“
Eru þetta raunhæfar leiðbeiningar? Sumar þjóðir framfylgja umferðarlögum mjög strangt og refsa harðlega þeim sem aka undir áhrifum áfengis. Sænsk lög heimila yfirvöldum að gera upptæka bifreið ökumanns sem er hættulegur umhverfinu sínu, rétt eins og þau myndu taka hníf eða byssu af ofbeldis- og glæpamanni. Breska dómarafélagið er sagt styðja tillögur þess efnis að svipta þá ökuleyfi sem standast ekki vínandapróf, ef ætlað er að þeir kunni að endurtaka brot sitt áður en þeir eru kallaðir fyrir rétt.
Margt fleira er þó fólgið í öruggum akstri en það eitt að aka ekki undir áhrifum áfengis.
[Mynd á blaðsíðu 3]
Ár hvert látast í umferðinni í heiminum fleiri en sem nemur íbúatölu Íslands.