Fiskeldi „búpeningur“ sjávarins
EFTIR FRÉTTARITARA VAKNIÐ! Í NOREGI
FYRIR þúsundum ára gerðu Kínverjar og Egyptar sér ferskvatnstjarnir þar sem þeir geymdu og kannski fóðruðu lifandi fisk. Núna er fiskeldi orðin stórfelld atvinnugrein. Fiskeldi felst í því að skapa rétt vaxtarskilyrði fyrir klak og eldi ferskvatns- eða sjávarfisks í kerjum, kvíum eða tjörnum.
Víða um lönd, einkum þar sem ferskvatn er tiltölulega heitt, er eldi ferskvatnsfisks í tjörnum eða kerjum útbreitt. Aðrar þjóðir, svo sem Norðmenn, hafa lagt meiri áherslu á fiskeldi í sjókvíum. Noregur er með einhverja lengstu strandlengju í heimi, sjávarhiti er heppilegur og sjór tiltölulega hreinn, þannig að þar eru frá náttúrunnar hendi heppileg skilyrði til fiskeldis í sjó. Norðmenn hafa einkum verið frumherjar í eldi Atlantshafslax og silungs í sjó.
Frá hrognum til matfisks
Eldið hefst í klakstöðinni að hausti. Hrognin eru „kreist“ úr hrygnunum og síðan frjóvguð með sæði úr völdum hængum. Frjóvguð hrogn klekjast út á sex mánuðum og eru veturlangt í klakstöðinni undir nákvæmu eftirliti. Fyrstu tvær vikurnar nærast seiðin á blómabelgnum á kviði sér en síðan er fóðrun hafin með varfærni. Villilaxaseiði eyða tveim til fimm árum í ánni þar sem þau klekjast út áður en þau halda til hafs þar sem æti er meira. Í klakstöð ná seiðin göngustærð á einu og hálfu ári.
Gönguseiðin eru nú flutt úr ferskvatni í sjó. Yfirleitt eru þau sett í flotkvíar. Laxinn nær sláturstærð á einu til tveim árum í flotkví og fer þá í vinnslu. Þetta virðist allt saman auðvelt og einfalt. En það er meira en að segja það að halda fisk sem „búpening.“a
Líffræðilegar gátur og breytileiki
Frumherjarnir í fiskeldinu urðu að byrja frá grunni og afla sér ítarlegrar þekkingar á tímgun, ætisvali og eðlishvötum hinna ólíku tegunda. Óendanlega margar óleystar gátur virtust blasa við og fátt sem ekki gat farið úrskeiðis. Yrði nokkurn tíma hægt að fullnægja síbreytilegum kröfum seiða og fisks í sambandi við vatnsgæði, hitastig, æti og ljós?
Mörg af þessum vandamálum eru löngu leyst. Nú beinast rannsóknir meira að því að kanna hvernig stýra megi vexti og hegðun ólíkra tegunda með hreyfingu, ljósi og vel völdu æti í réttu magni.
Mengun og þörungablómi
Hreint umhverfi er þýðingarmikið í fiskeldi. Mengun og röskun á jafnvægi vistkerfisins valda búsifjum í greininni. Villtur fiskur, sem verður var við mengunarefni í umhverfi sínu, reynir að forða sér af hættusvæði. Eldisfiskur er innilokaður í flotkvíunum og kemst því hvergi. Olía eða eiturefni, sem sleppt er í sjó, eru því stórhættuleg þar sem fiskeldi er stundað.
Gífurlegur vöxtur eitraðra þörunga meðfram suðvesturströnd Svíþjóðar og út af ströndum Suður-Noregs árið 1988 skaut mörgum skelk í bringu. Þörungarnir drápu fisk og aðrar sjávarlífverur á stórum svæðum. Nokkrar fiskeldisstöðvar voru tæmdar, sumpart af völdum þörunganna sjálfra og sumpart vegna þess að fiski var slátrað með hraði. Flestar fiskeldisstöðvarnar sluppu þó með skrekkinn því að flotkvíarnar voru dregnar í öruggt skjól inni í fjörðum. Sumir kölluðu þessa þörungaplágu „Tsjernobyl í hafi“ og sérfræðingar fullyrtu að vaxandi mengun hafi sennilega stuðlað að þörungablómanum.
Sjókvíar eru berskjaldaðar fyrir veðri og vindum og þurfa að standast ís, storma og stórsjói. Þegar kvíar skemmast og fiskurinn sleppur fara mikil verðmæti í súginn. Fiskur, sem sleppur, getur einnig borið sjúkdóma til villifisks og það hefur verið alvarlegt vandamál. Eldisfiskur keppir auk þess við villtan fisk um æti og hrygningarstöðvar og menn óttast að það geti haft skaðleg áhrif á staðbundna stofna.
Það er því fullkomin samstaða um að ganga þurfi betur frá sjókvíum til að koma í veg fyrir að eldisfiskur sleppi. Þar hafa líka orðið framfarir. Akvakultur i Norge segir að á síðustu árum hafi „mikið átak verið gert í því að styrkja eldiskvíarnar svo að þær þoli verstu óveður.“
Sjúkdómavarnir
Hvaðeina, sem stangast á við eðli fisksins og öll frávik frá eðlilegu umhverfi hans, veldur streitu og streita skaðar ónæmiskerfið. Samspil margra þátta, svo sem örtröð í eldiskerjum, kröftug fóðrun, uppsöfnun lífrænna efna og fjölgun sýkla og örvera hefur valdið margfalt meiri sjúkdómum í eldisfiski en villtum fiski. Þetta hefur valdið atvinnugreininni miklum búsifjum.
Vissulega mætti meðhöndla marga þessara sjúkdóma til dæmis með sýklalyfjum, en langvinn notkun sýklalyfja er hættuleg umhverfinu, fyrst og fremst vegna þess að sýklar verða lyfþolnir og þá þarf að þróa ný lyf. Lyf geta líka veikt mótstöðuafl fisksins og gert hann næmari fyrir öðrum sjúkdómum. Fiskeldismenn hafa auðvitað ekki viljað lenda í slíkum vítahring.b
Hið gamla spakmæli að „betra sé heilt en vel gróið“ á líka við í fiskeldi. Gert hefur verið stórátak í að afla vitneskju um hvernig styrkja megi náttúrlegar varnir fisksins. Þessar rannsóknir beinast til dæmis að því að finna hver sé ákjósanlegasta fóðrun, vaxtarumhverfi og vinnuferli, að ræktun sjúkdómsþolins fisks og þróun áhrifaríkra bóluefna og bólusetningaraðferða. Þetta starf hefur skilað árangri og fiskeldisgreinin virðist hafa náð yfirhöndinni í baráttunni gegn sjúkdómum.
Atvinnugrein í örum vexti
Fiskeldi er dæmigerð, svæðisbundin atvinnugrein sem hefur mikla þýðingu fyrir marga sjávarbæi. Gífurlegur vöxtur hefur orðið í fiskeldinu frá því það hófst. Árið 1990 var framleiðsluverðmæti greinarinnar í heiminum meira en 1450 milljarðar króna. Noregur framleiðir yfir helming alls Atlantshafslax sem ræktaður er í heimnum og flytur út til meira en 90 landa um heim allan.
Enda þótt fiskeldisstöðvarnar hafi fyrst og fremst ræktað Atlantshafslax fram til þessa hefur einnig verið ræktaður þorskur og lúða í takmörkuðu magni. Stefnt er að stöðugu framboði góðs ferskfisks allan ársins hring.
Því miður leyfa menn ágirnd oft að ráða ferðinni og það hefur stundum gerst í fiskeldinu. Í sumum tilvikum hafa umhverfisverndarsjónarmið vikið fyrir lönguninni í skjótfenginn gróða. Fiskeldismenn, sem eru þannig þenkjandi, þurfa að gera sér grein fyrir því hve fljótt náttúran getur átt það til að hefna sín. Þeir þurfa að gera sér ljóst að það er þeirra eigin hagur að hugsa vel um umhverfið. Það sýnir sig alltaf fyrr eða síðar að það er viturlegt að nýta auðlindir jarðar í samræmi við upphaflegan tilgang skaparans — í sátt og samlyndi við náttúruna og hin flóknu vistkerfi hennar.
[Neðanmáls]
a Byggt á upplýsingum úr bæklingnum Akvarkultur i Norge sem gefinn er út af Samtökum norskra fiskeldisstöðva.
b Með neytendur í huga hafa norsk yfirvöld sett strangar reglur um lyfjanotkun. Fiskeldismenn fá lyf aðeins fyrir milligöngu dýralæknis og fiskur, sem er á lyfjum, er settur í einangrun til að tryggja að hann fari ekki á markað fyrr en öll lyf eru horfin úr honum.
[Myndir á blaðsíðu 15]
Fiskurinn er settur í flotkvíar í sjó.
Hrogn kreist úr hrygnu.
Þegar fiskurinn nær slátrunarstærð er hann háfaður úr kvíunum og látinn í vinnslu.
[Rétthafi myndar á blaðsíðu 15]
Myndir: Vidar Vassvik/Útflutningsráð norska fiskiðnaðarins.