Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g97 8.10. bls. 5-12
  • Vantar þróunarkenninguna undirstöðu?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Vantar þróunarkenninguna undirstöðu?
  • Vaknið! – 1997
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Einfaldasta starfhæfa mynd — hrösunarhella þróunarkenningarinnar?
  • Einfaldasta starfhæfa mynd blóðstorknunar
  • „Óhugnanleg dauðaþögn“
  • Spurningar um uppruna lífsins
  • Hvers vegna trúir fjöldinn?
  • Ágreiningur um þróunarkenninguna – hvers vegna?
    Lífið — varð það til við þróun eða sköpun?
  • Eru til einhver einföld lífsform?
    Uppruni lífsins – fimm áhugaverðar spurningar
  • Tvær mikilvægar spurningar
    Vaknið! – 2015
  • Hvernig kviknaði lífið?
    Fleiri viðfangsefni
Sjá meira
Vaknið! – 1997
g97 8.10. bls. 5-12

Vantar þróunarkenninguna undirstöðu?

HVER er kjarninn í þróunarkenningu Darwins? „Í hreinum líffræðilegum skilningi . . . merkir þróun það ferli er líf kviknaði af lífvana efni og þróaðist síðan algerlega eftir náttúrlegum leiðum.“ Þróunarkenning Darwins gengur út frá því að „nálega allt líf, eða í það minnsta allir áhugaverðustu þættirnir, hafi myndast við náttúruval tilviljanakenndra afbrigða.“ — Darwin’s Black Box — The Biochemical Challenge to Evolutiona eftir Michael Behe, aðstoðarprófessor í lífefnafræði við Lehigh-háskóla í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum.

Einfaldasta starfhæfa mynd — hrösunarhella þróunarkenningarinnar?

Þegar Darwin mótaði kenningu sína höfðu vísindamenn litla sem enga vitneskju um hve ótrúlega flókin fruman væri. Lífefnafræðin, sem fæst við rannsóknir á lífinu á sameindastiginu, hefur svipt hulunni af sumu. Hún hefur líka vakið alvarlegar efasemdir um að kenning Darwins eigi við rök að styðjast.

Frumuhlutarnir eru gerðir úr sameindum og frumur eru byggingarefni allra lifandi vera. Prófessor Behe er rómversk-kaþólskur og álítur að þróunarkenningin skýri tilurð dýranna. Hins vegar dregur hann mjög í efa að þróunarkenningin geti skýrt tilurð frumunnar. Hann talar um sameindavélar sem „flytja farm milli staða inni í frumunni eftir ‚þjóðvegum‘ úr öðrum sameindum . . . Frumur synda með hjálp véla, gera afrit af sér með vélum, melta fæðu með vélum. Í stuttu máli stjórna háþróaðar sameindavélar allri starfsemi frumunnar. Lífið er því fínstillt í smáatriðum og lífvélarnar gríðarflóknar.“

Og á hvaða kvarða fer öll þessi starfsemi fram? Dæmigerð fruma er aðeins 0,03 millímetrar í þvermál! Í þessu agnarlitla rými fer fram flókin starfsemi sem lífið er háð. (Sjá mynd á bls. 8-9.) Það er engin furða að sagt hefur verið: „Kjarni málsins er sá að fruman — undirstaða lífsins — er óhemjuflókin.“

Behe heldur því fram að fruman geti aðeins starfað sem heild. Hún sé því ekki lífvænleg meðan hún sé að myndast með hægfara þróunarbreytingum. Hann tekur músagildru sem dæmi. Þessi einfalda gildra virkar því aðeins að hún sé samsett að fullu. Einstakir hlutar músagildrunnar — fjölin, gormurinn, spennivírinn, boginn og tungan — eru ekki músagildra og geta ekki virkað sem slíkir. Allir hlutar þurfa að vera til samtímis og gildran þarf að vera samsett til að hún virki. Fruman virkar líka aðeins þegar hún er samsett að fullu og hver hlutur á sínum stað. Hann notar þessa samlíkingu til að útskýra það sem hann kallar „einföldustu starfhæfu mynd.“b

Þetta setur hið meinta þróunarferli í alvarlegan vanda því að það gerir ráð fyrir að gagnleg, áunnin einkenni hafi komið fram smám saman. Darwin vissi mætavel að kenning hans um hægfara þróun vegna náttúruvals væri í miklum vanda stödd og sagði: „Ef hægt væri að sýna fram á að eitthvert flókið líffæri væri til sem gæti alls ekki hafa myndast við margar, hægfara smábreytingar, þá myndi kenning mín hrynja til grunna.“ — Uppruni tegundanna.

Fruman, sem getur ekki starfað í einfaldari mynd, er þeim alvarleg hrösunarhella sem trúa á kenningu Darwins. Í fyrsta lagi getur kenningin ekki skýrt stökkið frá lífvana efni til lifandi. Í öðru lagi blasir við sá vandi hvernig fyrsta flókna fruman varð til, en hún varð að myndast sem fullbúin heild í einum rykk. Fruman (eða músagildran) varð með öðrum orðum að stökkva samsett og starfhæf utan úr tóminu!

Einfaldasta starfhæfa mynd blóðstorknunar

Blóðstorknunin, ferli sem flestir álíta sjálfsagðan hlut þegar þeir skera sig, er annað dæmi um einföldustu starfhæfa mynd. Að jafnaði lekur vökvi rakleiðis úr götóttu íláti uns það tæmist. En þegar við skerum okkur myndast fljótlega blóðkökkur og stöðvar lekann. Eins og læknar vita byggist „blóðstorknun á afar flóknu og margþættu kerfi þar sem tugir víxltengdra prótínhluta koma við sögu.“ Þetta kerfi hleypir síðan af stað keðjuverkandi storkuferli. Þetta fíngerða lækningaferli „er verulega háð tímasetningu og hraða hinna mismunandi efnahvarfa.“ Að öðrum kosti myndi manni annaðhvort blæða út eða allt blóð í æðum manns storkna. Tímasetning og hraði skipta öllu máli.

Lífefnafræðirannsóknir hafa leitt í ljós að blóðstorknun er margþætt ferli sem ekkert má vanta í til að hún eigi sér stað. Behe spyr: „Þegar blóðstorknunin er hafin, hvað kemur þá í veg fyrir að hún haldi áfram uns allt blóðið . . . er storknað?“ Hann segir að „myndun, takmörkun, styrking og eyðing blóðkökks“ sé samtvinnað líffræðiferli. Ef einn þátturinn bregst bilar allt kerfið.

Russell Doolittle, sem er þróunarsinni og prófessor í lífefnafræði við Kaliforníu-háskóla, spyr: „Hvernig í ósköpunum þróaðist þetta flókna og fínstillta ferli? . . . Þverstæðan var þessi: Ef hvert prótín var háð örvun frá öðru prótíni, hvernig gat kerfið í heild þá orðið til? Hvaða gagn væri í einstökum þáttum ferlisins án allrar heildarinnar?“ Doolittle beitir rökfærslu þróunarfræðinnar og reynir að skýra uppruna ferlisins. En prófessor Behe bendir á að það þyrfti „gríðarlega heppni til að fá réttu genabútana á réttum stöðum.“ Hann sýnir fram á að skýringar Doolittles og frjálslegt tungutak breiði yfir hrikaleg vandkvæði.

Ein helsta mótbáran gegn þróunarlíkaninu er því óyfirstíganleg hindrun sem kallast einfaldasta starfhæfa mynd. Behe segir: „Ég legg áherslu á að náttúruval, driffjöðrin í þróunarkenningu Darwins, virkar því aðeins að það sé eitthvað til að velja úr — eitthvað sem kemur að gagni hér og nú, ekki í framtíðinni.“

„Óhugnanleg dauðaþögn“

Prófessor Behe bendir á að vísindamenn hafi sumir hverjir rannsakað „reiknilíkön af þróunarkenningunni eða nýjar stærðfræðilegar aðferðir til að bera saman og túlka runugögn.“ En hann kemst að þessari niðurstöðu: „Stærðfræðin gerir ráð fyrir að hin raunverulega þróun sé hægfara handahófsferli; hún sýnir ekki fram á það (og getur það ekki).“ (Síðari leturbreyting okkar.) Áður hafði hann sagt: „Ef maður leitar í vísindaritum um þróun og einbeitir sér að þeirri spurningu hvernig sameindavélar — undirstaða lífsins — hafi þróast, ríkir óhugnanleg dauðaþögn. Undirstaða lífsins er svo flókin að vísindin standa ráðþrota frammi fyrir því að útskýra hana; sameindavélarnar eru enn sem komið er óyfirstíganleg hindrun í vegi fyrir því að darvinisminn njóti allsherjarviðurkenningar.“

Hér vakna allmargar spurningar sem samviskusamir vísindamenn verða að íhuga: „Hvernig þróaðist hvarfamiðstöð ljóstillífunarinnar? Hvernig urðu sameindaflutningakerfi til? Hvernig hófst kólesteróltillífun? Hvernig varð retínal viðriðið sjónina? Hvernig mynduðust fosfóprótín-merkjabrautir?“c Behe bætir við: „Sú staðreynd að menn glíma ekki einu sinni við þessar gátur, að ekki sé nú talað um að menn leysi þær, er afarsterk vísbending um að darvinisminn dugi ekki til að veita okkur skilning á tilurð flókinna lífefnafræðikerfa.“

Ef kenning Darwins nær ekki að skýra hinn flókna sameindagrunn frumunnar, hvernig getur hún þá verið fullnægjandi skýring á tilvist þeirra milljóna tegunda sem byggja jörðina? Þegar öllu er á botninn hvolft getur þróun ekki einu sinni myndað nýjar tegundir með því að brúa tegundabilið. — 1. Mósebók 1:11, 21, 24.

Spurningar um uppruna lífsins

Hversu trúleg sem sumum vísindamönnum kann að þykja þróunarkenning Darwins verða þeir fyrr eða síðar að horfast í augu við spurninguna: Hvernig kviknaði lífið, jafnvel þótt við gefum okkur að lifandi verur hafi þróast vegna náttúruvals? Með öðrum orðum snýst vandinn ekki um það að hinir hæfustu lifi heldur um tilurð hinna hæfustu og fyrstu! En eins og athugasemdir Darwins um þróun augans gefa til kynna fékkst hann ekki við þá spurningu hvernig lífið hafi kviknað. Hann skrifaði: „Sú spurning hvernig taug verður ljósnæm skiptir varla meira máli en hvernig lífið sjálft kviknaði.“

Franski vísindarithöfundurinn Philippe Chambon skrifar: „Darwin velti sjálfur fyrir sér hvernig náttúran valdi ný lífsform áður en þau urðu fyllilega starfhæf. Listinn yfir ráðgátur þróunarinnar er endalaus. Og líffræðingar nútímans verða að viðurkenna í auðmýkt líkt og prófessor Jean Génermont við Suður-Parísarháskóla í Orsay að ‚hin tilbúna þróunarkenning eigi ekki auðvelt með að útskýra uppruna flókinna líffæra.‘“

Í ljósi þess hve það er gríðarlega ósennilegt að slík endalaus fjölbreytni og margbreytileiki lífveranna hafi þróast, finnst þér ekki erfitt að trúa að það hafi allt saman þróast í rétta átt af hreinni tilviljun? Undrastu að nokkur lífvera skuli hafa getað komist af í lífsbaráttu hinna hæfustu meðan hún var enn að þróa með sér augu? Eða meðan hún á að hafa verið að þróa með sér frumstæða fingur á líkama frummanns? Veltirðu fyrir þér hvernig frumur hafi getað bjargast meðan þær voru enn ófullgerðar og ófullnægjandi?

Robert Naeye, sem er þróunarsinni og skrifar í tímaritið Astronomy, segir að lífið á jörðinni sé afleiðing af „langri runu ósennilegra atburða sem áttu sér einmitt stað á réttan hátt til að við gætum orðið til, rétt eins og að við hefðum unnið milljón sinnum í röð í milljónalottói.“ Sennilega má nota sömu samlíkingu um hverja einustu lífveru sem nú er til. Líkurnar gegn því eru gríðarlegar. En samt er okkur ætlað að trúa því að tilviljanakennd þróun hafi jafnvel myndað karldýr og kvendýr á sama tíma til að nýja tegundin gæti aukið kyn sitt. Og til að gera líkurnar enn minni verðum við að trúa því að karldýrin og kvendýrin hafi ekki bara þróast samtímis heldur líka á sama stað! Ekki tímgast þau nema þau hittist!

Það þarf feikilega trúgirni til að trúa að fullmyndaðar lífverur í milljónum ólíkra mynda hafi orðið til við milljónir heppilegra tilviljana.

Hvers vegna trúir fjöldinn?

Hvers vegna er þróunarkenningin svona vinsæl og svona almennt viðurkennd sem eina skýringin á tilurð lífsins? Ein ástæðan er sú að hún er viðtekin kenning í skólum og háskólum, og vei þeim sem vogar sér að efast! Behe segir: „Margir nemendur læra af kennslubókum að sjá heiminn gegnum gleraugu þróunarkenningarinnar. En þeir læra ekki hvernig darvinsk þróun gæti hafa myndað neitt þeirra furðulega margbrotnu lífefnafræðikerfa sem þessar kennslubækur lýsa.“ Hann bætir við: „Til að skilja hvers vegna darvinisminn hefur náð svona almennri viðurkenningu en jafnframt brugðist sem vísindi á sameindastiginu, verðum við að skoða kennslubækurnar sem eru notaðar til að kenna verðandi vísindamönnum.“

„Ef gerð væri skoðanakönnun sem næði til allra vísindamanna í heimi myndi mikill meirihluti segja að hann teldi þróunarkenningu Darwins sanna. En eins og allir aðrir byggja flestir vísindamenn skoðanir sínar á orðum annarra. . . . Og því miður hafa vísindamenn of oft vísað gagnrýni á bug af ótta við að fá sköpunarsinnum vopn í hendur. Það er kaldhæðnislegt að strangvísindalegri gagnrýni á náttúruval skuli hafa verið ýtt til hliðar undir því yfirskini að verið sé að verja vísindin.“d

Um hvaða raunhæfa og trúverðuga kosti er að ræða aðra en þróunarkenningu Darwins? Síðasta greinin í þessari syrpu fjallar um það.

[Neðanmáls]

a Héðan í frá nefnd Darwin’s Black Box.

b „Einfaldasta starfhæfa mynd“ lýsir „stöku kerfi samsettu úr nokkrum samstæðum, samverkandi hlutum sem stuðla að grunnstarfsemi þess. Sé einhver einn þessara hluta fjarlægður hættir kerfið að virka.“ (Darwin’s Black Box) Það er því um að ræða aleinfaldasta starfhæfa stig ákveðins kerfis.

c Ljóstillífun er það ferli þar sem blaðgræna plantna virkjar ljós til að framleiða kolvetni úr koldíoxíði og vatni. Sumir kalla hana mikilvægasta efnaferli náttúrunnar. Tillífun er það ferli þar sem lifandi frumur framleiða flókin efnasambönd. Retínal er efnasamband sem gegnir hlutverki í hinni flóknu sjónskynjun. Fosfóprótín-merkjabrautir eru veigamikill þáttur í starfsemi frumunnar.

d Með orðinu sköpunarsinni er hér átt við þá sem trúa að jörðin hafi verið sköpuð á sex bókstaflegum dögum eða, eins og sumir trúa, að það séu ekki nema um tíu þúsund ár síðan jörðin var mynduð. Enda þótt vottar Jehóva trúi á sköpun eru þeir ekki sköpunarsinnar í þessum skilningi. Þeir trúa að samkvæmt sköpunarsögu Biblíunnar geti jörðin verið milljóna ára gömul.

[Innskot á blaðsíðu 6]

„Ef hægt væri að sýna fram á að eitthvert flókið líffæri væri til sem gæti alls ekki hafa myndast við margar, hægfara smábreytingar, þá myndi kenning mín hrynja til grunna.“

[Innskot á blaðsíðu 10]

Inni í frumunni er ‚yfirþyrmandi flókinn og frábærlega tæknivæddur heimur.‘ — Evolution: A Theory in Crisis.

Fyrirmælin í kjarnsýru frumunnar (DNA) myndu „fylla þúsund 600 blaðsíðna bækur ef þær væru skrifaðar út.“ — National Geographic.

[Innskot á blaðsíðu 11]

„Stærðfræðin gerir ráð fyrir að hin raunverulega þróun sé hægfara handahófsferli; hún sýnir ekki fram á það (og getur það ekki).“

[Innskot á blaðsíðu 12]

„Það er kaldhæðnislegt að strangvísindalegri gagnrýni á náttúruval skuli hafa verið ýtt til hliðar undir því yfirskini að verið sé að verja vísindin.“

[Rammi á blaðsíðu 8]

Sameindin og fruman

Lífefnafræði — „rannsóknir á undirstöðu lífsins: sameindunum sem frumur og vefir eru gerðir úr, sem örva efnahvörf meltingar, ljóstillífunar, ónæmis og fleira.“ — Darwin’s Black Box.

Sameind — „smæsta efniseind sem hægt er að skipta frumefni eða efnasambandi í án þess að breyta efna- og eðlisfræðieiginleikum þess; hópur líkra eða ólíkra atóma sem haldið er saman með efnabindingu.“ — The American Heritage Dictionary of the English Language.

Fruma — grunneining allra lífvera. „Sérhver fruma er afar margbrotin smíð sem ræður lögun og starfsemi lífveru.“ Hve margar frumur eru í fullvaxta manni? Eitt hundrað billjónir (100.- 000.000.000.000)! Á hverjum fersentímetra af húð eru um 155.000 frumur, og í heilanum eru á bilinu 10 til 100 milljarðar taugunga. „Fruman er lykill líffræðinnar því að það er á frumustiginu sem samsafn vatns, salta, stórsameinda og himna kvikna til lífs.“ — Biology.

[Rammi á blaðsíðu 9]

‚Óviðjafnanlega flókin gerð‘ frumunnar

„Til að skilja veruleika lífsins, eins og sameindalíffræðin hefur opinberað hann, verðum við að stækka frumuna þúsundmilljónfalt uns hún er tuttugu kílómetrar í þvermál og líkist risaloftskipi sem er nógu stórt til að skyggja á heila stórborg á borð við Lundúnir eða New York. Við myndum sjá hlut sem væri óviðjafnanlega flókinn að gerð og aðlögunarhæfni. Á yfirborði frumunnar sæjum við milljónir opa, eins og kýraugu á gríðarstóru geimskipi, sem opnuðust og lokuðust til að hleypa stöðugum straumi efna út og inn. Ef við færum inn um eitthvert opið værum við komin inn í yfirþyrmandi flókinn og frábærlega tæknivæddan heim. Við myndum sjá endalausa ganga og leiðslur greinast skipulega í allar áttir frá útjaðri frumunnar, sumar til minnisbankans í kjarnanum og aðrar til samsetningarverksmiðja og vinnslustöðva. Kjarninn væri gríðarstór kúlusalur, meira en kílómetri í þvermál, ekki ósvipaður stoðgrindarhvelfingu. Hann væri fullur af margra kílómetra löngum, snúnum kjarnsýrusameindakeðjum í snyrtilegum stæðum. Gríðarlegur fjöldi hráefna og afurða væri fluttur með afar skipulegum hætti eftir margslungnu leiðslukerfi til og frá öllum samsetningarverksmiðjunum í utanverðri frumunni.

Við myndum undrast hve flutningur svona margra hluta eftir svona mörgum endalausum leiðslum væri skipulegur, snurðulaus og samstilltur. Hvert sem litið væri myndu blasa við alls konar vélar, nánast eins og vélmenni. Við kæmumst að raun um að einföldustu starfhæfu frumuhlutarnir, prótínsameindirnar, væru furðulega flóknar sameindavélar, um þrjú þúsund atóm hver, raðað í afar skipulegt þrívíddarform. Við myndum undrast enn meir þegar við fylgdumst með furðulega markvissri starfsemi þessara kynlegu sameindavéla, sérstaklega þegar okkur yrði ljóst að þrátt fyrir alla samanlagða þekkingu okkar í eðlis- og efnafræði væri okkur algerlega ofviða að smíða eina svona sameindavél — það er að segja eina starfhæfa prótínsameind — og sennilega gætum við það ekki fyrr en í byrjun næstu aldar. Samt er líf frumunnar háð samstilltri starfsemi þúsunda, já, örugglega tug- eða jafnvel hundruð þúsunda ólíkra prótínsameinda.“ — Evolution: A Theory in Crisis.

[Rammi á blaðsíðu 10]

Staðreyndir og þjóðsögur

„Í huga þess manns, sem finnst hann ekki skuldbundinn að einskorða leit sína við náttúrlegar orsakir, er það rökrétt ályktun að mörg lífefnafræðileg kerfi séu hönnuð. Þau eru ekki hönnuð af náttúrulögmálunum, ekki af tilviljun og nauðsyn heldur áformuð. . . . Á undirstöðustigi sínu, í mikilvægustu þáttum sínum, er lífið á jörðinni afleiðing vitsmunalegrar starfsemi.“ — Darwin’s Black Box.

„Eftir heillar aldar erfiði leikur lítill vafi á að líffræðingum hefur mistekist að staðfesta [þróunarkenningu Darwins] í öllum meginatriðum. Sú staðreynd stendur að náttúran hefur ekki leitt í ljós þá samfelldu heild sem þróunarlíkan Darwins heimtar, og ekki hefur tekist að gera tilviljunina að trúverðugu sköpunarafli.“ — Evolution: A Theory in Crisis.

„Áhrif þróunarkenningarinnar á sviðum sem eiga ekkert skylt við líffræði eru eitthvert stórbrotnasta dæmi sögunnar um það hvernig afar fræðileg hugmynd, sem á sér varla stoð í nokkrum vísindalegum staðreyndum, getur mótað hugsunarhátt heils samfélags og ráðið viðhorfum heillar aldar.“ — Evolution: A Theory in Crisis.

„Sérhver vísindi fortíðar . . . sem að óathuguðu máli útiloka möguleikann á hönnun eða sköpun, hætta að vera leit að sannleikanum og verða þjónn (eða þræll) vafasamrar heimspekikenningar, það er að segja natúralisma.“ — Origins Research.

„Það er þjóðsaga . . . að Charles Darwin hafi leyst gátuna um uppruna líffræðilegs margbreytileika. Það er þjóðsaga að við höfum góðan eða jafnvel sæmilegan skilning á uppruna lífsins eða að réttar skýringar byggist alltaf á svokölluðum náttúrlegum orsökum. Auðvitað njóta þessar og aðrar þjóðsögur heimspekilegs natúralisma vissrar virðingar. Maður talar ekki of illa um þær í virðulegum félagsskap. En maður ætti ekki heldur að meðtaka þær gagnrýnislaust.“ — Origins Research.

„Margir vísindamenn viðurkenna einslega að vísindin kunni enga skýringu á uppruna lífsins. . . . Darwin gerði sér alls enga grein fyrir þeim undurfagra og mikla margbreytileik sem er að finna jafnvel á einföldustu stigum lífsins.“ — Darwin’s Black Box.

„Hugmyndin um sameindaþróun er ekki byggð á vísindalegum heimildum. . . . Það er til dæmis fullyrt að slík þróun hafi átt sér stað en fullyrðingarnar eru aldrei nokkurn tíma studdar viðeigandi tilraunum eða útreikningum. Þar eð enginn þekkir til sameindaþróunar sökum beinnar reynslu, og þar eð ekki er hægt að benda á neinar heimildir til að byggja vitneskju á, má með sanni segja að . . . það sé tómt bull að halda því fram að það hafi átt sér stað sameindaþróun í darvinskum skilningi.“ — Darwin’s Black Box.

[Rammi á blaðsíðu 12]

Þróun „Happdrætti“

Þróunarkenningin er vissulega draumur fjárhættuspilarans. Af hverju? Af því að samkvæmt áliti þróunarfræðinga vinnur hún jafnvel þótt stjarnfræðilegar líkur séu gegn því.

Robert Naeye skrifar: „Þar eð þróun er fyrst og fremst happdrætti hefði hvaða smáatvik fortíðar getað farið örlítið á annan veg og rofið þróunarferlið áður en mennirnir þróuðust.“ En við eigum að trúa að það hafi verið dregnar milljónir vinningsnúmera. Naeye viðurkennir: „Allir flöskuhálsarnir sýna okkur að það var miklu erfiðara fyrir vitsmunaverur að þróast en vísindamenn héldu einu sinni. Sennilega hafa vísindamennirnir ekki rekist á allar hindranirnar enn.“

[Skyringarmynd á blaðsíðu 8, 9]

Einfaldaður uppdráttur af frumunni

Ríbósóm

Korn þar sem prótín eru sett saman.

Umfrymi

Svæðið milli frumuhimnu og kjarna.

Frymisnet

Himnukerfi sem geymir eða flytur prótín mynduð af áföstum ríbósómum.

Kjarni

Stjórnstöð frumunnar.

Kjarnakorn

Samsetningarstaður fyrir ríbósóm.

Litningar

Þeir geyma kjarnsýru (DNA) frumunnar, vinnuteikningar hennar.

Safabóla

Geymir vatn, sölt, prótín og kolvetni.

Meltikorn

Geymir meltiensím.

Golgikerfi

Hópur himnusekkja sem pakka inn og dreifa prótínum er fruman myndar.

Frumuhimna

Hlífin sem stýrir því hvað fer inn í frumuna og út.

Deilikorn

Gegna mikilvægu hlutverki við frumuskiptingu.

Hvatberi

Framleiðslustöð fyrir ATP, sameindir sem eru orkugjafi frumunnar.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Einstakir hlutar músagildru eru ekki músagildra — hún þarf að vera samsett að fullu til að virka.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila