Heimur án glæpa er í nánd
ÞEGAR við horfum á heimsástandið er augljóst að það er ákaflega erfitt að vera ónæmur fyrir hinu illa. Raunar erum við öll fædd ófullkomin og er gjarnt til að gera það sem rangt er. (1. Konungabók 8:46; Jobsbók 14:4; Sálmur 51:7) Og síðan Satan djöflinum var úthýst af himnum hefur hann lagt sig í líma við að valda usla. — Opinberunarbókin 12:7-12.
Afleiðingarnar eru skelfilegar. Könnun, sem náði til 4000 barna í Skotlandi, leiddi til dæmis í ljós að tvö af hverjum þrem börnum á aldrinum 11 til 15 ára höfðu þegar brotið af sér. Könnun, sem náði til alls Bretlands, gaf til kynna að nálega þriðji hver táningur hefði ekkert samviskubit út af búðarhnupli. Og um helmingur viðurkenndi að þeir myndu hirða peningana ef þeim væri gefið of mikið til baka í verslun.
Ítalska bókin Lʹoccasione e lʹuomo ladro (Tækifærið og þjófurinn) veitir vissa innsýn í það hvers vegna fólk stelur. Hún segir að þjófar hafi „litla sjálfstjórn“ og „geti ekki dregið að fullnægja löngunum sínum.“ Bókin bætir við að fæstir þjófar séu atvinnumenn heldur séu þeir hreinlega „tækifærissinnar sem eru reiðubúnir að notfæra sér aðstæður.“
Bókin bendir líka á hvers vegna margir „forðist að brjóta lög.“ Hún kemst að þeirri niðurstöðu að það sé ekki „af ótta við lögboðna refsingu, heldur hafi þeir í heiðri siðferðisgildi sem hindra þá í að gera það.“ Hvar getur fólk lært og tileinkað sér slík siðferðisgildi?
Nauðsynleg menntun
Hvað er það sem margir fjölmiðlar kenna fólki? Kvikmyndir og sjónvarpsþættir boða yfirleitt þann boðskap að ofbeldi, framhjáhald og hrottaskapur sé boðleg hegðun. Það er því ekki að undra að fólk skuli hafa litla stjórn á sjálfu sér. Biblían gefur hins vegar viturleg ráð: „Sá sem seinn er til reiði, er betri en kappi, og sá sem stjórnar geði sínu, er meiri en sá sem vinnur borgir.“ — Orðskviðirnir 16:32.
Með hliðsjón af áróðri nútímans ætti það ekki að koma mönnum á óvart að margir skuli ekki geta „dregið að fullnægja löngunum sínum.“ Æ ofan í æ heyrir fólk: „Kauptu núna og borgaðu seinna.“ „Dekraðu við sjálfan þig.“ „Þú verðskuldar það besta.“ „Þú ert númer eitt.“ Það er sagt vera bæði eðlilegt og rétt að fullnægja löngunum sínum. En þessi eigingjarni hugsunarháttur stingur í stúf við þá hvatningu Biblíunnar að ‚líta ekki aðeins á eigin hag, heldur einnig annarra.‘ — Filippíbréfið 2:4.
Fellstu ekki á að flestir óheiðarlegir menn séu tækifærissinnar? Því miður fer þeim fjölgandi sem eru reiðubúnir að misnota sér aðstæður í eiginhagsmunaskyni. Þeir spyrja ekki hvort einhver verknaður sé siðferðilega réttur heldur hugsa um það eitt hvort þeir komist upp með hann.
Hvað er til ráða? Eins og áður var nefnt eru siðferðisgildi nauðsynleg. Þau fá fólk til að virða heilagleika lífsins, hindra það í að fremja glæpi, að fótum troða helgi hjónabandsins, hegða sér ósæmilega og ganga á rétt annarra á einhvern annan hátt. Þeir sem tileinka sér ekki slík siðferðisgildi verða „tilfinningalausir“ eða siðblindir eins og Biblían segir. (Efesusbréfið 4:19) Glæpsamlegt framferði þessara óguðlegu manna veldur því að við búum við glæpi allt um kring.
Hvernig nýr heimur kemur
Margir reyna auðvitað sitt besta til að vera heiðarlegir, sýna náunganum virðingu og tillitssemi og forðast lögbrot. En það væri barnaskapur að ætla að allir í heiminum eigi eftir að reyna það. Margir gera það ekki, líkt og flestir samtíðarmenn hins réttláta Nóa voru ófúsir til að gera rétt. Heimur þess tíma var fullur af ofbeldi. Aðeins Nói og fjölskylda hans forðaðist óguðlega breytni og ávann sér þar með velþóknun Guðs. Með því að útrýma hinum óguðlegu í heimsflóðinu myndaði skapari okkar heim sem var laus við glæpi um hríð.
Það er mikilvægt að hafa hugfast að frásögn Biblíunnar af flóðinu og eyðingu hinna óguðlegu er meira en athyglisverð saga. Jesús Kristur sagði: „Eins og var á dögum Nóa, svo mun og verða á dögum Mannssonarins.“ (Lúkas 17:26; 2. Pétursbréf 2:5; 3:5-7) Guð mun eyða þessum heimi glæpa og ofbeldis líkt og hann eyddi hinum ofbeldisfulla heimi sem var fyrir flóðið.
Jóhannes, ástkær postuli Jesú, tók fram eftirfarandi staðreynd sem er byggð á traustum heimildum: „Heimurinn fyrirferst og fýsn hans, en sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu.“ (1. Jóhannesarbréf 2:17) Með endalokum þessa heims er brautin rudd fyrir nýjan heim sem Biblían lýsir svo: „[Guð] mun búa hjá [mönnunum], og þeir munu vera fólk hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra. Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til.“ — Opinberunarbókin 21:3, 4.
Biblían lýsir hvernig þessi nýi heimur verður til og segir: „Hinir óguðlegu munu upprættir verða úr landinu, og hinum svikulu verða útrýmt þaðan.“ (Orðskviðirnir 2:22) Þegar aðeins eru eftir heiðarlegir menn á jörðinni rætist þessi biblíuspádómur: „Hinir hógværu fá landið til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu.“ — Sálmur 37:11.
Jafnvel dýrin verða friðsöm í nýjum heimi Guðs. Biblían spáir: „Þá mun úlfurinn búa hjá lambinu og pardusdýrið liggja hjá kiðlingnum, kálfar, ung ljón og alifé ganga saman og smásveinn gæta þeirra. . . . Hvergi á mínu heilaga fjalli munu menn illt fremja eða skaða gjöra, því að jörðin er full af þekkingu á [Jehóva], eins og djúp sjávarins er vötnum hulið.“ — Jesaja 11:6-9; 65:17; 2. Pétursbréf 3:13.
Nýr heimur Guðs er í nánd
Góðu tíðindin eru þau að þessi friðsæld verður brátt að veruleika um heim allan. Hvers vegna getum við verið svona viss um það? Vegna þess sem Jesús spáði að gerast myndi rétt áður en heimurinn liði undir lok. Hann spáði meðal annars: „Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki, þá verður hungur og landskjálftar á ýmsum stöðum.“ Svo bætti hann við: „Og vegna þess að lögleysi magnast, mun kærleikur flestra kólna.“ — Matteus 24:7, 12.
Einn af postulum Jesú spáði líka: „Á síðustu dögum [þessa heims] munu koma örðugar tíðir. Mennirnir verða sérgóðir, fégjarnir, raupsamir, hrokafullir, lastmælendur, foreldrum óhlýðnir, vanþakklátir, vanheilagir, kærleikslausir, . . . taumlausir, grimmir, ekki elskandi það sem gott er, . . . elskandi munaðarlífið meira en Guð.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Það leikur enginn vafi á því að við lifum á „síðustu dögum“ þessa heims! Bráðlega kemur nýr og réttlátur heimur Guðs í hans stað.
Biblíunám hefur sannfært milljónir manna um að heimurinn geti losnað við glæpi fyrir fullt og allt, og þeir hafa þegið boðið um að fræðast um vegi skapara okkar, Jehóva Guðs. (Jesaja 2:3) Vilt þú ganga í lið með þeim? Ertu tilbúinn að leggja það á þig sem þarf til að fá að lifa í heimi sem er laus við glæpi?
Jesús benti á hvert væri fyrsta skrefið. Hann sagði: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ Eilíf velferð þín er þess vegna undir því komin að þú kynnir þér orð Guðs og farir síðan eftir því sem þú lærir. — Jóhannes 17:3.
[Mynd á blaðsíðu 8, 9]
Biblían lýsir nýjum heimi án glæpa og hvernig við getum fengið að njóta hans.