Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • ht þjálfunarliður 36 bls. 79-85
  • Viðeigandi niðurlag og tímasetning

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Viðeigandi niðurlag og tímasetning
  • Taktu framförum í ræðumennsku og kennslutækni
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • ――――◆◆◆◆◆――――
  • ――――◆◆◆◆◆――――
  • Ræðutími og hlutföll
    Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
  • Áhrifaríkt niðurlag
    Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
  • Fræðandi efni, skýrt og greinilegt
    Taktu framförum í ræðumennsku og kennslutækni
  • Uppbyggjandi ráðleggingar
    Taktu framförum í ræðumennsku og kennslutækni
Sjá meira
Taktu framförum í ræðumennsku og kennslutækni
ht þjálfunarliður 36 bls. 79-85

17. námskafli

Viðeigandi niðurlag og tímasetning

1 Það sem þú segir síðast er oft það fyrsta sem menn muna. Þar af leiðandi þarf að undirbúa niðurlag ræðunnar vandlega. Niðurlagið á að renna stoðum undir stefið og benda aftur á meginatriðin sem þú vilt að menn muni eftir. Og niðurlagið á að vera þannig samsett og þannig flutt að það hvetji áheyrendur til verka. Við hvetjum þig til að hafa þetta í huga þegar þú kemur að liðnum „Niðurlag viðeigandi, áhrifaríkt“ á ráðleggingakortinu.

2 Niðurlag í beinum tengslum við ræðustefið. Við leggjum til að þú rennir aftur yfir námskafla 8 til að fá hugmyndir um hvernig tengja megi niðurlagið við stef ræðunnar. Það er ekki nauðsynlegt að endurtaka stefið orðrétt í niðurlaginu þó svo að sumum nemendum, sérstaklega nýskráðum, finnist það gott. Hins vegar ætti að beina athyglinni að því. Síðan skaltu benda á hvað áheyrendurnir geti gert með hliðsjón af stefinu.

3 Ef niðurlagið hefur engin bein tengsl við stefið er það hvorki lokaorð ræðunnar né endahnúturinn. Jafnvel þótt þú takir saman hreint efniságrip í niðurlaginu og rifjir upp aðalatriði ræðunnar viltu eflaust hnýta endahnútinn með því að fara fáeinum orðum um stef ræðunnar eða kjarna hennar.

4 Niðurlagið bendir áheyrendum á hvað þeir eigi að gera. Þar sem markmiðið með því að flytja ræðu er venjulega það að hvetja áheyrendur til verka eða fá þá til að taka ákveðna afstöðu, þá er mjög áríðandi að niðurlagsorðin dragi skýrt fram hvaða tilgangi ræðan þjónar. Megintilgangur niðurlagsorðanna er sá að sýna áheyrendum fram á hvað þeir eigi að gera og hvetja þá til þess.

5 Niðurlagið þarf því að vera bæði alvarlegt, sannfærandi og hvetjandi, auk þess að bregða birtu á tilgang ræðunnar. Stuttar, hnitmiðaðar setningar eru oft vel til þess fallnar að gefa niðurlagsorðunum kraft. En án tillits til setningagerðar þurfa að koma fram góðar ástæður fyrir hvatningunni og benda þarf á gagnið sem hlýst af því að fara eftir henni.

6 Niðurlagið á einnig að vera í rökréttu samræmi við það sem áður er komið fram í ræðunni. Það sem þú segir í niðurlaginu á að hvetja áheyrendur til að fara eftir því sem fram er komið í meginmáli hennar. Niðurlagsorðin eiga að skýra út og leggja áherslu á hvað þeir eigi að gera svo að þeir fari eftir því sem fjallað var um í ræðunni. Þau eiga að vera svo kröftug að þau hvetji áheyrendur til þess.

7 Í boðunarstarfinu hús úr húsi er niðurlagið oft veikasti hlekkurinn. Þá er húsráðanda ekki bent greinilega á hvers sé ætlast til af honum, hvort heldur það er að þiggja eitthvert lesefni, fallast á að komið verði aftur eða eitthvað í þeim dúr.

8 Niðurlagsorð ræðu í skólanum eru einnig slök ef þau eru aðeins efniságrip en hvetja áheyrendur ekki til verka. Nauðsynlegt er að heimfæra efnið á einhvern hátt eða sýna með öðrum hætti fram á hagnýtt gildi þess eða sérstaka þýðingu þess fyrir áheyrendur.

9 Sumum ræðumönnum þykir gott að ljúka ræðu um eitthvert biblíustef með stuttu ágripi allrar ræðunnar og nota aðalritningarstaði og stef ræðunnar sem grundvöll. Með því að draga ræðuna saman með fáeinum ritningarstöðum eins og í boðunarstarfinu nærðu bæði að draga aðalatriði ræðunnar skýrt fram og gefa áheyrendunum eitthvað til að taka með sér heim og nota til upprifjunar. Þetta er aðalmarkmið niðurlagsorðanna og þessi aðferð er bæði viðeigandi og áhrifarík.

――――◆◆◆◆◆――――

10 Niðurlag hæfilega langt. Lengd niðurlagsins á ekki að ráðast af klukkunni þótt raunin sé oft sú. Niðurlagið er hæfilega langt ef það er áhrifaríkt og þjónar tilgangi sínum. Þess vegna ætti mat á lengd niðurlagsins að ráðast af áhrifum þess. Leiðbeinandinn hefur það í huga þegar þú vinnur að þjálfunarliðnum „Niðurlag hæfilega langt“ á ráðleggingakortinu.

11 Til að meta lengd niðurlagsorða með hliðsjón af meginmálinu getum við borið saman hið stutta niðurlag Prédikarans í 12. kafla, 13. og 14. versi, og niðurlagsorð Jesú í fjallræðunni í Matteusi 7:​24-27. Niðurlagið er mislangt en þjónar tilgangi sínum í báðum tilvikum.

12 Niðurlagsorðin ættu ekki að koma áheyrendum á óvart. Þau ættu bæði að sýna að ræðunni sé að ljúka og einnig að vera í eins konar lokatón. Þú átt að slá botninn í ræðuna með því sem þú segir og hvernig þú segir það. Teygðu ekki lopann að óþörfu. Náirðu ekki að hnýta alla lausa enda og jafnframt að halda athygli áheyrenda allt til enda þarftu að endurvinna niðurlagið. Það er enn of langt.

13 Ef þú ert nýr nemandi í skólanum er oft best að hafa niðurlagið styttra en þér finnst það eiga að vera. Hafðu það einfalt, ákveðið og jákvætt. Láttu ekki móðan mása.

14 Sé ræðan hluti af ræðusyrpu eða dagskrárliður á þjónustusamkomu áttu að kynna næsta dagskrárlið í niðurlagsorðunum og þau geta þar af leiðandi verið í styttra lagi. Engu að síður ætti hver einstök ræða að hafa niðurlag sem hæfir markmiði hennar. Það er hæfilega langt ef það hæfir markmiði ræðunnar.

――――◆◆◆◆◆――――

15 Ræðutími. Auk þess að hafa niðurlagið hæfilega langt þarf líka að gæta að lengd hvers ræðukafla. Þar af leiðandi er sjálfstæður liður á ráðleggingakortinu sem nefnist „Ræðutími.“

16 Það má ekki vanmeta mikilvægi þess að fylgja settum tímamörkum. Sé ræðan vel undirbúin hefur einnig verið gert ráð fyrir tímanum. En ef ræðumaður reynir að troða öllu efninu í ræðuna og fer yfir tímamörkin nær hann ekki markmiði sínu. Ástæðan er sú að sumir meðal áheyrenda taka að ókyrrast og fara að líta á klukkuna og taka lítið eftir því sem hann segir. Niðurlagið, sem á að segja áheyrendum hvað þeir skuli gera og hvetja þá til þess, missir marks. Jafnvel þótt það sé flutt hafa áheyrendur ekki gagn af því vegna þess að ræðumaðurinn fer yfir tímann.

17 En það eru fleiri en áheyrendur sem ókyrrast þegar komið er fram yfir tímann. Ræðumaðurinn ókyrrist líka. Þegar hann sér að tíminn líður og að hann á of mikið efni eftir reynir hann kannski að buna því öllu út úr sér og eyðileggur áhrif þess í leiðinni. Hann verður óöruggur í fasi. Ef ræðumaður uppgötvar hins vegar að hann hefur ekki nóg efni til að nýta úthlutaðan tíma reynir hann jafnvel að teygja lopann með þeim afleiðingum að hann veður elginn og ræðan verður samhengislaus.

18 Þegar úthlutaður ræðutími er liðinn gefur skólahirðirinn nemandanum merki, en það eru vissulega vonbrigði bæði fyrir nemanda og áheyrendur ef ræðan er stöðvuð áður en hún er búin. Ræðumaðurinn ætti að hafa það mikinn áhuga á efninu að hann vilji koma því öllu til skila. Áheyrendum finnst þeir hanga í lausu lofti ef þeir fá ekki að heyra niðurlagið. Ef nemandi fer ítrekað yfir tímamörkin bendir það til þess að hann taki ekki nægilegt tillit til annarra eða sé illa undirbúinn.

19 Þegar margir ræðumenn eru á dagskrá er sérstaklega áríðandi að fylgja settum tímamörkum. Segjum sem svo að það séu fjórir liðir á dagskrá á þjónustusamkomu. Ef hver ræðumaður fer eina mínútu fram yfir tímann lengist samkoman um fjórar mínútur. Og þó fór hver einstakur ræðumaður aðeins lítillega fram yfir sett mörk. Sumir gætu þurft að yfirgefa samkomuna áður en hún er á enda til að ná strætisvagni, eða vantrúaður maki, sem er kominn til að sækja maka sinn á samkomuna, þarf að bíða og verður jafnvel ergilegur. Áhrifin eru greinilega ekki góð.

20 Það getur einnig valdið erfiðleikum ef ræðumaður, sem tekur þátt í ræðusyrpu, nýtir tímann ekki til fulls. Eigi bróðir til dæmis að flytja hálftíma ræðu á mótsdagskrá en lýkur henni á tuttugu mínútum gæti það raskað dagskránni ef næsti ræðumaður er ekki tilbúinn að byrja strax.

21 Of mikið efni er auðvitað ein algengasta ástæðan fyrir því að farið er fram yfir sett tímamörk. Úr þessu þarf að bæta meðan á undirbúningi ræðunnar stendur. Ræðutíminn ætti ekki að vera vandamál ef þú hefur náð tökum á öllum stigum góðrar ræðumennsku fram til þessa, eins og þau standa á ráðleggingakortinu. Ef þú hefur lært að koma auga á aðalatriðin og taka saman minnispunkta kemstu að raun um að þér er það eðlilegt að halda tímaáætlunina. Ræðutíminn er einn af síðustu liðunum á ráðleggingakortinu af því að hann er að miklu leyti háður þeim þáttum ræðumennsku sem fjallað hefur verið um áður.

22 Það er algengara að ræða sé of löng en of stutt. Vel undirbúinn ræðumaður hefur venjulega mikið af fræðandi efni fram að færa, en hann verður að sýna aðgát svo að hann noti ekki meira efni en tíminn leyfir.

23 Nýir og reynslulitlir ræðumenn hafa aftur á móti tilhneigingu til að nýta ekki allan ræðutímann. Þeir þurfa að læra að nýta úthlutaðan tíma að fullu. Til að byrja með geta þeir átt erfitt með að hafa ræðuna nákvæmlega af réttri lengd en þeir ættu að leggja sig fram um að fara eins nálægt réttri tímalengd og kostur er. Þó verður ekki litið á tímasetningu sem veikleika, nema ræðan sé verulega styttri en hún á að vera, ef nemandinn er að öðru leyti vel undirbúinn og flytur heilsteypta og góða ræðu.

24 Áhrif ræðunnar á áheyrendur er besti mælikvarðinn á það hvort ræðutíminn telst góður eða ekki. Þegar skólahirðirinn gefur merki um að tíminn sé úti er nemandanum heimilt að ljúka við setninguna sem hann er byrjaður á. Ef honum tekst að ljúka ræðunni þannig að áheyrendum finnist þeir hafa hlýtt á heilsteypta ræðu, þá ætti ekki að líta á það sem veikleika þótt ræðutímanum hafi ekki verið fylgt nákvæmlega.

25 Hvernig er hægt að halda sett tímamörk? Það byggist fyrst og fremst á undirbúningi. Það er mikilvægt að undirbúa vel bæði efni ræðunnar og flutning hennar. Ef flutningur ræðunnar er nægilega undirbúinn verður ræðutíminn að öllu jöfnu í lagi.

26 Þegar þú tekur saman minnispunkta þarf að koma skýrt fram hver aðalatriðin eru. Undir hverju aðalatriði geta verið nokkur aukaatriði. Sum eru auðvitað mikilvægari en önnur. Þú þarft að vita hver eru ómissandi og hver mega missa sig ef þörf krefur. Ef þú uppgötvar síðan að tíminn er að hlaupa frá þér áttu auðvelt með að einskorða þig við aðalatriðin og sleppa þeim sem minna gildi hafa.

27 Þetta þurfum við iðulega að gera í boðunarstarfinu. Ef fólk vill hlusta á okkur notum við tækifærið og tölum kannski við það í tíu mínútur. En við erum einnig undir það búin að flytja þetta sama efni í stuttu máli, kannski á þrem mínútum eða á aðeins einni eða tveim ef nauðsyn krefur. Hvernig gerum við það? Við höfum aðalatriðin og mikilvægasta stuðningsefnið í huga. Við höfum líka í huga viðbótarefni sem hægt er að flétta inn í umræðurnar ef tíminn leyfir en má sleppa ef aðstæður útheimta það. Sama háttinn má hafa á þegar flutt er ræða frá sviðinu.

28 Það kemur sér oft vel fyrir ræðumann að merkja við á minnisblaðinu til að sýna hve langt hann eigi að vera kominn þegar tíminn er hálfnaður. Sé ræðan löng gæti verið gott að skipta henni í fernt. Þegar ræðumaður kemur að þessum merkjum á minnisblaðinu ætti hann að líta á klukkuna og athuga hvernig gengur að halda áætlun. Ef hann er á eftir áætlun er kominn tími til að sleppa viðbótarefni en draga það ekki fram á síðustu stundu og reyna þá að þjappa niðurlaginu saman með þeim afleiðingum að það missir áhrifamátt sinn. En það er líka mjög truflandi fyrir áheyrendur ef ræðumaðurinn er sífellt að líta á klukkuna eða gerir það á mjög áberandi hátt, eða ef hann segir áheyrendum að hann verði að flýta sér með það sem eftir er af ræðunni því að tíminn sé að renna út. Hann þarf að fylgjast með tímanum án þess að það trufli áheyrendur.

29 Til að halda ræðutíma innan settra marka þarf inngangurinn að vera hæfilega langur, vinna þarf nægilega vel úr hverjum efnisþætti og nægur tími þarf að vera eftir fyrir niðurlagsorðin. Það er ekki nóg að huga að þessu þegar tíminn er að renna út. Ef þú fylgist með tímanum allt frá upphafi mun ræðan samsvara sér vel.

[Spurningar]

1-3. Hvernig má tengja niðurlagið stefi ræðunnar?

4-9. Hvers vegna þurfa niðurlagsorðin að benda áheyrendum á hvað þeir eigi að gera?

10-14. Hve langt ætti niðurlagið að vera?

15-18. Hvað gerist ef tímamörk eru ekki virt?

19, 20. Hvers vegna er sérlega áríðandi að fylgja settum tímamörkum á þjónustusamkomum og mótum?

21-24. Nefndu stuttlega nokkur vandamál í tengslum við ræðutíma og orsakir þeirra.

25-29. Hvernig getur ræðumaður gætt þess að ræðan sé rétt tímasett?

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila