SAGA 13
Jakob og Esaú verða aftur vinir
Jehóva lofaði Jakobi að vernda hann alveg eins og hann verndaði Abraham og Ísak. Jakob settist að á stað sem hét Haran. Hann gifti sig, eignaðist stóra fjölskyldu og varð mjög ríkur.
Mörgum árum seinna sagði Jehóva við Jakob: ‚Farðu aftur til heimalands þíns.‘ Jakob og fjölskylda hans lögðu af stað í langt ferðalag til baka. Á leiðinni komu nokkrir þjónar Jakobs til hans og sögðu: ‚Esaú bróðir þinn er að koma og það eru 400 menn með honum.‘ Jakob var hræddur um að Esaú vildi meiða hann og fjölskyldu hans. Hann bað til Jehóva: ‚Gerðu það, bjargaðu mér frá bróður mínum.‘ Daginn eftir sendi Jakob Esaú margar kindur, geitur, kýr, úlfalda og asna að gjöf.
Þessa nótt, þegar Jakob var einn, sá hann engil. Engillinn byrjaði að glíma við hann. Þeir glímdu alla nóttina. Jakob gafst ekki upp þó að hann hafi meitt sig. Engillinn sagði: „Slepptu mér.“ En Jakob sagði: ‚Nei, ekki fyrr en þú hefur blessað mig.‘
Loksins blessaði engillinn Jakob. Núna vissi Jakob að Jehóva myndi ekki leyfa Esaú að meiða hann.
Um morguninn sá Jakob Esaú og mennina 400 í fjarska. Jakob fór á undan fjölskyldunni sinni og hneigði sig sjö sinnum fyrir bróður sínum. Esaú hljóp til Jakobs og knúsaði hann. Bræðurnir fóru að gráta og urðu aftur vinir. Hvernig heldur þú að Jehóva hafi liðið með það sem Jakob gerði til að hann og Esaú gætu orðið vinir aftur?
Síðan fór Esaú aftur heim til sín og Jakob hélt ferðinni áfram. Jakob átti 12 syni. Þeir hétu Rúben, Símeon, Leví, Júda, Dan, Naftalí, Gað, Asser, Íssakar, Sebúlon, Jósef og Benjamín. Jehóva notaði Jósef – einn af sonum Jakobs – til að bjarga þjóð sinni. Veistu hvernig? Við skulum komast að því.
„Elskið óvini ykkar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja ykkur. Þannig reynist þið börn föður ykkar á himnum.“ – Matteus 5:44, 45.