Hvað er orðið um kirstna árvekni?
„ÞAÐ sem ég segi yður, það segi ég öllum: Vakið!“ Þessi orð Jesú Krists hafa hljómað í eyrum einlægra kristinna manna öld eftir öld. En hversu margir meðlimir rómversk-kaþólsku kirkjunnar, grísk-kaþólsku rétttrúnaðarkirkjunnar eða hinna stóru kirkjudeilda mótmælenda hafa þetta örvandi kall enn hljómandi í eyrum sér? — Markús 13:37.
Hvers vegna áttu kristnir menn að vaka og vera á varðbergi? Jesús hafði rétt áður sagt: „Vakið því, þér vitið ekki nær, húsbóndinn kemur, . . . Látið hann ekki finna yður sofandi, þegar hann kemur allt í einu.“ (Markús 13:35, 36) Lærisveinar Jesú áttu því að vera vakandi og gefa gætur hvenær húsbóndi þeirra, það er að segja Kristur, kæmi.
Hver átti að vera tilgangurinn með komu Jesú? Skipun hans um árvekni var hluti af svari hans við þessari hnitmiðuðu spurningu sem lærisveinarnir lögðu fyrir hann: „Hvert mun tákn komu þinnar og endaloka veraldar?“ (Matteus 24:3) Samkvæmt samsvarandi frásögu sagði Kristur eftir að hafa lýst margþættu tákni: „Þá munu menn sjá Mannssoninn koma í skýi með mætti og mikilli dýrð. En þegar þetta tekur að koma fram, þá réttið úr yður og lyftið upp höfðum yðar, því að lausn yðar er í nánd. . . . Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið þetta verða, að Guðs ríki er í nánd.“ — Lúkas 21:27-31.
Gott tilefni til árvekni
Jesús Kristur gaf þannig lærisveinum sínum gott tilefni til að vera andlega vakandi og gefa gætur að uppfyllingu ‚táknsins.‘ Þetta „tákn“ myndi þýða að húsbóndi þeirra væri ósýnilega nærverandi, því að ekkert tákn þyrfti ef hann væri nærverandi að líkamanum til, sýnilegur. En andleg nærvera hans hefði líka í för með sér að þessi illa ‚veröld‘ hefði náð ‚endalokum‘ sínum. Og fyrir kristna menn þýddi hún að ‚lausn þeirra væri í nánd.‘ Já, hún þýddi að ‚Guðs ríki væri í nánd.‘
Er þetta ekki sjálfur kjarninn í hinni kristnu von? Er þetta ekki það sem öllum kristnum mönnum var kennt að biðja um, það er að segja: „Faðir vor, þú sem ert í himnunum, helgist nafn þitt, komi ríki þitt, verði vilji þinn, svo á jörðu sem á himni“? (Matteus 6:9, 10, Ísl. bi. 1912) Væri ekki rökrétt að kaþólskir menn, sem hafa yfir sitt „paternoster,“ eða meðlimir annarra kirkna sem fara með „Faðirvorið,“ væru vakandi fyrir því hvenær og hvernig bænum þeirra verður svarað? Getur hugsast að kenningar kirkna þeirra hafi sneytt bænina svo merkingu sinni að lítið sé eftir til að vera vakandi fyrir?
Hvers vegna margir eru ekki lengur árvakrir
Kristnir menn áttu að gefa gætur tákninu um nærveru Krists (á grísku parousia, þýtt „koma“ í mörgum þýðingum Biblíunnar). Hvers vegna? Vegna þess að það myndi þýða að ríki Guðs, frelsun sjálfra þeirra og endalok „veraldar“ eða hins illa heimskerfis væru í nánd. Hinar ýmsu kirkjur kristna heimsins hefðu átt að hjálpa meðlimum sínum að vera andlega vakandi til að þeir svæfu ekki þegar húsbóndinn kæmi. Hefur kirkjunum tekist ætlunarverk sitt að þessu leyti?
Fræðilegt uppsláttarrit segir: „Þegar tímar liðu án þess að nærveran ætti sér stað var henni, hvað kirkjuna varðaði, ýtt lengra og lengra fram í tímann, og svo fór að lokum að hætta var á að hún yrði látin fyrir róða sem trúargrein.“ — The New International Dictionary of New Testament Theology.
Þannig hefur í reyndinni farið. Kirkjur kristna heimsins hafa látið af hinni kristnu árvekni sem Jesús skipaði lærisveinum sínum að gæta alltaf. Þær eru ekki lengur vakandi fyrir nærveru Krists og komu Guðsríkis. Þær hafa réttlætt fyrir sér að eftirvæntingunni eftir ‚endalokum veraldar‘ eða heimskerfisins skuli hafa verið kastað á glæ.
Frönsk alfræðibók í einu bindi, Quid 1984 gefur nútímalega skilgreiningu á trúarskoðunum varðandi heimsendi. Undir fyrirsögninni „Einkenni kaþólskrar trúar“ segir hún: „Kirkjan virðist um þessar mundir skilgreina heimsendi sem einstaklingsbundna prófraun sem hver maður stendur frammi fyrir þegar hann deyr.“ Alfræðibókin The New Encyclopedia Britannica segir um kirkjurnar í heild: „Hinar rótgrónu kristnu kirkjudeildir útilokuðu heimsslitafræðina [kenninguna um „hinstu hluti“] sem merkingarlausa eða lítilfjörlega goðsögn.“
Hvert er því hið óvænta en óhjákvæmilega svar við spurningunni „Hvað er orðið um kristna árvekni?“ Hún hefur verið svæfð af hinum ‚rótgrónu kristnu kirkjudeildum,‘ það er að segja rómversk-kaþólsku kirkjunni, grísk-kaþólsku kirkjunni og hinum stóru kirkjudeildum mótmælenda. Þótt ekki sé við meðlimi þessara kirkjudeilda að sakast kann mörgum þeirra að vera hugleikið hvernig og hvers vegna kirkjan þeirra eyddi með útskýringum eftirvæntingunni eftir nærveru Krists, komu Guðsríkis og endalokum hins núverandi illa heimskerfis. Sögulegar forsendur þess verða skoðaðar í greininni á eftir.