Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w85 1.8. bls. 9-14
  • Sælir eru þeir sem finnast vakandi!

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Sælir eru þeir sem finnast vakandi!
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1985
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Árvakar leifar Gyðinga
  • Árvekni frumkristinna
  • Kristin eftirvænting eftir árið 70
  • ‚Sælir eru þeir sem finnast vakandi‘
  • Verið viðbúnir!
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1985
  • Hvernig kristin eftirvænting fjaraði út
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1985
  • Bíðum full eftirvæntingar
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2015
  • Hvað er orðið um kirstna árvekni?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1985
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1985
w85 1.8. bls. 9-14

Sælir eru þeir sem finnast vakandi!

„Sælir eru þeir þjónar, sem húsbóndinn finnur vakandi, er hann kemur.“ — Lúkas 12:37.

1. Hvers vegna hafa þjónar Jehóva alltaf ‚vænst hans,‘ en hvaða spurningar má spyrja um kirkjur kristna heimsins?

„JEHÓVA er Guð sem dæmir. Sælir eru allir sem vænta hans.“ (Jesaja 30:18, NW) Allt frá því að Jehóva kunngerði endanlegan ósigur höggormsins og frelsun fyrir milligöngu hins fyrirheitna sæðis hafa trúir þjónar hans vænst uppfyllingar þess fyrirheits. (1. Mósebók 3:15) En hjálpa guðfræðingar kristna heimsins þeim sem tilheyra kirkjunum að vera vakandi fyrir þeirri lokafrelsun frá Satan og sæði hans?

2. Hvers vegna ættu „þjóðirnar“ að vænta „Síló“?

2 Á dánarbeði sínu spáði Jakob að sæði fyrirheitsins myndi koma í ættkvísl Júda. Jakob gaf sæðinu hið táknræna nafn Síló og sagði að ‚þjóðirnar gengju því á hönd.‘ Samkvæmt grísku Sjötíumannaþýðingunni mun Síló „vera eftirvænting þjóðanna.“ (1. Mósebók 49:10) ‚Þjóðirnar‘ ættu þeim mun frekar að vera vakandi fyrir komu Síló vegna þess að Jehóva sagði Abraham, afa Jakobs: „Af þínu afkvæmi skulu allar þjóðir á jörðinni blessun hljóta.“ (1. Mósebók 22:18) En fyrst varð þetta sæði, Síló eða Messías, að koma til jarðar meðal afkomenda Abrahams og fæðast í ættkvísl Júda.

Árvakar leifar Gyðinga

3. Hvað segir Lúkas um eftirvæntingu Gyðinga árið 29 og hvernig ber sagan því vitni?

3 Sagnaritarinn Lúkas, sem var Gyðingur, segir að „á fimmtánda stjórnarári Tíberíusar keisara,“ sem var árið 29 e.o.t., hafi verið ‚eftirvænting hjá lýðnum og allir verið að hugsa með sjálfum sér hvort Jóhannes skírari kynni að vera Kristur (á hebresku Mashiach, Messías).‘ (Lúkas 3:1, 15) Styður veraldleg sagnfræði þessa fullyrðingu Lúkasar? Hin nýja enska útgáfa ritverks Emils Schürers, History of the Jewish People in the Age of Jesus Christ, spyr: „Lifði þessi von [messíasarvonin] stöðugt meðal fólksins?“ Bókin svarar: „Á síðustu öldunum fyrir daga kristninnar, og einkanlega á fyrstu öld, hljóp mikið líf í hana enn á ný eins og Pseudepigrafa [opinberunarrit Gyðinga]. Qumran [samfélagsrit frá Dauðahafinu], Jósefus og guðspjöllin sýna svo greinilega. . . . Sýnirnar í bók Daníels . . . höfðu djúptæk áhrif á mótun messíasarhugmyndarinnar.“

4, 5. (a) Hvers vegna væntu Gyðingar Messíasar þá og hvernig er það staðfest? (b) Hvers konar Messíasar væntu margir Gyðingar en hverjum opinberaði Jehóva komu hins sanna Messíasar?

4 Í skýringum við Matteus 2:2 skrifar fræðimaður einn: „Á þessum tíma var ríkjandi sú eftirvænting að einhver einstök persóna væri í þann mund að birtast í Júdeu. Gyðingar hlökkuðu ákaft til komu Messíasar. Með því að reikna út tímann sem nefndur er af Daníel (kafli ix. 25-27), vissu þeir að sá tími væri í nánd er Messías átti að birtast.“ Þá má einnig nefna að rómversku sagnfræðingarnir Svetoníus og Tacítus, svo og Jósefus og Fíló sem báðir voru Gyðingar, geta um þessa eftirvæntingu. Hið franska rit Manuel Biblique, eftir Bacuez og Vigoroux (3. bindi, bls. 191) staðfestir það og segir: „Fólk vissi að hinar sjötíu sjöundir ára, sem Daníel tilgreindi, voru að enda; enginn undraðist að heyra Jóhannes skírara tilkynna að Guðsríki væri í nánd.“

5 Sagan ber því þess vegna vitni að Gyðingar hafi vænst komu Messíasar, hins fyrirheitna sæðis, og að þessi eftirvænting hafi stafað af því að þeir hafi vakað fyrir uppfyllingu spádóms sem tilgreindi tímann.a (Daníel 9:24-27) Að vísu vonuðust flestir Gyðingar á fyrstu öld, sem tilheyrðu ýmsum sértrúarflokkum Gyðingdómsins eftir pólitískum Messíasi sem myndi, eins og segir í The Concise Jewish Encyclopedia, „gereyða óvinum Ísraels og koma á tímum fullkomins friðar og fullkomleika.“ En leifar trúfastra Gyðinga fylgdust vökulum augum með komu hins sanna Messíasar. Í þeirra hópi voru Sakaría og Elísabet, foreldrar Jóhannesar skírara, svo og Símeon, Anna, Jósef og María. (Matteus 1:18-21; Lúkas 1:5-17, 30, 31, 46, 54, 55; 2:25, 26, 36-38) Við þetta fólk, ekki trúarleiðtoga gyðingdómsins, staðfesti Jehóva að spádómur Daníels um tímann hefði gert þeim kleift að vera vakandi fyrir komu hins fyrirheitna sæðis, Messíasar, „þegar fylling tímans kom.“ — Galatabréfið 4:4.

Árvekni frumkristinna

6. Hvernig voru ungir Gyðingar aldir upp og hvernig hjálpaði það sumum að verða lærisveinar Jesú?

6 Jósef og María vissu að barnið Jesús, sem þau voru að ala upp, átti að verða Messías. Talandi um uppeldi hans segir The New Encyclopædia Britannica: „Jesús ólst að öllum líkindum upp í þeirri trúrækni sem var ræktuð á heimilinu og í samkundunni (sem fól í sér biblíunám, hlýðni við lögmálið, bænir og eftirvæntingu eftir komu Messíasar).“ Öðrum börnum, sem alin voru upp á heimilum trúfastra leifa Gyðinganna, var innprentuð messíasarvonin, og þessi von gerði að minnsta kosti sumum þeirra kleift að bregðast skjótt við því kalli að verða lærisveinar Jesú. — Markús 1:17-20; Jóhannes 1:35-37, 43, 49.

7. (a) Kenndi Jesús að Guðsríki væri innra með hverjum einstökum kristnum manni? (b) Fyrir hverju áttu kristnir menn að vera árvakrir?

7 Undir lok sinnar jarðnesku þjónustu kenndi Jesús lærisveinum sínum að fylgjast vökulu auga með ‚nærveru‘ hans í framtíðinni og komu ríkis hans. Alfræðibókin Britannica segir: „Þessi hefðbundnu grunnstef um endalok heimsins, hinsta dóm og nýjan heim Guðs vantar ekki í orð Jesú sem varðveitt eru í boðskap guðspjallanna. Jesús hefur því á engan hátt breytt himnaríki í hreina trúarreynslu hinnar einstöku mannssálar eða gefið heimsslitavæntingu Gyðinga merkingu þróunar sem er eiginleg heiminum eða yfirbragð markmiðs sem mannleg viðleitni fær náð. . . . Hann hvorki lagði lið né hvatti til vonarinnar um þjóðlegan Messías . . . né studdi viðleitni Sílóta til að flýta komu Guðsríkis.“ Nei, hann sagði kristnum mönnum frá margþættu tákni sem myndi fyrst segja til um að eyðing Jerúsalem stæði fyrir dyrum og þá, miklu síðar, vera ‚tákn um nærveru hans og endalok veraldar.‘ — Matteus 24:3 til 25:46; Lúkas 21:20-22.

8. Hvað sýnir að Jesús trúði ekki að hann myndi koma mjög bráðlega í ríki sitt? Hvaða ráð gaf hann því fylgjendum sínum?

8 Fríhyggjumenn og jafnvel sumir af guðfræðingum kristna heimsins fullyrða að frumkristnir menn hafi trúað að nærvera Krists ætti að verða á þeirra dögum. Sumir gefa jafnvel í skyn að Jesús sjálfur hafi trúað að hann myndi koma mjög bráðlega inn í ríki sitt. En í dæmisögum sínum um talenturnar og pundin sýndi Jesús fram á að hann myndi ekki fyrr en „löngu síðar“ snúa aftur sem konungur og gera upp reikninga við þjónana sem hann hafði falið eigur sínar í hendur. (Matteus 25:14, 19; Lúkas 19:11, 12, 15) Og í spádómi sínum um ‚tákn nærveru sinnar og endaloka veraldar‘ játaði hann að „hvorki englar á himnum né sonurinn, enginn nema faðirinn einn,“ þekktu „þann dag og stund“ er endirinn kæmi. Hann bætti við: „Vakið því, þér vitið eigi, hvaða dag Drottinn yðar kemur.“ — Matteus 24:3, 14, 36, 42.

9. Gaf Páll postuli til kynna að hann áliti nærveru Krists yfirvofandi á sínum dögum? Gefið skýringu.

9 Um trú frumkristinna manna á yfirvofandi nærveru Krists segir fræðilegt uppsláttarritb: „Sú getgáta að Páll hafi vænst nærverunnar snemma í 1. Þess. er alls ekki fullvís. Svo snemma sem í 1. Þess. 5:10 tók Páll með í reikninginn þann möguleika að hann dæi. Ekki er hægt að vísa á bug þeim möguleika að þegar Páll segir ‚vér‘ í 1. Þess. 4:15 og 17 hafi hann verið að tala um sig sem síðustu kynslóðina án þess að víst sé að hann hafi talið sig tilheyra henni.“ Í öðru bréfi sínu til Tímóteusar sagði Páll greinilega að hann vonaðist ekki til að hljóta launin fyrr en „á þeim degi,“ degi „endurkomu“ Krists í ríki hans þegar hann kæmi til að „dæma . . . lifendur og dauða.“ — 2. Tímóteusarbréf 4:1, 8.

10. Hvernig var kristin árvekni kristnum mönnum í Júdeu á fyrstu öld til lífs?

10 Meðan kristnir menn biðu nærveru Jesú Krists og komu ríkis hans áttu þeir að vera vakandi, árvakrir. Viðeigandi árvekni gerði kristnum mönnum í Júdeu fært að greina táknið sem Jesús hafði sagt að myndi boða eyðingu Jerúsalem. (Lúkas 21:20-24) Þegar Cestíus Gallus gerði árás á Jerúsalem árið 66 en hvarf svo skyndilega burt án sýnilegs tilefnis, notuðu árvakrir kristnir menn tækifærið og flúðu borgina og Júdeuhérað umhverfis. Að sögn hinna kirkjulegu sagnaritara Hegesippusar, Evsebíusar og Epífaníusar leituðu kristnir menn úr Júdeu hælis handan Jórdanar á stað sem nefnist Pella. Af því að þeir voru andlega glaðvakandi komust þeir hjá því að deyja eða vera teknir til fanga þegar rómverskur her kom aftur árið 70 undir stjórn við jörðu. Þessir kristnu menn hljóta að hafa glaðst yfir því að þeir höfðu verið á varðbergi!

Kristin eftirvænting eftir árið 70

11, 12. Hvert skyldi vera rétt viðhorf kristinna manna eftir eyðingu Jerúsalem árið 70 og hvernig yrði það vernd fyrir þá?

11 Með því að nærvera Jesú átti að verða aðeins „löngu síðar,“ hver væru þá rétt viðhorf kristinna manna eftir árið 70 og út í gegnum allar aldir þar til að endalokunum kæmi? Átti kristin eftirvænting að dvína eða kólna? Nei! Hin þrjú bréf Jóhannesar postula og Opinberunarbókin voru öll skrifuð eftir árið 70. Í fyrsta bréfi sínu varar Jóhannes við ‚andkristi‘ og segir kristnum mönnum að vera stöðugir í Kristi og bíða nærveru hans og þess að hann birtist. (1. Jóhannesarbréf 2:18, 28; 3:2) Í öllum bréfunum þrem varar Jóhannes við fráhvarfsmönnum. Opinberunarbókin beinist, allt frá upphafi til enda, að komu Krists í hinu dýrlega ríki og rétt undir lok hennar segir: „Amen. Kom þú, Drottinn Jesús!“ — Opinberunarbókin 22:20.

12 Kristnir menn urðu að vera vakandi fyrir nærverunni, það er að segja að þeir áttu dag hvern að halda vakandi eftirvæntingu sinni eftir ‚nærveru‘ Krists. Ernst Benz, prófessor í kirkjusögu, segir: „Hinir ‚hinstu hlutir‘ voru hinir fyrstu hlutir að því er mikilvægi varðaði í hugum hinna trúföstu í frumkirkjunni. Meðdepill trúar þeirra og vonar var koma Guðsríkis.“ Jafnvel þótt ríkið kæmi ekki meðan þeir lifðu væri þessi viðeigandi eftirvænting kristnum mönnum vernd gegn því að verða andlega syfjaðir og flækja sig í heimi Satans. — 1. Jóhannesarbréf 2:15-17.

13, 14. Hvaða tvennar öfgar voru meðal fráhverfra kristinna manna á annarri og þriðju öld okkar tímatals?

13 Að vísu fór svo, þegar fráhvarfið þróaðist eftir dauða postulanna, að sumir fengu rangar hugmyndir um það hversu nálæg koma Krists í ríki hans væri. Í verki sínu The Early Church and the World segir: „C. J. Cadoux: „Íreneus [á annarri öld okkar tímatals] og Hippólýtus [seint á annarri og í byrjun þriðju aldar] héldu báðir að hægt væri að reikna með nokkurri nákvæmni hvenær heimsendir kæmi.“ Vegna skekkju í tímareikningi héldu sumir að 6000 ára saga mannsins væri næstum á enda og að sjöunda þúsund ára tímabilið stæði fyrir dyrum. Þeir höfðu að sjálfsögðu rangt fyrir sér. En að minnsta kosti voru þeir að reyna að halda sér andlega vakandi.

14 Flestir fráhverfir kristnir menn glötuðu aftur á móti eftirvæntingu sinni og hættu að láta sér finnast tímarnir áríðandi. Ritið Theological Dictionary of the New Testament fræðir okkur um þetta: „Undir áhrifum af háspeki [heimspeki] Platons og siðfræði Stóuspekinganna minnast hinir kristnu verjendur [„kirkjufeður“ á annarri og snemma á þriðju öld] lítið á ríki Guðs. Sú litla heimsslitafræði, sem þeir halda fram, stjórnast af hugmyndinni um fullkomleika hins einstaka kristna manns. . . . Grískar hugmyndir um ódauðleika, eilíft líf og þekkingu eru þýðingarmeiri en biblíulegar hugmyndir um [Guðsríki]. . . . Eins er með Orígenes [um 185-254], . . . hjá honum er svo til alls ekkert rúm fyrir boðskap Biblíunnar um ríki Guðs.“

15. Hvaða viðhorf þróuðu kirkjurnar, sem festust í sessi, til kenningarinnar um „hinstu hluti“ þegar fráhvarfið þróaðist áfram?

15 Þetta eru í aðalatriðum þau viðhorf sem ríktu í aldanna rás hjá hinum svonefndu kristnu kirkjum. Alfræðibókin Encyclopædia Britannica segir: Frá tímum rómverska keisarans Konstantínusar (dáinn 337) hefur vonin um ríki Krists verið skilin birtast í pólitískri viðurkenningu kristninnar. Framtíðar-heimsslitafræði lifði áfram hjá sértrúarhópum sem störfuðu með leynd.“ „Á tímanum fyrir siðbót 16. aldar sökuðu trúvilluhópar . . . kirkjuna í Róm um svik við hina upprunalegu eftirvæntingu um yfirvofandi heimsslit.“

‚Sælir eru þeir sem finnast vakandi‘

16. Hvaða hópar komu fram á 19. öld og hverju trúðu sumir þeirra?

16 Með því að hinar „rótgrónu kristnu kirkjudeildir“ héldu ekki lengur vöku sinni fyrir nærveru Krists og valdatöku sem konungur Guðsríkis var það eftirlátið þeim sem kirkjurnar kölluðu „trúvilluhópa“ að gera það. Á 19. öldinni skutu nokkrir slíkir hópar upp kollinum í löndum þar sem Biblían var almenningi aðgengileg og tök voru á að rannsaka hana. Hinar ríkjandi kirkjudeildir, sem töldu sérhverja kenningu um „hinstu hluti“ merkingalausa, kölluðu slíka hópa með fyrirlitningu aðventista eða þúsundáraríkishópa, því að slíkir hópar voru á verði til að gefa gætur að síðari komu Krists og trúðu að Kristur ætti að ríkja í þúsund ár. Margir þessara hópa bjuggust við að Kristur kæmi til jarðar á ný og setti þar á stofn þúsundáraríki sitt. Sumir reiknuðu út að síðari koma Krists myndi eiga sér stað árið 1835 (fylgjendur Bengels í Þýskalandi), árið 1843 (fylgjendur Millers í Bandaríkjunum) og árið 1889 (hópur Mennoníta í Rússlandi).

17, 18. Hver voru viðbrögð kristna heimsins en hverju sagðist Jesús leita að þegar hann ‚kæmi‘?

17 Að sjálfsögðu fögnuðu „hinar rótgrónu kristnu kirkjudeildir“ því þegar þessar spár brugðust. Rómversk-kaþólska kirkjan, rétttrúnaðarkirkjan og helstu kirkjudeildir mótmælenda gerðu vissulega engin slík mistök. Fyrir þeim var kenningin um „hinstu hluti“ „merkingarlaus.“ Þær voru löngu hættar að ‚vaka.‘ — Markús 13:37.

18 Þó sagði Jesús lærisveinum sínum: „Sælir eru þeir þjónar, sem húsbóndinn finnur vakandi, er hann kemur. . . . Hver er sá trúi og hyggni ráðsmaður, sem húsbóndinn setur yfir hjú sín að gefa þeim skammtinn á réttum tíma? Sæll er sá þjónn, er húsbóndinn finnur breyta svo, er hann kemur.“ — Lúkas 12:37-43.

19, 20. (a) Hvaða hópur kom fram á sjónarsviðið á 8. áratug síðustu aldar, og hvers vegna aðgreindi hann sig frá öðrum hópum? (b) Hvaða tímarit varð opinbert málgagn þessa hóps og hvernig hefur það hjálpað vaxandi fjölda sannkristinna manna?

19 Meðal hinna svonefndu trúvilluhópa, sem fylgðust vakandi auga með tákninu um endurkomu Krists á síðasta þriðjungi 19. aldar, var biblíunámshópur undir forsæti Charles Russell í Pittsburgh í Bandaríkjunum. Russell skrifaði: „Árin 1870 til 1875 voru tími stöðugs vaxtar í náð og þekkingu á kærleika Guðs og orði hans. . . . Þá vorum við þó aðeins að skynja hina almennu útlínu áætlunar Guðs og venja okkur af mörgum gamalgrónum villum. . . . Við hörmuðum mjög villu aðventista sem væntu Krists í holdinu.“

20 Russell og félagar hans skildu fljótt að nærvera Krists yrði ósýnileg. Þeir greindu sig frá öðrum hópum og árið 1879 fóru þeir að birta andlega fæðu í tímaritinu Zion’s Watch Tower and Herald of Christ’s Presence. Allt frá fyrsta útgáfuári sínu benti þetta tímarit á að árið 1914 markaði þáttaskil í tímareikningi Biblíunnar, og byggðu það á traustum, biblíulegum grunni. Þegar því ósýnileg nærvera Krists hófst árið 1914 voru þessir kristnu menn hamingjusamir að meistarinn skyldi finna þá vakandi! Í meira en öld hefur þetta tímarit, nú nefnt Varðturninn — kunngerir ríki Jehóva, hjálpað sívaxandi fjölda sannkristinna manna að ‚vera varir um sig og vaka.‘ (Markús 13:33) Greinin, sem nú tekur við, mun ræða hvernig það hefur verið gert.

[Neðanmáls]

a Ítarlega umræðu um þennan spádóm er að finna í bókinni „Let Your Kingdom Come,“ bls. 58-66.

b The New International Dictionary of New Testament Theology, 2. bindi, bls 923.

Nokkrar spurningar til upprifjunar

◻ Hvað sannar að Gyðingar á fyrstu öld væntu Messíasar?

◻ Hvernig var árvekni kristnum mönnum í Júdeu hjálp?

◻ Hvaða áhrif hafði fráhvarfið á kristna eftirvæntingu?

◻ Hvers konar þjóns myndi Kristur leita þegar endalokatíminn nálgaðist?

◻ Hvaða hópur kristinna manna fullnægði þessum skilyrðum, og með hjálp hvaða tímarits?

[Mynd á blaðsíðu 12]

Útgefendur þessa tímarits hafa alltaf haldið vöku sinni.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila