Varastu stöðugt snöru ágirndarinnar
„Gætið yðar, og varist alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum, þótt auðugur sé.“ — Lúkas 12:15
1. Hvers vegna er aðvörun Páls gegn ágirnd tímabær?
VIÐ lifum í heimi sem dýrkar efnalega velsæld. Stöðugt er verið að kitla ágirnd manna og hvetja þá til að auðgast í gegnum verslun og viðskipti. Velgengni er venjulega mæld eftir því hversu há upphæð er í launaumslaginu. Því eru tímabærar hinar mörgu aðvaranir Biblíunnar gegn græðgi og ágirnd. (Kólossubréfið 3:5; 1. Tímóteusarbréf 6:10) Samkvæmt orðabók er sameiginleg með græðgi og ágirnd „sterk löngun í eignir, einkum efnislegar eigur.“ Ágirnd getur verið jafn-alvarleg og saurlifnaður og skurðgoðadýrkun því að Páll aðvaraði: „Þið eigið ekki að blanda geði við neinn sem telur sig vera bróður í trúnni en er saurlífismaður eða svindlari eða hjáguðadýrkari eða drykkjumaður eða ágjarn. Þið ættuð ekki einu sinni að neyta matar með þess háttar manni.“ — 1. Korintubréf 5:11, Lifandi orð; Efesusbréfið 5:3, 5.
2. Hvaða aðvaranir gáfu Jesús og Jehóva okkur gegn ágirnd?
2 Jesús aðvaraði fylgjendur sína: „Varist alla ágirnd.“ (Lúkas 12:15) Og Jehóva setti sjálfur boðorð gegn þessum lesti meðal boðorðanna tíu: „Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, ekki þræl hans eða ambátt, ekki uxa hans eða asna, né nokkuð það, sem náungi þinn á.“ — 2. Mósebók 20:17; Rómverjabréfið 13:9.
Enginn getur slakað á verðinum
3. Hvernig heltók ágirndin Evu og síðar Ísraelsmenn?
3 Sannleikurinn er sá að enginn getur slakað á verði sínum gegn græðgi og ágirnd. Þegar Eva syndgaði í Edengarðinum var það vegna ágirndar: „Konan sá, að tréð var gott að eta af, fagurt á að líta og girnilegt til fróðleiks.“ (1. Mósebók 3:6) Við eitt tækifæri í eyðimörkinni sýndu Ísraelsmenn viðurstyggilega ágirnd. Þegar þeir kvörtuðu undan því að fá aðeins manna að borða sá Jehóva þeim fyrir gnægð af lynghænum, en þeir hegðuðu sér eins og átvögl og var refsað þunglega. — 4. Mósebók 11:4-6, 31-33.
4. Hvaða önnur dæmi sýna hve hættuleg ágirndin er?
4 Síðar, þegar barist var um Jeríkó, var það ágirnd sem kom Akan til að stela silfri og gulli og verðmætri flík af herfanginu í borginni. (Jósúa 7:20, 21) Ágirnd kom Gehasí, þjóni Elísa, til að reyna að hagnast fjárhagslega á því er Naaman var læknaður fyrir kraftaverk af holdsveiki sinni. (2. Konungabók 5:20-27) Akab konungur var einnig ágjarn maður. Hann leyfði Jesebel, heiðinni konu sinni, að leggja á ráðin um dauða Nabóts, nágranna síns, til að hann gæti sölsað undir sig víngarð Nabóts. (1. Konungabók 21:1-19) Að lokum er að nefna Júdas Ískaríot, einn af hópi nánustu félaga Jesú, sem gráðuglega notfærði sér aðstöðu sína til að stela úr sameiginlegum sjóði þeirra. Og ágirnd kom honum til að svíkja Jesú fyrir þrjátíu silfurpeninga. — Matteus 26:14-16; Jóhannes 12:6.
5. Hvað getum við lært af því að mismunandi fólk festist í snöru ágirndarinnar?
5 Öllum þessum ágjörnu mönnum var refsað. En tókst þú eftir því að það var margs konar mismunandi fólk sem festist í snöru ágirndarinnar? Eva var fullkomin kona sem bjó í paradís. Akan og Ísraelsmenn höfðu sjálfir orðið vitni að kraftaverkum Jehóva. Akab var konungur, ef til vill ríkasti maður í landinu. Gehasí og Júdas nutu þeirrar blessunar að hafa samfélag við andans menn og nutu sérstakra sérréttinda í þjónustunni. Samt varð allt þetta fólk ágirndinni að bráð. Því geta allir — hversu ríkir sem þeir eru, hversu mikilla sérréttinda sem þeir njóta í þjónustunni eða hversu mikla lífsreynslu sem þeir hafa að baki — fest sig í þessari snöru. Ekki er að undra að Jesús aðvaraði: „Gætið yðar, og varist alla ágirnd“! — Lúkas 12:15.
6. Hvað er nauðsynlegt til að forðast snöru ágirndarinnar?
6 En hvernig getum við gert það? Aðeins með sjálfstjórn og stöðugri sjálfsrannsókn. Ágirnd á upptök sín í hjartanu. Til að forðast snöru ágirndarinnar verðum við að grandskoða hjarta okkar stöðugt til að sjá hvort þar séu einhver merki um að ágirnd sé að festa rætur. Biblían hjálpar okkur að gera það. Hvernig? Meðal annars með því að geyma það sem Jesús og lærisveinar hans sögðu um ágirnd. Þegar við rannsökum orð þeirra vekja þau ýmsar áleitnar spurningar sem við ættum að spyrja okkur til að kanna hvar við stöndum gagnvart ágirnd.
Grandskoðum hvatir okkar
7. Hvernig hjálpar svar Jesú til mannsins, sem deildi um arf, okkur að grandskoða okkur?
7 Varnaðarorð Jesú gegn ágirnd voru sprottin af beiðni eins af áheyrendum hans: „Meistari, seg þú bróður mínum að skipta með mér arfinum.“ Jesús svaraði: „Maður, hver hefur sett mig dómara eða skiptaráðanda yfir ykkur?“ (Lúkas 12:13, 14) Síðan varaði hann við ágirnd. Jesús vildi ekki láta blanda sér í deilur um efnislega hluti í ljósi þess þýðingarmikla, andlega verkefnis sem hann átti að inna af hendi. (Jóhannes 18:37) En þessar samræður vekja upp áleitnar spurningar sem við gætum spurt okkur. Við skulum segja að okkur vanhagi ekki sérstaklega um neitt en fyndist að við ættum kröfu til einhverrar eignar, fjármuna eða arfs sem um er deilt. Í hvaða mæli gætum við barist fyrir því sem við héldum okkur eiga kröfu til? Hversu miklu af þjónustu okkar við Jehóva eða sambandi við bræður okkar myndum við fórna til að ná því sem við álitum okkur eiga rétt á? — Orðskviðirnir 20:21; 1. Korintubréf 6:7.
8. Hvernig getum við forðast að vera eins og hinir skriftlærðu sem Jesús nefndi í Lúkasi 20:46, 47?
8 Við skulum íhuga annað sem Jesús sagði. Hann aðvaraði fylgjendur sína: „Varist fræðimennina, sem . . . eta upp heimili ekkna.“ (Lúkas 20:46, 47) Ágirnd þeirra birtist í mikilli grimmd! Kristnum mönnum er að sjálfsögðu skylt að annast ekkjur, ekki að níðast á þeim. (Jakobsbréfið 1:27) En setjum sem svo að þú þekktir ekkju sem fengið hefði umtalsverðar tryggingabætur og þú þyrftir skyndilega á fé að halda til að mæta óvæntum útgjöldum. Kæmi þér fyrst í hug að snúa þér til ekkjunnar því að þú álitir auðveldast að telja hana á að hjálpa þér, eða jafnvel að hún ætti að hjálpa þér því að ‚hún hefði fullt af peningum‘? Eða setjum sem svo að þú hefðir þegar tekið peninga að láni og ættir nú í erfiðleikum með að endurgreiða þá. Fyndist þér réttlætanlegt að láta dragast að endurgreiða ekkjunni af því að hún ‚myndi ekki verða of erfið viðfangs‘ eða kannski vegna þess að þér fyndist hún í rauninni ekki þurfa á fénu að halda‘? Við verðum að gæta okkar á því að láta ekki hugsun okkar um grundvallarreglur brenglast þegar við erum í fjárhagskröggum.
9. Hvernig gætum við farið að ‚sýna mönnum virðingu til að hagnast á þeim‘?
9 Júdas lýsti því einnig hvernig ágirnd gæti fest okkur í snöru sinni. Hann talaði um menn sem höfðu læðst inn í kristna söfnuðinn og voru að spilla honum með ágirnd og taumleysi og ‚afneituðu vorum einasta lávarði og Drottni, Jesú Kristi.‘ (Júdasarbréfið 4) Auk þess ‚sýndu þeir þeim einum virðingu sem þeir gátu hagnast á.‘ (Júdasarbréfið 16, Lifandi orð) Við viljum ekki vera þannig. En íhugum þetta: Kjósum við að eyða svo miklum tíma með hinum efnuðu í söfnuðinum að við gefum lítinn gaum þeim sem fátækari eru? Ef svo er, getur hugsast að við vonumst til að hagnast á því á einhvern hátt? (Samanber Postulasöguna 20:33; 1. Þessaloníkubréf 2:5) Þegar við sýnum gestrisni þeim sem gegna ábyrgðarstöðum í skipulaginu, gerum við það vegna kærleika eða vegna þess að við vonumst til að hljóta einhver sérréttindi í staðinn? Ef það er hið síðarnefnda má vera að við séum líka að ‚sýna öðrum virðingu til að geta hagnast á þeim.‘
10. Á hvaða vegu er hægt að gera sér tilbeiðsluna á Jehóva að féþúfu? Hvers fordæmi erum við að fylgja ef við gerum það?
10 Eitt merki ágirndar, sem skapraunaði Jesú mjög mikið, var að hann sá „í helgidóminum þá, er seldu naut, sauði og dúfur, og víxlarana, sem sátu þar.“ Kostgæfni vegna húss Jehóva kom honum til að reka þá út úr musterinu og segja: „Gjörið ekki hús föður míns að sölubúð.“ (Jóhannes 2:13-17) Höfum við svipaða kostgæfni? Þá væri gott að við spyrðum okkur: Myndi ég ræða um viðskiptaleg málefni í Ríkissalnum? Reyni ég að stunda áhættusöm viðskipti meðal kristinna bræðra af því að þeir eiga erfiðara með að neita mér vegna þess að þeir eru andlegir bræður mínir? Notfæri ég mér hina mörgu vini, sem ég á innan skipulagsins, til að efla og auka viðskiptasambönd mín? Sannarlega ættum við ekki að hagnast gráðuglega með því að misnota sambandið við bræður okkar.
11. Hvaða kristnar meginreglur hjálpa okkur að hafa rétt viðhorf þegar við eigum viðskipti hver við annan?
11 Þýðir þetta að kristnir menn geti aldrei átt viðskipti saman? Alls ekki. Sannleikurinn er einfaldlega sá að viðskiptum hæfir ákveðinn staður og stund en guðsdýrkun okkar annar staður og önnur stund. (Prédikarinn 3:1) Þegar kristnir menn hafa eitthvert viðskiptasamband sín á milli ættu þeir samt sem áður ekki að gleyma meginreglum Biblíunnar. Þegar kristinn maður gerir viðskiptasamning ætti hann ekki að leita að lagalegum smugum til að skjóta sér undan siðferðilegum skyldum sínum. (Matteus 5:37) Hann mun ekki heldur verða vægðarlaus eða reyna með öllum ráðum að réttlæta sjálfan sig ef viðskiptin ganga illa og hann tapar fé. Páll postuli skrifaði Korintumönnum: „Annars er það nú yfirleitt galli á yður, að þér eigið í málaferlum hver við annan. Hví líðið þér ekki heldur órétt? Hví látið þér ekki heldur hafa af yður?“ (1. Korintubréf 6:7) Gætir þú, safnaðarins vegna, ákveðið að láta hafa af þér fé í stað þess að leita til dómstóla?
12. Hvaða meginreglur Biblíunnar hjálpa þeim sem stunda viðskipti að forðast snöru ágirndarinnar?
12 Sérhver kristinn maður, sem stundar viðskipti, þarf að vera mjög gætinn. Harka og miskunnarleysi er mikið í viðskiptum en kristinn maður getur ekki hegðað sér þannig. Hann má aldrei gleyma að hann er lærisveinn Krists. Hann vill ekki fá á sig það orð að vera óheiðarlegur, braskari eða undirförull í viðskiptum. (Samanber Orðskviðina 20:14, Jesaja 33:15) Og hann ætti aldrei að gleyma aðvörun Jesú gegn því að gera auðinn að guði sínum, eða aðvörun Jóhannesar gegn „fýsn holdsins og fýsn augnanna og auðæfa-oflæti.“ (1. Jóhannesarbréf 2:16; Matteus 6:24) Ef þú ert kristinn maður og stundar viðskipti, getur þú staðist þá freistingu að höfða til ágirndar annarra í þeim tilgangi að auka viðskipti þín? Myndir þú spila á hégómagirnd manna eða dramb til að efla viðskipti þín? Hagar þú veraldlegu starfi þínu á þann hátt að þú skammast þín ekki fyrir að tala um það við Jehóva í bænum þínum? — Matteus 6:11; Filippíbréfið 4:6, 7.
13, 14. (a) Hvaða jafnvægi verða efnaðir kristnir menn að varðveita? En þeir sem eru ekki efnaðir? (b) Hvernig hjálpar bænin í Orðskviðunum 30:8 okkur að vera skynsöm þegar efni og auður eiga í hlut?
13 Páll skrifaði Tímóteusi: „Þeir, sem ríkir vilja verða, falla í freistni og snöru og alls kyns óviturlegar og skaðlegar fýsnir, er sökkva mönnunum niður í tortímingu og glötun.“ (1. Tímóteusarbréf 6:9) Að vera ríkur er ekki synd enda þótt auðlegð hafi í för með sér sín vandamál og freistingar. (Matteus 19:24-26) Það sem er hættulegt er að ‚vilja verða ríkur.‘ Til dæmis sagði öldungur: „Vandamálið byrjar oft þegar maður lítur á efnaðan, kristinn bróður sinn og segir: ‚Hvers vegna get ég ekki verið eins og hann?‘“
14 Biblían hvetur: „Sýnið enga fégirni í hegðun yðar, en látið yður nægja það, sem þér hafið. Guð hefur sjálfur sagt: ‚Ég mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.‘“ (Hebreabréfið 13:5) Ef þú ert efnaður, lítur þú þá á það sem gjöf sem þú getur notað í þjónustu Jehóva? Einhverju sinni sagði Jesús ríkum, ungum manni að ef hann vildi fylgja sér yrði hann að gefa allan auð sinn. Ef Jesús hefði sagt það við þig, hefðir þú kosið að halda auði þínum eða fylgja Jesú? (Matteus 19:20-23) Ef þú ert ekki efnaður maður, getur þú þá gert þig ánægðan með það? Getur þú forðast þá snöru sem ágirndin er? Ert þú fús til að treysta loforði Jehóva: „Ég mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig“? — Sjá einnig Orðskviðina 30:8.
Vertu ríkur hjá Guði
15, 16. (a) Hvaða dæmisögu sagði Jesús til að styðja heilræði sín um ágirnd? (b) Hvað var að manninum í dæmisögu Jesú?
15 Þegar Jesús aðvaraði áheyrendur sína að ‚varast alla ágirnd,‘ sagði hann frá bónda sem fékk einstaklega góða uppskeru af ökrum sínum. Þá hugsaði maðurinn með sér: „‚Hvað á ég að gjöra? Nú get ég hvergi komið fyrir afurðum mínum.‘ Og hann sagði: ‚þetta gjöri ég: Ég ríf hlöður mínar og reisi aðrar stærri, og þangað safna ég öllu korni mínu og auðæfum. Og ég segi við sálu mína: Sála mín, nú att þú mikinn auð til margra ára, hvíl þig nú, et og drekk og ver glöð.‘“ En þessa sömu nótt dó maðurinn. Allur auðurinn, sem hann hafði safnað, hjálpaði honum ekki hið minnsta. Jesús lauk sögunni þannig: „Svo fer þeim er safnar sér fé, en er ekki ríkur hjá Guði.“ — Lúkas 12:16-21.
16 Framdi maðurinn einhverja augljósa synd svo sem rán eða þjófnað? Dæmisagan greinir ekki frá því. Samt sem áður átti hann við vandamál að glíma. Hann reiddi sig á auð sinn til að tryggja sér örugga framtíð og gleymdi því sem var þýðingarmeira — að vera „ríkur hjá Guði.“ Ástæðan fyrir því að kristnir menn geta forðast snöru ágirndarinnar og varast að vera hluti af heiminum er einmitt sú að þeir láta samband sitt við Guð ganga fyrir öllu öðru — Jóhannes 17:16.
17. Hvernig lítur öfgalaus kristinn maður á brauðstritið?
17 Jesús ráðlagði einu sinni: „Segið því ekki áhyggjufullir: ‚Hvað eigum vér að eta? Hvað eigum vér að drekka? Hverju eigum vér að klæðast?‘ Allt þetta stunda heiðingjarnir.“ (Matteus 6:31, 32) Að vísu blasa við okkur öllum sömu vandamálin og ‚heiðingjunum.‘ Flest okkar þurfa að vinna hörðum höndum til að geta keypt okkur nauðsynlegan mat, drykk og klæðnað. (2. Þessaloníkubréf 3:10-12) En við neitum að láta slíkt skyggja á það að vera ‚ríkir hjá Guði.‘
18. Hvernig mun traust til Jehóva gera okkur kleift að forðast snöru ágirndarinnar?
18 Jehóva er uppspretta alls auðs. (Postulasagan 14:15, 17) Hann hefur lofað að gæta þjóna sinna sérstaklega vel. Jesús sagði: „Yðar himneski faðir veit, að þér þarfnist alls þessa. En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki.“ (Matteus 6:32, 33; Sálmur 37:25) Trúir þú þessu fyrirheiti? Treystir þú að Jehóva muni standa við það? Munt þú gera þig ánægðan með það sem Jehóva veitir þér? Ef svo er munt þú geta forðast snöru ágirndarinnar. (Kolóssubréfið 3:5) Þjónusta þín við Jehóva og samband við hann mun alltaf vera í fyrirrúmi, og lífshættir þínir í heild munu lýsa glöggt trú þinni á hann.
Manst þú?
◻ Hvers konar fólk verður ágirndinni að bráð?
◻ Hvernig getum við varast ágirnd?
◻ Hvernig birtist ágirndin stundum?
◻ Hvaða spurningar hjálpa okkur að kanna hvort við forðumst snöru ágirndarinnar eða ekki?
◻ Hvað er okkur mikil vernd gegn ágirndinni?
[Rammi á blaðsíðu 29]
Þegar kristnir menn eiga viðskipti saman ættu þeir aldrei að gleyma meginreglum Biblíunnar