Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w90 1.7. bls. 4-6
  • Hugsaðu þér heim án ágirndar

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Hugsaðu þér heim án ágirndar
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1990
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Ágirnd upprætt með menntun
  • Árangur biblíufræðslunnar
  • Nýr heimur án ágirndar
  • „Áratugur ágirndarinnar“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1990
  • Láttu þér lánast að forðast snöru ágirndarinnar
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1994
  • Varastu stöðugt snöru ágirndarinnar
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1985
  • Þú getur sloppið úr snörum Satans!
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2021
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1990
w90 1.7. bls. 4-6

Hugsaðu þér heim án ágirndar

GETUR þú séð fyrir þér heim þar sem fólk vinnur saman í stað þess að keppa hvert við annað? Getur þú séð fyrir þér heim þar sem menn koma fram við hver annan eins og þeir vilja láta koma fram við sig? Þannig verður heimur án ágirndar. Mun slíkur heimur verða að veruleika? Já, hann mun koma. En hvernig er hægt að uppræta ágirndina sem á sér svo djúpar rætur með manninum?

Til að svara því er nauðsynlegt að skilja hver er uppruni ágirndarinnar. Biblían gefur til kynna að hún hafi ekki alltaf fylgt mannkyninu. Spámaðurinn Móse minnir okkur á að engan slíkan ágalla, sem ágirndin er, hafi verið að finna með fyrsta manninum, hinu fullkomna sköpunarverki Guðs. „Bjargið — fullkomin eru verk hans, því að allir vegir hans eru réttlæti.“ Hvaðan er ágirndin þá komin? Fyrstu mannhjónin leyfðu ágirnd að festa rætur hjá sér — Eva með því að sækjast áfergjulega eftir því sem hún hélt sig mundu ávinna með því að eta ávöxtinn sem Guð hafði bannað henni, Adam með því að vilja ekki hvað sem það kostaði missa hina fögru konu sína. Móse bætir við, og má einnig heimfæra það upp á Adam og Evu: „Þeir hafa sjálfir hegðað sér skaðvænlega, þeir eru ekki börn hans, gallinn er þeirra eigin.“ — 5. Mósebók 32:4, 5, NW; 1. Tímóteusarbréf 2:14.

Er nálgaðist heimsflóðið á dögum Nóa var ágirnd manna orðin svo mögnuð að ‚illska mannsins var mikil á jörðinni og allar hugrenningar hjarta hans voru ekki annað en illska alla daga.‘ — 1. Mósebók 6:5.

Alla tíð síðan hefur ágirndin verið ríkjandi eiginleiki manna á meðal og virðist nú hafa náð hátindi vanþakklætis og græðgi.

Ágirnd upprætt með menntun

En úr því að ágirndin meðal manna hefur vaxið ætti með sama hætti að vera hægt að bæla hana niður. Til að það sé gerlegt þarf að koma til viðeigandi menntun og þjálfun samhliða mjög svo ákveðnum hegðunarreglum. En hver getur staðið fyrir þess konar menntun og tryggt að menn fari eftir því sem þeir læra — og framfylgt því með festu ef þörf krefur?

Sá einn sem er laus við alla ágirnd getur veitt mönnum slíka fræðslu. Hann má ekki bera í brjósti neinar annarlegar hvatir eða vænta einhvers ábata í stað fræðslunnar. Auk þess þarf að kenna og sýna fram á að óeigingirni sé í senn raunhæf og eftirsóknarverð. Nemandinn þarf bæði að vera sannfærður um að það sé hægt að lifa þannig og að það sé eftirsóknarvert, bæði fyrir sjálfan hann og aðra.

Aðeins Guð himnanna getur veitt mönnum þess konar fræðslu því að enginn maður og engin samtök manna hér á jörð eru þess megnug. Allir menn eru óhæfir til þess vegna þess sannleika sem Biblían lýsir yfir: „Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð.“ — Rómverjabréfið 3:23.

Til allrar hamingju veitir Jehóva, Guð himnanna, okkur slíka menntun í kennslubók sinni eða handbók, heilagri Biblíu. Sonur hans, Jesús Kristur, beitti sér fyrir slíkri kennslu er hann var maður hér á jörð. Í sinni frægu fjallræðu talaði hann um lífshætti sem flestum áheyrenda hans hafa þótt kynlegir, því að hann lagði áherslu á óeigingirni jafnvel gagnvart óvinum eða andstæðingum. Jesús sagði: „Elskið óvini yðar, og biðjið fyrir þeim, sem ofsækja yður, svo að þér reynist börn föður ykkar á himnum, er lætur sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta. Þótt þér elskið þá, sem yður elska, hver laun eigið þér fyrir það? Gjöra ekki tollheimtumenn hið sama?“ — Matteus 5:44-46.

Tilgangurinn með komu Jesú var meðal annars sá að þjálfa óeigingjarna menn til að þeir gætu síðan frætt aðra um lífsveg án ágirndar. Nokkru eftir dauða Jesú og upprisu varð Páll postuli einn af þessum fræðurum. Í nokkrum af innblásnum bréfum sínum hvatti Páll til þess að menn upprættu ágirndina. Til dæmis skrifaði hann Efesusmönnum: „En frillulífi og óhreinleiki yfirleitt eða ágirnd á ekki einu sinni að nefnast á nafn meðal yðar. Svo hæfir heilögum.“ — Efesusbréfið 5:3.

Eins er það nú á dögum að vottar Jehóva kenna körlum og konum að bæla niður tilhneiginguna til ágirndar. Smám saman verður þetta fólk síðan hæft til að fara út og kenna öðrum að ganga vegu guðrækninnar.

Árangur biblíufræðslunnar

En þú spyrð kannski hvort ófullkomnir menn geti upprætt ágirnd úr fari sínu þegar á það er litið hve djúpar rætur hennar eru. Já, þeir geta það, að vísu ekki fullkomlega en þó að mjög miklu leyti. Við skulum líta á nokkur dæmi um það.

Á Spáni bjó forhertur þjófur. Heimili hans var fullt af stolnum varningi. Þá byrjaði hann að nema Biblíuna með vottum Jehóva. Afleiðingin varð sú að samviskan fór að naga hann, þannig að hann ákvað að skila aftur því sem hann hafði stolið. Hann kom að máli við fyrrverandi vinnuveitanda sinn og viðurkenndi að hafa stolið nýrri þvottavél frá honum. Vinnuveitandanum þótti svo mikið til um þessa viðhorfsbreytingu að hann ákvað að kæra málið ekki til lögreglunnar heldur leyfa þjófnum einfaldlega að greiða fyrir þvottavélina.

Því næst ákvað þessi fyrrverandi þjófur að heimsækja alla þá sem hann gat munað eftir að hafa stolið frá og skila hinum stolnu munum. Allir sem hann heimsótti létu í ljós undrun sína yfir þessari miklu breytingu sem það hefði haft á hann að tileinka sér meginreglur Biblíunnar.

En nú stóð hann frammi fyrir erfiðu vandamáli. Hann vissi ekki um eigendur að mörgu sem hann enn hafði í fórum sínum. Eftir að hafa beðið til Jehóva gaf hann sig því fram við lögregluna og afhenti henni sex útvarpstæki sem hann hafði stolið úr bifreiðum. Lögreglan varð harla undrandi því að nafn hans var hvergi á skrám hjá þeim. Hann var dæmdur til að greiða sekt og sitja skamman tíma í fangelsi.

Þessi fyrrverandi þjófur hefur núna hreina samvisku því að hann hefur snúið baki við afbrotum og ágirnd og er orðinn hluti af heimssöfnuði votta Jehóva.

Hægt væri að nefna sambærilegar frásögur í þúsundatali. Þótt þeir sem breytt hafa lífi sínu með þessum hætti séu einungis minnihluti jarðarbúa er sú staðreynd að margir hafa gert það eigi að síður vitnisburður um það hvílíkt afl til góðs þekking á meginreglum Biblíunnar er.

Með hverju árinu sem líður taka fleiri og fleiri að ganga þennan lífsveg. Í meira en 60.000 söfnuðum votta Jehóva um allan heim fer nú fram biblíufræðsla. Vottar Jehóva búast ekki við því að þeir geti breytt öllum heiminum og kennt öllum þeim milljörðum manna, sem byggja hann, og þar með upprætt ágirnd með öllu. Eigi að síður gefa spádómar Biblíunnar til kynna að þess sé mjög skammt að bíða að ágirndin verði með öllu upprætt úr heiminum!

Nýr heimur án ágirndar

Ágirnd mun ekki eiga heima í hinum nýja heimi sem koma mun. Pétur postuli fullvissar okkur um að réttlæti muni vera aðalsmerki bæði hinna ‚nýju himna‘ og hinnar ‚nýju jarðar.‘ (2. Pétursbréf 3:13) Ágirnd mun heyra til hinu „fyrra“ sem verður farið, ásamt sjúkdómum, sorg og meira að segja dauðanum. — Opinberunarbókin 21:4.

Misstu ekki kjarkinn þótt þér hrjósi hugur við því hve ágirnd og eigingirni magnast í kringum okkur. Byrjaðu nú þegar að lifa fyrir hinn komandi nýja heim sem brátt mun verða að veruleika. Leggðu þig fram, með Guðs hjálp, um að uppræta ágirnd úr fari þínu. Leggðu fram krafta þína við að hjálpa öðrum við að koma auga á hvílíka kosti það hefur nú þegar að fylgja vegi kristninnar. Settu trú þína og traust á fyrirheit Jehóva Guðs um að ágirnd muni mjög bráðlega verða eitt af því sem ‚ekki skal minnst verða og engum í hug koma.‘ — Jesaja 65:17.

[Mynd á blaðsíðu 5]

Jesús talaði um lífshætti sem stuðla að óeigingirni, ekki græðgi

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila