Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w87 1.7. bls. 24-29
  • Sýndu að þú kunnir að meta kærleika Jehóva og Jesú

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Sýndu að þú kunnir að meta kærleika Jehóva og Jesú
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1987
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Hús úr húsi
  • Endurheimsóknir
  • Biblíunám
  • Götustarf
  • Óformlegur vitnisburður
  • Nýir boðnir velkomnir
  • Bréflegur vitnisburður
  • Vitnisburður í gegnum síma
  • Vitnisburður góðrar breytni
  • Blessun fylgir því að meta kærleika Jehóva — 2. hluti
    Ríkisþjónusta okkar – 2001
  • Blessun fylgir því að meta kærleika Jehóva — 1. hluti
    Ríkisþjónusta okkar – 2001
  • Að bera vitni hús úr húsi
    Ríkisþjónusta okkar – 2006
  • Talið um dýrð konungdóms Guðs
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1988
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1987
w87 1.7. bls. 24-29

Sýndu að þú kunnir að meta kærleika Jehóva og Jesú

„Vér elskum, því að hann elskaði oss að fyrra bragði.“ — 1. JÓHANNESARBRÉF 4:19.

1. Hvaða fordæmi gaf Jesús okkur?

HVERNIG getum við best látið í ljós að við metum að verðleikum hinn mikla kærleika sem Jehóva Guð og Jesús Kristur hafa sýnt okkur? Ein helsta leiðin er að líkja eftir Jesú sem bar óþreytandi vitni um nafn föður síns og ríki. (1. Pétursbréf 2:21) Hann gerði það á heimilum fólks, í samkunduhúsunum, í musterinu, í fjallshlíðunum og við ströndina. Við skulum skoða níu mismunandi leiðir sem við getum notað til að bera vitni.

Hús úr húsi

2. Hvernig getur þú sýnt úthald í starfinu hús úr húsi?

2 Einhver augljósasta leiðin til að sýna kærleika okkar og þakklæti er sú að bera fagnaðarerindið um ríki Guðs hús úr húsi. Það krefst mikillar djörfungar af okkur, því að við mætum augliti til auglitis mönnum sem þykir fyrst og fremst stafa ónæði af okkur. Það kallar á ósvikinn kærleika til Guðs og náungans að halda áfram að fara hús úr húsi, þótt við rekum okkur á skeytingarleysi, gremju, fyrirlitningu eða beina andstöðu. — Samanber Esekíel 3:7-9.

3. Hver er biblíulegur grundvöllur starfsins hús úr húsi?

3 Frásaga guðspjallanna af leiðbeiningum Jesú til postulanna tólf, og síðar til lærisveinanna sjötíu, gefur skýrt til kynna að þeir áttu að fara hús úr húsi og prédika fagnaðarerindið um ríki Guðs. (Matteus 10:5-14; Lúkas 10:1-7) Í Postulasögunni 20:20 segir Páll frá því að hann hafi farið hús úr húsi. Sumir hafa túlkað orð hans svo að þau ættu við hirðisheimsóknir, en 21. versið tekur af öll tvímæli um hvaða starf sé átt við. Þar bætir Páll við: „[Ég] vitnaði bæði fyrir Gyðingum og Grikkjum“ — ekki kristnum bræðrum og systrum — „um afturhvarf til Guðs og trú á Drottin vorn Jesú.“ Þegar öldungur fer í hirðisheimsóknir er hann venjulega ekki að hvetja til ‚afturhvarfs til Guðs og trúar á Jesú.‘ Þá hvetur hann kristna bræður sína til að meta enn betur samkomurnar og þjónustuna, eða hjálpar þeim að leysa persónuleg vandamál.

4. Hvað hvetur okkur til að taka þátt í að prédika hús úr húsi?

4 Sú aðferð að fara hús úr húsi á sér bæði traustan grundvöll í Ritningunni og skilar árangri sem sýnir að Jehóva blessar hana. Já, „spekin sannast af verkum sínum.“ (Matteus 11:19) Oft hafa þeir sem starfa hús úr húsi séð merki um handleiðslu engla sem hafa leitt þá til fólks sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu. Húsráðandi hefur sagt að hann hafi beðið Guð um hjálp og að heimsókn vottanna sé svar við þeirri bæn.

5. Hvaða gott hjálpargagn höfum við fyrir starfið hús úr húsi og hvernig getur það hjálpað okkur?

5 Bókin Rökrætt út af Ritningunni! er afbragðs hjálpargagn í þjónustunni á akrinum. Í henni eru fjölmörg dæmi um góð kynningarorð á boðskap Biblíunnar, og gagnlegar upplýsingar um ótal biblíuleg eða trúarleg viðfangsefni. Við þurfum bæði að hafa hana með okkur og muna eftir að nota hana. Sér í lagi brautryðjendur hafa látið í ljós hve verðmætt hjálpargagn hún sé við þjónustuna á akrinum. Gætir þú sýnt þakklæti þitt fyrir kærleika Guðs með því að nota þessa bók betur og áhrifaríkar?

6. Hvaða gagn höfum við sjálf af því að boða Guðsríki hús úr húsi?

6 Við megum ekki láta okkur yfirsjást að sjálf höfum við mikið gagn af þátttöku í þjónustunni hús úr húsi. Þegar við látum trú okkar birtast í verki og tölum með sannfæringu styrkir það trú okkar. Við getum ekki talað við aðra um von okkar án þess að hún standi okkur skýrar fyrir hugskotssjónum. Ekkert getur hjálpað okkur meira við að rækta ávexti andans, nefndir í Galatabréfinu 5:22 og 23, en regluleg þátttaka í þjónustunni hús úr húsi. Svo hlýtur að vera því að Biblían fullvissar okkur: „Örlátur maður dafnar; sá sem hressir aðra hlýtur sjáfur hressingu.“ — Orðskviðirnir 11:25, New International Version.

Endurheimsóknir

7, 8. Hvaða rökréttar og eðlilegar ástæður eru fyrir því að fara í endurheimsóknir?

7 Önnur leið til að sýna að við metum að verðleikum þann kærleika, sem Guð og Kristur hafa sýnt okkur, er að heimsækja aftur þá sem áður hafa sýnt boðskapnum um Guðsríki áhuga. Páll og Barnabas létu sér umhugað um þá sem þeir höfðu prédikað fyrir. (Postulasagan 15:36) Við værum ekki sjálfum okkur samkvæm ef við færum ekki aftur til þeirra sem sýna áhuga. Þegar við berum vitni hús úr húsi, óformlega eða á götum úti, erum við að leita að fólki sem skynjar andlega þörf sína. (Matteus 5:3) Augljóslega er ekki nóg að gefa þeim eins og eitt glas af andlegu vatni eða eina sneið af andlegu brauði. Þeir þurfa meiri hjálp til að komast inn á veginn til lífsins.

8 Þegar við tölum við fólk í fyrsta sinn má líkja því við það að sá frækornum sannleikans. En eins og Páll postuli gaf í skyn í 1. Korintubréfi 3:6, 7 þarf að gera meira. Það var ekki nóg að hann gróðursetti. Frækornin þurftu að fá vökvun sem Apollós sá um. Þá mátti við því búast að Guð gæfi vöxt. Sumir vanrækja þennan þátt starfsins þótt margir álíti hann auðveldasta atriði hinnar kristnu þjónustu. Hvers vegna? Vegna þess að fólkið, sem við heimsækjum, hefur nú þegar sýnt einhvern áhuga.

Biblíunám

9. Hvers vegna ætti það að vera markmið okkar að stofna biblíunám?

9 Þegar við heimsækjum reglulega þá sem sýnt hafa boðskapnum um Guðsríki áhuga verður árangurinn oft biblíunám — en það er þriðja leiðin til að sýna þakklæti okkar. Sú grein þjónustunnar getur veitt okkur meiri ánægju og umbun en nokkur önnur. Hvers vegna? Það er mikil gleði að sjá fólk vaxa í þekkingu og skilningi á sannindum Biblíunnar, sjá það breyta lífi sínu og leggja því lið þar til það vígir sig til að gera vilja Guðs og lætur skírast! Við getum litið á slíka einstaklinga sem andleg börn okkar og okkur sjálf sem andlega foreldra þeirra. — Samanber 1. Korintubréf 4:14, 15; 1. Pétursbréf 5:13.

10. Hvaða dæmi sýnir hve verðmætt er að stjórna biblíunámi?

10 Við skulum taka eitt dæmi. Trúboði, sem var að starfa hús úr húsi á eyju í Karíbahafi, hitti hippahjón sem voru allt annað en vel og snyrtilega til fara. Þau létu þó í ljós áhuga og þáðu biblíurit. Biblíunám var hafið með þeim. Þau bjuggu í óvígðri sambúð og áttu nokkur börn. Eftir því sem náminu miðaði áfram urðu bæði þau, börnin og heimilið snyrtilegri. Ekki leið á löngu áður en þau báðu trúboðann að gefa sig saman í hjónaband svo að þau gætu látið skírast. Einn góðan veðurdag sýndi þessi nýi bróðir ökuskírteinið sitt geislandi af gleði. Hann hafði aldrei haft ökuréttindi áður en hann varð vottur Jehóva, þótt hann æki bíl, og ekki séð ástæðu til að lögleiða hjónaband sitt. Núna hlýddi hann bæði lögum Guðs og keisarans.

Götustarf

11, 12. (a) Hvernig hvetur Ritningin okkur til að taka þátt í götustarfi? (b) Hvaða ástæðu höfum við til að gera það?

11 Fjórða leiðin til að sýna, að við metum að verðleikum það sem Guð og Kristur gerðu fyrir okkur, er vitnisburður á götum úti. Þegar við tökum þátt í honum eigum við hlut í uppfyllingu Orðskviðanna 1:20, 21 með fremur bókstaflegum hætti: „Spekin kallar hátt á strætunum, lætur rödd sína gjalla á torgunum. Hún hrópar á glaummiklum gatnamótum.“

12 Það eru ótal góðar ástæður til að taka reglulega þátt í þessari grein prédikunar Guðsríkis. Víða verður æ erfiðara að finna fólk heima. Það er annaðhvort að vinna úti, að versla eða stunda íþróttir og afþreyingu, og er því sjaldan heima. Sums staðar býr fólk í sérstökum fjölbýlishúsum þar sem mjög erfitt er að komast inn eða jafnvel á gistiheimilum og hótelum. Við höfum möguleika á að hitta marga þeirra á götum úti.

13. Hvaða árangri má ná með götustarfi? Nefndu dæmi.

13 Öldungur í Bandaríkjunum stjórnar nú fjórum biblíunámum með einstaklingum sem hann náði fyrst sambandi við í götustarfi. Að sjálfsögðu stendur hann ekki þegjandi á götuhorni með blöðin í hendinni. (Í sumum löndum er það þó allt og sumt sem lög leyfa.) Með vingjarnlegu brosi og glaðlegri röddu tekur hann tali fólk sem til dæmis stendur og bíður eftir strætisvagni eða gengur í rólegheitum eftir götunni. Hann gætir þess að ‚mál hans sé ljúflegt og salti kryddað‘ og vegur og metur hvernig hann skuli haga orðum sínum við hvern og einn. (Kólossubréfið 4:5, 6; 1. Pétursbréf 3:15) Bæði hefur hann hafið biblíunám með einstaklingum, sem hann hefur hitt í götustarfi, og dreift ritum í miklum mæli. Sá sem er snyrtilega til fara, brosir vingjarnlega og talar með djörfung getur náð góðum árangri í blaðastarfi á götum úti. Meira að segja dreifðu fimm vottar nýlega yfir 30 eintökum af bókinni Lífið — varð það til af völdum þróunar eða sköpunar? á almennum verslunarsvæðum. Margir, sem þáðu bækurnar, sátu í bílum sínum.

Óformlegur vitnisburður

14. Hvað sýnir að óformlegur vitnisburður er mjög verðmætur?

14 Óformlegur vitnisburður er fimmta leiðin til að sýna að við kunnum að meta þann mikla kærleika sem Guð og Kristur hafa sýnt okkur. Þessi aðferð hefur oft reynst afbragðsgóð leið til að finna fólk sem hungrar og þyrstir eftir réttlæti, og skilja eftir rit hjá því. Óformlegur vitnisburður er ein aðferð til að fara eftir hvatningu Efesusbréfsins 5:15, 16 um að ‚nota hverja stundina.‘ Trúboði hóf samræður við annan farþega í leigubifreið. Maðurinn sýndi áhuga, trúboðinn heimsótti hann nokkrum sinnum og biblíunám var hafið. Núna er þessi maður kristinn öldungur. Annars staðar hóf öldungur samræður við konu sem var í þann mund að skipta um trú til að geta gifst Gyðingi. Hún vildi gjarnan fá að vita hvenær Móse, Nói, Davíð og fleiri hefðu verið uppi. Bróðirinn sagði henni að hún þyrfti að eignast „Biblíusögubókina“ sem greinir frá atburðum biblíusögunnar í tímaröð. Þótt hann væri henni með öllu ókunnugur gaf hún honum fúslega nafn sitt og heimilisfang og greiddi fyrir bókina, til að hann gæti sent henni hana í pósti.

15. Hvað getur hjálpað okkur að vera vakandi fyrir tækifærum til að bera óformlega vitni?

15 Stundum hikum við kannski að hefja samræður við ókunnuga á förnum vegi, því að við óttumst að okkur verði hafnað hranalega eða kuldalega. Oft fáum við þó ríkulega umbun ef við tökum í okkur kjark til þess! Ef okkur er ljós gæska Guðs og þörf manna fyrir boðskapinn gefur það okkur oft hugrekki. Mundu að „ekki gaf Guð oss anda hugleysis, heldur anda máttar og kærleiks og stillingar.“ — 2. Tímóteusarbréf 1:7.

Nýir boðnir velkomnir

16. Hvers vegna eigum við að hafa augun opin fyrir ókunnugum sem koma í Ríkissalinn?

16 Sjötta leiðin til að sýna Guði og Kristi þakklæti okkar er að bjóða velkomna ókunnuga sem koma í Ríkissalinn. Náungakærleikur ætti að gera okkur vakandi fyrir ókunnugum sem koma á samkomur okkar. Leggjum okkur fram um að láta þá finna að þeir séu velkomnir, að þeir séu meðal vina sem hafa einlægan áhuga á andlegri velferð þeirra. Að öllum líkindum er það ekki tóm forvitni sem hefur dregið þá á samkomur okkar. Vera má að þá hungri og þyrsti eftir réttlætinu. Ósvikin umhyggja okkar fyrir þeim getur orðið til þess að hefja megi biblíunám og hjálpa þeim inn á veginn til lífsins. (Matteus 5:3, 6; 7:13, 14) Það hefur mjög oft gerst. Trúboði frá fyrsta bekk biblíuskóla Varðturnsins, Gíleað, segir að tvo af bestu biblíunemendunum, sem hann hafi hjálpað, hafi hann fyrst hitt í Ríkissalnum.

Bréflegur vitnisburður

17. Hvaða árangri má ná með bréflegum vitnisburði?

17 Sjöunda leiðin til að boða Guðsríki, í þakklætisskyni fyrir kærleika Guðs og Krists, er með bréfaskriftum. Þeir sem bera vitni með þessum hætti fá mjög oft þakkarbréf frá þeim sem kunna að meta vitnisburð þeirra. Sumir þjónar orðsins í fullu starfi nota þessa aðferð ef þeir geta ekki um stundar sakir farið hús úr húsi sökum veikinda. Tökum dæmi: Þegar tólf barna faðir kom heim til sín dag nokkurn uppgötvaði hann að vinur einnar af dætrum hans hafði skotið fimm af börnunum með köldu blóði. Án árangurs leitaði hann hughreystingar hjá prestum kristna heimsins. Þá fékk hann dag nokkurn bréf frá ókunnugri konu, votti sem hafði lesið blaðafregnir af þessum harmleik og vildi hughreysta hann. ‚Sannleiksbókin‘ fylgdi bréfinu. Þetta var það sem maðurinn hafði verið að leita að. Núna er hann líka kostgæfur vottur.a

Vitnisburður í gegnum síma

18, 19. Hvaða önnur prédikunaraðferð hefur sýnt ágæti sitt og hvers vegna?

18 Síminn býður einnig upp á tækifæri til að prédika fagnaðarerindið um Guðsríki. Það er áttunda aðferðin sem nefna má. Þeim fer fjölgandi sem nota síma til að bera vitni, og það er aðferð sem hefur margt til síns ágætis. Í gegnum símann náum við til sumra sem ekki tekst að hitta þegar starfað er hús úr húsi. Ef við erum vingjarnleg, háttvís og tillitssöm getum við stundum náð betri árangri en með beinum heimsóknum.

19 Japönskumælandi söfnuður í enskumælandi landi notar símaskrána sem hluta starfssvæðis síns. Boðberar hringja til Japana, sem þeir finna í skránni, og fara síðan í heimsókn þangað sem þeir finna áhuga. Með þessum hætti hafa þeir stofnað tugi biblíunáma.

Vitnisburður góðrar breytni

20, 21. Hvaða áhrif getur breytni okkar haft? Nefndu dæmi.

20 Góð breytni er níunda aðferðin til að lofa Guð. Rússneskur blaðamaður sagði einu sinni að góð breytni okkar væri besta prédikunin. Fjölmiðlar hafa margsinnis hrósað vottum Jehóva fyrir sitt góða siðferði. Í þýsku dagblaði stóð: „Vottar Jehóva eru greinilega heiðarlegasta fólk Sambandslýðveldisins.“ Ung stúlka, sem var vottur, færði kennaranum sínum „Skólabæklinginn“ í byrjun kennsluárs. Hann afþakkaði höstuglega og sagðist ekkert vilja með votta Jehóva hafa. Smám saman ávann stúlkan sér virðingu kennarans með góðri breytni sinni svo að viðhorf hans til vottanna gerbreyttist. Bréf sem kristnir foreldrar fengu frá kennara barna sinna var í svipuðum dúr: „Börnin ykkar eru vitnisburður, sem ekki er hægt að afneita, um áhrif trúar ykkar.“

21 Heimurinn getur ekkert gott sagt um votta Jehóva án þess að heiðra Guð og Krist. Þannig hlýtur það að vera. Sagði ekki Jesús að við ættum að láta ljós okkar skína svo að menn gætu séð góð verk okkar og heiðrað okkar himneska föður? (Matteus 5:16) Með góðri breytni okkar getum við verið sannleikanum til prýði. (Títusarbréfið 2:10) Sú staðreynd að góð breytni okkar er Guði og Kristi til lofs og hjálpar öðrum að komast inn á veginn til lífsins, er ærin ástæða til þess að láta okkur annt um að breytni okkar sé alltaf ámælislaus.

22. Hvaða leið til að sýna þakklæti þitt vilt þú leggja sérstaka áherslu á og hvers vegna?

22 Eins og við höfum séð er með mörgu móti hægt að sýna þakklæti fyrir allt það sem Jehóva og Jesús Kristur hafa gert fyrir okkur, einkum hinn mikla kærleika þeirra. Samtímis getum við sýnt hve djúpur náungakærleikur okkar er. — Markús 12:30, 31.

23. Hvernig má auk þess sýna Guði og Jesú þakklæti sitt?

23 Loks er að nefna að við getum sýnt að við kunnum að meta hinn mikla kærleika Guðs og Krists með því að vera viðstödd kvöldmáltíð Drottins. Síðasta kvöldið, sem Jesús var maður á jörð, stofnaði hann árlega minningarmáltíð þar sem borið skyldi fram brauð og vín til tákns um hold hans og blóð. Hann bauð að þessi hátíð skyldi haldin til minningar um hann. (1. Korintubréf 11:23-26) Út um alla jörðina koma vottar Jehóva saman einu sinni á ári í hlýðni við boð Jesú. Þú getur sýnt þakklæti þitt með því að vera viðstaddur þessa hátíð.

[Neðanmáls]

a Ítarlegri frásögu er að finna í Vaknið! (enskri útgáfu) þann 22. október 1986, bls. 12-16.

Upprifjun

◻ Hvernig og hvar bar Jesús vitni?

◻ Á hvaða vegu getum við líkt eftir Jesú og sýnt þakklæti fyrir hinn mikla kærleika Guðs?

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila