Blessun fylgir því að meta kærleika Jehóva — 2. hluti
1 Í fyrri hluta þessarar greinar var bent á fjóra þætti boðunarstarfsins þar sem við getum lagt okkar af mörkum til að sýna að við kunnum að meta kærleika Jehóva. (1. Jóh. 4:9-11) Í þessum hluta er bent á fimm leiðir til viðbótar. Við hljótum blessun ef við tökum fullan þátt í því að hjálpa öðrum andlega.
2 Óformleg boðun: Þetta er áhrifarík leið bæði til að finna fólk sem hungrar og þyrstir í réttlæti og til að láta það fá rit sem geta hjálpað því. Það er gott að ‚nota hverja stund‘ og vitna fyrir öllum sem við hittum hvenær sem tækifæri býðst. (Ef. 5:16) Við verðum kannski að herða upp hugann til að vitna með þessum hætti, en ef við metum kærleika Guðs mikils og höfum þarfir fólksins í huga notum við hvert tækifæri til að vitna. — 2. Tím. 1:7, 8.
3 Trúboði einn gaf sig á tal við samferðamann í leigubíl og hlaut ríkulega blessun fyrir. Maðurinn sýndi áhuga, farið var í endurheimsóknir til hans og biblíunámskeið var hafið. Hann tók við sannleikanum og varð að lokum safnaðaröldungur.
4 Bréfaskriftir: Ef við getum ekki farið hús úr húsi vegna heilsuleysis eða óblíðrar veðráttu gætum við skrifað bréf og vitnað stuttlega fyrir fólki sem við þekkjum, fyrir þeim sem misst hafa ástvini í dauðann eða fyrir fólki á safnaðarsvæðinu sem ekki var heima. Við getum látið tímabært smárit fylgja bréfinu. Biblíulegur boðskapur smáritana er heillandi og hvetur viðtakandann til að hafa samband ef hann hefur einhverjar spurningar. Gefðu upp heimilisfang þitt eða ríkissalarins; vinsamlegast notaðu ekki heimilisfang deildarskrifstofunnar.
5 Símaboðun: Þetta er góð leið til að ná til þeirra sem við getum ekki hitt í boðunarstarfinu hús úr húsi. Við getum fengið mjög góð viðbrögð ef við erum tillitssöm, vinsamleg, nærgætin og lagin. Í Ríkisþjónustu okkar í febrúar 2001, bls. 5-6, eru gagnlegar leiðbeiningar um hvernig hægt er að ná sem bestum árangri.
6 Þegar systir var að vitna símleiðis fyrir konu spurði hún hana hvort hún hefði hugsað mikið um framtíð sína og fjölskyldu sinnar. Konan sagðist hafa gert það og viðurkenndi að hún hefði vegna örvæntingar einangrað sig heima. Hún var snortin af einlægri umhyggju systurinnar og féllst á að hitta hana á markaði í nágrenninu og þáði síðan fúslega biblíunámskeið.
7 Að bjóða nýja velkomna: Ef við elskum náungann fylgjumst við með því þegar nýir mæta á samkomu og látum þá finna að þeir séu velkomnir. (Rómv. 15:7) Leyfum þeim að finna að þeir séu meðal fólks sem hefur raunverulegan áhuga á andlegri velferð þeirra. Einlæg umhyggja okkar og boð um biblíunámskeið fær þá kannski til að þiggja hjálp okkar.
8 Góð hegðun: Við prýðum sannleikann með góðri hegðun. (Tít. 2:10) Þegar fólk í heiminum talar vel um okkur sem votta Jehóva heiðrar það Guð. (1. Pét. 2:12) Þetta getur líka hjálpað öðrum að komast á braut lífsins.
9 Væri ekki tilvalið að skoða betur þessar fimm leiðir til að sýna hve mikils við metum kærleika Jehóva, og tileinka okkur þær? (1. Jóh. 4:16) Þegar þú gerir það uppskerðu ríkulega blessun.