Friður — fæst hann með afvopnun?
„ÞAÐ eru mestu mistök að rugla saman afvopnun og friði,“ sagði Winston Churchill fimm árum áður en þjóðirnar steyptu sér út í síðari heimsstyrjöldina. „Afvopnun á sér stað þegar friður ríkir,“ bætti hann við.
Hvílík þversögn! Hver ætli hætti á afvopnun uns friður er tryggður? En hvernig getur komist á sannur friður samtímis og verið er að hamstra vopn til stríðs? Þetta eru ógöngur sem stjórnmálamenn hafa aldrei fundið leið út úr.
Winston Churchill lét orð sín falla árið 1934, eftir að lokið var afvopnunarráðstefnunni sem Þjóðabandalagið hafði kallað saman aðeins tveim árum áður. Tilgangur ráðstefnunnar, sem hafði tekið tólf ár að undirbúa, var sá að koma í veg fyrir að Evrópa vígbyggist á ný. Um allan heim var fólki enn í fersku minni hin hryllilega slátrun níu milljóna hermanna í fyrri heimsstyrjöldinni, auk þeirra milljóna sem særðust og allra þeirra óbreyttu borgara sem féllu. En afvopnun varð aldrei að veruleika. Hvers vegna?
Tilraunir til afvopnunar
Þjóðir geta markað sér stranga afvopnunarstefnu en sjaldan framfylgt henni svo vel sé. Sem dæmi má nefna að samkvæmt Versalasáttmálanum árið 1919 var Þýskaland afvopnað og „fullnægjandi tryggingar gefnar og gerðar fyrir því að vopnabúnaður þjóðarinnar yrði sem minnstur, án þess þó að stofna þjóðaröryggi í voða.“ Það var gert í samræmi við eina af tillögum Woodrows Wilsons Bandaríkjaforseta er síðan var felld inn í 8. grein sáttmála Þjóðabandalagsins. En Hitler hafði ekki verið lengi við völd er hann tók að virða þessa stefnu að vettugi.
Tókst Sameinuðu þjóðunum betur að leggja traustan grunn að afvopnun eftir lok síðari heimsstyrjaldarinnar? Nei, en það stafaði ekki af því að skort hafi vilja eða viðleitni. Nú réðu þjóðirnar yfir kjarnorkuvopnum og afvopnun afar áríðandi. „Áður hafði því verið haldið fram að vígbúnaðarkapphlaup væru óhagkvæm í efnahagslegu tilliti og leiddu óhjákvæmilega til styrjaldar,“ segir The New Encyclopædia Britannica, „en nú var farið að halda fram þeim rökum að umtalsverð notkun kjarnorkuvopna ógnaði sjálfri siðmenningunni.“
Árið 1952 var sett á laggirnar afvopnunarnefnd tólf þjóða til að freista þess að stöðva vígbúnaðarkapphlaup austurs og vesturs sem þá var að færast í aukana. Henni mistókst ætlunarverk sitt og stórveldin tvö skipuðu þjóðum heims í tvær andstæðar fylkingar. Ýmsir aðrir samningar og sáttmálar hafa verið gerðir fram til okkar daga. Þrátt fyrir það hefur gagnkvæmt vantraust valdið því að alger afvopnun hefur aldrei komið til greina. The New Encyclopædia Britannica segir að einungis „óraunsæir hugsjónamenn aðhyllist hana.“
Kostnaðurinn reiknaður
Hver er kostnaðurinn samfara afvopnun eða ekki afvopnun? Kostnaður er ekki alltaf reiknaður í peningum. Atvinna í vopnatengdum iðnaði vegur þungt í þeirri umræðu. Víða um lönd er skattfé notað til vopnakaupa og framleiðsla þeirra örvar atvinnulíf. Afvopnun gæti því leitt til atvinnuleysis. Þess vegna hrýs stjórnendum landa, þar sem miklu fé er varið til varnarmála, hugur við algerri afvopnun. Í þeirra hugum er alger afvopnun martröð frekar en óraunhæf draumsýn.
Ekki er þó hægt að loka augunum fyrir því að það kostar gífurlegt fé að halda stríðsvélinni gangandi. Talið er að tíu af hundraði heildarframleiðslu heimsins sé varið til hermála. Hvað er það mikið fé? Tölur eru nokkuð breytilegar eftir verðbólgustigi en hugsaðu þér að eyða einni milljón sterlingspunda (yfir 100 milljónum íslenskra króna) til hermála á hverri mínútu! Hvaða mál myndir þú láta ganga fyrir ef þú hefðir slíkt fé til umráða? Neyðarhjálp til sveltandi fólks? Heilbrigðismál? Barnaverndarmál? Umhverfismál? Ótalmargt væri hægt að gera.
Lítum til dæmis á áætlunina um „dráttarvélar í stað skriðdreka“ sem nýverið var boðuð í Sovétríkjunum. Hún fellst í því að breyta sumum vopnaverksmiðjum svo að þar megi framleiða 200 tegundir „nútímalegra tækja til landbúnaðarframleiðslu.“ Hvers vegna er svona mikil þörf fyrir landbúnaðartæki? Að sögn breska tímaritsins Farming News kemur hún til af því að „einungis þriðjungur ávaxta og grænmetis, sem ræktaður er á ríkisbúum, kemst til neytandans. Afgangurinn rotnar á ökrunum eða eyðileggst í flutningum og geymsluhúsum.“
Það er auðvitað hrósunarvert að framleiða dráttarvélar í stað skriðdreka og það kemst í heimsfréttirnar af því að það er óvenjulegt. En áhrifin á heildarframleiðslu vopnabúnaðar eru hverfandi. Óteljandi hundruð milljónum punda, rúbla og dollara er áfram varið til hergagnaframleiðslu í heimi þar sem ‚menn gefa upp öndina af ótta og kvíða fyrir því er koma mun yfir heimsbyggðina,‘ eins og Jesús Kristur sagði fyrir. Hvernig er hægt að bægja slíkum ótta frá? Á alger afvopnun að halda áfram að vera aðeins draumur? Ef ekki, hvað þarf þá til að hrinda henni í framkvæmd? — Lúkas 21:26.