Fólk af ýmsum tungum heyrir fagnaðarerindið
„Tíu menn af þjóðum ýmissa tungna [munu] segja: ‚Vér viljum fara með yður, því að vér höfum heyrt, að Guð sé með yður.‘“ — SAKARÍA 8:23.
1. Hvaða aðstæður valdi Jehóva til að hefja boðun fagnaðarerindisins meðal margra þjóða og tungna?
STAÐUR og stund voru hin ákjósanlegustu. Nokkrum vikum áður höfðu Gyðingar og trúskiptingar frá að minnsta kosti 15 héruðum Rómaveldis streymt til Jerúsalem til að halda páska. Nú var hvítasunnudagur runninn upp. Á þessum degi heyrðu þúsundir manna fagnaðarerindið boðað á fjölda þeirra tungumála sem töluð voru í hinu víðlenda Rómaveldi og utan þess. En þetta var ekki tungumálaruglingur eins og í Babel forðum daga heldur skildu menn boðskapinn. Og þeir sem boðuðu trúna voru ósköp venjulegt fólk sem hafði fyllst heilögum anda. (Postulasagan 2:1-12) Þennan dag árið 33 varð kristni söfnuðurinn til og þá hófst jafnframt mikið fræðslustarf sem stendur yfir enn þann dag í dag og nær til allra þjóða og tungna.
2. Hvernig komu lærisveinar Jesú áheyrendum sínum á óvart á hvítasunnu árið 33?
2 Lærisveinar Jesú gátu sennilega talað grísku sem var eitt helsta tungumál þess tíma. Þeir töluðu einnig hebresku en hún var notuð í musterinu. Á hvítasunnudegi komu þeir áheyrendum sínum hins vegar á óvart með því að tala á þjóðtungum þeirra. Áheyrendur voru snortnir þegar þeir heyrðu sannleikann boðaðan á móðurmáli sínu. Áður en dagur var úti hafði lærisveinunum fjölgað úr fámennum hópi upp í meira en 3000! — Postulasagan 2:37-42.
3, 4. Hvernig breiddist fagnaðarerindið út þegar lærisveinarnir fluttust frá Jerúsalem, Júdeu og Galíleu?
3 Skömmu eftir þennan merkilega atburð brutust út miklar ofsóknir í Jerúsalem og „þeir sem dreifst höfðu, fóru víðs vegar og fluttu fagnaðarerindið“. (Postulasagan 8:1-4) Til dæmis má lesa í 8. kafla Postulasögunnar um Filippus trúboða sem var greinilega grískumælandi. Hann prédikaði fyrir Samverjum og sömuleiðis fyrir eþíópískum hirðmanni sem tók við boðskapnum um Krist. — Postulasagan 6:1-5; 8:5-13, 26-40; 21:8, 9.
4 Þegar kristnir menn dreifðust út frá einsleitu samfélagi Jerúsalem, Júdeu og Samaríu og leituðu sér að nýjum samastað urðu fyrir þeim nýjar þjóðir og ný tungumál. Vera má að sumir þeirra hafi einungis vitnað fyrir Gyðingum. Lærisveinninn Lúkas segir hins vegar: „Nokkrir þeirra voru frá Kýpur og Kýrene, og er þeir komu til Antíokkíu, tóku þeir einnig að tala til Grikkja og boða þeim fagnaðarerindið um Drottin Jesú.“ — Postulasagan 11:19-21.
Réttsýnn Guð — boðskapur handa öllum
5. Hvernig birtist réttsýni Jehóva í sambandi við fagnaðarerindið?
5 Þessi framvinda er í samræmi við starfshætti Guðs. Hann er réttsýnn og mismunar ekki mönnum. Eftir að Pétur fékk hjálp Jehóva til að breyta um afstöðu til fólks af þjóðunum sagði hann þakklátur í bragði: „Sannlega skil ég nú, að Guð fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim, sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.“ (Postulasagan 10:34, 35; Sálmur 145:9) Páll postuli, sem hafði áður ofsótt kristna menn, staðfesti að Guð sé óhlutdrægur og sagði: „[Guð] vill að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum.“ (1. Tímóteusarbréf 2:4) Réttsýni skaparans birtist meðal annars í því að allir hafa tækifæri til að eignast vonina um ríkið, óháð kynferði, kynþætti, þjóðerni og tungumáli.
6, 7. Í hvaða biblíuspádómum var sagt fyrir að fagnaðarerindið yrði útbreitt meðal allra þjóða og tungna?
6 Búið var að segja fyrir, mörgum öldum áður, að það ætti að boða fagnaðarerindið meðal allra þjóða. Samkvæmt spádómi Daníels átti að gefa Jesú „vald, heiður og ríki, svo að honum skyldu þjóna allir lýðir, þjóðir og tungur.“ (Daníel 7:14) Ljóst er að þessi biblíuspádómur er að rætast því að þetta tímarit kemur út á 151 tungumáli, og því er dreift um allan heim til að allir geti lesið um ríki Jehóva.
7 Biblían boðaði þá tíma þegar fólk af alls konar tungum myndi heyra lífsboðskap hennar. Sakaría spáði hvernig sönn tilbeiðsla myndi laða marga til sín og sagði: „Á þeim dögum munu tíu menn af þjóðum ýmissa tungna taka í kyrtilskaut eins Gyðings [hér er átt við andasmurða kristna menn sem tilheyra „Ísrael Guðs“] og segja: ‚Vér viljum fara með yður, því að vér höfum heyrt, að Guð sé með yður.‘“ (Sakaría 8:23; Galatabréfið 6:16) Og Jóhannes postuli lýsti sýn sem hann sá og sagði: „Mikill múgur, sem enginn gat tölu á komið, af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum. Þeir stóðu frammi fyrir hásætinu og frammi fyrir lambinu.“ (Opinberunarbókin 7:9) Við höfum séð þessa spádóma rætast.
Að ná til alls konar fólks
8. Að hverju höfum við þurft að laga boðunarstarfið?
8 Fólk er meira á faraldsfæti en áður var. Hnattvæðingin hefur stuðlað að því að margir flytja landa á milli. Fólk hefur flust í stríðum straumum frá svæðum þar sem geisa stríð og efnahagur er bágur, til svæða þar sem ástandið er stöðugra og fjárhagslegt öryggi meira. Víða um lönd hafa myndast eins konar nýlendur þar sem töluð eru erlend tungumál. Í Finnlandi eru töluð yfir 120 tungumál og í Ástralíu yfir 200, svo dæmi séu nefnd. Í einni borg Bandaríkjanna, San Diego, er hægt að heyra meira en 100 tungumál töluð!
9. Hvernig ættum við að líta á fólk á starfssvæðinu sem talar erlend tungumál?
9 Finnst okkur nærvera erlendra málhópa vera okkur til trafala í boðunarstarfinu? Auðvitað ekki. Við lítum á þá sem kærkomið tækifæri til að færa út kvíarnar í boðunarstarfinu. Við sjáum akra sem eru „hvítir til uppskeru“. (Jóhannes 4:35) Óháð þjóðerni fólks eða tungu reynum við að sinna þeim sem eru sér meðvita um andlega þörf sína. Árangurinn er sá að á hverju ári fjölgar fólki af öllum tungumálum sem gerist lærisveinar Krists. (Opinberunarbókin 14:6) Í ágúst 2004 var fagnaðarerindið til dæmis boðað á um það bil 40 tungumálum í Þýskalandi. Í Ástralíu fór boðunin fram á næstum 30 tungumálum og hafði þeim þá fjölgað úr 18 á tíu árum. Í Grikklandi boðuðu vottar Jehóva fagnaðarerindið á næstum 20 tungumálum. Um 80 prósent votta Jehóva í heiminum tala annað mál en ensku sem er alþjóðamál okkar tíma.
10. Hvert er hlutverk einstakra boðbera í því að gera fólk af öllum þjóðum að lærisveinum?
10 Það er sannarlega verið að gera „allar þjóðir að lærisveinum“ í samræmi við fyrirmæli Jesú. (Matteus 28:19) Vottar Jehóva fylgja skipun hans mjög fúslega. Þeir starfa í 235 löndum um þessar mundir og dreifa ritum á meira en 400 tungumálum. Söfnuður Jehóva lætur í té það efni sem þarf til að ná til fólks, en það er undir hverjum einstökum boðbera komið að eiga frumkvæðið að því að færa öllum mönnum boðskap Biblíunnar á því tungumáli sem þeir skilja best. (Jóhannes 1:7) Þetta sameinaða átak gerir að verkum að milljónir manna, sem tala alls konar ólík tungumál, geta notið góðs af fagnaðarerindinu. (Rómverjabréfið 10:14, 15) Já, við gegnum öll mikilvægu hlutverki.
Krefjandi verkefni
11, 12. (a) Hvaða krefjandi verkefni blasir við og hvernig hjálpar heilagur andi? (b) Af hverju er oft gott að prédika fyrir fólki á móðurmáli þess?
11 Margir boðberar fagnaðarerindisins vildu gjarnan læra nýtt tungumál en þeir geta ekki ætlast til eða vænst þess að andi Guðs vinni kraftaverk á þeim. (1. Korintubréf 13:8) Það kostar mikla vinnu að læra nýtt tungumál. Þeir sem tala nú þegar erlent tungumál geta auk þess þurft að breyta um hugsunarhátt og aðferðir til að gera boðskap Biblíunnar aðlaðandi fyrir fólk sem talar þetta mál en er sprottið úr öðru umhverfi og menningu. Og oft eru nýir innflytjendur feimnir og hlédrægir þannig að boðberar þurfa að leggja töluvert á sig til að skilja hvernig þeir hugsa.
12 Heilagur andi starfar samt sem áður meðal þjóna Jehóva sem leggja sig fram um að hjálpa fólki sem talar erlend tungumál. (Lúkas 11:13) Andi Guðs gefur okkur ekki sérstaka náðargáfu til að tala önnur tungumál. Hins vegar getur hann aukið löngun okkar til að ná sambandi við fólk sem talar ekki okkar mál. (Sálmur 143:10) Við náum ef til vill að hafa áhrif á huga fólks ef við prédikum og kennum á máli sem er ekki móðurmál þess. En til að ná til hjartans hjá áheyrendum okkar er oft betra að nota móðurmál þeirra, málið sem hreyfir við innstu löngunum þeirra, hvötum og vonum. — Lúkas 24:32.
13, 14. (a) Hvað er sumum hvöt til að starfa meðal erlendra málhópa? (b) Hvernig sýna þjónar Guðs fórnfýsi?
13 Margir boðberar fagnaðarerindisins hafa farið að starfa meðal erlendra málhópa eftir að hafa séð hve jákvæð viðbrögð þeir fá við boðskapnum. Öðrum eykst kraftur þegar reynir meira á þá í boðunarstarfinu. „Marga sem koma frá Austur-Evrópu þyrstir eftir sannleikanum,“ segir í greinargerð frá einni af deildarskrifstofum Votta Jehóva í suðurhluta Evrópu. Það er einkar ánægjulegt að mega hjálpa fólki sem tekur svona vel við fagnaðarerindinu. — Jesaja 55:1, 2.
14 Það kostar engu að síður einbeitni og fórnfýsi að ná árangri í þessu starfi. (Sálmur 110:3) Margar japanskar fjölskyldur í söfnuðinum hafa til dæmis flust frá þægilegum heimilum í stærri borgum og sest að á afskekktum svæðum til að hjálpa hópum kínverskra innflytjenda að kynnast Biblíunni. Á vesturströnd Bandaríkjanna eru boðberar vanir að keyra í eina eða tvær klukkustundir til að fræða fólk frá Filippseyjum um Biblíuna. Hjón í Noregi tóku að sér að kenna fjölskyldu frá Afganistan. Þau nota enska og norska útgáfu bæklingsins Hvers krefst Guð af okkur? a Afganska fjölskyldan les greinarnar á persnesku en móðurmál þeirra, darí, er afbrigði af henni. Þau ræða síðan um efnið á ensku og norsku. Þetta er gott dæmi um fórnfýsi og sveigjanleika sem skilar sér ríkulega þegar fólk af erlendum uppruna tekur við fagnaðarerindinu.b
15. Hvernig getum við öll tekið þátt í að boða fagnaðarerindið á öðrum tungumálum?
15 Getur þú tekið þátt í að boða fagnaðarerindið á erlendum tungumálum? Þú gætir byrjað á því að kanna hvaða mál eru töluð á starfssvæðinu. Síðan gætirðu orðið þér úti um smárit eða bæklinga á þessum málum. Bæklingurinn Good News for People of All Nations (Fagnaðarerindi fyrir fólk af öllum þjóðum) var gefinn út árið 2004, og hann hefur reynst góð hjálp við að útbreiða fagnaðarerindið. Í honum er að finna stutta og jákvæða kynningu á fagnaðarerindinu á fjölda tungumála. — Sjá greinina á bls. 32.
Að ‚elska útlendinginn‘
16. Hvernig geta bræður, sem fara með forystu, sýnt óeigingjarnan áhuga á velferð þeirra sem tala önnur tungumál?
16 Hvort sem við getum lært erlent tungumál eða ekki getum við öll lagt okkar af mörkum við að boða trúna meðal útlendinga á starfssvæði okkar. Jehóva sagði þjóð sinni forðum daga að ‚elska útlendinginn‘. (5. Mósebók 10:18, 19) Fimm söfnuðir í stórri borg í Norður-Ameríku nota sama ríkissalinn. Þar sem svo háttar til er algengt að söfnuðirnir skipti um samkomutíma árlega. Þegar kom að kínverska söfnuðinum að vera með samkomu seint á sunnudegi ákváðu öldungarnir í hinum söfnuðunum að hliðra til þannig að sá kínverski gæti verið með samkomur fyrr um daginn. Annars hefðu margir innflytjendur, sem starfa á veitingahúsum, ekki getað sótt samkomur.
17. Hvernig ættum við að hugsa þegar einhver ákveður að flytja búferlum til að hjálpa öðrum málhópi?
17 Kærleiksríkir umsjónarmenn hvetja reynda og duglega bræður og systur sem vilja flytja sig um set til að geta aðstoðað aðra málhópa. Þeim er kannski eftirsjá í reyndum og færum kennurum en þeir eru sama sinnis og öldungarnir í Lýstru og Íkóníum. Tímóteus var mjög verðmætur starfskraftur í söfnuðunum þar en öldungarnir stóðu samt ekki í veginum fyrir því að hann ferðaðist með Páli. (Postulasagan 16:1-4) Og þeir sem fara með forystu í boðunarstarfinu láta ekki ólíkan hugsunarhátt, siði eða venjur útlendinga aftra sér frá því að vitna fyrir þeim. Þeir fagna fjölbreytninni og leggja sig fram um að mynda góð tengsl við þá vegna fagnaðarerindisins. — 1. Korintubréf 9:22, 23.
18. Hvaða ‚víðu og verkmiklu dyr‘ standa öllum opnar?
18 Fagnaðarerindið er prédikað meðal ‚þjóða ýmissa tungna‘. Vaxtarmöguleikarnir eru miklir meðal erlendra málhópa. Þarna eru „víðar dyr og verkmiklar“ sem þúsundir úrræðagóðra boðbera hafa gengið inn um. (1. Korintubréf 16:9) En til að starfa með árangri á slíkum svæðum þarf meira til eins og fram kemur í næstu grein.
[Neðanmáls]
a Gefinn út af Vottum Jehóva.
b Fleiri dæmi má finna í greininni „Small Sacrifices Brought Us Great Blessings“ í Varðturninum (enskri útgáfu) 1. apríl 2004, bls. 24-28.
Geturðu svarað?
• Hvernig getum við líkt eftir afstöðu Jehóva til allra manna?
• Hvernig ættum við að líta á fólk á starfssvæðinu sem talar erlent tungumál?
• Af hverju er gott fyrir fólk að heyra fagnaðarerindið á móðurmáli sínu?
• Hvernig getum við sýnt útlendingum á meðal okkar umhyggju?
[Kort/mynd á blaðsíðu 23]
(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)
RÓM
KRÍT
ASÍA
FRÝGÍA
PAMFÝLÍA
PONTUS
KAPPADÓKÍA
MESÓPÓTAMÍA
MEDÍA
PARÞÍA
ELAM
ARABÍA
LÍBÝA
EGYPTALAND
JÚDEA
Jerúsalem
Miðjarðarhaf
Svartahaf
Rauðahaf
Persaflói
[Mynd]
Fólk frá 15 héruðum Rómaveldis og víðar að heyrði fagnaðarerindið á móðurmáli sínu á hvítasunnu árið 33.
[Myndir á blaðsíðu 24]
Margir útlendingar taka á móti sannleika Biblíunnar.
[Mynd á blaðsíðu 25]
Ríkissalarskilti á fimm tungumálum.