Hvernig bregst þú við sinnuleysi?
1 Sinnuleysi er það að sýna enga tilfinningu eða geðshræringu, vera áhugalaus og láta sér á sama standa. Það er eitt algengasta og erfiðasta viðhorfið sem við mætum í boðunarstarfinu. Hvernig bregst þú við sinnuleysi? Hefur það fengið þig til að hægja á þér í boðunarstarfinu? Hvernig getur þú unnið bug á því til þess að ná til fólks með boðskapinn um Guðsríki?
2 Byrjaðu á því að finna út hvers vegna fólk á starfssvæði þínu er sinnulaust. Er það vegna vonbrigða með stjórnmála- eða trúarleiðtoga sína? Finnst því engin leið vera út úr vandamálum sínum? Er það vantrúað á loforð um betri tíð? Nennir það ekki að hugsa um andleg málefni nema það sjái áþreifanlegt gagn af því á stundinni?
3 Beindu athyglinni að voninni sem Guðsríki gefur: Guðsríki á eftir að leysa öll vandamál. Þegar við getum ættum við þess vegna að tala um fyrirheit sem tengjast Guðsríki og vitna til helstu fullyrðinga Biblíunnar þar að lútandi, jafnvel þótt ekki sé hægt að koma því við að sýna ritningarstað. (Hebr. 4:12) En hvernig komum við samtalinu svo langt?
4 Fólk þarf að skilja tilganginn með heimsókn okkar. Það þarf að gera sér ljóst að við komum vegna náungakærleika og umhyggju fyrir samfélaginu. Við gætum spurt úthugsaðrar spurningar eins og: „Hver heldur þú að sé lausnin á [vandamáli sem hrjáir samfélagið]?“ Ef ein aðferðin dugar ekki reyndu þá einhverja aðra.
5 Á svæði, þar sem bjó mjög efnað fólk sem var áhugalaust um ríkisboðskapinn, leituðust boðberarnir við að finna inngangsorð sem vektu áhuga. Þegar hjón voru að bjóða Þekkingarbókina reyndu þau þessi kynningarorð: „Álítur þú að góð menntun sé nauðsynleg til að komast áfram í heiminum nú á dögum? Ertu sammála því að alhliða menntun nái líka til þekkingar á Biblíunni?“ Á einu síðdegi dreifðu þau þremur bókum og eina þeirra tók kona sem sagði síðar að hún hefði lesið alla Þekkingarbókina og samþykkti að hafa biblíunám.
6 Reyndu ýmsar aðferðir þegar þú mætir sinnuleysi, spyrðu spurninga sem vekja menn til umhugsunar og nýttu þér kraftinn í orði Guðs. Með því kannt þú að geta hjálpað öðrum að taka opnum örmum hinni dýrlegu von okkar um Guðsríki.