Biddu um hjálp
1 Orðin „örðugar tíðir“ lýsa vel erfiðleikatímunum sem við lifum. (2. Tím. 3:1) Hvað geturðu þá gert ef þú lendir í erfiðum, andlegum þrautum sem þér finnst þú illa búinn undir að mæta?
2 Ertu fús að ræða við andlega þroskaðan safnaðarmann? Sumir hika kannski við það af því að þeir eru feimnir, vilja ekki þröngva sér upp á aðra eða efast um að nokkur geti raunverulega hjálpað. Við eigum auðvitað að að axla persónulegar skyldur okkar sem best við getum, en hikum ekki við að leita hjálpar í málum sem varða andlega velferð okkar. — Gal. 6:2, 5.
3 Hvar á að byrja? Þú getur leitað til bóknámsstjóra þíns og spurt hvort hann geti starfað með þér. Þá færðu tækifæri til að segja honum að þig langi til að vaxa andlega. Ef hann er safnaðarþjónn skaltu segja honum að þú þarfnist andlegrar hjálpar og hann mun biðja öldungana um að aðstoða þig. Eða þú getur borið áhyggjur þínar upp við einhvern af öldungunum.
4 Hvers konar hjálpar þarfnastu? Hefur eitthvað dregið úr kostgæfni þinni? Ertu einstætt foreldri að reyna að halda börnum þínum í söfnuðinum? Ertu aldraður boðberi sem þarfnast aðstoðar? Eða er eitthvert vandamál að draga úr þér kjarkinn? Þessar ‚örðugu tíðir‘ geta verið erfiðar viðureignar en það er ekki ómögulegt að takast á við þær. Hjálpin er til staðar.
5 Hjálp frá öldungum: Öldungunum er einlæglega annt um þig. Þeir hlusta á áhyggjumál þín. Ef aðrir boðberar eiga við sams konar vandamál að glíma taka þeir mið af því í hirðisstarfi sínu og kennslu í söfnuðinum. Þeir eru „fyrirmynd hjarðarinnar“ og ávallt boðnir og búnir að starfa með þér. (1. Pét. 5:3) Að hlusta á þá ræða um meginreglur Biblíunnar getur bætt boðunarstarf þitt og orðið þér að liði í einkalífinu. — 2. Tím. 3:16, 17
6 Jesús hefur gefið okkur margar „gjafir í mönnum.“ (Ef. 4:8, NW) Það þýðir að öldungarnir eru til þjónustu reiðubúnir. Hjálp þeirra stendur þér til boða. Þeir ‚eru yðar,‘ ef svo má að orði komast. (1. Kor. 3:21-23) Talaðu við þá í stað þess að halda þig til hlés. Biddu um þá hjálp sem þú þarfnast.