NÁMSGREIN 36
SÖNGUR 103 Hirðarnir eru gjafir frá Guði
‚Kallið til ykkar öldungana‘
„Kalli hann til sín öldunga safnaðarins.“ – JAK. 5:14.
Í HNOTSKURN
Biðjum öldunga safnaðarins um hjálp þegar við þurfum á henni að halda.
1. Hvernig hefur Jehóva sýnt að sauðir hans eru honum dýrmætir?
SAUÐIR Jehóva eru dýrmætir í augum hans. Hann keypti þá með blóði Jesú og fól safnaðaröldungunum að annast hjörð sína. (Post. 20:28) Jehóva vill að öldungarnir annist sauðina blíðlega. Undir forystu Krists endurnæra öldungarnir sauðina og hjálpa þeim að vernda samband sitt við Jehóva. – Jes. 32:1, 2.
2. Hverjum sýnir Jehóva sérstaka athygli? (Esekíel 34:15, 16)
2 Jehóva er innilega annt um alla sauði sína, en hann sýnir sérstaka umhyggju þeim sem þjást. Fyrir milligöngu öldunganna hjálpar hann þeim sem hefur orðið á mistök. (Lestu Esekíel 34:15, 16.) En hann vill að við leitum hjálpar þegar við þurfum á henni að halda. Þá ættum við að leita aðstoðar ‚hirða og kennara‘ í söfnuðinum auk þess að biðja innilega til Guðs um stuðning. – Ef. 4:11, 12.
3. Hvernig getum við öll haft gagn af því að íhuga hlutverk öldunganna?
3 Í þessari námsgrein skoðum við hvernig Jehóva veitir hjálp fyrir milligöngu öldunganna ef samband okkar við hann hefur veikst. Við fáum svör við eftirfarandi spurningum: Hvenær ættum við að biðja öldungana um hjálp? Hvers vegna ættum við að biðja þá um hjálp? Og hvernig hjálpa þeir okkur? Við kunnum betur að meta fyrirkomulag Guðs þegar við fáum svör við þessum spurningum, jafnvel þótt við séum ekki að glíma við erfiðleika í augnablikinu. Það kann einhvern tíma að bjarga lífi okkar.
HVENÆR ÆTTUM VIÐ AÐ ‚KALLA TIL OKKAR ÖLDUNGANNA‘?
4. Hvers vegna drögum við þá ályktun að Jakobsbréfið 5:14–16, 19, 20 eigi við um einstakling sem er orðinn veikur í trúnni? (Sjá einnig myndir.)
4 Lærisveinninn Jakob útskýrir hvernig Jehóva notar öldungana til að veita hjálp. Hann segir: „Er einhver veikur á meðal ykkar? Þá kalli hann til sín öldunga safnaðarins.“ (Lestu Jakobsbréfið 5:14–16, 19, 20.) Samhengið sýnir að Jakob á við þann sem þarf að bæta samband sitt við Jehóva. Hann talar um að kalla til öldunga en ekki lækni. Og hann segir að sá sem er veikur fái lækningu þegar syndir hans hafa verið fyrirgefnar. Þetta er svipað ferli og þegar maður þarf lækningu af líkamlegum veikindum. Þegar við erum veik förum við til læknis, lýsum einkennunum og fylgjum síðan leiðbeiningum læknisins. Á líkan hátt ættum við að leita til öldungs þegar sambandið við Jehóva er veikt, lýsa stöðunni og fylgja leiðbeiningunum sem hann gefur og eru byggðar á Biblíunni.
Við förum til læknis þegar við erum veik. Þegar við veikjumst í trúnni ættum við að leita til öldunganna. (Sjá 4. grein.)
5. Hvernig vitum við hvort vinátta okkar við Jehóva er í hættu?
5 Í Jakobsbréfinu 5. kafla erum við hvött til að tala við öldungana þegar við finnum að við þurfum hjálp til að styrkja trú okkar. En það er mikilvægt að við leitum til þeirra áður en við missum velþóknun Jehóva. Við þurfum að vera heiðarleg við sjálf okkur. Biblían varar við því að við getum blekkt sjálf okkur í þessum efnum. (Jak. 1:22) Það kom fyrir suma kristna menn í Sardes á fyrstu öldinni. Jesús benti þeim á að Jehóva hefði ekki lengur velþóknun á þeim. (Opinb. 3:1, 2) Ein leið til að skoða hversu sterkt samband við höfum við Jehóva er að skoða hvort eldmóður okkar í tilbeiðslunni hefur dvínað. (Opinb. 2:4, 5) Við gætum spurt okkur: Hef ég jafnmikla ánægju og áður af að lesa í Biblíunni og hugleiða efni hennar? Er orðið tilviljunarkennt hvort ég undirbý mig fyrir samkomur og mæti á þær? Hefur áhugi minn á boðuninni minnkað? Er ég uppteknari af skemmtun og efnislegum hlutum en áður? Ef svarið við einhverri af þessum spurningum er já gæti það bent til þess að sambandið við Jehóva hafi veikst og gæti versnað ef ekkert er að gert. Ef við getum ekki lagað sambandið við Jehóva sjálf, eða ef við höfum þegar gert eitthvað sem Jehóva hefur ekki velþóknun á, ættum við að leita til öldunganna eftir hjálp.
6. Hvað ætti sá sem hefur drýgt alvarlega synd að gera?
6 Þeir sem hafa drýgt alvarlega synd sem gæti orðið til þess að þeim yrði vísað úr söfnuðinum ættu að sjálfsögðu að leita til öldunganna. (1. Kor. 5:11–13) Þeir þurfa hjálp til að endurheimta gott samband við Jehóva. Það er nauðsynlegt að sýna „verk sem hæfa iðruninni“ til að fá fyrirgefningu Jehóva. (Post. 26:20) Þessi verk eru meðal annars að tala við öldungana ef við höfum drýgt alvaralega synd.
7. Hverjir aðrir þurfa á hjálp öldunganna að halda?
7 Öldungarnir hjálpa ekki aðeins þeim sem hafa drýgt alvarlega synd heldur líka þeim sem eru orðnir veikir í trúnni. (Post. 20:35) Þér gæti til dæmis fundist þú vera að tapa í baráttunni við rangar langanir. Baráttan getur verið sérstaklega erfið ef þú varst háður eiturlyfjum, horfðir á klám eða lifðir siðlausu lífi áður en þú kynntist sannleikanum. Þú þarft ekki að berjast einn. Þú getur talað við öldung sem þú veist að hlustar á þig, getur gefið þér hagnýt ráð og fullvissað þig um að þú getir þóknast Jehóva með því að láta ekki undan röngum löngunum. (Préd. 4:12) Ef þú ert orðinn þreyttur á að eiga í stöðugri baráttu geta öldungarnir minnt þig á að það sýni líklega að þú takir sambandið við Jehóva alvarlega og sért ekki of öruggur með þig. – 1. Kor. 10:12.
8. Þurfum við að tala við öldungana um öll mistök sem við gerum?
8 Við þurfum ekki að leita til öldunganna í hvert skipti sem okkur verður eitthvað á. Segjum að þú segir eitthvað særandi við bróður eða systur og missir jafnvel stjórn á skapinu. Í stað þess að fara til öldungs gætirðu fylgt ráðum Jesú og farið beint til bróður þíns eða systur til að leysa málin. (Matt. 5:23, 24) Þú gætir rannsakað í ritum okkar eiginleika eins og mildi, þolinmæði og sjálfstjórn til þess að þú getir sýnt þessa góðu eiginleika betur í framtíðinni. Ef þér tekst ekki að leysa málið gætirðu að sjálfsögðu leitað til öldungs eftir hjálp. Þegar Evodía og Sýntýke gátu ekki leyst ágreining sín á milli bað Páll bróður í söfnuðinum að hjálpa þeim. Þú getur líka fengið hjálp öldungs í þínum söfnuði. – Fil. 4:2, 3.
HVERS VEGNA ÆTTUM VIÐ AÐ LEITA TIL ÖLDUNGANNA?
9. Hvers vegna ættum við að tala við öldungana þótt okkur kunni að finnast það vandræðalegt? (Orðskviðirnir 28:13)
9 Við þurfum trú og hugrekki til að biðja um hjálp þegar við höfum drýgt alvarlega synd eða okkur finnst við vera að tapa í baráttunni við rangar langanir. Við ættum ekki að veigra okkur við að tala við öldungana þótt okkur finnist það vandræðalegt. Þegar við nýtum okkur fyrirkomulag Jehóva sýnum við að við treystum honum og að hann hjálpi okkur að halda trú okkar sterkri þegar við fylgjum leiðbeiningum hans. Við gerum okkur grein fyrir því að við þurfum á hjálp að halda ef við erum við það að hrasa. (Sálm. 94:18) Jehóva sýnir okkur miskunn ef við höfum syndgað en játum syndir okkar og látum af þeim. – Lestu Orðskviðina 28:13.
10. Hvað gæti gerst ef við reyndum að fela syndir okkar?
10 Jehóva blessar okkur ef við leitum til öldungs til að fá hjálp. Ef við hins vegar reynum að fela syndir okkar gerum við illt verra. Þegar Davíð konungur reyndi að leyna syndum sínum skaðaði það samband hans við Jehóva og honum leið illa tilfinningalega og jafnvel líkamlega. (Sálm. 32:3–5) Rétt eins og líkamleg veikindi eða meiðsli geta versnað ef við gerum ekkert í málinu, getum við glatað sambandinu við Jehóva ef við leitum ekki hjálpar öldunganna þegar við höfum syndgað alvarlega. Jehóva skilur þetta og býður okkur að ‚greiða úr málum okkar‘ með því að tala við þá til að hjálpa okkur að endurheimta sambandið við sig. – Jes. 1:5, 6, 18.
11. Hvaða áhrif getur það haft á aðra ef við felum alvarlega synd?
11 Það gæti haft skaðleg áhrif á aðra ef við reyndum að fela alvarlega synd. Það gæti orðið til þess að andi Jehóva starfaði ekki óhindrað í söfnuðinum og við gerðum bræðrum og systrum erfiðara fyrir. (Ef. 4:30) Og ef við komumst að því að einhver í söfnuðinum hefur drýgt alvarlega synd ættum við að hvetja hann til að tala við öldungana um málið.a Ef við leynum synd hans verðum við meðsek. (3. Mós. 5:1) Kærleikur okkar til Jehóva ætti að knýja okkur til að stíga fram og segja sannleikann. Þannig hjálpum við til við að halda söfnuðinum hreinum og stuðlum að því að sá sem syndgaði eignist aftur gott samband við Jehóva.
HVERNIG HJÁLPA ÖLDUNGARNIR OKKUR?
12. Hvernig hjálpa öldungarnir þeim sem eru veikir í trúnni?
12 Öldungarnir eiga að styðja þá sem eru veikir í trúnni. (1. Þess. 5:14) Ef þú hefur syndgað spyrja þeir þig kannski spurninga til að draga fram hvað býr í huga þínum og hjarta. (Orðskv. 20:5) Þú getur auðveldað þeim það með því að tala opinskátt þótt þú sért feiminn að eðlisfari eða finnist vandræðalegt að ræða um það sem gerðist. Vertu ekki hræddur um að segja eitthvað vitlaust. (Job. 6:3) Öldungarnir draga ekki ályktanir í flýti heldur hlusta vandlega og reyna að sjá heildarmyndina áður en þeir gefa þér ráð. (Orðskv. 18:13) Þeir vita að það tekur tíma að annast hjörðina svo að þeir reikna ekki með að leysa flókin mál í einu samtali.
13. Hvernig geta öldungarnir hjálpað okkur með bænum sínum og leiðsögn úr Biblíunni? (Sjá einnig myndir.)
13 Þegar þú talar við öldungana reyna þeir að auka ekki á sektarkenndina hjá þér. Þeir munu öllu heldur biðja fyrir þér. Það getur komið þér á óvart hversu áhrifarík slík bæn getur verið. Hjálp þeirra felur líka í sér að ‚bera á þig olíu í nafni Jehóva‘. (Jak. 5:14–16) Með olíu er átt við sannleikann í orði Guðs. Þeir nota Biblíuna til að hugga þig og hjálpa þér að endurheimta gott samband við Jehóva. (Jes. 57:18) Ráðin í Biblíunni geta hjálpað þér að vera ákveðinn í að halda áfram að gera það sem er rétt. Öldungarnir geta hjálpað þér að heyra rödd Jehóva segja við þig: „Þetta er vegurinn, farið hann.“ – Jes. 30:21.
Öldungarnir nota Biblíuna til að hugga okkur og hughreysta. (Sjá 13. og 14. grein.)
14. Hvernig hjálpa öldungarnir þeim sem hafa farið „út af sporinu“ samkvæmt Galatabréfinu 6:1? (Sjá einnig myndir.)
14 Lestu Galatabréfið 6:1. Þjónn Guðs sem fer „út af sporinu“ er ekki að gera það sem Guð væntir af honum. Það getur þýtt að hann hafi tekið óskynsamlega ákvörðun eða drýgt alvarlega synd. Kristnir öldungar eru knúnir af kærleika og ‚reyna að leiðrétta þann mann mildilega‘. Gríska orðið sem er þýtt „leiðrétta“ getur einnig lýst því þegar brotið bein er sett aftur í réttar skorður til að koma í veg fyrir varanlega fötlun. Góður læknir leitast við að setja saman brotið bein án þess að valda óþarfa sársauka. Eins reyna öldungar að leiðrétta þann sem hefur farið út af sporinu án þess að auka á sársauka hans. Þeim er líka sagt að hafa ‚gát á sjálfum sér‘. Þegar öldungarnir hjálpa okkur að leiðrétta stefnuna gera þeir sér jafnframt grein fyrir að þeir eru sjálfir ófullkomnir og geta gert mistök. Þeir eru hvorki dómharðir né telja sig yfir aðra hafna heldur leitast við að vera hluttekningarsamir. – 1. Pét. 3:8.
15. Hvað getum við gert ef við eigum við vandamál að glíma?
15 Við getum treyst safnaðaröldungunum. Þeir hafa fengið þjálfun í að halda trúnað og að byggja ráðleggingar sínar á Biblíunni en ekki eigin skoðunum. Og þeir hafa lært að þeir þurfa að halda áfram að hjálpa okkur að bera byrðar okkar. (Orðskv. 11:13; Gal. 6:2) Öldungarnir hafa ólíka eiginleika og reynslu en við getum óhikað leitað til hvaða öldungs sem er til að ræða vandamál sem við höfum. Við ættum að sjálfsögðu ekki að ganga á milli öldunga til að leita að þeim sem segir okkur bara það sem okkur langar að heyra. Ef við gerðum það værum við eins og þeir sem vilja frekar heyra það sem „kitlar eyrun“ en hlusta á „hina heilnæmu kenningu“ í orði Guðs. (2. Tím. 4:3) Þegar við komum að máli við öldung spyr hann kannski hvort við höfum talað við aðra öldunga og hvaða ráð þeir hafi gefið okkur. Og vegna þess að hann er hógvær spyr hann kannski annan öldung um ráð. – Orðskv. 13:10.
OKKAR EIGIN ÁBYRGÐ
16. Hvaða ábyrgð berum við?
16 Öldungarnir gefa okkur ráð og hjálpa okkur þegar við glímum við vandamál en þeir segja okkur ekki hvað við eigum að gera. Við berum sjálf ábyrgð á að sýna í orði og verki að við elskum Jehóva. Við þurfum að standa honum reikningsskap. Með stuðningi hans getum við verið ráðvönd. (Rómv. 14:12) Öldungarnir segja okkur því ekki hvað við eigum að gera heldur beina athyglinni að því hvernig Guð hugsar, eins og við getum kynnst í orði hans. Með því að fylgja ráðum þeirra frá Biblíunni getum við ‚þjálfað skilningsgáfuna‘ og tekið skynsamlegar ákvarðanir. – Hebr. 5:14.
17. Hvað ættum við að vera staðráðin í að gera?
17 Við erum innilega þakklát fyrir að Jehóva skuli annast okkur svona vel, rétt eins og hirðir annast sauði sína. Jesús er „góði hirðirinn“ og Jehóva sendi hann til að borga lausnargjaldið fyrir okkur svo að við gætum átt möguleika á eilífu lífi. (Jóh. 10:11) Jehóva gaf okkur öldungana til að annast okkur í söfnuðinum rétt eins og hann lofaði: „Ég gef ykkur hirða eftir mínu hjarta og þeir munu veita ykkur þekkingu og skilning.“ (Jer. 3:15) Við ættum ekki að hika við að leita til öldunganna eftir hjálp ef við finnum að trú okkar er að veikjast. Nýtum okkur þá gjöf Jehóva sem öldungarnir eru.
SÖNGUR 31 Göngum með Guði
a Ef sá sem syndgar talar ekki við öldungana innan hæfilegs tíma ætti trúfesti þín við Jehóva að knýja þig til að láta þá vita.