„Orð í tíma töluð“
1 Finnst þér erfitt að færa öðrum lífsboðskapinn? Finnst þér þú þurfa að segja eitthvað djúphugsað og áhrifaríkt til að hrífa áheyrendur þína? Þegar Jesús sendi lærisveinana út af örkinni sagði hann: „Farið og prédikið: ‚Himnaríki er í nánd.‘“ (Matt. 10:7) Boðskapurinn var einfaldur og auðvelt að koma honum á framfæri. Hið sama á við núna.
2 Oft þarf aðeins nokkur orð til að koma af stað samtali. Filippus spurði eþíópska hirðmanninn ‚hvort hann skildi það sem hann var að lesa.‘ (Post. 8:30) Orð hans voru „í tíma töluð“ og þeir áttu saman ánægjulegt samtal. — Orðskv. 25:11.
3 Þú getur farið svipað að í boðunarstarfinu með því að vera athugull og velja orð eftir aðstæðum. Spyrðu spurningar og hlustaðu á svarið.
4 Ýmsar spurningar: Reyndu eftirfarandi spurningar til að koma af stað samræðum:
◼ „Ferðu með Faðirvorið?“ (Matt. 6:9, 10) Farðu með hluta bænarinnar og segðu síðan: „Sumir velta fyrir sér hvað þetta nafn Guðs er sem Jesús sagði að skyldi helgast. Aðrir velta fyrir sér hvað þetta ríki er sem hann sagði að við ættum að biðja um. Hefurðu einhvern tíma hugleitt það sjálfur?“
◼ „Hefurðu einhvern tíma velt fyrir þér hver sé tilgangur lífsins?“ Sýndu fram á að hann tengist þekkingunni á Guði. — Préd. 12:13; Jóh. 17:3.
◼ „Heldurðu að dauðanum verði einhvern tíma útrýmt?“ Notaðu Jesaja 25:8 og Opinberunarbókina 21:4 til að gefa trúverðugt svar.
◼ „Er til einföld lausn á ólgunni í heiminum?“ Bentu á að Guð kennir að við eigum að ‚elska náungann.‘ — Matt. 22:39.
◼ „Á jörðin eftir að farast í einhverjum alheimshamförum?“ Bentu á loforð Biblíunnar að jörðin standi að eilífu. — Sálm. 104:5.
5 Kynntu fagnaðarerindið með einföldum orðum, beinum hætti og vingjarnlega. Jehóva blessar viðleitni þína að færa öðrum „orð“ sannleikans.