Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • km 8.10 bls. 3-bls. 6 gr. 13
  • Þú getur vitnað óformlega

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Þú getur vitnað óformlega
  • Ríkisþjónusta okkar – 2010
  • Svipað efni
  • Talið um dýrð konungdóms Guðs
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1988
  • Ertu undirbúinn að vitna óformlega?
    Ríkisþjónusta okkar – 2009
  • Lofum Jehóva með því að vitna óformlega
    Ríkisþjónusta okkar – 2003
  • Við erum vottar öllum stundum
    Ríkisþjónusta okkar – 2009
Sjá meira
Ríkisþjónusta okkar – 2010
km 8.10 bls. 3-bls. 6 gr. 13

Þú getur vitnað óformlega

1 Hve margir í söfnuðinum þínum kynntust sannleikanum fyrst vegna þess að einhver vitnaði óformlega fyrir þeim? Svarið gæti komið þér á óvart. Að vitna óformlega felur í sér að segja frá fagnaðarerindinu þegar við hittum fólk í dagsins önn — ferðumst, heimsækjum ættingja eða nágranna, verslum, erum í skólanum, í vinnunni og svo framvegis. Dæmi er um hóp meira en 200 skírðra votta þar sem 40 prósent fengu upphaflega óformlegan vitnisburð. Það er því augljóst að þessi starfsgrein er árangursrík.

2 Boðberar á fyrstu öld vitnuðu oft óformlega. Á leið um Samaríu settist Jesús við Jakobsbrunn og vitnaði fyrir konu sem var að sækja vatn. (Jóh. 4:6-26) Filippus hóf samræður við eþíópískan hirðmann sem var að lesa í Jesajabók með því að spyrja: „Hvort skilur þú það sem þú ert að lesa?“ (Post. 8:26-38) Páll vitnaði fyrir fangaverði þegar hann var í fangelsi í Filippí. (Post. 16:23-34) Seinna meir, þegar Páll var í stofufangelsi, tók hann á móti „öllum þeim sem komu til hans. Hann boðaði Guðs ríki og fræddi um Drottin Jesú Krist.“ (Post. 28:30, 31) Þú getur líka vitnað óformlega, jafnvel þótt þú sért feiminn. Hvernig?

3 Að byrja: Mörgum finnst erfitt að hefja samræður við ókunnugt fólk. Okkur getur jafnvel fundist svolítið vandræðalegt að byrja að tala um sannleikann við kunningja sem eru ekki vottar. Ef við leiðum hugann að gæsku Jehóva, andlegu fjársjóðunum sem hann hefur gefið þjónum sínum og bágbornu ástandi fólks í heiminum mun það samt hvetja okkur til að tala. (Jónas 4:11; Sálm. 40:6; Matt. 13:52) Auk þess getum við beðið Jehóva um að,gefa okkur djörfung‘. (1. Þess. 2:2) Nemandi í Gíleaðskólanum sagði: „Ég hef oft fundið hvernig bænin hjálpar mér þegar mér finnst erfitt að tala við fólk.“ Ef þú hikar við að tala biddu þá stutta bæn í hljóði. — Nehem. 2:4.

4 Það gefur augaleið að við þurfum ekki að hefja samræðurnar með formlegri kynningu eða biblíutilvitnun þegar við vitnum óformlega. Það getur verið gott að setja sér einfaldlega það markmið að hefja samræður án þess að finnast við verða að koma fagnaðarerindinu að þegar í stað. Margir boðberar segja að með því að ná þessu markmiði fái þeir síðan kjark til að snúa sér að fagnaðarerindinu. Ef viðmælandinn vill ekki ræða við okkur þurfum við ekki að reyna að þvinga hann til þess. Við ljúkum kurteislega samtalinu og látum þar við sitja.

5 Feimin systir reynir að ná augnasambandi við fólk þegar hún fer að versla og brosir vingjarnlega. Ef hún fær bros á móti segir hún fáein orð. Ef viðbrögðin eru jákvæð fær hún kjark til að halda samræðunum áfram. Hún hlustar vel og reynir að átta sig á með hvaða hætti fagnaðarerindið gæti höfðað til viðmælandans. Á þennan hátt hefur hún dreift mörgum ritum og jafnvel hafið biblíunámskeið.

6 Hvernig er hægt að hefja samræður? Hvað getum við sagt til að hefja samræður? Þegar Jesús talaði við konuna við brunninn byrjaði hann einfaldlega á því að biðja hana um að gefa sér að drekka. (Jóh. 4:7) Við gætum ef til vill hafið samræður með vingjarnlegri kveðju eða spurningu. Í samtalinu gætirðu fengið tækifæri til að benda á eitthvað frá Biblíunni og jafnvel sáð fræi sannleikans. (Préd. 11:6) Sumum finnst það bera góðan árangur að nefna eitthvað sem vekur forvitni viðmælandans og fær hann til að spyrja spurningar. Á biðstofu hjá lækni væri hægt að hefja samræður með því að segja: „Ég hlakka til þess tíma þegar ég veikist ekki framar.“

7 Að vera eftirtektasamur mun líka hjálpa okkur að hefja samræður. Ef við tökum eftir foreldri með stillt börn gætum við hrósað foreldrinu og spurt: „Hvað hefur hjálpað þér að ala börnin þín svona vel upp?“ Systir ein tekur eftir hvað rætt er um á vinnustaðnum og kemur síðan á framfæri efni sem vinnufélagarnir hafa áhuga á. Þegar hún fékk að vita að kona, sem hún vinnur með, var að fara að gifta sig gaf hún henni eintak af Vaknið! sem fjallaði um hvernig maður skipuleggur brúðkaup. Þetta leiddi af sér frekari umræður um Biblíuna.

8 Önnur leið til að hefja samræður er að lesa ritin okkar þar sem aðrir sjá til. Bróðir flettir upp á grein í Varðturninum eða Vaknið! með áhugaverðri fyrirsögn og byrjar að lesa hana í hljóði. Ef hann tekur eftir að einhver nærstaddur er farinn að rýna í blaðið spyr hann spurningar eða segir eitthvað um greinina. Þetta leiðir oft til umræðna og til þess að hann geti vitnað. Það eitt að skilja eftir rit þar sem vinnufélagar eða bekkjafélagar geta séð þau getur vakið forvitni þeirra og orðið til þess að þeir spyrji.

9 Sköpum okkur tækifæri: Í ljósi þess hve áríðandi prédikunarstarfið er ættum við ekki að láta það ráðast af tilviljun einni saman hvort við vitnum óformlega. Við ættum frekar að reyna að skapa okkur tækifæri til að vitna í dagsins önn. Hugsaðu fyrir fram um það hverja þú telur líklegt að þú hittir og leiddu hugann að því hvernig þú gætir bryddað upp á vingjarnlegum samræðum. Hafðu Biblíuna til taks ásamt ritum sem þú gætir gefið þeim sem sýna áhuga. — 1. Pét. 3:15.

10 Með því að vera útsjónarsamir hafa margir boðberar fundið leiðir til að vitna óformlega. Systir, sem býr í fjölbýlishúsi með öryggisgæslu, notar aðstöðu sem er ætluð til afþreyingar, til að púsla púsluspil með fallegum myndum af náttúrunni. Þegar fólk staldrar við og hefur orð á að myndirnar séu fallegar notar hún tækifærið að hefja samræður og segir frá loforðum Biblíunnar um „nýjan himin og nýja jörð“. (Opinb. 21:1-4) Getur þú komið auga á leiðir til að vitna óformlega?

11 Fylgjum áhuganum eftir: Ef einhver hlustar reyndu þá að fylgja áhuganum eftir. Ef það er viðeigandi gætirðu sagt við hann: „Það var mjög ánægjulegt að tala við þig. Hvar get ég hitt þig svo að við getum rætt málin áfram?“ Sumir boðberar láta viðmælandann hafa heimilisfang sitt og símanúmer og segja: „Það var ánægjulegt að ræða við þig. Ef þig langar til að vita meira um það sem við vorum að ræða geturðu haft samband við mig.“ Ef þú getur ekki sjálfur fylgt áhuganum eftir, gerðu þá ráðstafanir til að viðeigandi söfnuður geri það. Ritari safnaðarins getur aðstoðað þig við það.

12 Við ættum að skrá á starfsskýrsluna tímann sem við notum til að vitna óformlega. Gættu þess að skrá tímann þó að það séu bara nokkrar mínútur á dag. Hugsaðu um þetta: Ef allir boðberar vitnuðu óformlega fimm mínútur á dag myndu bætast við meira en 17 milljónir starfstíma á hverjum mánuði.

13 Við höfum göfugasta tilefni sem hugsast getur til að vitna óformlega — kærleika til Guðs og til náungans. (Matt. 22:37-39) Við metum mikils eiginleika Jehóva og fyrirætlanir og það knýr okkur til að tala um,hina dýrlegu hátign konungdæmis hans‘. (Sálm. 145:7, 10-12) Sönn umhyggja fyrir náunganum hvetur okkur til að nota hvert viðeigandi tækifæri til að boða fagnaðarerindið á meðan tími er til. (Rómv. 10:13, 14) Með smá fyrirhyggju og undirbúningi geta allir vitnað óformlega og ef til vill upplifað gleðina sem fylgir því að kynna sannleikann fyrir hjartahreinni manneskju.

[Spurningar]

1. (a) Hvað er óformlegur vitnisburður? (b) Hve margir á þessari samkomu kynntust sannleikanum fyrst vegna þess að það var vitnað óformlega fyrir þeim?

2. Hvaða dæmi um óformlegan vitnisburð höfum við í Biblíunni?

3. Hvað getur hjálpað okkur að sigrast á feimni?

4. Hvaða markmið gætum við sett okkur til að byrja með og hvers vegna?

5. Hvað hefur hjálpað feiminni systur að vitna óformlega?

6. Hvernig gætum við hafið óformlegar samræður?

7. Hvernig getur eftirtektarsemi hjálpað okkur að vitna óformlega?

8. Hvernig getum við notað ritin til að hefja samræður?

9, 10. (a) Hvernig getum við fundið leiðir til að vitna óformlega? (b) Hvernig hefur þér tekist að gera það?

11. Hvernig getum við fylgt áhuganum eftir hjá þeim sem við vitnum fyrir óformlega?

12. (a) Hvers vegna eigum við að skrá tímann sem við notum til að vitna óformlega? (b) Hvaða árangur hefur náðst með því að vitna óformlega? (Sjá rammann „Að vitna óformlega ber góðan árangur“.)

13. Hvað ætti að knýja okkur til að vitna óformlega?

[Innskot á bls. 4]

Það gæti verið gagnlegt að setja sér einfaldlega það markmið að hitta fólk og hefja samræður.

[Innskot á bls. 5]

Með því að vera útsjónarsamir hafa margir boðberar fundið leiðir til að vitna óformlega.

[Rammi á bls. 5]

Hvernig er hægt að hefja samræður?

◼ Biddu Jehóva um hjálp til að byrja.

◼ Veldu þá sem virðast vera vingjarnlegir og rólegir.

◼ Náðu augnasambandi, brostu og minnstu á eitthvað sem viðmælandinn gæti haft áhuga á.

◼ Hlustaðu vel.

[Rammi á bls. 6]

Að vitna óformlega ber góðan árangur

• Bróðir, sem var að bíða eftir að gert væri við bílinn hans á verkstæði, vitnaði fyrir þeim sem voru nærstaddir og gaf þeim boðsmiða á opinberan fyrirlestur. Á móti, sem var haldið ári síðar, kom til hans bróðir sem hann kannaðist ekki við og heilsaði honum hlýlega. Það var einn þeirra manna sem höfðu fengið boðsmiða hjá honum á verkstæðinu ári áður. Maðurinn hafði farið og hlustað á ræðuna og síðan óskað eftir biblíunámskeiði. Bæði hann og konan hans höfðu nú látið skírast.

• Systir, sem kynntist sannleikanum þegar vitnað var óformlega fyrir henni, lítur á það sem sérstakan vettvang sinn að vitna fyrir þeim sem hún hittir vegna þess að hún á þrjú börn. Þetta eru meðal annars nágrannar og foreldrar sem hún hittir í skólanum og á foreldrafundum. Þegar hún kynnir sig nefnir hún stuttlega en með einlægni að Biblían sé henni dýrmæt hjálp við að ala upp börnin og síðan snýr hún sér að öðru málefni. Þannig brýtur hún ísinn og henni finnst miklu auðveldara að koma Biblíunni að í samræðum eftir það. Með þessari aðferð hefur hún aðstoðað 12 einstaklinga sem síðan hafa látið skírast.

• Þegar tryggingasölumaður heimsótti systur nokkra notaði hún tækifærið og vitnaði fyrir honum. Hún spurði hvort hann myndi vilja fá tryggingu fyrir góðri heilsu, hamingju og eilífu lífi. Hann játti því og spurði hvers konar tryggingu hún væri að tala um. Hún sýndi honum loforð Biblíunnar og bauð honum bók sem hann las á einu kvöldi. Biblíunámskeið var hafið. Hann fór að sækja samkomur og seinna lét hann skírast.

• Systir byrjaði að tala við konu sem sat við hliðina á henni í flugvél og gat vitnað fyrir henni. Undir lok ferðarinnar gaf systirin konunni heimilisfang sitt og símanúmer og hvatti hana til að biðja um biblíunámskeið næst þegar vottar Jehóva heimsæktu hana. Daginn eftir bönkuðu tveir vottar upp á hjá henni. Hún byrjaði að kynna sér Biblíuna, tók skjótum framförum, lét skírast og var fljótlega sjálf komin með þrjá biblíunemendur.

• Blindur bróðir, sem er 100 ára og býr á hjúkrunarheimili, segir oft: „Við þörfnumst Guðsríkis.“ Það varð til þess að hjúkrunarstarfsfólk og sjúklingar fóru að spyrja hann út í þetta og hann fékk tækifæri til að útskýra hvað Guðsríki væri. Kona, sem vinnur þar, spurði hann hvað hann ætlaði að gera í paradísinni. Hann svaraði: „Þá get ég séð og gengið á ný og ég ætla að brenna hjólastólinn minn.“ Þar sem hann er blindur biður hann hana um að lesa blöðin fyrir sig. Þegar dóttir hans kom í heimsókn spurði konan hvort hún mætti taka blöðin með sér heim. Hjúkrunarfræðingur sagði dóttur bróðurins: „Við erum með nýtt kjörorð hér á hjúkrunarheimilinu:,Við þörfnumst Guðsríkis.‘“

• Systir, sem var í biðröð á veitingastað, heyrði út undan sér nokkra eldri menn ræða stjórnmál. Einn mannanna fullyrti að stjórnvöld gætu ekki leyst vandamál okkar. Systirin sagði við sjálfa sig: „Núna er tækifærið.“ Hún fór með stutta bæn og gekk síðan til þeirra. Eftir að hafa kynnt sig sagði hún þeim frá Guðsríki, stjórninni sem mun leysa öll vandamál mannkyns, og bauð þeim bækling sem hún hafði meðferðis. Á því augnabliki birtist yfirmaður veitingastaðarins. Systirin hélt að hann ætlaði að biðja hana um að fara. Í staðinn sagðist hann hafa verið að hlusta og að hann vildi líka fá eintak af bæklingnum. Starfsmaður, sem líka var að hlusta, kom til hennar með tárin í augunum. Hún hafði verði í biblíunámi áður og langaði nú til að taka upp þráðinn á ný.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila