Verið iðin við að vitna
1, 2. Hvernig leit Páll á boðun fagnaðarerindisins og hvernig getum við líkt eftir honum?
1 Páll postuli var iðinn prédikari fagnaðarerindisins, rétt eins og Jesús og margir aðrir trúfastir fortíðarþjónar, og vitnaði við hvaða aðstæður sem var. Jafnvel þegar hann sat í stofufangelsi ‚tók hann á móti öllum sem komu til hans, boðaði þeim Guðs ríki og fræddi um Drottin Jesú Krist með allri djörfung.‘ — Post. 28:16-31.
2 Við getum líka verið iðin við það að vitna öllum stundum. Það felur í sér að vitna fyrir fólki sem við hittum, bæði á leiðinni á landsmótið „Gefið Guði dýrðina“ og á leiðinni heim. — Post. 28:23; Sálm. 145:10-13.
3. Hvað getum við gert til að óformlegur vitnisburður verði ekki tilviljunarkenndur?
3 Hvað er óformlegur vitnisburður? Að vitna óformlega er ekki eitthvað lítilvægt sem gerist af tilviljun, án ásetnings og undirbúnings. Páli fannst mikilvægt að gefa Guði dýrðina með því að vitna og það sama á við um okkur. Við ættum því að vera staðráðin í að vitna hvar sem það er við hæfi þegar við erum á ferðalagi í sumar. Aðferðin, sem við notum til að nálgast aðra, er óformleg, það er að segja afslöppuð og vinaleg. Hún getur verið mjög árangursrík.
4. Hvernig gat Páll vitnað þegar hann var í stofufangelsi í Róm?
4 Undirbúðu þig: Páll varð að skapa sér tækifæri til að vitna þegar hann sat í stofufangelsi í Róm. Hann tók frumkvæðið að því að bjóða leiðtogum Gyðinga heim til sín. (Post. 28:17) Þótt það væri kristinn söfnuður í Róm komst Páll að því að samfélag Gyðinga í borginni hafði lítið heyrt um hina kristnu trú. (Post. 28:22; Rómv. 1:7) Hann hikaði ekki við að vitna rækilega um Jesú Krist og ríki Guðs.
5, 6. Hvaða tækifæri gætum við fengið til að vitna óformlega og hvernig getum við undirbúið okkur svo að við getum náð betri árangri?
5 Hugsaðu um alla þá sem þú hittir þegar þú ert á ferðalagi og hafa aðeins fengið takmarkaða þekkingu á Vottum Jehóva. Þeir vita kannski ekki að við bjóðum ókeypis biblíunámskeið. Vertu vakandi fyrir þeim tækifærum sem þú hefur til að vitna þegar þú ferðast, stoppar til að hvíla þig og taka bensín, þegar þú verslar, gistir á hótelum, borðar á veitingastöðum, notar almenningsfarartæki og svo framvegis. Ákveddu fyrir fram hvað þú ætlar að segja til að hefja samræður og bera vitni. Þú gætir jafnvel æft þig á næstu dögum með því að vitna óformlega fyrir nágrönnum þínum, ættingjum, vinnufélögum eða öðrum kunningjum.
6 Þegar þú vitnar óformlega þarftu að hafa meðferðis gott úrval af ritum. Hvaða rit? Þú gætir notað smáritið Langar þig að vita meira um Biblíuna? Bentu á fyrstu fimm efnisgreinarnar þar sem gefnar eru nokkrar ástæður fyrir því að lesa Biblíuna. Sýndu reitinn á baksíðunni þar sem hægt er að óska eftir ókeypis biblíunámskeiði. Bjóddu Kröfubæklinginn þegar þú finnur einhvern sem sýnir áhuga. Taktu líka með þér bæklinginn Good News for All Nations (Fagnaðarerindi fyrir allar þjóðir) því þú gætir alltaf hitt fólk sem talar annað tungumál. Á blaðsíðu 2 er útskýrt hvernig á að nota hann. Ef þú ferðast í bíl gætirðu tekið með þér ýmis önnur rit fyrir þá sem sýna fagnaðarerindinu mikinn áhuga.
7, 8. Hvaða leiðbeiningum ættum við að gefa gaum í sambandi við klæðaburð, snyrtingu og hegðun í frítíma okkar eftir mótsdagskrána og þegar við ferðumst til og frá mótsstaðnum?
7 Gefðu gaum að klæðaburði þínum og hegðun: Við verðum að vera viss um að hegðun okkar, klæðaburður og snyrting gefi öðrum ekki ranga hugmynd eða fái þá til að ‚mótmæla‘ skipulagi Jehóva. (Post. 28:22) Það er ekki nóg að hugsa aðeins um þetta þegar við sækjum mótið heldur þurfum við líka að gera það eftir mótsdagsskrána og þegar við ferðumst til og frá mótsstaðnum. Í Varðturninum, 1. september 2002, á blaðsíðu 30 í grein 14, sagði: „Við ættum ekki að reyna að vekja á okkur athygli með útlitinu, eltast við tískufyrirbrigði eða vera í fötum sem eru furðuleg, ögrandi eða efnislítil. Við ættum að sýna með klæðaburði okkar að við ‚viljum dýrka Guð.‘ Er það ekki umhugsunarvert? Og við ættum ekki bara að vera viðeigandi til fara þegar við erum á safnaðarsamkomum [eða á mótum] en gefa því engan gaum þar á milli. Við erum kristin allan sólarhringinn og útlit okkar ætti því alltaf að endurspegla auðmýkt og virðingu.“ — 1. Tím. 2:9, 10.
8 Við ættum að vera sómasamlega og virðulega klædd. Ef klæðaburður okkar og hegðun ber alltaf vitni um að við trúum á Guð þurfum við aldrei að veigra okkur við að vitna óformlega vegna útlits okkar og framkomu. — 1. Pét. 3:15.
9. Hvaða árangur sá Páll af prédikun sinni í Róm?
9 Óformlegur vitnisburður ber árangur: Páll sá árangur af prédikun sinni þau tvö ár sem hann sat í stofufangelsi í Róm. Lúkas sagði að ‚sumir hefðu látið sannfærast af orðum hans.‘ (Post. 28:24) Páll lagði sjálfur mat á árangurinn af vitnisburði sínum þegar hann skrifaði: „Það, sem fram við mig hefur komið, hefur í raun orðið fagnaðarerindinu til eflingar. Því að það er augljóst orðið í allri lífvarðarhöllinni og fyrir öllum öðrum, að ég er í fjötrum vegna Krists, og flestir af bræðrunum hafa öðlast meira traust á Drottni við fjötra mína og fengið meiri djörfung til að tala orð Guðs óttalaust.“ — Fil. 1:12-14.
10. Hvaða góðan árangur sáu hjón þegar þau vitnuðu óformlega í fyrrasumar?
10 Eftir að hafa varið deginum á umdæmismótinu í fyrrasumar vitnuðu hjón óformlega fyrir þjónustustúlku sem spurði þau um barmmerkin. Þau sögðu henni frá mótinu og hvaða von Biblían gæfi mannkyninu um framtíðina. Þau gáfu henni smáritið Langar þig að vita meira um Biblíuna? og útskýrðu fyrir henni að hægt væri að fá ókeypis biblíunámskeið. Konan óskaði eftir því að einhver heimsækti sig, fyllti út reitinn á baksíðu smáritsins og bað hjónin um að koma honum til skila. Hvaða árangur gætir þú séð í ár með því að vera iðinn við að vitna?
11. Hvaða eiginleika ættum við að þroska með okkur svo að við getum vitnað rækilega í sumar?
11 Stuðlum að framgangi fagnaðarerindisins: Páll hlýtur að hafa verið ánægður þegar hann frétti að trúbræður sínir fylgdu fordæmi hans með því að sýna sama ákafa. Við eigum eftir að njóta góðs af dagskrá landsmótsins í sumar. Gerum einnig það sem við getum til að stuðla að framgangi fagnaðarerindisins með því að vitna óformlega um trú okkar.
[Rammi á blaðsíðu 3]
Gagnleg rit í óformlegu starfi
■ Langar þig að vita meira um Biblíuna?
■ Hvers krefst Guð af okkur?
■ Good News for All Nations
■ Önnur rit
[Rammi á blaðsíðu 4]
Gleymdu þeim ekki!
Gleyma hverjum? Áhugasömum sem sóttu sérræðuna eða minningarhátíðina um dauða Krists. Höfum við boðið þeim á landsmótið í ár? Margir þeirra myndu líklega koma ef þeir fengju örlitla hvatningu. Þeir geta styrkt samband sitt við Jehóva og skipulag hans með því að njóta uppbyggjandi félagsskapar á mótinu og hlusta á andlega uppörvandi dagskrá. Hvers vegna ekki að bjóða þeim og sjá hver árangurinn verður? Gefðu þeim allar þær upplýsingar sem þeir þurfa, hvenær mótið er, hvernig hægt sé að komast þangað, klukkan hvað dagskráin hefst og hvenær henni er lokið, og gefðu þeim svo yfirlit yfir dagskrána sem er á baksíðu Varðturnsins í júlí 2003.