Höfum fullt gagn af samansöfnunum fyrir boðunarstarfið
1. Hvaða gagn getum við haft af samansöfnunum?
1 Samansafnanir veita okkur hagnýtar leiðbeiningar og góða hvatningu áður en við förum í boðunarstarfið. Við getum farið út sem hópur og þannig lært af hvert öðru og hvatt hvert annað. (Orðskv. 27:17; Préd. 4:9, 10) Hvernig getum við haft fullt gagn af samansöfnunum?
2. Nefndu dæmi um það sem umsjónarmaðurinn getur rætt um.
2 Umsjónarmaðurinn: Sjaldnast er til uppkast að umræðum fyrir samansafnanir. Ef þú átt að sjá um samansöfnun þarftu að undirbúa þig vel. Gerðu ekki sjálfkrafa ráð fyrir því að ræða dagstextann þó að þú getir haft hann með í umræðunum ef hann tengist starfinu beint. Hugleiddu hvað kæmi að gagni fyrir þá sem eru að fara í starfið. Þú gætir til dæmis rætt um ákveðna kynningu eða sviðsett hana. Þú gætir ákveðið að rifja upp eitthvað úr Rökræðubókinni, Boðunarskólabókinni eða nýlegu atriði á þjónustusamkomu. Það má jafnvel taka fyrir ákveðið vandamál sem gæti komið upp á svæðinu og hvernig hægt væri að leysa það. Einnig mætti ræða um hvernig hægt er að glæða áhuga fólks og hefja biblíunámskeið — sérstaklega ef margir ætla í endurheimsóknir. Hvert sem umræðuefnið er skaltu vera jákvæður og tala af eldmóði.
3. Hversu löng ætti samansöfnun að vera og hvað ætti að vera búið að ákveða áður en henni lýkur?
3 Byrjaðu samansöfnunina á réttum tíma jafnvel þó að von sé á einhverjum fleirum. Skipuleggðu hópstarfið skynsamlega og sjáðu til þess að allir hafi svæði. Samansöfnun ætti ekki að taka meira en 10 til 15 mínútur og minna ef hún er strax á eftir safnaðarsamkomu. Áður en samansöfnuninni er lokið ættu allir að vita hvar og með hverjum þeir eiga að starfa. Ljúka skal samansöfnuninni með bæn.
4. Hvað stuðlar að því að allir hafi fullt gagn af samansöfnunum?
4 Þið getið lagt ykkar af mörkum: Við sýnum Jehóva virðingu og öðrum tillitssemi með því að mæta tímanlega í samansafnanir rétt eins og á aðrar safnaðarsamkomur. Takið þátt í umræðunum. Þið getið annaðhvort látið umsjónarmanninn ákveða hverjum þið starfið með eða gert eigin ráðstafanir fyrir samansöfnunina. Ef þið gerið það skuluð þið leitast við að kynnast fleirum með því að starfa með mismunandi boðberum í stað þess að fara alltaf með nánum vinum ykkar. (2. Kor. 6:11-13) Reynið að halda ykkur við það sem búið var að ákveða og fara strax út á svæðið þegar samansöfnuninni er lokið.
5. Hver er tilgangurinn með samansöfnunum?
5 Tilgangurinn með samansöfnunum er sá sami og með öðrum safnaðarsamkomum. Þær eru haldnar svo að við „gefum gætur hver að öðrum og hvetjum hver annan til kærleika og góðra verka“. (Hebr. 10:24, 25) Ef við leitumst við að hafa gagn af þeim hjálpa þær okkur að sinna boðunarstarfinu, en það telst svo sannarlega til „góðra verka“.