Samansafnanir fyrir boðunarstarfið
1. Hvers vegna viljum við fara í boðunarstarfið á skipulagðan hátt?
1 Jesús gaf okkur gott fordæmi um hvernig á að hafa umsjón með boðunarstarfinu þannig að það sé skipulagt og skilvirkt. Þeir sem hafa nú á tímum umsjón með boðunarstarfinu um heim allan vilja gjarnan að vel sé haldið utan um starfið líkt og Jesús gerði. Til að stuðla að því eru skipulagðar samansafnanir í söfnuðum um heim allan og eru þær ein af þeim ráðstöfunum sem eru gerðar til að undirbúa boðberana fyrir boðunarstarfið. — Matt. 24:45-47; 25:21; Lúk. 10:1-7.
2. Hvað fer fram í samansöfnunum?
2 Gott fyrirkomulag: Samansöfnunum fyrir boðunarstarfið er ætlað að vera boðberunum til hvatningar og til að gefa þeim leiðbeiningar um hvernig þeir geta borið sig að í boðunarstarfinu. Hægt er að ræða dagstextann þegar hann á greinilega við boðunarstarfið. Stundum er hægt að rifja upp leiðbeiningar úr Ríkisþjónustunni, Boðunarskólabókinni eða Biblíusamræðubæklingnum til að undirbúa alla viðstadda fyrir starfið þann daginn. Einnig mætti hafa stutta sýnikennslu um hvernig við getum notað ritin í starfinu. Áður en lokabænin er flutt ættu allir að vita með hverjum þeir fara í starfið og hvar verður starfað. Allir ættu að vera á leið út á starfssvæðið fljótlega eftir samansöfnunina sem ætti ekki að taka meira en 15 mínútur.
3. Hver hefur yfirumsjón með skipulagningu samansafnana?
3 Hvernig eru samansafnanir skipulagðar? Starfshirðirinn hefur yfirumsjón með samansöfnunum á vegum safnaðarins. Umsjónarmenn starfshópanna eða aðstoðarmenn þeirra taka að sér að fara með sínum starfshópi þegar starfað er um helgar. Sumir öldungar eða safnaðarþjónar geta einnig fylgt hópnum í starfið á virkum dögum. Umsjónarmenn hópanna vinna náið með starfshirðinum og sjá til þess að starfshópurinn hafi nóg svæði til að geta starfað hús úr húsi um helgar. Starfshirðirinn ákveður hverjir fara með hópunum í boðunarstarfið á virkum dögum.
4-6. (a) Hvert er markmiðið með samansöfnunum með tilliti til starfssvæðisins?(b) Hvað er hægt að skoða þegar meta þarf þörfina fyrir samansafnanir?
4 Hvar og hvenær á að halda samansafnanir? Í stað þess að láta allan söfnuðinn hittist á einum stað er yfirleitt best að samansafnanir séu haldnar á hentugum stöðum, venjulega í heimahúsum, vítt og breitt um safnaðarsvæðið. Þetta er gert með það fyrir sjónum að fara sem best yfir starfssvæði safnaðarins. Einnig má nota ríkissalina til að ná þessu markmiði. Í mörgum söfnuðum eru samansafnanir í ríkissalnum strax á eftir samkomum á sunnudögum. Æskilegt er að samansafnanir séu haldnar nálægt fyrirhuguðu starfssvæði svo að ekki fari mikill tími í ferðir. Gott er að endurskoða reglulega hvar og hvenær samansafnanir eru haldnar til þess að tryggja að staðsetningar þeirra henti sem best til að starfið gangi eins vel og hægt er.
5 Það ræðst af starfssvæðinu hvenær best er að hafa samansafnanir og hversu oft í viku. Spurningarnar hér á eftir má nota til viðmiðunar til að ákveða hvar og hvenær sé hentugt að halda samansafnanir.
6 Hvaða starfssvæði þarf að sinna betur? Hvaða tími hentar best til að fara hús úr húsi? Ætti að nota tíma á kvöldin fyrir starf hús úr húsi eða til að fara í endurheimsóknir? Allar áætlanir hvað varðar boðunarstarfið ætti að setja niður á blað og hengja upp á tilkynningatöfluna í ríkissalnum. Allir boðberar vilja fara svo rækilega yfir starfssvæði sitt að þeir geti sagt eins og Páll postuli: „Nú á ég ekki lengur neitt ógert á þessum slóðum.“ — Rómv. 15:23.
7. Hvaða ábyrgð hvílir á þeim sem hefur verið falið að leiða starfshópinn í boðunarstarfinu?
7 Hvernig á að stýra samansöfnun? Sá sem stýrir samansöfnun sýnir fyrirkomulaginu virðingu með því að vera vel undirbúinn. Samansafnanirnar eiga að byrja á réttum tíma og vera fræðandi en stuttar. Þær eiga að taka um 10 til 15 mínútur. Stjórnandinn ætti að hafa tilbúið starfssvæði fyrir samansöfnunina. Þó að ekki sé nauðsynlegt að bíða eftir þeim sem koma þegar samansöfnunin er búin getur verið gagnlegt að skilja eftir skilaboð um hvert hópurinn fer til að starfa. Allir ættu að vera á leiðinni á úthlutað starfssvæði fljótlega eftir að samansöfnuninni er lokið. Vel skipulögð og fræðandi samansöfnun er líkleg til að hjálpa viðstöddum að sinna boðunarstarfinu þann daginn. — Orðskv. 11:14.
8. Hvernig geta þeir sem eru viðstaddir samansafnanir aðstoðað þann sem tekur forystuna?
8 Að vera viðstaddur samansöfnun: Samvinna er nauðsynleg. (Hebr. 13:17) Sá sem leiðir hópinn ætti eftir bestu getu að aðstoða þá sem vantar samstarf. Gott er ef reyndir boðberar eru til staðar til þess að hjálpa til og styðja þá sem eru óreyndari eða nýir. Hægt er að gera mikið gagn með því að starfa af og til með einhverjum nýjum. (Orðskv. 27:17; Rómv. 15:1, 2) Allir ættu að leggja sig fram um að mæta á réttum tíma. Við sýnum virðingu fyrir samansöfnunum og trúsystkinum okkar nærgætni ef við gerum nauðsynlegar breytingar hvað þetta varðar. — 2. Kor. 6:3, 4; Fil. 2:4.
9. Hvernig geta brautryðjendur stutt samansafnanir?
9 Stuðningur brautryðjenda: Stuðningur brautryðjenda í samansöfnunum er dýrmætur og uppörvandi fyrir alla. Brautryðjendur hafa mörgum skyldum að gegna eins og skiljanlegt er. Fyrir utan að halda biblíunámskeið og fara í endurheimsóknir þurfa brautryðjendur kannski líka að sinna fjölskylduábyrgð og vinnu. Brautryðjendum ætti því ekki að finnast þeir skyldugir til að mæta í allar samansafnanir sem söfnuðurinn hefur skipulagt, sérstaklega ef þær eru á hverjum degi. Hins vegar ætti brautryðjandi að geta sótt einhverjar samansafnanir í hverri viku. Að sumu leyti eru samansafnanir vettvangur til að kenna safnaðarmeðlimum. Því getur biblíuleg þekking og reynsla brautryðjenda verið öðrum til mikils gagns. Brautryðjendur fá reynslu af boðunarstarfinu vegna stöðugrar þátttöku sinnar og hafa því miklu að miðla til annarra. Þeir eru öðrum gott fordæmi vegna þess hversu kappsamir þeir eru í boðunarstarfinu og duglegir að mæta í samansafnanir. Þátttaka þeirra í samansöfnunum er mikils virði.
10. Hvers vegna er það við hæfi að allir boðberar styðji samansafnanir heilshugar?
10 Eins og hjá Jesú og lærisveinum hans fer mikill hluti af boðunarstarfinu fram með því að vitna hús úr húsi. Samansafnanir þjóna þeim tilgangi að hvetja boðberana og stuðla að árangursríku starfi. Allir boðberar ættu að styðja samansafnanir eins og þeir geta. (Post. 5:42; 20:20) Við ættum öll að gera þær breytingar sem til þarf. Með því að gera það getum við treyst að Jehóva blessi okkur ríkulega og við gleðjum leiðtoga okkar Jesú Krist þegar við prédikum fagnaðarerindið um ríki Guðs. — Matt. 25:34-40; 28:19, 20.