Forgangsröðum rétt
1. Hvernig sýndi Jesús að prédikunarstarfið var honum mikilvægt?
1 Prédikunarstarfið hafði forgang í lífi Jesú. Hann lagði sig allan fram og gekk hundruð kílómetra um Palestínu þvera og endilanga til að prédika fyrir eins mörgum og hann gat. Hann lifði einföldu lífi til að geta notað meiri tíma í boðunarstarfinu og einbeitt sér betur að því. (Matt. 8:20) Þegar mannfjöldinn reyndi að fá hann til að staldra við svo að hann gæti læknað þá sem veikir voru sagði hann: „Mér ber og að flytja hinum borgunum fagnaðarerindið um Guðs ríki því að til þess var ég sendur.“ — Lúk. 4:43.
2. Hvers vegna fannst Jesú starfið vera svona mikilvægt?
2 Hvers vegna fannst Jesú boðunarstarfið vera svona mikilvægt? Fyrst og fremst var honum umhugað um að nafn Jehóva yrði helgað. (Matt. 6:9) Hann elskaði himneskan föður sinn og þráði þess vegna að framkvæma vilja hans og hlýða honum í einu og öllu. (Jóh. 14:31) Þar að auki var honum innilega annt um fólkið og hann vildi hjálpa því. — Matt. 9:36, 37.
3. Hvernig sýnum við að við látum starfið hafa forgang?
3 Líkjum eftir Jesú: Það getur verið áskorun að láta boðunarstarfið hafa forgang eins og Jesús gerði. Heimurinn gerir miklar kröfur á tíma okkar og býður einnig upp á margt sem truflar okkur. (Matt. 24:37-39; Lúk. 21:34) Þess vegna verðum við að,meta þá hluti rétt sem máli skipta‘ og taka frá tíma til að undirbúa okkur fyrir og fara reglulega í boðunarstarfið. (Fil. 1:10) Við leggjum okkur fram um að halda lífi okkar einföldu og nýtum ekki heiminn til fulls. — 1. Kor. 7:31.
4. Hvers vegna er það nauðsynlegt að forgangsraða rétt núna?
4 Þegar tíminn er takmarkaður er viturlegt að forgangsraða. Ef við vissum að hættulegt ofsaveður væri í aðsigi myndum við nota tíma okkar og krafta til að gera varúðarráðstafanir fyrir fjölskyldu okkar og láta nágrannana vita. Annað yrði að bíða. Tíminn, sem við höfum þangað til Harmagedón skellur á, er naumur. (Sef. 1:14-16; 1. Kor. 7:29) Til að bjarga okkur og áheyrendum okkar þurfum við stöðugt að gefa gætur að sjálfum okkur og kennslunni, bæði innan safnaðarins og utan. (1. Tím. 4:16) Já, björgunin er undir því komin að við látum boðunarstarfið hafa forgang.