Höfum það markmið í huga að gera fólk að lærisveinum
1. Hvað þarf að gera til að fólk bjargist?
1 Ársskýrslan 2014 sýnir að vottar Jehóva boða fagnaðarerindið um Guðsríki af brennandi áhuga. (Matt. 24:14) Með boðunarstarfi okkar hús úr húsi, dreifingu smárita og boðsmiða ásamt ritatrillustarfi náum við að færa fleira fólki en nokkru sinni fyrr boðskap Biblíunnar. En ef fólk á að bjargast verðum við að kenna því með hjálp Biblíunnar svo það geti orðið lærisveinar Jesú. – 1. Tím. 2:4.
2. Hvaða spurninga ættum við þá að spyrja okkur ef við viljum vera tilbúin að bjóða biblíunámskeið?
2 Vertu tilbúinn að bjóða biblíunámskeið: Reynirðu að fá nafn og heimilisfang eða símanúmer þegar fólk sýnir áhuga, með það fyrir augum að hafa fljótt aftur samband og hefja biblíunámskeið? Hvenær reyndirðu síðast að sýna í fyrstu heimsókn hvernig biblíunámskeið fer fram? Hvenær bauðstu síðast einhverjum á blaðaleið þinni biblíunámskeið? Hefurðu sýnt vinnufélögum, skólafélögum, nágrönnum eða öðrum kunningjum myndskeiðin Hvers vegna ættum við að kynna okkur Biblíuna? og Hvernig fer biblíunámskeið fram? Reynirðu að láta fólk, sem tekur námsrit af ritatrillu hjá þér, vita að það geti líka fengið ókeypis biblíunámskeið?
3. Hvað þarf til að kenna sannleikann með góðum árangri?
3 Hjálp frá Jehóva og Jesú: Þegar Jesús sagði „farið“ og gerið fólk „að lærisveinum“ gaf hann til kynna að við þyrftum að leggja eitthvað á okkur og sýna frumkvæði. En við þurfum ekki að gera það af eigin rammleik því hann lofaði að vera með okkur. (Matt. 28:19, 20) Auk þess hefur Jehóva gefið okkur heilagan anda og séð okkur fyrir nauðsynlegum verkfærum og þjálfun til að geta kennt fólki sannleikann. (Sak. 4:6; 2. Kor. 4:7) Við getum beðið hann um að hjálpa okkur „bæði að vilja og að framkvæma“ þetta mikilvæga starf. – Fil. 2:13.
4. Hvers vegna ættum við að hafa það markmið í huga að gera fólk að lærisveinum?
4 Það veitir okkur mikla ánægju að boða fagnaðarerindið. En við verðum enn ánægðari þegar við kennum fólki sannleikann og hjálpum því að slást í för með okkur á ,veginum sem liggur til lífsins‘. (Matt. 7:14; 1. Þess. 2:19, 20) Það er ekki síður mikilvægt að hafa það markmið í huga að gera fólk að lærisveinum, því að þá gleðjum við Jehóva sem „vill ekki að neinn glatist heldur að allir komist til iðrunar“. – 2. Pét. 3:9.