NÁMSGREIN 20
SÖNGUR 67 Boða trú
Látum kærleikann vera drifkraftinn í boðuninni
‚Fyrst þarf að boða öllum þjóðum fagnaðarboðskapinn.‘ – MARK. 13:10.
Í HNOTSKURN
Kærleikurinn hvetur okkur til að vera kappsöm og heils hugar í boðuninni.
1. Af hvaða nýjungum fréttum við á ársfundinum 2023?
Á ÁRSFUNDINUM 2023a fengum við gleggri skilning á ákveðnum trúarskoðunum okkar og heyrðum spennandi tilkynningar um boðunina. Sumir einstaklingar gætu fengið tækifæri til að taka afstöðu með Jehóva jafnvel eftir eyðingu Babýlonar hinnar miklu. Við fengum líka að vita að frá og með nóvember 2023 þyrftu boðberar ekki lengur að gera eins ítarlega grein fyrir boðuninni á starfsskýrslu sinni. Gera slíkar breytingar boðun trúarinnar minna áríðandi en áður? Alls ekki!
2. Hvers vegna verður boðunin meira aðkallandi með hverjum deginum? (Markús 13:10)
2 Með hverjum deginum sem líður verður boðun okkar meira aðkallandi. Hvernig þá? Tíminn er að renna út. Skoðum hvað Jesús sagði um boðunina á síðustu dögum. (Lestu Markús 13:10.) Samkvæmt hliðstæðri frásögn Matteusar sagði Jesús að fagnaðarboðskapurinn yrði boðaður um alla jörðina áður en „endirinn“ kæmi. (Matt. 24:14) Orðalagið vísar til endaloka þessarar illu heimsskipanar Satans. Jehóva hefur ákveðið „daginn og stundina“ þegar þetta verður að veruleika. (Matt. 24:36; 25:13; Post. 1:7) Við færumst nær þessum tímapunkti með hverjum deginum. (Rómv. 13:11) Við verðum að boða trúna áfram þar til endirinn kemur.
3. Hver er drifkraftur okkar í boðuninni?
3 Þegar við hugleiðum boðun okkar er gott að við spyrjum okkur hreinskilnislega: Hvers vegna boðum við fagnaðarboðskapinn? Kærleikur er drifkraftur okkar. Það sem við gerum í boðuninni endurspeglar kærleika okkar. Við elskum fagnaðarboðskapinn, fólk og umfram allt Jehóva og nafn hans. Skoðum þetta betur.
VIÐ ELSKUM FAGNAÐARBOÐSKAPINN
4. Hvernig líður okkur þegar við fáum góðar fréttir?
4 Hvernig líður þér þegar þú færð góðar fréttir? Kannski hefur barn fæðst í fjölskyldunni eða þú hefur fengið boð um vinnu sem þú hefur mikla þörf fyrir. Eflaust ertu mjög spenntur að segja fjölskyldu og vinum þessar góðu fréttir. Leið þér líka þannig þegar þú heyrðir fagnaðarboðskapinn um Guðsríki – bestu fréttir sem hægt er að fá?
5. Hvernig leið þér þegar þú kynntist sannleikanum í orði Guðs? (Sjá einnig myndir.)
5 Manstu hvernig þér leið þegar þú heyrðir fyrst sannleikann í orði Guðs? Þú uppgötvaðir að faðir þinn á himnum elskar þig. Hann bauð þér í fjölskyldu tilbiðjenda sinna. Hann hefur lofað að binda enda á þjáningar, gefið þér von um að sjá látna ástvini fá upprisu í nýja heiminum og margt fleira. (Mark. 10:29, 30; Jóh. 5:28, 29; Rómv. 8:38, 39; Opinb. 21:3, 4) Það sem þú lærðir snerti þig djúpt. (Lúk. 24:32) Þú fórst að elska þessi dýrmætu sannindi og gast ekki haldið þeim bara út af fyrir þig. – Samanber Jeremía 20:9.
Þegar við kynntumst fagnaðarboðskapnum gátum við ekki haldið þessum dýrmætu sannindum út af fyrir okkur. (Sjá 5. grein.)
6. Hvað geturðu lært af Ernest og Rose?
6 Bróðir sem heitir Ernestb var um tíu ára gamall þegar faðir hans dó. Hann segir: „Ég velti því fyrir mér hvort hann hefði farið til himna eða væri dáinn að eilífu? Ég öfundaði önnur börn sem áttu föður á lífi.“ Ernest fór reglulega í kirkjugarðinn, kraup við leiði föður síns og bað: „Góði Guð, hvar er pabbi minn?“ Um það bil 17 árum eftir að faðir Ernests lést var honum boðið biblíunámskeið sem hann þáði. Hann var mjög ánægður þegar hann komst að því að hinir dánu eru án meðvitundar, eins og þeir væru sofandi, og að Biblían lofar upprisu í framtíðinni. (Préd. 9:5, 10; Post. 24:15) Loksins fékk hann svör við spurningunum sem höfðu leitað svo lengi á hann. Ernest var mjög spenntur að læra þessi nýju biblíusannindi. Rose eiginkona hans fór að rannsaka Biblíuna með honum og hún var líka mjög ánægð með það sem hún lærði. Þau létu skírast árið 1978. Þau sögðu fjölskyldunni, vinum og öllum sem vildu hlusta frá því sem þau voru að læra. Kærleikur Ernest og Rose til boðskaparins gerði það að verkum að þau hafa hjálpað yfir 70 manns til skírnar.
7. Hvað gerist þegar við förum að elska sannindi Biblíunnar? (Lúkas 6:45)
7 Þegar við förum að elska sannindi Biblíunnar getum við ekki annað en sagt öðrum frá þeim. (Lestu Lúkas 6:45.) Okkur er eins innanbrjósts og lærisveinum Jesú sem sögðu: „Við getum ekki hætt að tala um það sem við höfum séð og heyrt.“ (Post. 4:20) Við elskum sannleikann svo mikið að við viljum segja eins mörgum og við getum frá honum.
VIÐ ELSKUM FÓLK
8. Hvað hvetur okkur til að segja öðrum frá fagnaðarboðskapnum? (Sjá rammann „Elskum fólk og gerum það að lærisveinum“.) (Sjá einnig mynd.)
8 Við elskum fólk eins og Jehóva og sonur hans. (Orðskv. 8:31; Jóh. 3:16) Við finnum til innilegrar samúðar með þeim sem eru „án Guðs“ og hafa „enga von“. (Ef. 2:12) Fólk er að drukkna í vandamálum lífsins en við höfum björgunarhringinn sem það þarfnast – fagnaðarboðskapinn um Guðsríki. Kærleikur okkar og samkennd fær okkur til að gera allt sem við getum til að segja þessu fólki frá fagnaðarboðskapnum. Þessi dýrmæti boðskapur getur fyllt hjörtu þess von, hjálpað því að vera hamingjusamt núna og gefið því möguleika á að hljóta „hið sanna líf“ – eilíft líf í nýjum heimi Guðs. – 1. Tím. 6:19.
Kærleikur okkar til fólks og samkennd fær okkur til að nýta hvert tækifæri til að segja því frá fagnaðarboðskapnum. (Sjá 8. grein.)
9. Hvaða viðvörun flytjum við öðrum um framtíðina og hvers vegna? (Esekíel 33:7, 8)
9 Kærleikur okkar til fólks knýr okkur til þess að vara það við komandi endi þessa illa heims. (Lestu Esekíel 33:7, 8.) Við finnum til með öllum sem þjóna ekki Jehóva, þar á meðal þeim sem eru í fjölskyldu okkar. Margir lifa lífinu án þess að vita hvað er yfirvofandi, „svo mikil þrenging að annað eins hefur ekki gerst frá upphafi heims allt til þessa og gerist aldrei aftur“. (Matt. 24:21) Við viljum að fólk fái að vita hvað gerist þegar að þessum dómi kemur. Fyrst verður fölskum trúarbrögðum eytt og síðan verður hinni illu heimskipan eytt í Harmagedón. (Opinb. 16:14, 16; 17:16, 17; 19:11, 19, 20) Það er bænarefni okkar að eins margir og mögulegt er bregðist við viðvöruninni og sameinist okkur núna í hreinni tilbeiðslu. En hvað um þá sem fram að þessu hafa ekki viljað hlusta á okkur, þar á meðal þá sem eru í fjölskyldu okkar?
10. Hvers vegna er áríðandi að halda áfram að segja fólki hvað mun fljótlega gerast?
10 Eins og útskýrt var í námsgreininni á undan gæti verið að Jehóva bjargi fólki sem snýst til trúar á hann þegar það sér eyðingu Babýlonar hinnar miklu. Ef þetta reynist rétt er enn þá meira áríðandi að við höldum áfram að vara fólk við. Fólk getur munað eftir því síðar sem við höfum sagt því frá áður. (Samanber Esekíel 33:33.) Það man kannski eftir viðvörun okkar og vill þjóna Jehóva með okkur áður en það er of seint. Fangavörðurinn í Filippí snerist ekki til trúar fyrr en eftir að öflugur jarðskjálfti varð. Kannski munu sumir bregðast við á líkan hátt og snúast til trúar eftir eyðingu Babýlonar hinnar miklu. – Post. 16:25–34.
VIÐ ELSKUM JEHÓVA OG NAFN HANS
11. Hvernig gefum við Jehóva dýrðina, heiðurinn og máttinn? (Opinberunarbókin 4:11) (Sjá einnig myndir.)
11 Mikilvægasta ástæðan fyrir því að við boðum fagnaðarboðskapinn er sú að við elskum Jehóva Guð og heilagt nafn hans. Við lítum á boðunina sem leið til að lofa Guð sem við elskum. (Lestu Opinberunarbókina 4:11.) Við tilbiðjum Jehóva af öllu hjarta vitandi að hann er þess verður að fá dýrðina, heiðurinn og máttinn. Við gefum honum dýrðina og heiðurinn þegar við bendum öðrum á sannfærandi rök fyrir því að hann hafi skapað allt og að við eigum honum tilveru okkar að þakka. Við gefum honum máttinn, okkar eigin mátt, þegar við notum tíma okkar, orku og eigur til að taka þátt í boðuninni í eins miklum mæli og aðstæður okkar leyfa. (Matt. 6:33; Lúk. 13:24; Kól. 3:23) Við elskum Guð og þess vegna langar okkur að tala um hann. Við viljum líka tala við aðra um nafn hans og fyrir hvað það stendur. Hvers vegna?
Við gefum Jehóva mátt okkar þegar við notum tíma okkar, orku og eigur til að taka eins mikinn þátt í boðuninni og aðstæður okkar leyfa. (Sjá 11. grein.)
12. Hvernig helgum við nafn Jehóva í boðuninni?
12 Við elskum Jehóva og þess vegna viljum við helga nafn hans. (Matt. 6:9) Þetta þýðir að við segjum fólki að það sem Satan segir um Jehóva séu hræðilegar lygar. (1. Mós. 3:1–5; Job. 2:4; Jóh. 8:44) Í boðuninni er okkur mikið í mun að verja orðstír Guðs og segja öðrum sannleikann um hann. Við viljum að allir fái að vita að það er kærleikur sem einkennir hann mest, að stjórn hans er réttlát og sanngjörn og að ríki hans mun fljótlega binda enda á allar þjáningar og færa mannkyninu frið og hamingju. (Sálm. 37:10, 11, 29; 1. Jóh. 4:8) Þegar við verjum orðstír Jehóva í boðuninni helgum við nafn hans. Við höfum líka þá fullvissu að við stöndum undir nafni. Hvernig þá?
13. Hvers vegna getum við verið stolt af því að vera kölluð vottar Jehóva? (Jesaja 43:10–12)
13 Jehóva hefur valið okkur til að vera votta sína. (Lestu Jesaja 43:10–12.) Fyrir nokkrum árum sagði í bréfi frá hinu stjórnandi ráði: „Mesti heiður sem okkur getur hlotnast er að vera kölluð vottar Jehóva.“ Hvers vegna? Tökum dæmi. Ef þú þyrftir að fá einhvern til að bera vitni um persónuleika þinn fyrir rétti myndirðu að sjálfsögðu velja einhvern sem þú þekkir og treystir, einhvern með gott mannorð en það gerir vitnisburð hans traustvekjandi. Með því að velja okkur til að vera votta sína sýnir Jehóva að hann þekki okkur vel og treysti okkur til að bera vitni um að hann sé hinn eini sanni Guð. Það er okkur svo mikill heiður að vera vottar hans að við notum hvert tækifæri sem gefst til þess að kunngera nafn hans og sýna fram á að allt það hræðilega sem hefur verið sagt um hann sé rangt. Þannig stöndum við undir því nafni sem við erum svo stolt að bera – vottar Jehóva. – Sálm. 83:18; Rómv. 10:13–15.
VIÐ BOÐUM TRÚNA ALLT TIL ENDA
14. Hverju gætum við átt von á í framtíðinni?
14 Hverju gætum við átt von á í framtíðinni? Með blessun Jehóva vonumst við til að sjá marga fleiri taka við sannleikanum áður en þrengingin mikla brestur á. Það er líka spennandi að hugsa til þess að á myrkustu tímum mannkynssögunnar – í þrengingunni miklu – gætum við átt von á að enn fleira fólk snúi baki við heimi Satans og sameinist okkur í að tilbiðja Jehóva. – Post. 13:48.
15, 16. Hvað höldum við áfram að gera og hversu lengi?
15 Þangað til höfum við verk að vinna. Við tökum þátt í verkefni sem verður aldrei endurtekið – að boða fagnaðarboðskapinn um Guðsríki um alla jörðina. Við þurfum líka að vara fólk við því sem mun fljótlega gerast. Fólk þarf að vita að endir þessa illa heimskerfis nálgast óðfluga. Þegar tími dómsins rennur upp mun fólk skilja að boðskapurinn sem við boðuðum kom frá Jehóva Guði. – Esek. 38:23.
16 Hvað erum við ákveðin í að gera? Kærleikurinn knýr okkur til að boða trúna áfram. Við elskum fagnaðarboðskapinn, fólk og umfram allt Jehóva Guð og nafn hans. Okkur finnst áríðandi að boða trúna af ákafa og kappi þangað til Jehóva segir að komið sé nóg.
SÖNGUR 54 „Þetta er vegurinn“
a Ársfundurinn var haldinn 7. október 2023 í mótshöll Votta Jehóva í Newburgh í New York. Allri dagskránni var síðar sjónvarpað í Sjónvarpi Votta Jehóva, fyrri hlutanum í nóvember 2023 og síðari hlutanum í janúar 2024.
b Sjá greinina „Biblían breytir lífi fólks – skýr og rökrétt svör Biblíunnar snertu mig djúpt“ í Varðturninum 1. mars 2015.