NÁMSGREIN 17
SÖNGUR 99 Milljónir bræðra
Við erum aldrei ein
„Ég hjálpa þér.“ – JES. 41:10.
Í HNOTSKURN
Við skoðum hvernig Jehóva annast okkur á fjóra mismunandi vegu.
1, 2. (a) Hvers vegna getum við verið viss um að við séum aldrei ein þegar við göngum í gegnum erfiðleika? (b) Hvað er til umfjöllunar í þessari námsgrein?
ÞEGAR við göngum í gegnum erfiðar prófraunir gæti okkur liðið eins og við séum alein á báti í stormviðri. En við erum ekki ein. Ástríkur faðir okkar á himnum tekur ekki bara eftir erfiðleikum okkar, hann lofar okkur líka að koma okkur í gegnum þá. Jehóva veitir trúföstum þjónum sínum fullvissu fyrir því þegar hann segir hlýlega: „Ég hjálpa þér.“ – Jes. 41:10.
2 Í þessari námsgrein er fjallað um hvernig Jehóva hjálpar okkur með því að (1) leiðbeina okkur, (2) sjá fyrir þörfum okkar, (3) vernda okkur og (4) hugga okkur. Hann fullvissar okkur um að hann muni aldrei gleyma okkur, hvaða erfiðleikum sem við mætum í lífinu. Hann yfirgefur okkur aldrei. Við erum því aldrei ein.
JEHÓVA LEIÐBEINIR OKKUR
3, 4. Hvernig leiðbeinir Jehóva okkur? (Sálmur 48:14)
3 Lestu Sálm 48:14. Jehóva væntir þess ekki að við treystum á eigin visku til að leiðbeina okkur. Hvernig leiðbeinir hann trúföstum tilbiðjendum sínum nú á dögum? Hann notar meðal annars Biblíuna til þess. (Sálm. 119:105) Jehóva hjálpar okkur með innblásnu orði sínu að taka ákvarðanir og þroska með okkur eiginleika sem stuðla að hamingju núna og veita eilíft líf í framtíðinni.a Hann kennir okkur til dæmis að fyrirgefa og láta af gremju, vera heiðarleg í öllu og elska aðra af öllu hjarta. (Sálm. 37:8; Hebr. 13:18; 1. Pét. 1:22) Við verðum betri foreldrar, makar og vinir þegar við sýnum þessa eiginleika.
4 Auk þess hefur Jehóva séð til þess að við getum lesið frásögur í orði hans um raunverulegt fólk sem átti í erfiðleikum og glímdi við tilfinningar eins og við. (1. Kor. 10:13; Jak. 5:17) Þegar við lesum þessar frásögur og nýtum okkur lærdóminn sem við getum dregið af þeim gagnast það okkur minnsta kosti á tvo vegu. Í fyrsta lagi áttum við okkur á því að við erum aldrei ein – aðrir hafa tekist á við svipaðar aðstæður og komist í gegnum þær með hjálp Jehóva. (1. Pét. 5:9) Í öðru lagi lærum við hvernig við getum tekist á við prófraunir. – Rómv. 15:4.
5. Hverja notar Jehóva til að leiðbeina okkur á veginum til lífsins?
5 Jehóva hefur líka séð til þess að bræður okkar og systur leiðbeini okkur.b Farandhirðar heimsækja til dæmis söfnuðina reglulega til að uppörva okkur. Ræður þeirra styrkja trú okkar og hjálpa okkur að varðveita þá dýrmætu einingu sem ríkir meðal okkar. (Post. 15:40–16:5) Safnaðaröldungar sýna líka velferð hvers og eins boðbera einlægan áhuga. (1. Pét. 5:2, 3) Foreldrar kenna börnum sínum að elska Jehóva, taka skynsamlegar ákvarðanir og tileinka sér góðar venjur. (Orðskv. 22:6) Og þroskaðar kristnar konur hjálpa yngri systrum með góðu fordæmi, gagnlegum ráðum og hlýlegri uppörvun. – Tít. 2:3–5.
6. Hvað þurfum við að gera til að hafa gagn af leiðbeiningum Jehóva?
6 Jehóva hefur gefið okkur allt sem við þurfum til að taka góðar ákvarðanir og vera ánægð. Hvernig getum við sýnt að við kunnum að meta það sem hann hefur gert fyrir okkur? Orðskviðirnir 3:5, 6 segja: „Treystu Jehóva af öllu hjarta og reiddu þig ekki á eigin vitsmuni.“ Þegar við gerum það ‚mun hann greiða götu okkar‘. Það merkir að hann hjálpar okkur að forðast margs konar erfiðleika og njóta betra lífs en ella. Jehóva gefur hverju og einu okkar kærleiksrík ráð. Við getum spurt okkur hvar við værum ef við hefðum ekki leiðbeiningar hans. – Sálm. 32:8.
JEHÓVA SÉR FYRIR ÞÖRFUM OKKAR
7. Á hvaða mismunandi vegu sér Jehóva fyrir þörfum okkar? (Filippíbréfið 4:19)
7 Lestu Filippíbréfið 4:19. Auk þess að sjá okkur fyrir andlegri leiðsögn blessar Jehóva viðleitni okkar til að sjá okkur fyrir því sem við þurfum – fæði, klæði og húsnæði. (Matt. 6:33; 2. Þess. 3:12) Það er eðlilegt að vera umhugað um efnislegar þarfir okkar en Jehóva hvetur okkur til að hafa ekki of miklar áhyggjur. (Matt. 6:25) Hvers vegna? Vegna þess að faðir okkar yfirgefur aldrei trúfasta tilbiðjendur sína þegar þeir þurfa á honum að halda. (Matt. 6:8; Hebr. 13:5) Við getum treyst honum algerlega þegar hann segist sjá fyrir okkur.
8. Hvað gerði Jehóva fyrir Davíð?
8 Skoðum hvernig Jehóva hjálpaði Davíð. Þau erfiðu ár sem hann var á flótta sá Jehóva honum og mönnum hans fyrir því sem þeir þurftu til að lifa. Þegar Davíð leit til baka og rifjaði upp hvernig Jehóva annaðist hann á þessum tíma sagði hann: „Eitt sinn var ég ungur og nú er ég gamall en aldrei hef ég séð réttlátan mann yfirgefinn né börn hans leita sér matar.“ (Sálm. 37:25) Þú hefur að öllum líkindum líka tekið eftir hvernig Jehóva sér fyrir trúföstum þjónum sínum.
9. Hvernig sér Jehóva fyrir þörfum þjóna sinna nú á dögum þegar hamfarir dynja yfir? (Sjá einnig myndir.)
9 Jehóva sér einnig fyrir þörfum þjóna sinna þegar hamfarir dynja yfir. Þegar til dæmis þjónar Guðs á fyrstu öld þurftu að þola hungursneyð sendu bræður og systur frá öðrum löndum þeim hjálpargögn. (Post. 11:27–30; Rómv. 15:25, 26) Fólk Guðs nú á dögum sýnir sama örlæti. Þegar náttúruhamfarir dynja yfir knýr Jehóva þjóna sína til að sjá þeim sem búa á hamfarasvæðinu fyrir nauðsynjum eins og mat, vatni, fötum og lyfjum. Byggingarteymi gera við skemmdir á heimilum og ríkissölum. Og þjónar Jehóva bregðast fljótt við til að veita þeim tilfinningalegan og andlegan stuðning sem hafa misst heimili eða ástvini.c
Hvernig veitir Jehóva okkur huggun þegar hamfarir dynja yfir okkur? (Sjá 9. grein.)e
10, 11. Hvað lærum við af reynslu Borísar?
10 Jehóva er örlátur og sér líka fyrir þeim sem þjóna honum ekki enn. Við leitum líka leiða til að sýna þeim góðvild sem eru ekki sömu trúar og við. (Gal. 6:10) Þannig getum við stuðlað að því að þeir kynnist Jehóva. Tökum reynslu Borísar sem dæmi, en hann er skólastjóri sem býr í Úkraínu. Hann er ekki vottur Jehóva en hefur alltaf komið vel fram við nemendur sína sem eru vottar og sýnt trú þeirra virðingu. Trúsystkini okkar hjálpuðu Borís að komast á öruggari stað í landinu þegar hann ákvað að flýja stríðshrjáð svæðið þar sem hann bjó. Seinna sótti Borís minningarhátíðina um dauða Krists. Þegar hann rifjaði þetta upp sagði hann: „Vottarnir sýndu mér mikla umhyggju og sáu svo vel um mig. Ég er þakklátur vottum Jehóva.“
11 Við getum öll líkt eftir miskunnsömum föður okkar á himnum með því að sýna þeim kærleika sem þarfnast hjálpar, hvort sem þeir eru sömu trúar og við eða ekki. (Lúk. 6:31, 36) Það er ósk okkar að það sem við leggjum á okkur til að sýna fólki kærleika verði til þess að það verði lærisveinar Krists. (1. Pét. 2:12) En hvort sem það gerist eða ekki njótum við þeirrar ánægju sem hlýst af því að gefa. – Post. 20:35.
JEHÓVA VERNDAR OKKUR
12. Hvaða vernd lofar Jehóva þjónum sínum í heild? (Sálmur 91:1, 2, 14)
12 Lestu Sálm 91:1, 2, 14. Jehóva lofar að veita þjónum sínum vernd gegn því sem gæti skaðað samband þeirra við hann. Hann mun aldrei leyfa Satan að spilla sannri tilbeiðslu. (Jóh. 17:15) Og þegar þrengingin mikla skellur á getum við verið fullviss um að Jehóva standi við loforð sitt um að vernda þjóna sína, bæði andlega og líkamlega. – Opinb. 7:9, 14.
13. Hvernig verndar Jehóva okkur sem einstaklinga?
13 Hvernig verndar Jehóva okkur sem einstaklinga? Hann kennir okkur í Biblíunni að greina rétt frá röngu. (Hebr. 5:14) Við verndum sambandið við Jehóva og lifum heilbrigðara og ánægjulegra lífi þegar við lifum eftir meginreglum Biblíunnar. (Sálm. 91:4) Jehóva sér okkur líka fyrir vernd fyrir atbeina safnaðarins. (Jes. 32:1, 2) Við fáum uppörvun og styrk til að standa á móti skaðlegum áhrifum þegar við sækjumst eftir félagsskap þeirra sem elska Jehóva og lifa eftir meginreglum hans. – Orðskv. 13:20.
14. (a) Hvers vegna bjargar Jehóva okkur ekki úr öllum prófraunum? (b) Hvað fullvissar Sálmur 9:10 okkur um? (Sjá einnig neðanmáls.)
14 Jehóva verndaði stundum þjóna sína til forna gegn líkamlegu tjóni eða dauða. En hann gerði það ekki alltaf. Í Biblíunni segir að óvæntir atburðir geti mætt öllum. (Préd. 9:11) Jehóva hefur líka í gegnum tíðina leyft ofsóknir á hendur þjónum sínum sem hefur jafnvel kostað þá lífið til að sanna Satan lygara. (Job. 2:4–6; Matt. 23:34) Það sama á við á okkar dögum. Þó að Jehóva losi okkur ekki alltaf við erfiðleikana megum við vera viss um að hann yfirgefi aldrei þá sem elska hann.d – Sálm. 9:10.
JEHÓVA HUGGAR OKKUR
15. Hvernig fáum við huggun með hjálp bænarinnar, orðs Guðs og samkomanna? (2. Korintubréf 1:3, 4)
15 Lestu 2. Korintubréf 1:3, 4. Stundum upplifum við sorg, kvíða eða áhyggjur. Þú ert kannski einmitt núna að ganga í gegnum erfiðleika sem gera það að verkum að þér finnst þú vera einn. Er einhver sem skilur hvernig þér líður? Jehóva gerir það. Hann finnur ekki bara til með okkur heldur ‚huggar hann okkur í öllum prófraunum okkar‘. Hvernig gerir hann það? Þegar við úthellum hjarta okkar í bæn til Jehóva gefur hann okkur ‚frið Guðs, sem er æðri öllum skilningi‘. (Fil. 4:6, 7) Við fáum líka huggun þegar við lesum þau orð í Biblíunni sem Jehóva beinir til okkar. Í henni tjáir hann okkur hversu mikið hann elskar okkur, kennir okkur að vera skynsöm og gefur okkur von. Við fáum líka huggun á samkomum okkar en þar fáum við uppörvun frá Biblíunni og erum í félagsskap bræðra og systra sem elska okkur.
16. Hvað lærir þú af reynslu Nathans og Priscillu?
16 Skoðum reynslu Nathans og Priscillu sem búa í Bandaríkjunum til að sjá hvernig Jehóva getur notað orð sitt til að hugga og uppörva. Fyrir nokkrum árum ákváðu þau að flytja þangað sem var meiri þörf á boðberum. „Við treystum því að Jehóva myndi blessa ákvörðun okkar,“ segir Nathan. En eftir að þau komu á nýja staðinn þurftu þau að glíma við óvænt heilsuvandamál og fjárhagsvanda. Að lokum neyddust þau til að flytja aftur heim þar sem þau glímdu áfram við fjárhagserfiðleika. „Ég velti fyrir mér hvers vegna Jehóva blessaði ekki áform okkar eins og við bjuggumst við,“ segir Nathan. „Ég fór meira segja að hugsa hvort ég hefði gert eitthvað rangt.“ En með tímanum áttuðu Nathan og Priscilla sig á að Guð hafði ekki yfirgefið þau þegar þau áttu erfitt. „Á þessum erfiða tíma reyndist Biblían eins og vitur vinur sem hvatti okkur og leiðbeindi,“ segir Nathan. „Að veita því athygli hvernig Jehóva hjálpaði okkur að halda út í erfiðleikunum í stað þess að einblína á prófraunina bjó okkur undir að vera trúföst í frekari erfiðleikum.“
17. Hvernig fékk Helga huggun? (Sjá einnig mynd.)
17 Bræður okkar og systur geta líka veitt okkur huggun. Reynsla Helgu sem býr í Ungverjalandi staðfestir þetta. Í mörg ár þurfti hún að ganga í gegnum mikla erfiðleika sem gerðu hana örvæntingarfulla og henni fannst hún einskis virði. En þegar hún lítur um öxl sér hún að Jehóva hefur notað söfnuðinn til að hugga hana. Hún segir: „Jehóva hefur alltaf hjálpað mér þegar ég hef verið að bugast vegna vinnu, við að annast veikt barnið mitt eða vegna annarra erfiðleika. Það hefur ekki liðið sá dagur síðustu 30 ár sem hann hefur ekki haldið loforð sitt um að hugga mig. Hann gerir það gjarnan með því að fá aðra til að sýna mér vinsemd, hugulsemi eða þakklæti. Ég hef oft fengið skilaboð, kort eða hrós einmitt þegar ég hef þurft mest á því að halda.“
Hvernig gæti Jehóva notað þig til að hugga aðra? (Sjá 17. grein.)
18. Hvernig getum við huggað aðra?
18 Það er dýrmætt fyrir okkur að geta líkt eftir Guði með því að hugga aðra. Hvernig getum við gert það? Við getum hlustað þolinmóð á þá, sagt eitthvað uppörvandi og rétt þeim hjálparhönd. (Orðskv. 3:27) Við leitumst við að hugga alla sem þjást, líka þá sem þjóna Guði ekki enn. Þegar nágrannar okkar upplifa sorg eða eru veikir eða kvíðnir heimsækjum við þá, hlustum á þá og sýnum þeim uppörvandi biblíuvers. Þegar við líkjum eftir Jehóva, „Guði allrar huggunar“, getum við ekki aðeins hjálpað trúsystkinum að halda út í prófraunum heldur gætum við líka laðað þá sem þjóna ekki Guði að hreinni tilbeiðslu. – Matt. 5:16.
JEHÓVA ER ALLTAF TIL STAÐAR FYRIR OKKUR
19. Hvað gerir Jehóva fyrir okkur og hvernig getum við líkt eftir honum?
19 Jehóva er innilega annt um alla þá sem elska hann. Hann yfirgefur okkur ekki þegar við eigum erfitt. Jehóva annast trúfasta tilbiðjendur sína rétt eins og foreldri annast barn sitt af umhyggju. Hann leiðbeinir okkur, sér fyrir þörfum okkar, verndar okkur og huggar. Við líkjum eftir kærleiksríkum föður okkar á himnum þegar við styðjum og uppörvum aðra í þeirra erfiðleikum. Við getum verið viss um að Jehóva er með okkur þótt erfiðleikar og hugarangur íþyngi okkur. Hann hefur lofað: „Vertu ekki hræddur því að ég er með þér.“ (Jes. 41:10) Það er hughreystandi að vita það. Við erum aldrei ein.
SÖNGUR 100 Verum gestrisin
a Sjá greinina „Heiðraðu Guð með ákvörðunum þínum“ í Varðturninum 15. apríl 2011.
b Sjá greinar 11–14 í námsgreininni „Fylgjum alltaf leiðsögn Jehóva“ í Varðturninum febrúar 2024.
c Hægt er að finna nýleg dæmi á jw.org með því að setja inn orðið „hjálparstarf“ í leitargluggann.
d Sjá „Spurningar frá lesendum“ í Varðturninum febrúar 2017.
e MYND: Bræður og systur í Malaví fá efnislegan og andlegan stuðning eftir náttúruhamfarir.