Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w24 október bls. 6-11
  • Jehóva „læknar hina sorgmæddu“

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Jehóva „læknar hina sorgmæddu“
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2024
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • JEHÓVA MINNIR OKKUR Á AÐ VIÐ ERUM DÝRMÆT
  • JEHÓVA VILL AÐ VIÐ ÞIGGJUM FYRIRGEFNINGU HANS
  • JEHÓVA HUGGAR OKKUR MEÐ HEILÖGUM ANDA
  • JEHÓVA NOTAR TRÚSYSTKINI TIL AÐ HUGGA OKKUR
  • FINNDU HUGGUN Í LOFORÐUM JEHÓVA UM FRAMTÍÐINA
  • Viðurkennum auðmjúk að við vitum ekki allt
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
  • Við erum aldrei ein
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
  • Mundu að Jehóva er „lifandi Guð“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2024
  • Jehóva hjálpar okkur að halda út
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2024
w24 október bls. 6-11

NÁMSGREIN 40

SÖNGUR 30 Guð er vinur minn og faðir

Jehóva „læknar hina sorgmæddu“

„Hann læknar hina sorgmæddu og bindur um sár þeirra.“ – SÁLM. 147:3.

Í HNOTSKURN

Jehóva er innilega annt um þá sem bera tilfinningaleg sár. Í þessari námsgrein sjáum við hvernig hann linar sársauka okkar og gerir okkur kleift að hugga aðra.

1. Hvernig hugsar Jehóva til þjóna sinna?

JEHÓVA sér allt sem þjónar hans ganga í gegnum. Hann er meðvitaður um gleði okkar og sorgir. (Sálm. 37:18) Hann er mjög stoltur af okkur þegar hann sér að við þjónum honum eftir bestu getu þótt við þurfum að takast á við sársaukafullar tilfinningar. Og hann er meira en fús til að styðja okkur í gegnum erfiðleikana og hugga okkur.

2. Hvað gerir Jehóva fyrir sorgmædda og hvernig getum við notið góðs af umhyggju hans?

2 Í Sálmi 147:3 segir að Jehóva ‚bindi um sár‘ hinna sorgmæddu. Við sjáum hvernig Jehóva er umhyggjusamur við þá sem eru niðurbrotnir. Hvað verðum við að leggja af mörkum til að njóta hjálpar Jehóva? Lýsum því með dæmi. Góður læknir getur gert margt til að hjálpa þeim sem hefur orðið fyrir meiðslum til að sár hans grói. En hann verður samt sjálfur að gera sitt og fylgja vandlega leiðbeiningum læknisins. Í þessari námsgrein skoðum við hvað Jehóva segir í orði sínu við þá sem bera tilfinningaleg sár. Og við ræðum líka hvernig við getum fylgt kærleiksríkum ráðum hans.

JEHÓVA MINNIR OKKUR Á AÐ VIÐ ERUM DÝRMÆT

3. Hvers vegna finnst sumum þeir vera lítils virði?

3 Við lifum í kærleikslausum heimi. Það hefur þau áhrif að mörgum finnst þeir lítils virði. Systir sem heitir Helena segir: „Ég ólst upp í fjölskyldu þar sem skorti kærleika. Pabbi var ofbeldisfullur og hamraði daglega á því hversu gagnslaus við værum.“ Kannski hefur einhver líka komið illa fram við þig, gagnrýnt þig stöðugt og brotið þig niður. Ef sú er raunin áttu kannski erfitt með að trúa því að einhverjum þyki raunverulega vænt um þig.

4. Hvernig lítur Jehóva á hina niðurbrotnu og hverju lofar hann þeim samkvæmt Sálmi 34:18?

4 Þú mátt vera viss um að Jehóva elski og kunni að meta þig, jafnvel þótt aðrir hafi farið illa með þig. Hann „er nálægur hinum sorgbitnu“. (Lestu Sálm 34:18.) Ef þér finnst þú einskis virði mundu þá að Jehóva sá eitthvað gott í hjarta þínu og dró þig til sín. (Jóh. 6:44) Hann er alltaf reiðubúinn að hjálpa þér af því að honum þykir innilega vænt um þig.

5. Hvað lærum við af framkomu Jesú við þá sem aðrir litu niður á?

5 Við lærum margt um tilfinningar Jehóva þegar við skoðum fordæmi Jesú. Þegar hann var hér á jörðinni tók hann eftir þeim sem aðrir litu niður á og sýndi þeim samkennd. (Matt. 9:9–12) Kona sem vonaðist eftir lækningu af alvarlegum sjúkdómi snerti Jesú. Hann hughreysti hana og hrósaði henni fyrir að sýna trú. (Mark. 5:25–34) Jesús líkir fullkomlega eftir föður sínum. (Jóh. 14:9) Þú getur verið viss um að Jehóva meti þig að verðleikum og taki eftir góðum eiginleikum þínum, þar á meðal trú þinni og kærleika til hans.

6. Hvað geturðu gert ef þú hefur lágt sjálfsmat?

6 Hvað geturðu gert ef þú efast stöðugt um eigin verðleika? Lestu og hugleiddu biblíuvers sem hjálpa þér að sjá þig eins og Jehóva sér þig.b (Sálm. 94:19) Dæmdu þig ekki of hart ef þér hefur ekki tekist að ná ákveðnu markmiði eða þú ert niðurdreginn af því að þú getur ekki gert eins mikið og aðrir. Jehóva ætlast ekki til að þú gerir meira en þú getur. (Sálm. 103:13, 14) Ef þú varst fyrir illri meðferð fyrr á ævinni skaltu ekki kenna sjálfum þér um. Þú áttir þetta alls ekki skilið. Jehóva lætur illvirkjana svara til saka en ekki fórnarlömbin. (1. Pét. 3:12) Sandra var beitt ofbeldi sem barn. Hún segir: „Ég bið Jehóva aftur og aftur að hjálpa mér að sjá mig eins og hann sér mig.“

Ísraelsmaður heldur á spörfugli.

Þú ert dýrmætur í augum Jehóva

Eftirfarandi biblíuvers sýna fram á að þú ert mikils virði í augum Jehóva:

  • Sálmur 56:8. Þegar þú ert dapur tekur Jehóva eftir tárum þínum. Hann finnur til með þér.

  • Lúkas 12:6, 7. Jehóva tekur eftir smáfugli og honum finnst þeir mikils virði. Þú hlýtur því að vera langtum dýrmætari í augum hans. Hann hefur mikinn áhuga á þér og gerþekkir þig af því að hann elskar þig.

  • 1. Jóhannesarbréf 3:19, 20. Þótt þú efist um eigin verðleika skaltu muna að Jehóva ‚er meiri en hjarta þitt‘ og metur þig að verðleikum.

7. Hvernig getur fyrri reynsla nýst okkur í þjónustu Jehóva?

7 Efastu aldrei um að Jehóva getur notað þig til að hjálpa öðrum. Hann hefur gefið þér þann heiður að vera samverkamaður sinn í boðuninni. (1. Kor. 3:9) Það sem þú hefur gengið í gegnum hjálpar þér líklega að sýna samkennd og skilning. Það er margt sem þú getur gert til að hjálpa öðrum. Helen, sem vitnað var í áður, fékk hjálp og er nú betur í stakk búin til að hjálpa öðrum. Hún segir: „Áður fannst mér ég vera einskis virði en Jehóva hefur hjálpað mér að finnast ég elskuð og koma öðrum að gagni.“ Helen er núna ánægð að starfa sem brautryðjandi.

JEHÓVA VILL AÐ VIÐ ÞIGGJUM FYRIRGEFNINGU HANS

8. Hvað fullvissar Jehóva okkur um í Jesaja 1:18?

8 Sumir þjónar Jehóva eru miður sín vegna synda sem þeir drýgðu áður, annaðhvort fyrir eða eftir skírn sína. En gleymum ekki að Jehóva gaf lausnargjaldið af því að hann elskar okkur svo heitt. Honum er umhugað um að við þiggjum þessa gjöf. Hann vill að við komum til sín og „greiðum úr málum okkar“c og hann lofar að fyrirgefa okkur algerlega. (Lestu Jesaja 1:18.) Það er mjög kærleiksríkt af honum að minnast ekki fyrri synda okkar. Og hann gleymir aldrei því góða sem við höfum gert. – Sálm. 103:9, 12; Hebr. 6:10.

9. Hvers vegna ættum við ekki að dvelja í fortíðinni?

9 Ef fortíðin ásækir þig skaltu hugsa um það sem þú ert að gera núna og getur gert í framtíðinni frekar en að dvelja í fortíðinni. Skoðum fordæmi Páls postula. Hann sá eftir því að hafa ofsótt kristna menn grimmilega. En hann vissi að Jehóva hafði fyrirgefið honum. (1. Tím. 1:12–15) Hélt hann áfram að velta sér upp úr fyrri syndum? Örugglega ekki, rétt eins og hann dvaldi ekki við það sem hann hefði getað orðið ef hann hefði haldið áfram sem farísei. (Fil. 3:4–8, 13–15) Þess í stað einbeitti Páll sér að því að gera sitt besta í boðuninni og horfði til framtíðar. Þú getur ekki breytt fortíðinni frekar en Páll. En þú getur heiðrað Jehóva, hverjar sem aðstæður þínar eru, og hugsað um þá dásamlegu framtíð sem hann hefur lofað þér.

10. Hvað getum við gert ef við höfum sært aðra?

10 Það veldur þér kannski hugarangri ef þú hefur sært aðra með einhverju sem þú hefur gert. Hvað er þá til ráða? Gerðu það sem þú getur til að bæta skaðann. Þú gætir beðist einlæglega afsökunar. (2. Kor. 7:11) Biddu Jehóva að hjálpa þeim sem gætu liðið fyrir það sem þú gerðir. Hann getur hjálpað þér og þeim sem þú særðir að halda áfram með lífið og endurheimta hugarfrið.

11. Hvað getum við lært af Jónasi spámanni? (Sjá einnig mynd.)

11 Lærðu af mistökum þínum og leyfðu Jehóva að ráða hvaða verkefni hann vill gefa þér í þjónustu sinni. Tökum Jónas spámann sem dæmi. Í stað þess að fara til Níníve, eins og Guð hafði sagt honum, flúði hann í gagnstæða átt. Jehóva agaði Jónas og hann lærði af mistökunum. (Jónas 1:1–4, 15–17; 2:7–10) Jehóva gafst ekki upp á honum. Hann gaf honum annað tækifæri til að fara til Níníve og í þetta skipti hlýddi Jónas strax. Hann lét ekki eftirsjá vegna fyrri mistaka aftra sér að taka við verkefni frá Jehóva. – Jónas 3:1–3.

Jónas spámaður stendur rennandi blautur í fjörunni og horfir til himins.

Eftir að Jónas komst heill á húfi úr maga stórfisks segir Jehóva honum aftur að fara til Níníve og kunngera boðskap sinn. (Sjá 11. grein.)


JEHÓVA HUGGAR OKKUR MEÐ HEILÖGUM ANDA

12. Hvernig gefur Jehóva okkur frið þegar við verðum fyrir áfalli eða missi? (Filippíbréfið 4:6, 7)

12 Jehóva notar heilagan anda til að hugga okkur þegar við verðum fyrir áfalli eða missi. Ron og Carol fundu sterkt fyrir því þegar þau urðu fyrir því mikla áfalli að sonur þeirra tók líf sitt. Þau sögðu: „Við höfðum gengið í gegnum ýmsa erfiðleika en þetta var það langerfiðasta. Við áttum margar svefnlausar nætur og báðum heitt til Jehóva. Þá fundum við þann frið sem lýst er í Filippíbréfinu 4:6, 7.“ (Lestu.) Ef þú ert að ganga í gegnum mikla erfiðleika geturðu úthellt hjarta þínu fyrir Jehóva í bæn eins oft og lengi og þú vilt. (Sálm. 86:3; 88:1) Biddu Jehóva stöðugt að gefa þér heilagan anda. Hann er alltaf tilbúinn að styðja þig. – Lúk. 11:9–13.

13. Hvernig getur heilagur andi hjálpað okkur að halda áfram að þjóna Jehóva af trúfesti? (Efesusbréfið 3:16)

13 Ertu alveg orkulaus af því að þú ert að ganga í gegnum erfiða prófraun? Heilagur andi getur gefið þér þann styrk sem þú þarft til að halda áfram að þjóna Jehóva trúfastlega. (Lestu Efesusbréfið 3:16.) Lítum á það sem henti systur að nafni Flora. Hún var trúboði ásamt eiginmanni sínum þegar hann hélt fram hjá henni og í kjölfarið skildu þau. Hún segir: „Ég var algerlega niðurbrotin og gat ekki hugsað um neitt annað. Ég bað Jehóva um heilagan anda til að geta haldið út. Jehóva huggaði mig og hjálpaði mér að takast á við sorg sem virtist óyfirstíganleg.“ Floru finnst Guð hafa hjálpað sér að treysta betur á hann og hún er viss um að hann hjálpi henni í gegnum hvaða prófraun sem verður á vegi hennar. Hún bætir við: „Það sem segir í Sálmi 119:32 á vel við mig: ‚Ég held boðorð þín af öllu hjarta því að þú opnar hjarta mitt fyrir þeim.‘“

14. Hvað getum við gert til að andi Guðs vinni með okkur?

14 Hvað ættirðu að gera eftir að hafa beðið Jehóva um heilagan anda? Gerðu það sem gerir þér kleift að fá anda Guðs í enn ríkari mæli eins og að sækja samkomur og tala við aðra um trúna. Lestu Biblíuna daglega til að skilja betur hvernig hann hugsar. (Fil. 4:8, 9) Taktu eftir biblíupersónum sem urðu fyrir prófraunum og hugleiddu hvernig Jehóva hjálpaði þeim að takast á við þær. Sandra, sem áður er vitnað í, gekk í gegnum margvíslega erfiðleika. Hún segir: „Frásagan af Jósef hefur haft mjög mikil áhrif á mig. Hann leyfði hvorki prófraunum né óréttlæti að veikja samband sitt við Jehóva.“ – 1. Mós. 39:21–23.

JEHÓVA NOTAR TRÚSYSTKINI TIL AÐ HUGGA OKKUR

15. Hverjir geta huggað okkur og hvaða hjálp geta þeir veitt okkur? (Sjá einnig mynd.)

15 Þegar við þjáumst geta trúsystkini verið okkur „til mikillar hughreystingar“. (Kól. 4:11) Þau vitna um kærleika Jehóva til okkar. Bræður og systur geta huggað okkur með því að hlusta á okkur af samúð eða einfaldlega með því að verja tíma með okkur. Þau lesa kannski huggandi biblíuvers eða biðja með okkur.d (Rómv. 15:4) Og þau minna okkur stundum á viðhorf Jehóva til hlutanna og hjálpa okkur þannig að halda rónni. Trúsystkini rétta okkur líka oft hjálparhönd, til dæmis með því að færa okkur eitthvað að borða þegar við höfum orðið fyrir áfalli.

Tveir öldungar heimsækja systur á spítala. Þeir tala við hana og biblíur þeirra eru opnar.

Traustir og þroskaðir vinir geta hughreyst okkur og stutt. (Sjá 15. grein.)


16. Hvað gætum við þurft að gera til að fá hjálp frá öðrum?

16 Stundum gætum við þurft að biðja um hjálp. Bræður og systur elska okkur og vilja hjálpa. (Orðskv. 17:17) En þau vita kannski ekki alltaf hvernig okkur líður og hvers við þörfnumst. (Orðskv. 14:10) Ef þér líður illa skaltu tala við góðan vin. Láttu hann vita hvað hann getur gert til að hjálpa þér. Þú gætir talað við einn eða tvo öldunga sem þú átt auðvelt með að tala við. Sumum systrum hefur fundist uppörvandi að tala við þroskaða systur.

17. Hvað getur staðið í vegi fyrir því að við fáum uppörvun og hvernig getum við yfirstigið það?

17 Ekki láta undan lönguninni að einangra þig. Þér gæti liðið svo illa að þig langi ekki til að vera innan um aðra. Bræður og systur skilja ekki alltaf hvað þú ert að ganga í gegnum og segja kannski eitthvað í hugsunarleysi. (Jak. 3:2) Láttu það ekki koma í veg fyrir að þú fáir uppörvun. Öldungur að nafni Gavin á við þunglyndi að stríða. Hann segir: „Þegar mér líður illa er ég alls ekki upplagður til að hafa samband við vini mína.“ En Gavin lætur þetta ekki stoppa sig. Það gerir honum gott að vera innan um trúsystkini. Systir sem heitir Amy segir: „Það sem ég hef lent í gerir mér erfitt fyrir að treysta öðrum. En ég er að læra að elska bræður og systur og treysta þeim eins og Jehóva gerir. Ég veit að það gleður Jehóva og ég verð glaðari líka.“

FINNDU HUGGUN Í LOFORÐUM JEHÓVA UM FRAMTÍÐINA

18. Hvers getum við hlakkað til í framtíðinni og hvað getum við gert núna?

18 Við getum litið björtum augum til framtíðar af því að við vitum að Jehóva mun bráðlega græða öll líkamleg og tilfinningaleg sár. (Opinb. 21:3, 4) Þá mun allt það sársaukafulla sem við höfum upplifað „ekki íþyngja hjartanu“. (Jes. 65:17) Og Jehóva bindur um sár okkar núna eins og við höfum rætt. Nýttu þér til fulls allt sem Jehóva gerir fyrir þig til að hjálpa þér og hugga. Efastu ekki eitt augnablik um að ‚hann beri umhyggju fyrir þér‘. – 1. Pét. 5:7.

HVERNIG HJÁLPAR JEHÓVA OKKUR …

  • að berjast gegn lágu sjálfsmati?

  • að dvelja ekki í fortíðinni?

  • að fá huggun fyrir atbeina trúsystkina?

SÖNGUR 7 Jehóva er styrkur okkar

a Nöfnum hefur verið breytt.

b Sjá rammann „Þú ert dýrmætur í augum Jehóva“.

c Til að ‚greiða úr málum‘ gagnvart Jehóva verðum við að sýna iðrun með því að biðja hann um fyrirgefningu og breyta um stefnu. Ef við drýgjum alvarlega synd verðum við að leita aðstoðar öldunganna í söfnuðinum. – Jak. 5:14, 15.

d Finndu fleiri biblíuvers með því setja inn leitarorðin „kvíði“, „áhyggjur“ og „huggun“ í leitargluggann á jw.org.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila