Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w25 ágúst bls. 2-7
  • Jehóva hjálpar okkur að halda út

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Jehóva hjálpar okkur að halda út
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • BÆNIN
  • ORÐ GUÐS
  • BRÆÐUR OKKAR OG SYSTUR
  • VON OKKAR
  • Mundu að Jehóva er „lifandi Guð“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2024
  • Viðurkennum auðmjúk að við vitum ekki allt
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
  • Bréf sem hjálpar okkur að vera trúföst allt til enda
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2024
  • Jehóva „læknar hina sorgmæddu“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2024
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
w25 ágúst bls. 2-7

NÁMSGREIN 32

SÖNGUR 38 Hann mun styrkja þig

Jehóva hjálpar okkur að halda út

„Guð, sem sýnir einstaka góðvild … mun efla ykkur, styrkja og gera óhagganleg.“ – 1. PÉT. 5:10.

Í HNOTSKURN

Við skoðum þær ráðstafanir sem Jehóva hefur gert til að hjálpa okkur að hafa þolgæði og halda út og hvernig við getum nýtt okkur hverja og eina þeirra.

1. Hvers vegna þurfum við að vera þolgóð og hvaða hjálp höfum við? (1. Pétursbréf 5:10)

VIÐ lifum á erfiðum tímum og þjónar Guðs þurfa því að sýna úthald og vera þolgóðir. Sumir þjást af langvinnum sjúkdómum. Aðrir takast á við ástvinamissi. Og svo eru þeir sem verða fyrir andstöðu frá fjölskyldu sinni eða yfirvöldum. (Matt. 10:18, 36, 37) Þú getur verið viss um að sama hvaða erfiðleika þú ert að glíma við þá getur Jehóva hjálpað þér að halda út. – Lestu 1. Pétursbréf 5:10.

2. Hvað gerir okkur kleift að halda út?

2 Úthald er nátengt þolgæði sem við þörfnumst til að gefast ekki upp og til að varðveita vonina andspænis hindrunum, ofsóknum, prófraunum og freistingum. Til að halda út sem þjónar Guðs getum við ekki reitt okkur á eigin styrk heldur þurfum við að reiða okkur á ‚kraftinn sem er ofar mannlegum mætti‘ og kemur frá Jehóva. (2. Kor. 4:7) Í þessari námsgrein skoðum við fjórar ráðstafanir sem Jehóva hefur gert til að hjálpa okkur að halda út. Við athugum líka hvað við getum gert til að nýta okkur hverja og eina þeirra.

BÆNIN

3. Hvers vegna getum við sagt að bænin sé kraftaverk?

3 Jehóva hefur séð okkur fyrir sannkölluðu kraftaverki til að hjálpa okkur að halda út. Þrátt fyrir syndugt eðli okkar gerir hann okkur kleift að eiga samskipti við sig. (Hebr. 4:16) Hugsaðu þér, við getum beðið til Jehóva hvenær sem er og um hvaða málefni sem er. Hann hlustar á okkur á hvaða tungumáli sem er og hvar sem er, jafnvel þótt við séum einangruð eða í fangelsi. (Jónas 2:1, 2; Post. 16:25, 26) Þótt við komum ekki orðum að hugsunum okkar getur Jehóva skilið það sem við vildum hafa sagt. (Rómv. 8:26, 27) Bænin er sannkallað kraftaverk!

4. Hvernig vitum við að það er í samræmi við vilja Jehóva að biðja um úthald?

4 Jehóva fullvissar okkur í orði sínu um „að hann heyri okkur, hvað sem við biðjum um samkvæmt vilja hans“. (1. Jóh. 5:14) Getum við beðið Jehóva um hjálp til að halda út? Já! Hann vill ekki að við gefumst upp. Þegar við höldum út í prófraunum svörum við nefnilega þeim sem hæðist að honum, Satan Djöflinum. (Orðskv. 27:11) Auk þess segir Biblían að Jehóva langi að ‚beita mætti sínum í þágu þeirra sem eru heils hugar við hann‘. (2. Kron. 16:9) Við getum því verið viss um að hann hefur bæði máttinn og löngunina til að hjálpa okkur að halda út. – Jes. 30:18; 41:10; Lúk. 11:13.

5. Hvernig getur bænin gefið okkur hugarfrið? (Jesaja 26:3)

5 Biblían segir að þegar við úthellum hjarta okkar muni ‚friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, vernda hjörtu okkar og huga‘. (Fil. 4:7) Er það ekki dýrmætt! Fólk sem þjónar ekki Jehóva mætir líka ýmis konar erfiðleikum og notar kannski ýmsar aðferðir til að öðlast innri frið. Sumir nota til dæmis hugleiðsluaðferðir sem fela í sér að tæma hugann algerlega og losna þannig við kvíða. Við getum gert okkur berskjölduð fyrir illum öndum þegar við tæmum hugann þannig. (Samanber Matteus 12:43–45.) Auk þess er friðurinn sem Jehóva gefur okkur þegar við biðjum til hans langtum æðri þeim friði sem fólk getur öðlast í gegnum slíka hugleiðslu. Þegar við biðjum til Jehóva sýnir það að við treystum honum fyllilega og hann gefur okkur „stöðugan frið“, jafnvel við erfiðustu aðstæður. (Lestu Jesaja 26:3.) Ein leið sem Jehóva notar er að hjálpa okkur að muna eftir uppörvandi biblíuversum. Þessi vers minna okkur á væntumþykju hans og hversu mikið hann langar til að hjálpa okkur. – Sálm. 62:1, 2.

6. Hvernig geturðu notfært þér bænina til fulls? (Sjá einnig mynd.)

6 Hvað getur þú gert? Þegar reynir á trú þína skaltu ‚varpa byrði þinni á Jehóva‘ og biðja um frið hans. (Sálm. 55:22) Biddu líka um visku til að takast á við erfiðleikana. (Orðskv. 2:10, 11) Þegar þú biður innilega um úthald skaltu líka muna að þakka honum. (Fil. 4:6) Vertu vakandi fyrir merkjum um að Jehóva sé að styðja þig og þakkaðu honum fyrir stuðning hans. Láttu ekki prófraunina sem þú glímir við blinda þig fyrir því góða sem Jehóva hefur gert fyrir þig. – Sálm. 16:5, 6.

Eldri bróðir situr heima um vetur og fer með bæn. Hann er með opna Biblíu í kjöltunni og pilluglas stendur á borðinu.

Þegar þú ferð með bæn talar þú við Jehóva. Þegar þú lest í Biblíunni talar Jehóva við þig. (Sjá 6. grein.)b


ORÐ GUÐS

7. Hvernig getur biblíunám hjálpað okkur að halda út?

7 Jehóva gaf okkur orð sitt svo að við gætum haldið út. Biblían hefur að geyma mörg vers sem fullvissa okkur um stuðning hans. Skoðum bara eitt dæmi. Í Matteusi 6:8 segir: „Faðir ykkar veit hvers þið þarfnist, jafnvel áður en þið biðjið hann.“ Það var Jesús sem sagði þetta og hann þekkir Jehóva miklu betur en allir aðrir. Þess vegna þurfum við ekki að efast um að Jehóva láti sér annt um þarfir okkar þegar við göngum í gegnum raunir. Í Biblíunni eru mörg önnur vers sem geta hjálpað okkur að halda út. – Sálm. 94:19.

8. (a) Nefndu dæmi um meginreglu í Biblíunni sem getur hjálpað okkur að halda út. (b) Hvað getur hjálpað okkur að kalla fram í hugann meginreglur þegar við þurfum á því að halda?

8 Meginreglur Biblíunnar geta hjálpað okkur að halda út. Þær fela í sér hagnýta visku sem hjálpar okkur að taka skynsamlegar ákvarðanir. (Orðskv. 2:6, 7) Biblían hvetur okkur til dæmis til að taka einn dag í einu frekar en hafa óþarfa áhyggjur af því hvað gerist eða gerist ekki á morgun. (Matt. 6:34) Ef við lesum reglulega í Biblíunni og hugleiðum orð Guðs erum við líklegri til að muna eftir meginreglum þegar við þurfum á þeim að halda.

9. Hvernig hjálpa frásögur Biblíunnar okkur að treysta betur á hjálp Jehóva?

9 Biblían inniheldur líka sannsögulegar frásögur af venjulegu fólki sem treysti Jehóva og fékk hjálp hans. (Hebr. 11:32–34; Jak. 5:17) Þegar við hugleiðum slíkar frásögur styrkist sannfæring okkar um að Jehóva sé ‚skjól okkar og styrkur sem hjálpar okkur alltaf á neyðartímum‘. (Sálm. 46:1) Þegar við hugleiðum trúfasta lífsstefnu þjóna Guðs í fortíðinni hvetur það okkur til að líkja eftir trú þeirra og fordæmi. – Jak. 5:10, 11.

10. Hvernig geturðu nýtt þér Biblíuna á sem bestan hátt?

10 Hvað getur þú gert? Lestu daglega í Biblíunni og komdu þér upp lista af biblíuversum sem koma þér sérstaklega að gagni. Margir byrja líka daginn á því að lesa dagstextann til að fá uppörvun frá Biblíunni. Systir sem heitir Mariea sannreyndi þetta þegar báðir foreldrar hennar greindust með krabbamein. Hvað hjálpaði henni að halda út meðan hún annaðist þá síðustu mánuði lífs þeirra? „Á hverjum morgni las ég í Rannsökum Ritningarnar daglega og hugleiddi dagstextann,“ segir hún. „Þessi venja hjálpaði mér að hugsa um hlutina í stærra samhengi, ekki bara þær erfiðu aðstæður sem ég var í.“ – Sálm. 61:2.

BRÆÐUR OKKAR OG SYSTUR

11. Hvers vegna er uppörvandi að vita að við erum ekki ein þegar við göngum í gegnum raunir?

11 Jehóva sér okkur fyrir bræðralaginu sem hjálpar okkur að halda út. Vitneskjan um að ‚trúsystkini okkar um allan heim verði fyrir sömu þjáningum‘ fullvissar okkur um að við séum ekki ein. (1. Pét. 5:9) Við getum verið viss um að óháð þeim raunum sem við göngum í gegnum hafa aðrir staðið frammi fyrir svipuðum aðstæðum og staðist raunirnar. Það þýðir að við getum það líka. – Post. 14:22.

12. Hvernig geta bræður og systur hjálpað okkur og hvað getum við gert fyrir þau? (2. Korintubréf 1:3, 4)

12 Bræður okkar og systur geta uppörvað okkur til að halda út. Páll postuli upplifði þetta. Hann tjáði oft þakklæti fyrir trúsystkini sem hjálpuðu honum þegar hann var í stofufangelsi og nefndi þau með nafni. Þau veittu Páli huggun, hvatningu og hagnýta hjálp. (Fil. 2:25, 29, 30; Kól. 4:10, 11) Við getum upplifað eitthvað í líkingu við þetta. Þegar við þurfum á hjálp að halda til að halda út eru bræður og systur til staðar fyrir okkur og þegar þau þurfa hjálp erum við til staðar fyrir þau. – Lestu 2. Korintubréf 1:3, 4.

13. Hvað hjálpaði Maju að halda út?

13 Maja, sem er systir í Rússlandi, fékk einstaka uppörvun frá trúsystkinum sínum. Gerð var húsleit á heimili hennar árið 2020 og síðar var hún leidd fyrir rétt fyrir að segja öðrum frá trú sinni. „Þegar ég var tilfinningalega úrvinda hringdu bræður og systur í mig og skrifuðu mér til að fullvissa mig um að þau elskuðu mig,“ segir Maja. „Ég hafði alltaf vitað að ég tilheyrði stórri kærleiksríkri fjölskyldu. En frá 2020 finnst mér þetta enn áþreifanlegra.“

14. Hvernig getur stuðningur trúsystkina hjálpað okkur að halda út? (Sjá einnig mynd.)

14 Hvað getur þú gert? Það er mikilvægt að vera í nánum samskiptum við bræður og systur þegar við göngum í gegnum erfiðleika. Hikaðu ekki við að biðja öldungana um hjálp. Þeir geta verið „eins og skjól fyrir vindi og skýli í slagviðri“. (Jes. 32:2) Og gleymdu ekki að trúsystkini þín eru líka að glíma við erfiðleika. Þegar þú gerir eitthvað gott fyrir aðra hjálpar það þér að vera rólegur og jákvæður í þínum eigin erfiðleikum. – Post. 20:35.

Eldri bróðirinn á myndinni á undan situr heima um vor í notalegum samræðum við hjón og tvær ungar dætur þeirra. Við hlið hans er göngustafur og fáein pilluglös á borðinu. Önnur dóttirin sýnir honum teikningu af paradís.

Njóttu félagsskapar trúsystkina þinna. (Sjá 14. grein.)c


VON OKKAR

15. Hvernig hjálpar vonin trúföstum þjónum Guðs og hvernig hjálpaði hún Jesú? (Hebreabréfið 12:2)

15 Jehóva hefur gefið okkur örugga von sem hjálpar okkur að halda út. (Rómv. 15:13) Mundu hvernig vonin hjálpaði Jesú að komast í gegnum erfiðasta dag lífs síns. (Lestu Hebreabréfið 12:2.) Jesús vissi að trúfesti hans myndi stuðla að því að nafn Jehóva yrði hreinsað. Hann hlakkaði líka til að vera aftur með föður sínum og með tímanum hinum andasmurðu í Guðsríki á himnum. Vonin um að lifa að eilífu í nýjum heimi Guðs hjálpar okkur líka að þola hverja þá raun sem heimur Satans leggur á okkur.

16. Hvernig hjálpaði vonin Öllu að halda út og hvað lærum við af henni?

16 Alla er systir í Rússlandi. Skoðum hvernig vonin hjálpaði henni þegar maðurinn hennar var hnepptur í gæsluvarðhald. Meðan á þessu stóð sagði Alla: „Þegar ég tala um vonina í bænum mínum og hugleiði hana kemur það í veg fyrir að ég verði of niðurdregin. Það hjálpar mér að muna að þetta endar ekki svona. Jehóva fer með sigur af hólmi og við líka.“

17. Hvernig getum við sýnt að við kunnum að meta vonina sem Biblían gefur okkur? (Sjá einnig mynd.)

17 Hvað getur þú gert? Taktu þér tíma til að hugsa um þá dásamlegu framtíð sem Jehóva hefur lofað okkur. Sjáðu sjálfan þig fyrir þér í nýjum heimi Guðs og þá blessun sem þú munt njóta. Þegar þar að kemur munu allar þrengingar sem við mætum núna virðast skammvinnar og léttbærar. (2. Kor. 4:17) Gerðu líka þitt besta til að segja öðrum frá trú þinni. Ímyndaðu þér hvað það hlýtur að vera erfitt fyrir fólk að takast á við raunirnar í heimi Satans án þess að þekkja loforð Guðs um framtíðina. Þú gætir vakið áhuga annarra á voninni um ríkið þótt þú segir ekki mikið.

Eldri bróðirinn situr á heimili sínu um haust og hugsar um myndina af paradís á spjaldtölvunni. Við hlið hans er göngustafur og mörg pilluglös á borðinu.

Taktu þér tíma til að hugsa um dásamlegu framtíðina sem Jehóva hefur lofað okkur. (Sjá 17. grein.)d


18. Hvers vegna getum við treyst loforðum Jehóva?

18 Eftir að Job hafði haldið út í margs konar erfiðleikum sagði hann við Jehóva: „Nú veit ég að þú getur allt og ekkert sem þú ætlar að gera er þér ofviða.“ (Job. 42:2) Job komst að því að ekkert getur komið í veg fyrir að fyrirætlun Jehóva nái fram að ganga. Þessi vitneskja getur gefið okkur styrk til að halda út. Tökum dæmi: Ímyndum okkur að veik kona sé orðin vonlítil eftir að hafa leitað til margra lækna án þess að hafa fengið hjálp. En þá kemur reyndur og virtur læknir sem ber kennsl á vandamálið og útskýrir fyrir henni hvernig hann geti meðhöndlað sjúkdóminn. Þungu fargi er af henni létt þótt batinn eigi eftir að taka sinn tíma. Núna getur hún haldið út vegna þess að hún hefur öðlast trausta von – von um að henni muni batna. Eins getur vonin um paradís hjálpað okkur að halda út.

19. Hvað þurfum við að gera til að halda út?

19 Eins og við höfum séð hjálpar Jehóva okkur að komast í gegnum erfiðleika með bæninni, orði sínu, trúsystkinum og voninni. Ef við notfærum okkur það sem Jehóva gefur okkur til fullnustu mun hann bera okkur í gegnum alla erfiðleika allt til þess dags að heimur Satans verður úr sögunni. – Fil. 4:13.

HVERNIG HJÁLPAR JEHÓVA OKKUR AÐ HALDA ÚT MEÐ HJÁLP …

  • bænarinnar og orðs síns?

  • bræðra okkar og systra?

  • vonar okkar?

SÖNGUR 33 Varpaðu áhyggjum þínum á Jehóva

a Sumum nöfnum í þessari námsgrein hefur verið breytt.

b MYND: Eldri bróðir heldur trúfastur út árum saman.

c MYND: Eldri bróðir heldur trúfastur út árum saman.

d MYND: Eldri bróðir heldur trúfastur út árum saman.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila