Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w25 ágúst bls. 8-13
  • Þiggjum kærleika Jehóva

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Þiggjum kærleika Jehóva
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • HVERS VEGNA ER MIKILVÆGT AÐ ÞÚ TRÚIR ÞVÍ AÐ JEHÓVA ELSKI ÞIG?
  • HVAÐ GETUR AUÐVELDAÐ OKKUR AÐ TREYSTA ÞVÍ AÐ JEHÓVA ELSKI OKKUR?
  • JESÚS HJÁLPAR OKKUR AÐ TAKA Á MÓTI KÆRLEIKA JEHÓVA
  • HALTU ÁFRAM AÐ STYRKJA SANNFÆRINGU ÞÍNA
  • Jehóva ber innilega umhyggju fyrir þér
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2024
  • Hvað lærum við af lausnargjaldinu?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
  • Viðurkennum auðmjúk að við vitum ekki allt
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
  • Látum kærleikann vera drifkraftinn í boðuninni
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2024
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
w25 ágúst bls. 8-13

NÁMSGREIN 33

SÖNGUR 4 Jehóva er minn hirðir

Þiggjum kærleika Jehóva

‚Ég hef dregið þig til mín með tryggum kærleika.‘ – JER. 31:3.

Í HNOTSKURN

Við lærum hvers vegna það er mikilvægt að trúa því að Jehóva elski okkur og hvernig við getum styrkt þá sannfæringu.

1. Hvers vegna ákvaðstu að þjóna Jehóva það sem eftir væri ævinnar? (Sjá einnig mynd.)

MANSTU þegar þú vígðir Jehóva líf þitt? Þú gerðir það vegna þess að þú kynntist honum og fórst að elska hann. Þú lofaðir honum að þú myndir hafa hann í fyrsta sæti í lífinu og að þú myndir halda áfram að elska hann af öllu hjarta þínu, allri sálu, öllum huga og mætti. (Mark. 12:30) Kærleikur þinn til hans hefur allar götur síðan orðið sterkari og sterkari. Hvernig myndirðu svara ef einhver spyrði þig: „Ertu viss um að þú elskir Jehóva?“ Þú myndir örugglega svara án þess að hika: „Ég elska hann meira en nokkurn eða nokkuð annað!“

Samsett mynd: Systir rifjar upp vígslu sína og skírn. 1. Hún situr úti og fer með bæn. 2. Hún lætur skírast í á.

Manstu hve mikið þú elskaðir Jehóva þegar þú vígðir honum líf þitt og lést skírast? (Sjá 1. grein.)


2, 3. Um hvað vill Jehóva að við séum alveg viss og hvað fjöllum við um í þessari námsgrein? (Jeremía 31:3)

2 En hvernig myndirðu svara ef einhver spyrði þig: „Ertu viss um að Jehóva elski þig?“ Myndirðu hika við að svara og hugsa að þú ættir það ef til vill ekki skilið? Systir sem átti erfiða æsku sagði: „Ég veit að ég elska Jehóva. Ég er ekki í nokkrum vafa um það. En það sem ég efast allt of oft um er hvort Jehóva elski mig.“ Hvaða tilfinningar ber Jehóva raunverulega til þín?

3 Jehóva vill að þú sért sannfærður um að hann elski þig. (Lestu Jeremía 31:3.) Sannleikurinn er sá að Jehóva dró þig til sín. Og þegar þú vígðir honum líf þitt og lést skírast eignaðistu eitthvað einstaklega dýrmætt – tryggan kærleika hans. Það merkir að hann elskar þig innilega og yfirgefur þig aldrei. Hann lítur á trúfasta tilbiðjendur sína – þar á meðal þig – sem ‚dýrmæta eign sína‘. (Mal. 3:17) Páll postuli var sannfærður um kærleika Jehóva til hans. Jehóva vill að þú hafir sömu sannfæringu. Páll gat sagt: „Ég er sannfærður um að hvorki dauði né líf, englar né stjórnvöld, það sem nú er né það sem er ókomið, hvorki kraftar, hæð né dýpt né nokkuð annað skapað geti gert okkur viðskila við kærleika Guðs.“ (Rómv. 8:38, 39) Í þessari námsgrein ræðum við hvers vegna við þurfum að styrkja þá sannfæringu að Jehóva elski okkur og hvernig við förum að því.

HVERS VEGNA ER MIKILVÆGT AÐ ÞÚ TRÚIR ÞVÍ AÐ JEHÓVA ELSKI ÞIG?

4. Hvernig getum við barist gegn einu slóttugasta ráðabruggi Satans?

4 Við getum barist gegn einni ‚slóttugustu árás‘ Satans með því að taka við kærleika Jehóva. (Ef. 6:11) Satan gerir allt sem í hans valdi stendur til að hindra okkur í að þjóna Jehóva. Ein af slægustu lygum Satans er sú að Jehóva elski okkur ekki. Gleymum ekki að Satan er tækifærissinni. Hann ræðst gjarnan á okkur þegar við erum viðkvæm – kannski tilfinningalega langt niðri vegna fyrri reynslu, erfiðleika sem við erum að ganga í gegnum eða vegna óvissu um framtíðina. (Orðskv. 24:10) Satan er eins og ljón sem leitar færis að ráðast á varnarlausa bráð. Hann notar því tækifærið þegar við erum langt niðri til að fá okkur til að gefast upp. En ef við styrkjum trú okkar á að Jehóva elski okkur erum við betur í stakk búin til að ‚standa gegn honum‘ og slóttugum brögðum hans. – 1. Pét. 5:8, 9; Jak. 4:7.

5. Hvers vegna er mikilvægt fyrir þig að finna að Jehóva elski þig og meti mikils?

5 Við verðum nánari Jehóva þegar við þiggjum kærleika hans. Skoðum það aðeins nánar. Jehóva skapaði okkur með þörfina til að elska og vera elskuð. Þegar einhver elskar okkur fær það okkur til að elska á móti. Því betur sem við finnum fyrir kærleika Jehóva þeim mun meira elskum við hann. (1. Jóh. 4:19) Og þegar kærleikur okkar til hans vex styrkist kærleikur hans til okkar. Biblían segir einfaldlega: „Nálgist Guð og þá mun hann nálgast ykkur.“ (Jak. 4:8) Hvernig getum við styrkt sannfæringuna um að Jehóva elski okkur?

HVAÐ GETUR AUÐVELDAÐ OKKUR AÐ TREYSTA ÞVÍ AÐ JEHÓVA ELSKI OKKUR?

6. Hvað getum við gert ef við erum í vafa um að Jehóva elski okkur?

6 Verum nákvæm og þolgóð í bænum okkar. (Lúk. 18:1; Rómv. 12:12) Biddu Jehóva – mörgum sinnum á dag ef þess er þörf – að hjálpa þér að sjá sjálfan þig eins og hann sér þig. Það er ekki auðvelt að sannfæra hjarta sem dæmir sig hart. En mundu að Jehóva er meiri en hjarta þitt. (1. Jóh. 3:19, 20) Hann þekkir þig betur en þú sjálfur og sér það sem getur verið þér hulið. (1. Sam. 16:7; 2. Kron. 6:30) Hikaðu því ekki við að úthella hjarta þínu fyrir honum og biddu hann að hjálpa þér að trúa því að hann elski þig. (Sálm. 62:8) Síðan skaltu vinna í samræmi við bænir þínar með því að fylgja eftirfarandi ráðum.

7, 8. Hvernig fullvissa sálmarnir okkur um að Jehóva elski okkur?

7 Taktu Jehóva á orðinu. Hann innblés mönnum að lýsa sér í Biblíunni eins og hann sannarlega er. Davíð lýsti á fallegan hátt í einum sálmi hversu innilega Jehóva er annt um okkur. Hann skrifar: „Jehóva er nálægur hinum sorgbitnu, hjálpar þeim sem eru niðurbrotnir.“ (Sálm. 34:18) Þegar þú ert niðurdreginn líður þér kannski eins og þú sért aleinn. En Jehóva lofar að einmitt þá er hann nálægt þér vegna þess að hann veit að þá þarfnast þú hans mest. Í öðrum sálmi skrifar Davíð: „Safnaðu tárum mínum í skinnbelg þinn.“ (Sálm. 56:8) Jehóva sér þegar þú átt erfitt. Honum er innilega annt um þig og veit hvað þú ert að ganga í gegnum. Eins og hver einasti vatnsdropi er ferðalangi í eyðimörk dýrmætur eins er Jehóva kunnugt um öll þín tár og veit hve illa þér líður. Í Sálmi 139:3 segir: „Þú [Jehóva] þekkir alla vegi mína.“ Jehóva sér alla vegi þína en hann veitir því góða sem þú gerir sérstaka athygli. (Hebr. 6:10) Hann kann sérstaklega að meta allt sem þú gerir til að gleðja hann.a

8 Með því að sjá okkur fyrir huggunarríkum biblíuversum í innblásnu orði sínu segir Jehóva í raun: „Ég vil að þú vitir hversu innilega ég elska þig.“ En eins og við töluðum áður um vill Satan að þú trúir því að Jehóva elski þig ekki. Ef þú efast stundum um að Jehóva elski þig skaltu staldra við og spyrja: Hverjum vil ég trúa – ‚föður lyginnar‘ eða ‚Guði sannleikans‘? – Jóh. 8:44; Sálm. 31:5.

9. Hvað fullvissar Jehóva þá um sem elska hann? (2. Mósebók 20:5, 6)

9 Veltu því fyrir þér hvernig Jehóva bregst við kærleika. Skoðum hvað Jehóva sagði við Móse og Ísraelsmenn. (Lestu 2. Mósebók 20:5, 6.) Jehóva lofar að hann sýni þeim sem elska hann tryggan kærleika. Við getum verið viss um að tryggur Guð myndi aldrei neita þeim sem elska hann um kærleika sinn. (Neh. 1:5) Ef þú þarft á staðfestingu að halda að Jehóva elski þig skaltu spyrja þig: Elska ég Jehóva? Og ef svarið er já og þú gerir þitt besta til að gleðja hann hefurðu tryggingu fyrir því að hann elski þig mjög mikið. (Dan. 9:4; 1. Kor. 8:3) Með öðrum orðum, ef þú efast ekki um að þú elskir Jehóva þarftu ekki að efast um að hann elski þig. Þú getur verið öruggur um að hann elski þig alltaf og yfirgefi þig aldrei.

10, 11. Hvernig vill Jehóva að þú lítir á lausnargjaldið? (Galatabréfið 2:20)

10 Hugsaðu um lausnargjaldið. Lausnarfórn Jesú Krists er stærsta gjöf Jehóva til mannkynsins. (Jóh. 3:16) En er hún gjöf til þín persónulega? Já! Skoðum reynslu Páls postula. Hann syndgaði alvarlega áður en hann varð kristinn og þurfti að halda áfram að berjast gegn veikleikum sínum. (Rómv. 7:24, 25; 1. Tím. 1:12–14) En hann sannfærðist um að lausnargjaldið væri gjöf til hans. (Lestu Galatabréfið 2:20.) Gleymum ekki að Jehóva innblés Páli að skrifa þetta í Biblíuna. Og allt sem stendur þar er til að við getum lært af því. (Rómv. 15:4) Það sem Páll skrifaði endurspeglar hvernig Jehóva vill að þú lítir á lausnargjaldið – sem gjöf frá honum til þín. Þegar þú sérð það þannig styrkir það trú þína á því að Jehóva elski þig.

11 Við erum Jehóva innilega þakklát fyrir að senda Jesú til jarðar til að deyja fyrir okkur. En önnur ástæða fyrir því að hann kom til jarðar var að segja okkur sannleikann um Guð. (Jóh. 18:37) Jesús sagði okkur líka sannleikann um það hversu innilega Jehóva elskar börnin sín.

JESÚS HJÁLPAR OKKUR AÐ TAKA Á MÓTI KÆRLEIKA JEHÓVA

12. Hvers vegna er hægt að treysta því sem Jesús sagði um Jehóva?

12 Þegar Jesús var á jörðinni hafði hann yndi af því að segja fólki frá því hvers konar persóna Jehóva er. (Lúk. 10:22) Við getum treyst því sem Jesús sagði um Jehóva. Hann hafði verið með Jehóva á himnum um milljarða ára áður en hann kom til jarðar. (Kól. 1:15) Jesús vissi af eigin reynslu hversu heitt Jehóva elskar trúfasta syni sína og dætur. Hvernig hjálpar Jesús okkur að vera viss um að Jehóva elski okkur?

13. Hvað vill Jesús að við skiljum varðandi Jehóva?

13 Jesús vill að við vitum hvaða tilfinningar Jehóva ber til okkar. Í guðspjöllunum kallar Jesús Jehóva föður meira en 160 sinnum. Og hann sagði við fylgjendur sína: ‚Faðir ykkar‘ og „faðir ykkar á himnum“. (Matt. 5:16; 6:26) Áður en Jesús kom til jarðarinnar ávörpuðu trúfastir þjónar Jehóva hann með titlum eins og ‚almáttugur‘, ‚hinn hæsti‘, ‚mikli skapari‘ og fleiri álíka. En Jesús kallaði Jehóva oft blátt áfram föður. Það sýnir að Jehóva vill að það séu náin tengsl á milli hans og þjóna hans rétt eins og náin tengsl eru á milli barns og elskuríks föður. Jesús vill augljóslega að við sjáum Jehóva sömu augum og hann – sem ástríkan föður sem er annt um börnin sín. Skoðum tvö tilfelli þegar Jesús notar orðið „faðir“ til að lýsa Jehóva.

14. Hvernig sýndi Jesús að hvert og eitt okkar er dýrmætt í augum föður okkar á himnum? (Matteus 10:29–31) (Sjá einnig mynd.)

14 Skoðum fyrst það sem Jesús sagði í Matteusi 10:29–31. (Lestu.) Spörvar eru mjög litlir fuglar sem koma aldrei til með að elska eða tilbiðja Jehóva. Faðir okkar veit samt þegar einn þeirra fellur til jarðar. Fyrst hann metur lítinn fugl svona mikils getum við verið viss um að hvert og eitt okkar er honum miklu meira virði þar sem við elskum hann og tilbiðjum! Jesús sagði líka að faðir okkar viti hversu mörg hár eru á höfði okkar. Þar sem Jehóva þekkir okkur í smæstu atriðum getum við verið viss um að honum er innilega annt um okkur. Jesús vill greinilega að við trúum því að hvert og eitt okkar sé dýrmætt í augum föður okkar á himnum.

Jesús bendir á spörfugl sem lendir á jörðinni. Lærisveinar hans hlusta af athygli.

Jehóva metur einn spörfugl nógu mikið til að vita hvenær hann fellur til jarðar. Hversu miklu meira metur hann ekki þig – trúfastan tilbiðjanda sem elskar hann! (Sjá 14. grein.)


15. Hvað segir það um Jehóva sem Jesús sagði í Jóhannesi 6:44?

15 Skoðum annað tilfelli þegar Jesús kallaði Jehóva „föður“. (Lestu Jóhannes 6:44.) Faðir þinn á himnum dró þig – laðaði þig með mildi – að sannleikanum. Hann sá að þú hafðir það hugarfar sem þurfti. (Post. 13:48) Þegar Jesús sagði það sem kemur fram í Jóhannesi 6:44 gæti hann hafa verið að vísa í það sem Jehóva segir í Jeremía 31:3. Þar segir hann: ‚Ég hef dregið þig til mín með tryggum kærleika [eða, haldið áfram að sýna þér tryggan kærleika].‘ (Jer. 31:3, neðanmáls; berðu saman við Hósea 11:4.) Hugsaðu hvað það þýðir. Kærleiksríkur faðir okkar heldur áfram að sjá það góða í þér sem þú sérð kannski ekki sjálfur.

16. (a) Hvað er Jesús í raun að segja okkur og hvers vegna ættum við að trúa honum? (b) Hvernig geturðu fullvissað þig um að Jehóva sé faðirinn sem þú þarfnast? (Sjá rammagreinina „Faðirinn sem við þörfnumst öll“.)

16 Með því að lýsa Jehóva sem föður okkar er Jesús í raun að segja: „Jehóva er ekki bara minn faðir, hann er faðir ykkar líka. Og ég fullvissa ykkur um að hann elskar ykkur innilega og þykir mjög vænt um hvert og eitt ykkar.“ Ef þú ert einhvern tíma í vafa um að Jehóva elski þig skaltu því staldra við og spyrja: Ætti ég ekki að treysta því sem sonur hans sagði sem þekkir föður okkar best og segir alltaf satt? – 1. Pét. 2:22.

„Faðirinn sem við þörfnumst öll“

Þessi orð er að finna í formála bókarinnar Nálgastu Jehóva. Til að útskýra tilgang bókarinnar segir: „Við sjáum þá að Jehóva er … faðirinn sem við þörfnumst öll. Hann er máttugur, réttlátur, vitur og kærleiksríkur og yfirgefur aldrei trúföst börn sín.“

Kona sem ólst upp við að faðir hennar beitti hana ofbeldi útskýrði hvernig bókin hjálpaði henni. Hún sagði: „Ég komst að því að ég þarf ekki að óttast orðið ‚faðir‘. Ég skil núna hversu góður faðir hann er. Ég veit að Jehóva tekur mér opnum örmum og ég lít á hann sem föður minn.“ Eftir að hafa lesið bókina sagði önnur kona: „Jehóva er sannarlega besti faðir sem hægt er að hugsa sér!“

Hvers vegna ekki að hafa það sem námsverkefni að lesa þessa bók – eða lesa hana aftur – til að styrkja þá sannfæringu að Jehóva sé faðirinn sem þú þarfnast.

HALTU ÁFRAM AÐ STYRKJA SANNFÆRINGU ÞÍNA

17. Hvers vegna þurfum við að halda áfram að styrkja þá sannfæringu að Jehóva elski okkur?

17 Við verðum að halda áfram að styrkja þá sannfæringu að Jehóva elski okkur. Eins og við höfum lært reynir Satan með slægð að gera allt til að fá okkur til að hætta að þjóna Jehóva. Hann reynir að veikja ásetning okkar með því að telja okkur trú um að Jehóva elski okkur ekki. Við megum ekki leyfa Satan að vinna! – Job. 27:5.

18. Hvernig geturðu haldið áfram að vera viss um að Jehóva elski þig?

18 Til að styrkja sannfæringu þína um að Jehóva elski þig skaltu halda áfram að biðja hann um hjálp til að sjá þig eins og hann sér þig. Hugleiddu biblíuvers sem lýsa því hversu innilega annt Jehóva er um þá sem elska hann. Mundu hvernig Jehóva bregst við kærleika, hann endurgeldur alltaf kærleika þeirra sem elska hann. Hugleiddu hvers vegna þú getur litið á lausnargjaldið sem gjöf til þín. Og treystu því að Jehóva sé faðir þinn á himnum eins og Jesús sagði. Og ef einhver spyr „Ertu viss um að Jehóva elski þig?“ geturðu svarað með sannfæringu, „Já, ég er viss um það! Og ég geri mitt besta á hverjum degi til að sýna að ég elska hann!“

HVERJU SVARAR ÞÚ?

  • Hvers vegna er mikilvægt að þiggja kærleika Jehóva?

  • Hvað getur hjálpað okkur að þiggja kærleika Jehóva?

  • Hvernig hjálpar Jesús okkur að þiggja kærleika Jehóva?

SÖNGUR 154 Kærleikur sem aldrei bregst

a Sjá viðfangsefnið „Efasemdir“ í ritinu Biblíuleiðarvísir fyrir daglegt líf til að finna fleiri hughreystandi biblíuvers sem fullvissa okkur um að Jehóva elski okkur.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila