Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w26 janúar bls. 8-13
  • Þú getur tekist á við neikvæðar tilfinningar

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Þú getur tekist á við neikvæðar tilfinningar
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2026
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • AF HVERJU BARÐIST PÁLL VIÐ NEIKVÆÐAR TILFINNINGAR?
  • HVERNIG TÓKST PÁLL Á VIÐ NEIKVÆÐAR TILFINNINGAR?
  • HVERNIG GETUM VIÐ BARIST GEGN NEIKVÆÐUM TILFINNINGUM?
  • HORFUM ÖRUGG TIL FRAMTÍÐARINNAR
  • Að sigra í glímunni við tilfinningalega vanlíðan
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2011
  • Hvernig getum við aukið gleðina í boðuninni?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2024
  • Viðurkennum auðmjúk að við vitum ekki allt
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
  • Jehóva „læknar hina sorgmæddu“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2024
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2026
w26 janúar bls. 8-13

9.–15. MARS 2026

SÖNGUR 45 Hugsun hjarta míns

Þú getur tekist á við neikvæðar tilfinningar

„Ég er aumkunarverður maður.“ – RÓMV. 7:24.

Í HNOTSKURN

Við skoðum hvernig við getum tekist á við neikvæðar hugsanir og tilfinningar.

1, 2. Hvernig leið Páli postula stundum og hvers vegna getum við líklega samsamað okkur honum? (Rómverjabréfið 7:21–24)

HVAÐ dettur þér í hug þegar þú hugsar um Pál postula? Hugsarðu um hugrakkan trúboða, færan kennara eða afkastamikinn biblíuritara? Þetta á allt við um Pál. En hann var líka mikill tilfinningamaður. Hann barðist stundum við neikvæðar tilfinningar, rétt eins og mörg okkar gera.

2 Lestu Rómverjabréfið 7:21–24. Í bréfi sínu til Rómverja lýsti Páll tilfinningum sem mörg okkar þekkja. Þótt hann væri trúfastur þjónn Jehóva átti hann í innri baráttu milli innilegrar löngunar til að gera vilja Guðs og þess að láta undan röngum löngunum. Auk þess átti Páll stundum í baráttu við neikvæðar tilfinningar vegna fortíðar sinnar og viðvarandi vandamáls sem hann glímdi við.

3. Hvað skoðum við í þessari námsgrein? (Sjá einnig orðaskýringu.)

3 Þótt Páll ætti í innri baráttu leyfði hann ekki neikvæðum tilfinninguma að ná yfirhöndinni. Í þessari námsgrein skoðum við eftirfarandi spurningar: Af hverju var Páll stundum niðurdreginn? Hvernig tókst hann á við neikvæðar tilfinningar? Og hvernig getum við tekist á við neikvæðar tilfinningar með góðum árangri?

AF HVERJU BARÐIST PÁLL VIÐ NEIKVÆÐAR TILFINNINGAR?

4. Af hverju barðist Páll við neikvæðar tilfinningar?

4 Það sem hann gerði áður. Áður en Páll tók kristna trú var hann þekktur sem Sál. Þá gerði hann ýmislegt sem hann sá síðar eftir. Hann fylgdist til dæmis með og lagði blessun sína yfir það þegar Stefán var grýttur til dauða. (Post. 7:58; 8:1) Hann tók líka forystuna í að ofsækja kristna menn grimmilega. – Post. 8:3; 26:9–11.

5. Hvaða áhrif hafði fortíð Páls á hann?

5 Eftir að Páll postuli tók kristna trú leið honum stundum illa vegna fortíðar sinnar. Áður en hann varð kristinn ofsótti hann kristna menn vægðarlaust. Ef til vill leið honum verr yfir því eftir því sem árin liðu. Hann sagði til dæmis í fyrra bréfi sínu til Korintumanna í kringum árið 55: „Ég er … ekki þess verður að kallast postuli vegna þess að ég ofsótti söfnuð Guðs.“ (1. Kor. 15:9) Um fimm árum seinna, í bréfi til Efesusmanna, sagðist hann vera „lítilvægari en sá minnsti meðal allra hinna heilögu“. (Ef. 3:8) Þegar hann skrifaði til Tímóteusar sagðist hann áður hafa verið „guðlastari, ósvífinn og ofsótt fólk Guðs“. (1. Tím. 1:13) Geturðu ímyndað þér hvernig Páli hefur liðið þegar hann heimsótti söfnuð og hitti einhverja sem hann hafði áður ofsótt eða ættingja eða fjölskyldu þeirra?

6. Hvað fleira þjakaði Pál? (Sjá einnig neðanmáls.)

6 Þyrnir í holdinu. Páll líkti einhverju sem þjakaði hann við ‚þyrni í holdinu‘. (2. Kor. 12:7) Hann sagði ekki hvað það var en myndin sem hann dregur upp gefur til kynna eitthvað sem olli honum þjáningum – hvort sem það var líkamlegt eða tilfinningalegt vandamál eða eitthvað annað.b

7. Hvaða áhrif hafði ófullkomleikinn á Pál? (Rómverjabréfið 7:18, 19)

7 Ófullkomleikinn. Páll átti í baráttu við ófullkomleikann. (Lestu Rómverjabréfið 7:18, 19.) Þótt hann vildi gera það sem var rétt gerði ófullkomið hold hans honum erfitt fyrir. Hann viðurkenndi að það væri stöðug togstreita innra með sér milli holdlegra tilhneiginga og löngunarinnar að gera það sem er rétt. En Páll lagði mjög hart að sér til að bæta sig. (1. Kor. 9:27) Hann hlýtur að hafa verið mjög svekktur þegar gamlir gallar skutu upp kollinum.

HVERNIG TÓKST PÁLL Á VIÐ NEIKVÆÐAR TILFINNINGAR?

8. Hvað gerði Páll til að takast á við ófullkomleikann?

8 Það má sjá af bréfum Páls að hann hugsaði mikið um það hvernig heilagur andi getur hjálpað þjónum Guðs að berjast við rangar tilhneigingar og taka framförum. (Rómv. 8:13; Gal. 5:16, 17) Páll talaði oft um óæskilega eiginleika og langanir sem þjónar Guðs þurfa að berjast við. (Gal. 5:19–21, 26) Hann leiddi greinilega hugann að eigin veikleikum, leitaði ráða í Ritningunum og hugleiddi hvernig hann gæti farið eftir þeim. Hann hefur örugglega sjálfur fylgt þeim ráðum sem hann gaf öðrum.

9, 10. Hvað hjálpaði Páli að berjast við neikvæðar tilfinningar? (Efesusbréfið 1:7) (Sjá einnig mynd.)

9 Þótt Páll væri stundum niðurdreginn var hann alla jafna jákvæður. Það gladdi hann til dæmis þegar ferðafélagar hans færðu honum góðar fréttir. (2. Kor. 7:6, 7) Vinátta trúsystkina veitti honum líka ánægju. (2. Tím. 1:4) Og hann vissi að Jehóva hafði velþóknun á honum. Páll var hamingjusamur vegna þess að hann gat þjónað Guði „með hreinni samvisku“. (2. Tím. 1:3) Jafnvel þegar hann sat í fangelsi í Róm hvatti hann trúsystkini sín til að vera „glöð í Drottni“. (Fil. 4:4) Þetta hljómar ekki eins og frá manni sem er yfirkominn af neikvæðum hugsunum. Það er greinilegt að Páll gat unnið úr neikvæðum tilfinningum og haldið gleði sinni.

10 Páll gat sigrast á neikvæðum tilfinningum vegna þess að hann trúði að lausnargjaldið væri líka persónuleg gjöf til sín. (Gal. 2:20; lestu Efesusbréfið 1:7.) Fyrir vikið treysti hann því algerlega að Jehóva fyrirgæfi honum fyrir milligöngu Jesú Krists. (Rómv. 7:24, 25) Páll gat veitt Guði „heilaga þjónustu“ þrátt fyrir gamlar syndir og eigin ófullkomleika. – Hebr. 9:12–14.

Samsett mynd: 1. Páll postuli hugleiðir. 2. Hann minnist þess þegar hann fyrirskipaði hermanni mörgum árum áður að draga kristinn mann út af heimili hans. 3. Hann hugleiðir dauða Jesú á kvalastaur.

Þótt fortíð Páls hafi stundum valdið honum hugarangri barðist hann gegn neikvæðum hugsunum með því að hugleiða lausnarfórnina. (Sjá 9. og 10. grein.)


11. Hvers vegna er fordæmi Páls hvetjandi fyrir okkur?

11 Eins og Páli finnst okkur við kannski eiga í stöðugri innri baráttu með það sem við hugsum, gerum eða segjum. Það getur dregið okkur niður. Systir að nafni Eliza,c sem er á þrítugsaldri, segir um innri baráttu sína: „Mér finnst uppörvandi að hugsa um baráttu Páls. Ég er svo fegin að ég er ekki ein um að líða svona. Þetta minnir mig á að Jehóva veit hvað þjónar hans ganga í gegnum.“ Hvað getum við gert til að hafa hreina samvisku og halda gleði okkar, eins og Páll, þrátt fyrir neikvæðar tilfinningar?

HVERNIG GETUM VIÐ BARIST GEGN NEIKVÆÐUM TILFINNINGUM?

12. Hvernig getur góð andleg dagskrá hjálpað okkur að berjast gegn neikvæðum tilfinningum?

12 Góð andleg dagskrá. Þegar við komum okkur upp góðri andlegri dagskrá eigum við auðveldara með að einbeita okkur að því sem er jákvætt. Það er hægt að líkja henni við góðar venjur sem stuðla að góðri líkamlegri heilsu. Okkur líður venjulega betur þegar við borðum hollan mat, hreyfum okkur reglulega og fáum nægan svefn. Við finnum líka öll hvað okkur líður betur þegar við lesum reglulega í orði Guðs, tökum þátt í boðuninni, sækjum samkomur, undirbúum okkur fyrir þær og tökum þátt í þeim. Slík uppbyggjandi dagskrá hjálpar okkur að takast á við neikvæðar hugsanir. – Rómv. 12:11, 12.

13, 14. Hvernig hafa sumir bræður og systur haft gagn af góðri andlegri dagskrá?

13 Tökum John sem dæmi. Hann var greindur með sjaldgæft krabbamein þegar hann var 39 ára. Í fyrstu var hann mjög óttasleginn og kvíðinn. Hann velti því fyrir sér af hverju hann væri orðið svona veikur, ekki eldri en þetta. Á þessum tíma var sonur hans bara þriggja ára. Hvað hjálpaði John að takast á við þessar erfiðu tilfinningar? „Þótt ég væri orkulaus sá ég til þess að fjölskyldan héldi andlegri dagskrá,“ segir hann. „Við sóttum allar samkomur, tókum þátt í boðuninni í hverri viku og höfðum fjölskyldunám reglulega, jafnvel þegar erfitt var að koma því við.“ Þegar hann lítur til baka segir hann: „Þegar mesta áfallið er liðið hjá, víkja þessar þrálátu hugsanir fyrir styrk og kærleika Jehóva. Hann getur gefið þér styrk, rétt eins og mér.“

14 Eliza, sem áður er minnst á, segir: „Í hvert sinn sem ég mæti á samkomu og sinni sjálfsnámi er ég minnt á að Jehóva hlustar á mig og elskar mig innilega. Það veitir mér gleði.“ Nolan er farandhirðir í Afríku. Hann segir um sig og Diane eiginkonu sína: „Við fylgjum andlegri dagskrá okkar, líka þegar við erum niðurdregin. Jehóva sýnir okkur skýrt að hann hjálpar okkur að hafa rétt viðhorf. Við reynum að muna að Jehóva hjálpar okkur og blessar. Við vitum ekki alltaf hvernig hann gerir það en við vitum að hann gerir það.“

15. Hvað gætum við þurft að gera til að sigrast á neikvæðum hugsunum? Lýstu með dæmi.

15 Til að sigrast á neikvæðum hugsunum gætum við þurft að gera meira en að sinna venjulegri andlegri dagskrá. Ímyndaðu þér að þú sért með bakverk. Þú gætir þurft að gera meira en að fara í daglega göngutúra til að losna við verkinn. Þú þarft kannski að leita þér upplýsinga eða fara til læknis til að finna hvað veldur bakverknum. Til að vita hvernig þú átt að takast á við þrálátar neikvæðar hugsanir gætirðu á líkan hátt þurft að leita upplýsinga í Biblíunni og ritum okkar og ef til vill tala við þroskaðan bróður eða systur. Skoðum fleiri tillögur sem geta komið að gagni.

16. Hvernig geturðu fundið út hvað kveikir neikvæðar hugsanir hjá þér? (Sálmur 139:1–4, 23, 24)

16 Biddu Jehóva um hjálp til að skilja hvers þú þarfnast. Davíð konungur vissi að Jehóva þekkti hann vel. Hann bað Jehóva að hjálpa sér að skilja hvers vegna hann væri með „kvíðafullar hugsanir“. (Lestu Sálm 139:1–4, 23, 24.) Þú getur líka beðið Jehóva um að hjálpa þér að skilja hvers vegna þú glímir við þessar neikvæðu hugsanir og hvernig þú getir sigrast á þeim. Þú gætir líka spurt þig: Af hverju líður mér svona? Er eitthvað sem kveikir þessar neikvæðu hugsanir? Hef ég tilhneigingu til að dvelja við neikvæða hugsun frekar en að vísa henni á bug?

17. Hvaða viðfangsefni í sjálfsnámi gætu hjálpað þér að hugsa jákvætt? (Sjá einnig mynd.)

17 Lagaðu sjálfsnámið að eigin þörfum. Öðru hvoru getur verið gagnlegt að skoða einn af eiginleikum Jehóva betur. Páll postuli hafði til dæmis mikið gagn af því að hugleiða lausnarfórnina og fyrirgefningu Jehóva. Við getum gert eins og Páll og skoðað betur það sem við þurfum á að halda. Við getum notað Efnislykil að ritum Votta Jehóva og efni á jw.org til skoða viðfangsefni eins og miskunn Guðs, fyrirgefningu og tryggan kærleika. Gerðu lista yfir greinar sem þú finnur og þú getur nýtt þér. Settu listann á áberandi stað og lestu greinarnar þegar þér fer að líða illa. Reyndu að fylgja ráðunum sem er að finna í þeim. – Fil. 4:8.

Ungur bróðir notar Biblíuna, spjaldtölvu og minnisbók í sjálfsnámi sínu. Hann skrifar minnispunkt í Biblíuna.

Veldu viðfangsefni í sjálfsnámi þínu sem hjálpar þér að sigrast á neikvæðum hugsunum. (Sjá 17. grein.)


18. Hvers konar námsefni hefur sumum þjónum Jehóva þótt gagnlegt að rannsaka?

18 Eliza, sem minnst er á áður, tók Job fyrir í sjálfsnámi sínu. Hún segir: „Ég á auðvelt með að setja mig í spor Jobs. Hann lenti í hverjum erfiðleikunum á fætur öðrum. En hann hætti aldrei að leita til Jehóva, jafnvel þegar honum leið sem verst. Og hann vissi ekki einu sinni hvers vegna hann lenti í öllum þessum raunum.“ (Job. 42:1–6) Diane, sem áður er minnst á, segir: „Við hjónin erum að lesa saman í bókinni Nálgastu Jehóva. Við erum Jehóva þakklát fyrir að móta okkur eins og leirkerasmiður mótar leir. Í stað þess að einblína á hversu óánægð við erum með okkur reynum við að sjá hvernig Jehóva er að móta okkur og bæta. Fyrir vikið verðum við nánari honum.“ – Jes. 64:8.

HORFUM ÖRUGG TIL FRAMTÍÐARINNAR

19. Hverju getum við átt von á?

19 Við getum ekki reiknað með því að neikvæðar hugsanir og tilfinningar hverfi alveg þótt við fylgjum góðri andlegri dagskrá og höfum sjálfsnám sem er sniðið að þörfum okkar. Það halda eflaust áfram að koma slæmir dagar. En með hjálp Jehóva getum við minnkað áhrif neikvæðra tilfinninga þegar þær skjóta upp kollinum. Við getum verið viss um að flesta daga getum við notið gleði í lífinu og þjónustu Jehóva og haft góða samvisku.

20. Hvað ert þú ákveðinn í að gera?

20 Verum ákveðin í að láta ekki neikvæðar tilfinningar vegna erfiðleika, gamalla synda eða ófullkomleikans stjórna okkur. Með hjálp Jehóva getum við haldið neikvæðum tilfinningum í skefjum. (Sálm. 143:10) Við getum látið okkur hlakka til þess dags þegar það verður ekki lengur barátta að vera jákvæður. Við vöknum þá á hverjum morgni án þess að kvíðafullar hugsanir þjaki okkur og þjónum Jehóva, kærleiksríkum Guði okkar, með gleði.

HVERJU SVARAR ÞÚ?

  • Af hverju var Páll postuli stundum dapur og kvíðinn?

  • Hvað hjálpaði Páli að vera ánægður í þjónustu Jehóva þótt hann hafi stundum glímt við neikvæðar tilfinningar?

  • Hvernig getum við barist gegn neikvæðum tilfinningum?

SÖNGUR 34 Göngum fram í ráðvendni

a ORÐASKÝRING: Í þessari námsgrein á orðalagið „neikvæðar tilfinningar“ við um depurð og skapsveiflur sem við finnum öðru hvoru fyrir. Hér er ekki verið að tala um langvarandi þunglyndi, en það er alvarlegur sjúkdómur.

b Páll gefur í skyn í skrifum sínum að hann hafi séð illa. Ef það er rétt ályktað hefur það gert honum erfitt fyrir að skrifa bréf og sinna þjónustunni. (Gal. 4:15; 6:11) Páll gæti líka hafa verið áhyggjufullur vegna þess sem falskennarar sögðu um hann. (2. Kor. 10:10; 11:5, 13) Hver sem ástæðan var gerði þetta Pál stundum niðurdreginn.

c Sumum nöfnum hefur verið breytt.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila