Sunnudagur 2. nóvember
„Sofum því ekki eins og aðrir heldur vökum og hugsum skýrt.“ – 1. Þess. 5:6.
Kærleikur er nauðsynlegur til að halda okkur vakandi og hugsa skýrt. (Matt. 22:37–39) Kærleikur til Guðs hjálpar okkur að halda áfram að boða trúna þrátt fyrir erfiðleikana sem það gæti þýtt fyrir okkur. (2. Tím. 1:7, 8) Kærleikur okkar nær til þeirra sem þjóna ekki Jehóva og þess vegna höldum við áfram að boða trúna, líka með því að hringja í fólk eða skrifa því bréf. Við gefum ekki upp vonina um að dag einn breytist fólk og fari að gera það sem er rétt. (Esek. 18:27, 28) Okkur þykir líka vænt um bræður okkar og systur. Við sýnum það með því að „uppörva og styrkja hvert annað“. (1. Þess. 5:11) Við hvetjum hvert annað eins og hermenn sem berjast hlið við hlið. Við myndum aldrei særa bróður eða systur viljandi eða gjalda illt með illu. (1. Þess. 5:13, 15) Við sýnum líka kærleika okkar með því að virða bræður sem veita söfnuðinum forystu. – 1. Þess. 5:12. w23.06 10 gr. 6; 11 gr. 10, 11
Mánudagur 3. nóvember
Gerir Jehóva ekki það sem hann segir? – 4. Mós. 23:19.
Það er trústyrkjandi að hugleiða lausnargjaldið. Lausnargjaldið er trygging fyrir því að loforð Guðs rætist. Þegar við hugleiðum vandlega hvers vegna Jehóva sá okkur fyrir því og hversu miklu hann kostaði til styrkjum við trú okkar á að loforð hans um endalaust líf í betri heimi verði uppfyllt. Hvers vegna getum við sagt það? Hvað felur lausnargjaldið í sér? Jehóva sendi einkason sinn, nánasta vin sinn, frá himni til að fæðast sem fullkominn maður hér á jörðinni. Hér þurfti hann að þola margs konar raunir. Hann þurfti að þjást og dó að lokum kvalafullum dauða. Þetta var Jehóva dýrkeypt! Kærleiksríkur Guð okkar hefði aldrei leyft að sonur sinn þjáðist og dæi aðeins til að bæta líf okkar í skamman tíma. (Jóh. 3:16; 1. Pét. 1:18, 19) Hann greiddi hátt gjald og mun sjá til þess að eilíft líf í nýjum heimi verði að veruleika. w23.04 27 gr. 8, 9
Þriðjudagur 4. nóvember
„Hvar eru broddar þínir, dauði?“ – Hós. 13:14.
Hefur Jehóva löngun til að reisa hina dánu til lífs ný? Það hefur hann sannarlega. Hann innblés mörgum biblíuriturum að skrifa um upprisuna í framtíðinni. (Jes. 26:19; Opinb. 20:11–13) Og þegar Jehóva gefur loforð stendur hann alltaf við það. (Jós. 23:14) Hann hlakkar reyndar til að reisa hina dánu aftur til lífs. Skoðum það sem Job sagði. Hann var viss um að ef hann dæi myndi Jehóva þrá að sjá hann á lífi aftur. (Job. 14:14, 15) Jehóva ber sömu tilfinningar til allra tilbiðjenda sinna sem eru dánir. Hann er spenntur að vekja þá aftur til lífs, hrausta og ánægða. Hvað með þá milljarða manna sem hafa dáið án þess að fá tækifæri til að læra sannleikann um Jehóva? Kærleiksríkur Guð okkar vill líka vekja þá til lífs á ný. (Post. 24:15) Hann vill gefa þeim tækifæri til að eignast vináttu við sig og lifa að eilífu á jörðinni. – Jóh. 3:16. w23.04 9 gr. 5, 6