Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • be þjálfunarliður 24 bls. 160-bls. 165 gr. 1
  • Orðaval

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Orðaval
  • Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
  • Svipað efni
  • Notum tunguna til góðs
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2015
  • Talaðu það sem er „gott til uppbyggingar“
    „Látið kærleika Guðs varðveita ykkur“
  • Málfimi
    Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
  • Samtalsform
    Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
Sjá meira
Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
be þjálfunarliður 24 bls. 160-bls. 165 gr. 1

Námskafli 24

Orðaval

Hvað þarftu að gera?

Veldu orð sem bera vott um virðingu og góðvild, eru auðskilin en fjölbreytt og lýsa viðeigandi krafti og tilfinningu. Fylgdu málfræðireglum.

Hvers vegna er það mikilvægt?

Það ber vott um virðingu fyrir boðskapnum sem þú flytur og segir margt um afstöðu þína til þeirra sem þú ávarpar. Það hefur áhrif á viðbrögð þeirra við orðum þínum.

ORÐ eru öflugur tjáningarmiðill. En til að orð nái tilgangi sínum þarf að velja þau vel. Ákveðið orð getur verið viðeigandi við vissar aðstæður en óviðeigandi við aðrar. Litrík orð geta verið „meiðandi“ ef þau henta ekki stað og stund. Illa valin orð eru oft sprottin af hugsunarleysi og kannski ónærgætni. Sum orð eru tvíræð og önnur merkingin getur verið hneykslanleg eða særandi. (Orðskv. 12:18; 15:1) „Vingjarnlegt orð“ og uppörvandi gleður hins vegar hjarta þess sem það er sagt við. (Orðskv. 12:25) Jafnvel vitur maður þarf að leggja eitthvað á sig til að finna réttu orðin. Biblían segir að Salómon hafi verið sér meðvita um að hann þyrfti að velja „fögur orð“ og finna „sannleiksorð.“ — Préd. 12:10.

Í sumum tungumálum er notað ákveðið orðfæri til að ávarpa þá sem eru eldri eða valdameiri en maður sjálfur, en önnur orð til að ávarpa jafningja eða þá sem yngri eru. Það er talið dónalegt að virða ekki slíkar kurteisisreglur. Að sama skapi er talið ósmekklegt að nota þau virðingarorð um sjálfan sig sem hefð er að nota um aðra. Biblían gerir reyndar meiri kröfur en lög eða siðvenjur gera í sambandi við virðingu, því að hún hvetur kristna menn til að ‚virða alla menn.‘ (1. Pét. 2:17) Þeir sem gera það af heilum huga tala með viðeigandi virðingu við fólk af öllum aldurshópum.

Margir utan sannkristna safnaðarins eru ruddalegir eða dónalegir í tali. Kannski finnst þeim óheflað mál vera áherslumikið. En kannski ber það bara vott um ósköp fátæklegan orðaforða. Þeim sem var vanur að tala slíkt mál áður en hann kynntist vegum Jehóva finnst kannski erfitt að venja sig af því. En það er hægt. Andi Guðs getur hjálpað manni að breyta málvenjum sínum. Jafnframt verða menn að vera fúsir til að auka góðum orðum við orðaforða sinn — uppbyggilegum og jákvæðum orðum — og venja sig á að nota þau. — Rómv. 12:2; Ef. 4:29; Kól. 3:8.

Auðskilið mál. Það er eitt megineinkenni góðs máls að það er auðskilið. (1. Kor. 14:9) Ef áheyrendur eiga erfitt með að skilja orðin, sem þú notar, er nánast eins og þú sért að tala framandi tungumál við þá.

Sum orð hafa sértæka merkingu fyrir fólk í ákveðinni starfsgrein og geta verið því töm. Ef þú notar slík fræðiorð á röngum vettvangi getur það hins vegar tálmað góðum tjáskiptum. Og ef þér verður óþarflega tíðrætt um smáatriði er hugsanlegt að áheyrendur fari að hugsa um eitthvað annað, jafnvel þótt þú notir hversdagsleg orð.

Tillitssamur mælandi velur orð sín þannig að fólk þurfi ekki að vera hámenntað til að skilja hann. Hann líkir eftir Jehóva og er tillitssamur við ‚lága.‘ (Job. 34:19, NW) Ef mælandi telur nauðsynlegt að nota framandi orð ætti hann að nota einfaldar setningar þannig að merkingin sé ljós.

Einföld og vel valin orð koma hugmyndum kröftuglega til skila. Stuttar málsgreinar og einfaldar setningar eru skiljanlegri en langar og flóknar. Inn á milli má svo nota langar setningar til að flutningurinn virki ekki sundurslitinn. En vertu stuttorður og gagnorður þegar þú segir eitthvað sem þú vilt að áheyrendur muni sérstaklega vel.

Fjölbreytni og nákvæmni. Það er nóg til af góðum orðum. Temdu þér fjölbreytni í orðavali í stað þess að nota alltaf sömu orðin. Þá verður mál þitt blæbrigðaríkt og innihaldsríkt. Hvernig geturðu aukið orðaforðann?

Þegar þú lest skaltu merkja við öll orð sem þú skilur ekki alveg og fletta þeim síðan upp í orðabók ef þú hefur tök á. Veldu síðan úr nokkur þessara orða og gerðu þér far um að nota þau eftir því sem við á. Gættu þess að bera þau rétt fram og nota þau í viðeigandi samhengi þannig að þau skiljist vel en það líti ekki út eins og þú sért bara að slá um þig. Með því að auka orðaforðann gerirðu mál þitt fjölbreyttara. En gættu að einu — þegar maður fer rangt með orð eða ber það rangt fram geta aðrir ályktað sem svo að hann viti ekki um hvað hann er að tala.

Við erum ekki að auka orðaforðann til að slá um okkur heldur til að fræða. Langar og flóknar setningar og erfið orð draga helst athygli að mælandanum sjálfum. Markmið okkar ætti að vera það að koma verðmætum upplýsingum á framfæri við aðra og gera þær áhugaverðar. Mundu eftir orðskviðnum: „Af tungu hinna vitru drýpur þekking.“ (Orðskv. 15:2) Góð, viðeigandi og auðskilin orð gera mál okkar hressandi og örvandi en ekki dauft og leiðigjarnt.

Þegar þú eykur við orðaforðann skaltu gæta þess vel að nota rétta orðið. Tvö orð geta haft svipaða en eilítið mismunandi merkingu eftir samhengi og aðstæðum. Ef þú hefur það hugfast geturðu verið skýr í máli án þess að móðga áheyrendur. Hlustaðu vel á góða mælendur. Til eru orðabækur sem gefa upp samheiti (orð sömu eða líkrar merkingar) og andheiti (orð gagnstæðrar merkingar). Með slíka orðabók að vopni geturðu valið fjölbreytt orð yfir sömu hugsun og fundið ýmis merkingarbrigði. Þetta er sérstaklega gott til að finna rétt orð til að hæfa ákveðnu samhengi. Áður en þú svo bætir við þig nýju orði skaltu fullvissa þig um að þú vitir hvað það merkir, hvernig það er borið fram og í hvaða samhengi það á við.

Nákvæmt orðalag dregur upp skýrari mynd en almennt orðalag. Það er himinn og haf á milli þess að segja: „Margir veiktust á þeim tíma,“ eða: „Tuttugu og ein milljón manna lést af völdum spánsku veikinnar á fáeinum mánuðum eftir lok fyrri heimsstyrjaldar.“ Taktu eftir hverju það munar að segja nákvæmlega hvað átt er við með orðunum „margir,“ „veiktust“ og „á þeim tíma“! Til að tjá sig með þessum hætti er auðvitað nauðsynlegt að kunna góð skil á efninu og velja orð sín af vandvirkni.

Með því að velja rétta orðið geturðu verið bæði stuttorður og gagnorður. Ef mælandi er margorður getur hugsunin drukknað í orðum. Einfaldleiki auðveldar öðrum að grípa og muna mikilvægar staðreyndir. Hann miðlar nákvæmri þekkingu. Jesús Kristur var einstakur kennari vegna þess að hann kenndi á einföldu máli. Lærðu af honum. (Skoðaðu dæmin sem skráð eru í Matteusi 5:3-12 og Markúsi 10:17-21.) Æfðu þig í að vera hnitmiðaður og vandvirkur í orðavali.

Kraftur, tilfinning og blæbrigði. Þegar þú eykur við orðaforðann skaltu ekki aðeins hugsa um það að viða að þér fleiri orðum heldur einnig orðum með ákveðna eiginleika. Gefðu til dæmis gaum að sagnorðum sem fela í sér kraft, lýsingarorðum sem tjá blæbrigði og orðasamböndum sem túlka hlýju, góðvild og einlægni.

Biblían er uppfull af dæmum um auðugt málfar. Jehóva hvatti fyrir munn spámannsins Amosar: „Leitið hins góða, en ekki hins illa . . . Hatið hið illa og elskið hið góða.“ (Am. 5:14, 15) Samúel spámaður lýsti yfir í áheyrn Sáls konungs: „Rifið hefir Drottinn frá þér í dag konungdóminn yfir Ísrael.“ (1. Sam. 15:28) Jehóva talaði til Esekíels á máli sem erfitt er að gleyma: „Allir Ísraelsmenn hafa hörð enni og þverúðarfull hjörtu.“ (Esek. 3:7) Hann lagði áherslu á hve þung synd Ísraelsmanna væri er hann spurði: „Á maðurinn að pretta Guð, úr því að þér prettið mig?“ (Mal. 3:8) Daníel notar litrík orð er hann lýsir trúarprófraun sem átti sér stað í Babýlon: „Þá fylltist Nebúkadnesar heiftarreiði“ yfir því að Sadrak, Mesak og Abed-Negó vildu ekki tilbiðja líkneski hans og fyrirskipaði að þeir skyldu bundnir og þeim kastað inn í „hinn brennandi eldsofn.“ Og Daníel lýsir því hve ofurheitur ofninn var er hann segir að konungur hafi látið menn sína „kynda ofninn sjöfalt heitara en vanalegt var að kynda hann.“ Slíkur var hitinn að menn konungs biðu bana er þeir gengu að ofninum. (Dan. 3:19-22) Jesús var djúpt snortinn er hann talaði til Jerúsalembúa fáeinum dögum fyrir dauða sinn: „Hversu oft vildi ég safna börnum þínum, eins og hænan safnar ungum sínum undir vængi sér, og þér vilduð eigi. Hús yðar verður í eyði látið.“ — Matt. 23:37, 38.

Vel valin orð geta skilið eftir ljóslifandi myndir í hugum áheyrenda. Þeir „sjá“ og „snerta“ það sem þú talar um ef þú höfðar til skilningarvitanna með orðum þínum, þeir „smakka“ og „finna ilminn“ af matnum sem þú nefnir og „heyra“ hljóðin sem þú lýsir og í fólkinu sem þú vitnar til. Þeir fylgjast með hverju orði sem þú segir af því að þú hjálpar þeim að lifa sig inn í það.

Með sterkum og lifandi orðum geturðu komið fólki til að hlæja eða gráta. Þau geta vakið von, glætt lífslöngun með niðurdregnum manni og örvað kærleika hans til skaparans. Orð Biblíunnar, til dæmis í Sálmi 37:10, 11, 34, Jóhannesi 3:16 og Opinberunarbókinni 21:4, 5, hafa haft djúpstæð áhrif á fólk um heim allan og vakið með því von.

Þú tekur eftir alls konar orðum og orðalagi þegar þú lest í Biblíunni og ritum hins ‚trúa og hyggna þjóns.‘ (Matt. 24:45) Láttu þau ekki liggja óhreyfð á prenti heldur veldu orð sem höfða til þín og bættu þeim við daglegan orðaforða þinn.

Virtu reglur málfræðinnar. Sumir eru sér þess meðvita að þeir tala ekki alltaf málfræðilega rétt. En hvað er hægt að gera í málinu?

Ef þú ert enn í skóla ættirðu að nýta þér tækifærið til að tileinka þér góða málfræði og orðaval. Ef ákveðin málfræðiregla vefst fyrir þér skaltu biðja kennarann að útskýra hana. Láttu þér ekki nægja að læra rétt nógu mikið til að bjarga þér. Þú hefur ástæðu til að læra sem aðrir nemendur hafa kannski ekki því að þú vilt vera dugandi boðberi fagnaðarerindisins.

En segjum að þú sért orðinn fullorðinn og hafir alist upp í öðru málsamfélagi en þú tilheyrir núna. Eða segjum að þú hafir haft takmarkaða möguleika á menntun í móðurmáli þínu. Misstu ekki kjarkinn heldur leggðu þig fram um að bæta þig sem best þú getur vegna fagnaðarerindisins. Við lærum málfræði að miklu leyti af því að hlusta á aðra. Hlustaðu því vel á reynda ræðumenn. Þegar þú lest Biblíuna og biblíutengd rit, taktu þá eftir setningagerð, orðum sem notuð eru saman og samhenginu sem þau standa í. Reyndu að líkja eftir þeim fyrirmyndum sem þú sérð þar.

Skemmtikraftar og söngvarar fara oft á skjön við reglur málfræðinnar og fólk hefur tilhneigingu til að líkja eftir þeim. Fíkniefnasalar og aðrir sem stunda afbrot eða lifa siðlausu lífi hafa oft sérkennandi orðaforða og nota orð í allt annarri merkingu en gengur og gerist meðal fólks. Kristnir menn ættu ekki að líkja eftir slíku fólki. Að öðrum kosti myndu aðrir setja okkur í samband við þess konar fólk og líferni þess. — Jóh. 17:16.

Vendu þig á að tala gott mál dags daglega. Ef þú leyfir þér að vera málsóði í daglegu tali er ekki við því að búast að þú getir talað gott mál við sérstök tækifæri. En ef þú talar gott mál að staðaldri finnst þér eðlilegt og auðvelt að tala það líka á ræðupallinum og þegar þú vitnar fyrir öðrum um sannleikann.

HVERNIG GETURÐU BÆTT ÞIG?

  • Veldu eina tillögu úr þessum námskafla til að vinna að í mánuð eða lengur.

  • Hafðu markmiðið í huga þegar þú lest. Mundu eftir því þegar þú hlustar á góða ræðumenn. Punktaðu hjá þér orð og orðalag sem þig langar til að tileinka þér. Notaðu það sem þú punktaðir hjá þér innan eins eða tveggja daga.

ÆFING: Veldu fáein orð sem þú átt erfitt með að skilgreina í námsefni vikunnar í Varðturninum eða fyrir bóknámið, um leið og þú undirbýrð þig. Flettu þeim upp í orðabók ef þú hefur tök á eða ræddu um merkingu þeirra við einhvern sem hefur góðan orðaforða.

Orð sem mig langar til að bæta við orðaforða minn

Til fjölbreytni og sakir nákvæmni Til að ná fram krafti,

tilfinningu og blæbrigðum

․․․․․․․․․․․․․․ ․․․․․․․․․․․․․․ ․․․․․․․․․․․․․․ ․․․․․․․․․․․․․․

․․․․․․․․․․․․․․ ․․․․․․․․․․․․․․ ․․․․․․․․․․․․․․ ․․․․․․․․․․․․․․

․․․․․․․․․․․․․․ ․․․․․․․․․․․․․․ ․․․․․․․․․․․․․․ ․․․․․․․․․․․․․․

․․․․․․․․․․․․․․ ․․․․․․․․․․․․․․ ․․․․․․․․․․․․․․ ․․․․․․․․․․․․․․

․․․․․․․․․․․․․․ ․․․․․․․․․․․․․․ ․․․․․․․․․․․․․․ ․․․․․․․․․․․․․․

․․․․․․․․․․․․․․ ․․․․․․․․․․․․․․ ․․․․․․․․․․․․․․ ․․․․․․․․․․․․․․

․․․․․․․․․․․․․․ ․․․․․․․․․․․․․․ ․․․․․․․․․․․․․․ ․․․․․․․․․․․․․․

․․․․․․․․․․․․․․ ․․․․․․․․․․․․․․ ․․․․․․․․․․․․․․ ․․․․․․․․․․․․․․

․․․․․․․․․․․․․․ ․․․․․․․․․․․․․․ ․․․․․․․․․․․․․․ ․․․․․․․․․․․․․․

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila