Námskafli 38
Inngangur sem vekur áhuga
INNGANGSORÐIN eru afar mikilvægur hluti hverrar ræðu. Ef þér tekst virkilega vel að vekja áhuga áheyrenda hlusta þeir með meiri athygli en ella á framhaldið. Ef inngangsorð þín í boðunarstarfinu vekja ekki áhuga er óvíst að þú fáir að halda samtalinu áfram. Áheyrendur í ríkissalnum ganga ekki bókstaflega út ef þú nærð ekki að grípa athygli þeirra en sumir fara kannski að hugsa um eitthvað annað.
Hafðu eftirfarandi í huga þegar þú semur inngangsorðin: (1) þú þarft að grípa athygli áheyrenda, (2) taka skýrt fram hvert viðfangsefnið er og (3) sýna þeim fram á hvers vegna það skipti þá máli. Stundum er hægt að ná þessum þrem markmiðum næstum samtímis en stundum þarf að ná þeim hverju í sínu lagi og getur röðin verið breytileg.
Að grípa athygli áheyrenda. Þó að fólk safnist saman til að heyra fyrirlestur er ekki þar með sagt að það sé tilbúið til að veita viðfangsefninu óskipta athygli. Hvers vegna? Vegna þess að ótalmargt annað keppir um athygli þess. Kannski er fólk með áhyggjur af vandamálum heima fyrir eða einhverju öðru. Það er þraut þín sem ræðumanns að grípa athygli þess og halda henni. Þetta er hægt að gera með ýmsu móti.
Fjallræðan er einhver frægasta ræða sem flutt hefur verið. Hvernig hófst hún? Samkvæmt frásögn Lúkasar sagði Jesús: „Sælir eruð þér, fátækir, . . . sælir eruð þér, sem nú hungrar, . . . sælir eruð þér, sem nú grátið, . . . sælir eruð þér, þá er menn hata yður.“ (Lúk. 6:20-22) Hvers vegna vakti þetta athygli? Vegna þess að Jesús viðurkenndi í örstuttu máli að hann hefði innsýn í ýmis alvarleg vandamál sem steðjuðu að áheyrendum. En í stað þess að eyða mörgum orðum í vandamálin benti hann á að þeir sem ættu við þau að glíma gætu samt sem áður verið sælir, og hann gerði það þannig að áheyrendur langaði til að heyra meira.
Spurningar eru vel til þess fallnar að vekja áhuga en það þarf að beita þeim rétt. Ef spurningarnar gefa til kynna að þú ætlir að fjalla um mál sem áheyrendur hafa heyrt áður er hætta á að áhuginn sé fljótur að dvína. Spyrðu ekki heldur spurninga sem gera áheyrendur vandræðalega eða kasta rýrð á þá. Reyndu heldur að orða þær þannig að þær örvi hugann. Gerðu stutt hlé á eftir hverri spurningu til að áheyrendur fái ráðrúm til að svara þeim í huga sér. Þá finnst þeim þeir hafa skipst á skoðunum við þig í huga sér og þú átt óskipta athygli þeirra.
Raunsannar frásögur eru önnur góð leið til að grípa athygli fólks. En það er óvíst að sagan hitti í mark ef hún kemur einhverjum í hópnum úr jafnvægi. Ef fólk man söguna en gleymir kennslunni, sem fylgdi henni, hefurðu misst marks. Sé frásaga notuð í inngangi ræðunnar ætti hún að leggja grunninn að mikilvægum þætti í meginmáli hennar. Sagan gæti þurft að vera nokkuð ítarleg til að vera lifandi en hún má samt ekki vera of löng.
Sumir hefja ræðu með því að vitna í nýlegar fréttir, dagblað eða ummæli viðurkennds heimildarmanns. Þetta getur líka verið áhrifaríkt ef það hæfir viðfangsefninu vel og á við áheyrendur.
Sé ræðan hluti af syrpu eða dagskrárliður á þjónustusamkomu er yfirleitt best að inngangurinn sé stuttur og hnitmiðaður. Ef þú flytur opinberan fyrirlestur skaltu halda þig við þau tímamörk sem gefin eru upp fyrir inngangsorðin. Áheyrendur hafa mest gagn af þeim upplýsingum sem eru í meginkafla ræðunnar.
Stöku sinnum gætirðu lent í því að standa frammi fyrir efagjörnum eða jafnvel óvinveittum áheyrendahópi. Hvernig geturðu fengið þá til að hlusta? Kristinn maður á fyrstu öld, sem Stefán hét, er sagður hafa verið ‚fullur anda og visku.‘ Hann var leiddur með valdi fyrir æðstaráð Gyðinga þar sem hann varði kristnina snilldarlega. Hann hóf mál sitt á sameiginlegum grundvelli og með tilhlýðilegri virðingu: „Heyrið mig, bræður og feður. Guð dýrðarinnar birtist föður vorum, Abraham.“ (Post. 6:3; 7:2) Páll postuli lagaði inngangsorð sín að afar ólíkum hópi á Areopagusarhæð í Aþenu er hann sagði: „Aþeningar, þér komið mér svo fyrir sjónir, að þér séuð í öllum greinum miklir trúmenn.“ (Post. 17:22) Í báðum tilfellum urðu inngangsorðin til þess að menn hlýddu á mælandann.
Þú þarft líka að ná athygli fólks í boðunarstarfinu. Sé heimsóknin óvænt er viðbúið að húsráðandi sé upptekinn af einhverju öðru. Í sumum heimshlutum er ætlast til þess að óvæntir gestir séu fljótir að bera upp erindið. Annars staðar er það siður að halda ákveðin formsatriði í heiðri áður en gestur ber upp erindi sitt. — Lúk. 10:5.
En óháð því er hægt að skapa jákvætt andrúmsloft til samræðna með því að vera einlægur og vingjarnlegur. Oft er gott að byrja á því að nefna eitthvað sem er húsráðanda ofarlega í huga. Hvernig geturðu valið rétt? Ef húsráðandi er önnum kafinn við eitthvað geturðu tekið mið af því. Er hann að vinna á túni eða í garðinum við húsið, gera við bíl, elda, þvo þvott eða gæta barna? Var hann að lesa í dagblaði eða horfa á eitthvað sem var að gerast í götunni? Ber umhverfi hans merki um sérstakan áhuga á veiðimennsku, íþróttum, tónlist, ferðalögum, tölvum eða einhverju öðru? Fólk hefur oft áhuga á því sem það er nýbúið að sjá eða heyra í sjónvarpi eða útvarpi. Fáein orð eða spurning um eitthvað slíkt getur verið kveikja að vinsamlegu samtali.
Jesús var einu sinni staddur við brunn nálægt bænum Síkar og gaf sig þá á tal við samverska konu. Samtalið er prýðisdæmi um það hvernig hefja megi samræður í þeim tilgangi að vitna um trúna. — Jóh. 4:5-26.
Þú þarft að undirbúa inngangsorðin vel, einkum ef söfnuðurinn fer oft yfir starfssvæðið. Annars er hætt við að þú fáir ekki tækifæri til að vitna.
Taktu fram hvert viðfangsefnið er. Í söfnuðinum er oftast hafður sá háttur á að kynnir eða ræðumaðurinn á undan tilgreinir hvað ræðan heitir sem þú flytur. En það getur líka verið æskilegt að þú takir fram í inngangsorðunum hvað þú ætlar að fjalla um. Þú gætir sagt orðrétt hvert stefið er eða umorðað það. Stefið á að minnsta kosti að koma skýrt fram þegar líður á ræðuna. En það getur verið gott að beina athyglinni á einhvern hátt að viðfangsefninu í inngangsorðunum.
Þegar Jesús sendi lærisveinana út til að prédika tók hann skýrt fram hvaða boðskap þeir ættu að flytja. „Farið og prédikið: ‚Himnaríki er í nánd.‘“ (Matt. 10:7) Hann sagði varðandi okkar daga: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað.“ (Matt. 24:14) Við erum eindregið hvött til að ‚prédika orðið,‘ það er að segja að halda okkur við Biblíuna þegar við vitnum. (2. Tím. 4:2) En áður en þú opnar Biblíuna eða beinir athyglinni að Guðsríki þarf oft að minnast á eitthvert mál sem er ofarlega á baugi þá stundina. Þú gætir minnst á glæpi, atvinnuleysi, ranglæti, stríð, sjúkdóma eða dauða, eða nefnt hvernig hægt sé að hjálpa unga fólkinu. En vertu ekki margorður um hið neikvæða því að boðskapurinn er jákvæður. Reyndu að beina talinu að orði Guðs og voninni sem Guðsríki veitir.
Sýndu áheyrendum fram á hvers vegna efnið skipti þá máli. Ef þú ert að flytja ræðu í söfnuðinum geturðu yfirleitt gefið þér að áheyrendur hafi áhuga á því sem þú ætlar að fjalla um. En hlusta þeir eins og fólk gerir þegar fjallað er um mál sem snertir það persónulega? Fylgjast þeir með af því að þeir gera sér ljóst að það sem þú ert að segja snertir stöðu þeirra í lífinu, og af því að þú vekur með þeim löngun til að gera eitthvað í tengslum við hana? Það gerist því aðeins að þú hafir tekið vandlega mið af aðstæðum, áhyggjum og viðhorfum áheyrenda þegar þú samdir ræðuna. Hafirðu gert það skaltu gefa skýra vísbendingu um það í inngangsorðunum.
Hvort sem þú stendur í ræðustól eða vitnar fyrir einni manneskju er fátt betra til að vekja áhuga á efninu en að láta það snerta áheyrendur. Bentu á hvernig málefnið, sem þú ert að fjalla um, snertir vandamál þeirra, þarfir eða spurningar sem liggja þeim á hjarta. Þeir hlusta miklu betur ef þú lætur koma skýrt fram að þú ætlir ekki aðeins að fjalla um efnið almennum orðum heldur ræða um ákveðnar hliðar þess. En til að gera það þarftu að undirbúa þig vel.
Framsetningin. Það skiptir auðvitað höfuðmáli hvað þú segir í inngangsorðunum en þú getur líka vakið áhuga með því hvernig þú segir það. Þú þarft sem sagt bæði að taka saman viðeigandi efni og hugleiða hvernig þú kemur því til skila.
Orðavalið er mikilvægt til að þú hafir erindi sem erfiði. Margir kjósa þess vegna að vanda fyrstu tvær eða þrjár setningarnar sérstaklega vel. Stuttar og einfaldar setningar eru að jafnaði bestar. Sértu að flytja ræðu í ríkissalnum gætirðu skrifað þær orðrétt niður eða lært þær utan að til að gera inngangsorðin sem áhrifamest. Ef inngangurinn er áhrifamikill og þú flytur hann af öryggi ertu kominn vel af stað og átt auðveldara með að flytja alla ræðuna með ró og yfirvegun.
Hvenær áttu að semja innganginn? Menn eru ekki á einu máli um það. Sumir reyndir ræðumenn álíta best að byrja á því að semja inngangsorðin. Aðrir fróðir menn um mælskulist halda því fram að það eigi fyrst að semja meginefni ræðunnar og síðan inngangsorðin.
Hvað sem því líður þarftu auðvitað að þekkja efnið og vita hvaða aðalatriði þú fjallar um áður en þú semur viðeigandi inngangsorð. Ef ræðan er samin eftir fyrir fram gerðu uppkasti og þú færð hugmynd að inngangi eftir að hafa lesið yfir það er ekkert sem mælir á móti því að skrifa hann niður. Og mundu líka að þú þarft bæði að hugsa um áheyrendur og efnið til að semja áhrifarík inngangsorð.