Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • be þjálfunarliður 30 bls. 186-bls. 189 gr. 4
  • Áhugi á viðmælandanum

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Áhugi á viðmælandanum
  • Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
  • Svipað efni
  • Sýnið öðrum persónulegan áhuga
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1990
  • Samræðuleikni
    Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
  • Náðu til hjartans
    Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
  • Hagnýtt gildi dregið fram
    Leggðu þig fram við að lesa og kenna
Sjá meira
Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
be þjálfunarliður 30 bls. 186-bls. 189 gr. 4

Námskafli 30

Áhugi á viðmælandanum

Hvað þarftu að gera?

Sýndu að þú hafir áhuga á hugrenningum og skoðunum annarra og að þér sé annt um velferð þeirra.

Hvers vegna er það mikilvægt?

Þetta er ein leið til að líkja eftir kærleika Jehóva og getur auðveldað okkur að snerta hjörtu annarra.

ÞAÐ er ekki nóg að fræða hugann til að koma sannleika Biblíunnar á framfæri við aðra. Við þurfum líka að höfða til hjartans. Það er meðal annars hægt að gera með því að sýna einlægan áhuga á áheyrendum okkar. Þú getur sýnt þennan áhuga með ýmsum hætti.

Taktu tillit til skoðana áheyrenda. Páll postuli tók tillit til uppruna og hugsunarháttar áheyrenda sinna. „Ég hef verið Gyðingunum sem Gyðingur,“ sagði hann, „til þess að ávinna Gyðinga. Þeim, sem eru undir lögmálinu, hef ég verið eins og sá, sem er undir lögmálinu, enda þótt ég sjálfur sé ekki undir lögmálinu, til þess að ávinna þá, sem eru undir lögmálinu. Hinum lögmálslausu hef ég verið sem lögmálslaus, þótt ég sé ekki laus við lögmál Guðs, heldur bundinn lögmáli Krists, til þess að ávinna hina lögmálslausu. Hinum óstyrku hef ég verið óstyrkur til þess að ávinna hina óstyrku. Ég hef verið öllum allt, til þess að ég geti að minnsta kosti frelsað nokkra. Ég gjöri allt vegna fagnaðarerindisins, til þess að ég fái hlutdeild með því.“ (1. Kor. 9:20-23) Hvernig getum við „verið öllum allt“?

Ef þú hefur tækifæri til að virða fólk fyrir þér áður en þú byrjar að tala við það, þó ekki sé nema augnablik, sérðu kannski vísbendingar um áhugamál þess og aðstæður. Geturðu áttað þig á því við hvað það starfar? Sérðu merki um trúarskoðanir þess? Er einhver vísbending um fjölskylduaðstæður þess? Geturðu nýtt þér það sem þú sérð til að láta orð þín höfða betur til áheyrenda?

Til að gera kynningarorðin áhugaverð þarftu að hugleiða fyrir fram hvernig þú kemur að máli við fólk úti á starfssvæðinu. Búa erlendir innflytjendur á svæðinu? Hefurðu þá fundið áhrifaríka aðferð til að vitna fyrir þeim? Guð „vill að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum,“ þannig að þú þarft að setja þér það markmið að koma fagnaðarerindinu um ríkið á framfæri á þann hátt að það höfði til allra sem þú hittir. — 1. Tím. 2:4.

Hlustaðu vel. Jehóva er alvitur en hlustar samt á aðra. Spámaðurinn Míka sá sýn þar sem Jehóva hvatti englana til að koma með tillögur í ákveðnu máli. Síðan leyfði Jehóva einum af englunum að hrinda tillögu sinni í framkvæmd. (1. Kon. 22:19-22) Jehóva hlustaði vinsamlega á Abraham er hann lýsti áhyggjum sínum yfir dóminum sem koma átti yfir Sódómu. (1. Mós. 18:23-33) Hvernig getum við líkt eftir þessu fordæmi Jehóva og hlustað vel þegar við erum í boðunarstarfinu?

Hvettu aðra til að tjá sig. Spyrðu viðeigandi spurningar og gerðu síðan nógu langt málhlé til að þeir geti svarað. Hlustaðu svo vel. Þú hvetur viðmælandann til að tjá sig með því að gefa gaum að því sem hann segir. Ef svarið gefur eitthvað til kynna um áhugamál hans skaltu spyrja hann háttvíslega út í þau. Reyndu að kynnast honum aðeins án þess að samtalið hljómi eins og yfirheyrsla. Hrósaðu honum fyrir sjónarmið hans ef þú getur gert það í einlægni. Og þó að þú getir ekki tekið undir skoðanir hans skaltu samt láta vinsamlega í ljós að þú virðir þær og kunnir að meta að hann skuli segja hug sinn. — Kól. 4:6.

Við þurfum þó að gæta þess að áhugi okkar á öðru fólki sé innan velsæmismarka. Þó að okkur sé annt um aðra megum við ekki hnýsast í einkamál þeirra. (1. Pét. 4:15) Ef viðmælandinn er af hinu kyninu þarf að gæta þess að vinsamlegur áhugi misskiljist ekki. Góð dómgreind er mikilvæg vegna þess að það er breytilegt frá landi til lands og jafnvel frá manni til manns hvað er talinn viðeigandi áhugi á öðrum. — Lúk. 6:31.

Það er auðveldara að vera góður hlustandi ef maður er vel undirbúinn. Ef við erum með boðskapinn skýran í huga eigum við auðveldara með að slaka á og hlusta rólega á aðra. Það auðveldar þeim líka að slaka á og tjá sig frjálslega við okkur.

Við sýnum fólki virðingu með því að hlusta á það. (Rómv. 12:10) Það er merki þess að við metum skoðanir þess einhvers og getur jafnvel gert það móttækilegra fyrir því sem við höfum fram að færa. Það er því af ákveðnu tilefni sem orð Guðs ráðleggur okkur að ‚vera fljót til að heyra og sein til að tala.‘ — Jak. 1:19.

Stuðlaðu að framförum annarra. Ef okkur er annt um þá sem sýna áhuga höldum við áfram að hugsa um þá og heimsækjum þá aftur til að koma á framfæri biblíusannindum sem snerta þarfir þeirra beint. Hugleiddu það sem fram kom í fyrri heimsóknum þegar þú undirbýrð þig fyrir þá næstu. Búðu þig undir að ræða um efni sem er þeim hugleikið. Bentu þeim á notagildi þess þannig að þeir átti sig á hvaða gagn þeir hafa af því sem þú ert að fræða þá um. — Jes. 48:17.

Ef viðmælandinn segir þér frá vandamáli eða einhverju sem liggur honum þungt á hjarta skaltu líta á það sem sérstakt tækifæri til að koma fagnaðarerindinu á framfæri við hann. Líktu eftir Jesú sem var ávallt reiðubúinn að hughreysta bágstadda. (Mark. 6:31-34) Spornaðu gegn freistingunni að stinga upp á skyndilausn eða gefa yfirborðsleg ráð. Það gæti vakið þá tilfinningu hjá viðmælanda þínum að áhugi þinn sé ekki einlægur. Sýndu honum hluttekningu. (1. Pét. 3:8) Leitaðu síðan fanga í biblíutengdum ritum og gefðu honum gagnlegar upplýsingar sem geta auðveldað honum að takast á við aðstæður sínar. Sökum umhyggju fyrir viðmælanda þínum gætirðu þess auðvitað að segja öðrum ekki frá trúnaðarmálum sem hann segir þér, nema þú hafir góða og gilda ástæðu til. — Orðskv. 25:9.

Við þurfum sérstaklega að sýna þeim áhuga sem eru í biblíunámi hjá okkur. Hugleiddu þarfir hvers nemanda, ræddu þær við Jehóva í bæn og taktu mið af þeim þegar þú býrð þig undir kennsluna. Spyrðu þig: ‚Hvað þarf hann að gera næst til að taka meiri framförum í trúnni?‘ Hjálpaðu nemandanum að skilja það sem Biblían og rit ‚hins trúa og hyggna þjóns‘ segja um málið. (Matt. 24:45) Stundum nægir ekki einföld skýring. Kannski þarftu að sýna nemandanum fram á hvernig hann eigi að heimfæra ákveðna meginreglu í Biblíunni, og jafnvel að gera eitthvað með honum þar sem þessari meginreglu er beitt. — Jóh. 13:1-15.

Það þarf jafnvægi og góða dómgreind til að hjálpa öðrum að laga sig að lífsreglum Jehóva. Uppruni fólks og hæfileikar eru mismunandi, þannig að framfarir eru mishraðar. Gerðu ekki ósanngjarnar kröfur til annarra. (Fil. 4:5, NW) Þvingaðu engan til að breyta sér heldur leyfðu orði Guðs og anda að hvetja fólk til athafna. Jehóva vill ekki að fólk þjóni sér af nauðung heldur af fúsu hjarta. (Sálm. 110:3) Varastu að segja þína eigin skoðun um mál þar sem aðrir þurfa að taka persónulega ákvörðun og taktu ekki ákvarðanir fyrir þá, jafnvel þótt þeir biðji þig um það. — Gal. 6:5.

Veittu aðstoð í verki. Jesús lét sér fyrst og fremst annt um andlega velferð áheyrenda sinna en var einnig næmur á aðrar þarfir þeirra. (Matt. 15:32) Við þurfum ekki að hafa mikið handa á milli til að geta aðstoðað aðra á ýmsa vegu.

Áhugi á öðrum gerir okkur tillitssöm. Ef veðrið veldur áheyrandanum óþægindum gætirðu stungið upp á að þið færið ykkur í skjól eða takið upp þráðinn við annað tækifæri. Bjóðstu til að koma aftur seinna ef illa stendur á hjá húsráðanda. Ef nágranni eða einhver, sem sýnt hefur áhuga, er veikur eða á spítala gætirðu sýnt umhyggju þína með því að senda kort eða stutt bréf eða með því að heimsækja hann. Ef við á gætirðu eldað einfalda máltíð handa honum eða sýnt vinsemd í verki með öðrum hætti.

Tómarúm getur myndast hjá biblíunemendum þegar þeir vaxa í trúnni og draga úr umgengni við fyrri félaga. Vingastu við þá. Gefðu þér tíma til að spjalla við þá eftir biblíunámið og við önnur tækifæri. Hvettu þá til að leita eftir góðum félagsskap. (Orðskv. 13:20) Hjálpaðu þeim að sækja safnaðarsamkomur. Sittu hjá þeim á samkomum og aðstoðaðu þá við að annast börnin þannig að allir hafi sem mest gagn af samkomunni.

Sýndu einlægan áhuga. Áhugi á öðrum byggist ekki á því að ná tökum á vissri tækni heldur á hann sér rætur í hjartanu. Áhugi á öðrum sýnir sig á marga vegu. Hann sést á því hvernig við hlustum og hvað við segjum. Hann birtist í góðvild og tillitssemi við aðra. Og hann endurspeglast í framkomu okkar og svipbrigðum, þó að við segjum ekkert og gerum ekkert. Það fer ekki fram hjá fólki ef við látum okkur annt um það.

Mikilvægasta ástæðan fyrir því að sýna öðrum einlægan áhuga er sú að þannig líkjum við eftir kærleika og miskunn föðurins á himnum. Það laðar áheyrendur okkar að Jehóva og þeim boðskap sem hann hefur falið okkur að flytja. Við skulum því ‚ekki líta aðeins á eigin hag‘ þegar við flytjum fagnaðarerindið ‚heldur einnig hag annarra.‘ — Fil. 2:4.

AÐ SÝNA EINLÆGAN ÁHUGA

  • Hlustaðu þegar viðmælandi þinn talar. Hrósaðu honum fyrir að segja skoðun sína. Spyrðu spurninga til að átta þig betur á viðhorfum hans.

  • Hugsaðu um viðmælanda þinn eftir að samtalinu lýkur. Hafðu aftur samband fljótlega.

  • Færðu honum biblíusannindi sem snerta þarfir hans beint.

  • Veittu honum aðstoð í verki. Hugsaðu bæði um skammtíma- og langtímaþarfir.

ÆFINGAR: (1) Sýndu einhverjum persónulegan áhuga fyrir safnaðarsamkomu. Láttu ekki nægja að heilsa stuttlega heldur reyndu að kynnast honum betur. Sýndu að þér sé annt um hann. Gerðu þetta að staðaldri. (2) Sýndu einhverjum sem þú hittir í boðunarstarfinu persónulegan áhuga. Reyndu að kynnast honum, auk þess að vitna fyrir honum, og hagaðu orðum þínum og athöfnum eftir því hvers þú verður áskynja. Leitaðu færis að halda þessu áfram.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila