Námskafli 14
Að vera eðlilegur
ÞÚ AUÐVELDAR þér að vinna traust annarra ef þú tjáir þig eðlilega. Myndirðu leggja trúnað á orð manns sem felur sig bak við grímu? Breytti það einhverju ef grímuandlitið væri fallegra en eigið andlit mælandans? Sennilega ekki. Settu því ekki upp grímu heldur vertu þú sjálfur.
Að vera eðlilegur er ekki það sama og að vera kærulaus. Við eigum ekki að nota vont mál, rangan framburð eða tala með hálfkæfðri röddu. Og við ættum einnig að forðast slanguryrði. Við viljum sýna tilhlýðilega reisn öllum stundum, bæði í tali og fasi. Sá sem er eðlilegur er hvorki óhóflega formlegur né óhóflega upptekinn af því að ganga í augun á öðrum.
Í boðunarstarfinu. Ertu taugaóstyrkur þegar þú gengur að húsi eða manni á almannafæri í þeim tilgangi að vitna? Flestir eru það að einhverju marki en hjá sumum er tilfinningin mjög áleitin og þrálát. Spennan getur gert röddina svolítið þvingaða eða titrandi, og hún getur birst í klaufalegum handa- eða höfuðhreyfingum.
Það geta verið margar ástæður fyrir því að boðbera líði þannig. Kannski er hann að hugsa um það hvernig hann komi fyrir sjónir eða velta fyrir sér hvernig sér takist til með kynninguna. Þetta er ekkert óeðlilegt en vandræðin byrja þegar maður verður of upptekinn af þessu. Hvað er til ráða ef þú verður taugaspenntur áður en þú ferð út í boðunarstarfið? Þú skalt undirbúa þig vel og biðja innilega til Jehóva. (Post. 4:29) Hugsaðu um þá miklu miskunn hans að bjóða fólki að hljóta fullkomna heilsu og eilíft líf í paradís. Hugsaðu til þeirra sem þú ert að reyna að hjálpa og þörf þeirra fyrir að heyra fagnaðarerindið.
Og mundu að fólk hefur frjálsan vilja þannig að það getur annaðhvort tekið við boðskapnum eða hafnað honum. Þannig var það líka þegar Jesús vitnaði í Ísrael forðum daga. Verkefni þitt er einfaldlega að prédika. (Matt. 24:14) Jafnvel þótt fólk gefi þér ekki einu sinni færi á að tala er nærvera þín til vitnisburðar. Þú hefur náð árangri vegna þess að þú lést Jehóva nota þig til að koma vilja sínum í framkvæmd. Og hvernig talarðu þegar þú færð tækifæri til að segja eitthvað? Ef þú lærir að einbeita þér að þörfum annarra verður mál þitt aðlaðandi og eðlilegt.
Áheyrendur þínir slaka á ef mál þitt og fas er eins í boðunarstarfinu og það er dags daglega. Það gæti jafnvel verið móttækilegra en ella fyrir þeim biblíusannindum sem þú vilt koma á framfæri. Ræddu við fólk í stað þess að flytja ræðu yfir því. Vertu vingjarnlegur. Sýndu öðrum áhuga og hlustaðu þegar þeir tjá sig. Á þeim stöðum þar sem tungumálið eða menningin kallar á vissar samskipta- og kurteisisreglur þegar talað er við ókunnuga er auðvitað rétt að virða þær. En þú getur alltaf haft óþvingað bros á takteinum.
Á ræðupallinum. Eðlilegur, samtalslegur stíll er að jafnaði bestur þegar þú ávarpar hóp fólks. Ef fjölmennt er í salnum þarftu auðvitað að haga framsögninni eftir því. Ef þú reynir að leggja ræðuna orðrétt á minnið eða ef minnispunktarnir eru of ítarlegir ertu sennilega of upptekinn af því að orða hugsun þína mjög nákvæmlega. Það er mikilvægt að orða hlutina með viðeigandi hætti en ef þú hugsar of mikið um það verður flutningurinn stífur og uppskrúfaður. Þá hættirðu að vera eðlilegur. Þú þarft að úthugsa hugmyndirnar vel fyrir fram en einbeittu þér fyrst og fremst að hugmyndunum en ekki nákvæmu orðavali.
Hið sama gildir ef tekið er viðtal við þig á samkomu. Vertu vel undirbúinn en leggðu ekki svörin á minnið og lestu þau ekki upp af blaði. Talaðu með eðlilegum raddbrigðum þannig að það sem þú segir hljómi óþvingað og óundirbúið.
Æskileg taltækni getur jafnvel hljómað óeðlileg í eyrum áheyrenda ef hún er ýkt. Þú ættir til dæmis að tala skýrt og bera orðin rétt fram en það má ekki ganga svo langt að mál þitt virki tilgerðarlegt. Góðir áherslutilburðir eða lýsandi tilburðir geta lífgað upp á ræðu en stífir eða ýktir tilburðir spilla henni. Talaðu nægilega hátt en ekki of hátt. Það er gott að blása vissum eldmóði í flutninginn en þú mátt ekki vera fjálglegur um of. Beittu ekki raddbrigðum, eldmóði og tilfinningu þannig að það beini athyglinni að sjálfum þér, eða áheyrendum þyki það óþægilegt.
Sumir eru vanir að orða hugsun sína mjög nákvæmlega, jafnvel þótt þeir séu ekki að flytja ræðu, en öðrum er tamara að vera talmálslegir. Aðalatriðið er að tala gott mál dags daglega og sýna af sér þá reisn sem kristnum manni sæmir. Þá er auðveldara en ella að vera eðlilegur í tali og fasi uppi á ræðupallinum.
Við upplestur. Eðlilegur upplestur kemur ekki af sjálfu sér. Nauðsynlegt er að koma auga á aðalhugmyndir efnisins sem á að lesa og glöggva sig á því hvernig unnið er úr þeim. Hafðu þetta skýrt í huga, annars ertu einfaldlega að lesa upp orð. Kannaðu framburð framandi orða. Æfðu þig að lesa efnið upphátt til að ná eðlilegum raddblæ og hrynjandi þannig að orðin flokkist rétt saman og hugsunin skili sér skýrlega. Æfðu þig eins oft og þú þarft til að geta lesið reiprennandi. Kynnstu efninu nógu vel til að lesturinn hljómi eins og líflegar samræður. Þá hljómar hann eðlilega.
Það eru aðallega biblíutengd rit sem við lesum upp úr. Auk lestrarverkefna í Boðunarskólanum lesum við ritningarstaði í boðunarstarfinu og í ræðum sem við flytjum í ríkissalnum. Bræðrum er falið að lesa upp það efni sem farið er yfir í Varðturnsnáminu og safnaðarbóknáminu. Einstaka hæfir bræður fá það verkefni að lesa upp ræður eftir handriti á fjölmennum mótum. Þegar þú lest upp texta sem inniheldur beina ræðu, hvort sem það er í Biblíunni eða öðru riti, skaltu lesa það þannig að það verði lifandi. Ef vitnað er í margar persónur skaltu breyta röddinni eilítið fyrir hverja þeirra. Ein viðvörun þó: Lestu ekki með of miklum leikrænum tilþrifum en blástu lífi í efnið með eðlilegum hætti.
Eðlilegur lestur hljómar eins og eðlilegt samtal. Hann er tilgerðarlaus og sannfærandi.