Síðustu dagar — Sérkenni
„Oppenheimer [sem átti þátt í gerð kjarnorkusprengjunnar] hafði rétt fyrir sér í því að mannkynssagan hefði breytt um stefnu árið 1945. Það verður aldrei aftur hægt að heyja stórstyrjöld með sama hætti og síðari heimsstyrjöldina.“ — Weapons and Hope eftir Freeman Dyson.
NOTKUN kjarnorkusprengjunnar árið 1945 breytti heiminum. Þá var enn á ný brotið blað í sögu styrjalda. Þannig mat einn af höfundum kjarnorkusprengjunnar, Robert Oppenheimer, stöðuna. Þegar tilraunasprengjan var sprengd í Nýju-Mexíkó vitnaði Oppenheimer í Bhagavad Gita hindúanna og sagði: „Ég er orðinn dauði, tortímari heimsins.“ Oppenheimer sagði líka: „Þjóðir þessa heims verða að sameinast; ella munu þær tortímast.“
Árið 1945 varaði ráðgjafarnefnd vísindamanna, sem Oppenheimer átti sæti í, bandarísku kjarnorkunefndina við því að vetnissprengjan, sem var langtum öflugri, yrði þróuð. Í skýrslu nefndarinnar sagði: „Þetta er ofurvopn; það tilheyrir allt öðrum flokki en kjarnorkusprengjan.“ Orsökin var sú að hægt var að margfalda eyðingarafl vetnissprengjunnar með því að bæta við mjög ódýru eldsneyti, tvívetni. Aðeins fjórum árum síðar var kjarnorkusprengjan orðin hálfgert leikfang.
Enrico Fermi og Isidor Rabi, sem einnig áttu sæti í ráðgjafarnefndinni, kváðu enn sterkar að orði: „Sú staðreynd að eyðingarafli þessa vopns eru engin takmörk sett hefur í för með sér að mannkyninu í heild stafar hætta af tilvist þess einni og vitneskjunni um smíði þess. Það er óhjákvæmilega skaðlegt hvernig sem á það er litið.“ (Leturbreyting okkar.) Þeir vissu að mannkynið gæti nú tortímt sjálfu sér. Aðvaranir þeirra gegn smíði vetnissprengjunnar voru að engu hafðar.
‚Dómsdagsspádómar á vísindalegum grunni‘
Hið ótrúlega eyðingarafl, sem mannkynið ræður nú yfir, lýsir sér vel í dæmi sem dr. Lown, einn af forsetum Samtaka eðlisfræðinga gegn kjarnorkuvá, hefur minnst á: „Einn nútímakafbátur ræður yfir hér um bil áttfaldri heildarskotgetu síðari heimsstyrjaldarinnar — nægri til að jafna við jörðu allar stærstu borgir á norðurhveli jarðar.“ Veittu þessu eftirtekt — slíkt er eyðingaraflið sem aðeins einn kafbátur ræður yfir! Stórveldin eiga tugi kafbáta og skipa búin kjarnorkuvopnum. Þegar bætt er við vopnum á landi og í lofti kemur í ljós að heimurinn ræður yfir alls rúmlega 50.000 kjarnorkusprengjum!
Hefur mannkynið nokkru sinni fyrr í sögunni ráðið yfir svona ægilegu eyðingarafli? Dr. Lown viðurkennir að sérhvert tímabil sögunnar hafi átt sér sína spámenn sem fáir eða enginn tók mark á. Hver er þá munurinn núna? Hann svarar: „Á okkar tímum eru dómsdagsspádómarnir í fyrsta sinn byggðir á málefnalegri vísindagreiningu.“ Ef einhvern tíma kæmi til kjarnorkustyrjaldar, segir hann, „er það hreinn hroki að láta sem einhverjir myndu lifa af slíkt stórslys af mannavöldum.“
Vaxandi „angist þjóða“
Árið 1945 sleppti maðurinn hinum illa anda kjarnorkuhernaðar út úr töfralampa vísindanna og er ómögulegt að loka hann aftur inni. Hann gæti eyðilagt öll kjarnorkuvopnin en hvernig gæti hann þurrkað út þekkinguna sem getur alltaf leitt til smíði þeirra á ný? Atburðirnir í Híróshíma og Nagasaki, ásamt smíði háþróaðri og öflugri kjarnorkuvopna frá 1945, hefur því aukið hættuna á ‚ógnum og miklum táknum‘ af himni ofan og á „angist þjóða, ráðalausra.“ — Lúkas 21:11, 25.
Angist þjóðanna hefur einnig margfaldast sökum háþróaðra fjarskipta. Fyrst núna á 20. öldinni ræður mannkynið yfir fjarskiptakerfum (útvarpi, sjónvarpi, tölvum og gervihnöttum) sem gera öllu mannkyni kleift að frétta tafarlaust af stríðum og hörmungum, og það hefur haft í för með sér slíkan ótta og angist þjóða sem gat aldrei orðið áður. En almenningur fréttir ekki aðeins af bardögum og blóðsúthellingum eftir á; hann getur í sjónvarpinu horft á þær um leið og þær gerast!
Ör stríðs og styrjalda
Núna, árið 1988, eru til milljónir fjölskyldna út um allan heim sem hafa af eigin raun kynnst að hluta til sönnun þess að við lifum hina síðustu daga. Þær hafa misst einn eða fleiri ástvini í tveim heimsstyrjöldum eða einhverri af öðrum meiriháttar styrjöldum (í Kóreu, Víetnam, Írak og Íran, Líbanon og víðar) sem hafa gengið nærri mannkyninu. Þeir eru ótaldir sem hafa séð á bak föður, afa, frænda eða bróður. Og mæður, ömmur, systur og frænkur hafa einnig látist í þúsundatali í styrjöldum og fangabúðum.
Á dögum okkar kynslóðar hafa herir þeyst fram og aftur yfir Evrópu og Austurlönd fjær þver og endilöng, rænt og ruplað og nauðgað konum. Hinir eftirlifandi, einkum konurnar, bera enn þann dag í dag ör þeirra misþyrminga. Hefur maðurinn nokkru sinni fyrr sokkið svona djúpt í fen niðurlægingar og heimsku?
Hinn rauði hestur stríðs og slátrunar og hinn bleiki hestur dauðans hafa svo sannarlega skeiðað um jörðina þvera og endilanga frá 1914 með þeim hætti sem á sér enga hliðstæðu í sögunni. — Opinberunarbókin 6:4.
En hvað um hinn svarta hest hungursneyðarinnar? (Opinberunarbókin 6:5) Hefur hann þeyst fram á dögum okkar kynslóðar?
[Innskot á blaðsíðu 8]
Eins og málum er nú háttað er hægt að heyja aðeins eina heimsstyrjöld til viðbótar — kjarnorkustyrjöld. Eftir hana verða engar þjóðir eða ríki til. Þetta eitt gerir okkar tíma einstæða í sögunni og eykur lýsingunni á „hinum síðustu dögum“ vægi. — 2. Tímóteusarbréf 3:1.
[Innskot á blaðsíðu 8]
„Einn nútímakafbátur ræður yfir hér um bil áttfaldri heildarskotgetu síðari heimsstyrjaldarinnar — nægri til að jafna við jörðu allar stærstu borgir á norðurhveli jarðar.“