Nákvæm þekking á Guði og syni hans leiðir til lífs
„Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ — JÓHANNES 17:3.
1. Hvers vegna er nákvæm þekking á Guði og Jesú Kristi svona þýðingarmikil?
NÁKVÆM þekking á Guði og syni hans, Jesú Kristi, er lífsnauðsyn þeim sem vilja hljóta eilíft líf. „[Guð] vill að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum.“ (1. Tímóteusarbréf 2:4) Slík þekking, nákvæm þekking frá innblásnu orði Guðs, Biblíunni, gerir okkur kleift að vita hver Guð er og hverjar skyldur okkar eru gagnvart honum. (2. Tímóteusarbréf 3:16, 17; 1. Jóhannesarbréf 2:17) Hún gerir okkur einnig kleift að þekkja Jesú Krist og vita hvert skuli vera samband okkar við hann. — Sálmur 2:12; Filippíbréfið 2:5-11.
2. Hvaða afleiðingar getur skortur á nákvæmri þekkingu haft?
2 Án nákvæmrar þekkingar gætum við fallið í snöru falskra kenninga sem runnar eru undan rifjum erkióvinar Guðs, Satans djöfulsins, sem er „lygari og lyginnar faðir.“ (Jóhannes 8:44) Ef því einhver kenning stríðir gegn orði Guðs, ef hún er lygi, en við trúum henni samt og kennum hana, þá gerir það Jehóva tortryggilegan og kemur okkur í andstöðu við hann. Við þurfum því að rannsaka Ritninguna gaumgæfilega til að geta greint á milli sannleika og lygi. (Postulasagan 17:11) Við viljum ekki vera eins og þeir sem „eru alltaf að reyna að læra, en geta aldrei komist til þekkingar á sannleikanum.“ — 2. Tímóteusarbréf 3:1, 7.
3. Hver er hin skýra kenning Biblíunnar um Guð, Jesú Krist og heilagan anda?
3 Eins og við höfum séð í greininni á undan er þrenningarkenningin ekki biblíukenning. Í Guðs eigin orði segir hann okkur skýrt og greinilega að hann sé skapari allra hluta og að fyrsta sköpunarverk hans á himnum hafi verið sonur hans. (Opinberunarbókin 4:11; Kólossubréfið 1:15, 16) Guð sendi son sinn til jarðar sem mann til að færa lausnarfórn er væri grundvöllur þess að fyrirgefa syndir mannkynsins, og til að upplýsa einlæga menn nánar um Guð og tilgang hans. (Matteus 20:28; Jóhannes 6:38) Þó hefur hinni einföldu og skýru kenningu að Guð og Kristur séu tvær aðgreindar persónur og að heilagur andi sé ekki persóna heldur starfskraftur Guðs, verið rangsnúið í aldanna rás. Í staðinn er komin þrenningarkenningin sem er undirstöðukenning kristna heimsins.
„Ég og faðirinn erum eitt“
4. Hvers vegna eru fullyrðingar kirknanna um Jóhannes 10:30 rangar?
4 Kirkjurnar vitna oft í Jóhannes 10:30 í því skyni að styðja þrenningarkenninguna, enda þótt hvergi sé minnst á einhverja þriðju persónu í því versi. Þar sagði Jesús: „Ég og faðirinn erum eitt.“ En átti Jesús við það að hann væri alvaldur Guð sjálfur, aðeins í annarri mynd? Nei, svo gat ekki verið því að Jesús sagðist alltaf vera sonur Guðs, honum óæðri og undirgefinn. Hvað átti Jesús þá við í Jóhannesi 10:30?
5, 6. (a) Í hvaða skilningi átti Jesús við að hann og faðir hans væru eitt? (b) Hvernig má lýsa þessu í sambandi við lærisveina Jesú?
5 Jesús átti við það að hann og faðirinn væru eitt í hugsun og tilgangi. Það má sjá af Jóhannesi 17:21, 22 þar sem Jesús bað Guð þess að lærisveinar hans ‚mættu allir vera eitt, eins og þú, faðir, ert í mér, og ég í þér, svo séu þeir einnig í okkur . . . svo að þeir séu eitt, eins og við erum eitt.‘ Var Jesús að biðja þess að allir lærisveinar hans yrðu ein persóna? Nei, hann var að biðja þess að þeir væru sameinaðir í sama hugarfari og tilgangi, alveg eins og Jesús og Guð.
6 Sama hugmynd kemur fram í 1. Korintubréfi 1:10 þar sem Páll segir að kristnir menn ættu ‚allir að vera samhuga og ekki vera flokkadrættir á meðal þeirra, heldur vera fullkomlega sameinaðir í sama hugarfari og í sömu skoðun.‘ Þegar Jesús því sagði að hann og faðir hans væru eitt átti hann ekki við að þeir væru sama persónan, alveg eins og hann átti ekki við að lærisveinar hans ættu að vera sama persónan þegar hann sagði að þeir ættu að vera eitt.
Hver var „Orðið“?
7. (a) Hvað fullyrðir kristni heimurinn um Jóhannes 1:1? (b) Hvað stendur í Jóhannesi 1:1 sem sýnir að þar er alls ekki verið að tala um þrenningu?
7 En hvað þá um Jóhannes 1:1 þar sem margar biblíuþýðingar hljóða líkt og sú íslenska: „Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Guð“? Jóhannes 1:14 segir okkur: „Orðið varð hold, hann bjó með oss.“ Kristni heimurinn heldur því fram að þetta „Orðið“ (á grísku logos), er kom til jarðar sem Jesús Kristur, hafi verið alvaldur Guð sjálfur. En veittu því athygli að í Jóhannesi 1:1 stendur: „Orðið var hjá Guði.“ Sá sem er hjá annarri persónu er ekki sama persónan og hún. Jafnvel þessi biblíuþýðing gefur þannig til kynna að um sé að ræða tvær persónur. Auk þess er alls ekkert minnst á neina þriðju persónu einhverrar þrenningar.
8. Nefndu dæmi um hvernig síðari hluti Jóhannesar 1:1 er orðaður í ýmsum biblíuþýðingum.
8 Í síðari hluta Jóhannesar 1:1 stendur: „Orðið var Guð.“ Margar aðrar biblíuþýðingar komast öðruvísi að orði. Hér fara á eftir nokkur dæmi:
1808: „Og orðið var guð.“ The New Testament, in an Improved Version, Upon the Basis of Archbishop Newcome‛s New Translation: With A Corrected Text, London.
1864: „Og Orðið var guð.“ The Emphatic Diaglott eftir Benjamin Wilson, New York og London.
1935: „Og Orðið var guðlegt.“ The Bible — An American Translation, eftir J. M. P. Smith og E. J. Goodspeed, Chicago.
1935: „Logos var guðlegt.“ A New Translation of the Bible eftir James Moffatt, New York.
1975: „Og Orðið var guð (eða af guðlegu tagi).“ Das Evangelium nach Johannes eftir Sigfried Schultz, Göttingen, Þýskalandi.
1978: „Og Logos var af guðlegri tegund.“ Das Evangelium nach Johannes eftir Johannes Schneider, Berlín.
1979: „Og Logos var guð.“ Das Evangelium nach Johannes eftir Jurgen Becker, Würzburg, Þýskalandi.
Þá er einnig að nefna að árið 1950 sagði í New World Translation of the Christian Greek Scriptures, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.: „Og Orðið var guð.“
9. Hvað stendur á undan nafnorðinu þeos (guð) í gríska textanum þar sem það kemur fram í fyrra sinnið í Jóhannesi 1:1 sem sýnir að átt er við alvaldan Guð?
9 Kemur orðalag af því tagi, sem þessi dæmi sýna, heim og saman við málfræðilega uppbyggingu grískunnar í Jóhannesi 1:1? Já. Í Jóhannesi 1:1 kemur gríska nafnorðið þeos (guð) tvívegis fyrir. Í fyrra sinnið er átt við alvaldan Guð sem Orðið var hjá — „og Orðið [logos] var hjá Guði [ein mynd af þeos].“ Hérna stendur þeos með ákveðnum greini, ho. Nafnorðið þeos með ákveðna greininn ho fyrir framan bendir á ákveðinn, tiltekinn aðila, í þessu tilviki alvaldan Guð — „og Orðið var hjá Guði[num].“
10. Hvað gefur það til kynna að orðið þeos í Jóhannesi 1:1 skuli standa án greinis í síðara skiptið?
10 Í síðari hluta Jóhannesar 1:1 er þeos (sagnfylling) þýtt sem ‚guðlegt‘ eða ‚guð‘ (með óákveðnum greini) í stað „Guð“ í biblíunum sem nefndar eru í 8. tölugrein. Hvers vegna? Vegna þess að þetta síðara þeos er sagnfylling sem á grískunni stendur á undan sögninni en án ákveðna greinisins ho. Með slíkri setningar- og orðaskipan er verið að lýsa einkenni eða eiginleika frumlagsins. Þar er lögð áhersla á eðli Orðsins, að það hafi verið „guðlegt,“ „guð,“ en ekki alvaldur Guð. Þetta er í samræmi við hina mörgu ritningarstaði sem sýna að „Orðið“ var talsmaður Guðs, sent til jarðar af Guði. Eins og Jóhannes 1:18 segir: „Enginn hefur nokkurn tíma séð Guð; sonurinn eingetni [skapaður á himni af alvöldum Guði], sem hallast að brjósti föðurins, hann hefur [komið til jarðar sem maðurinn Jesús og] veitt oss þekking á honum [alvöldum Guði].“ — Ísl. bi. 1912.
11. Nefndu dæmi þess að biblíuþýðendur skjóti inn óákveðnum greini á undan greinislausu nafnorði á grísku. Hvers vegna er það gert?
11 Í Biblíunni eru mörg önnur vers þar sem þeir er þýða frá grískunni yfir á tungumál sem nota mikið óákveðinn greini skjóta honum inn fyrir framan sagnfyllinguna þó að enginn greinir sé í gríska textanum. Með þeim hætti kemur skýrar fram einkenni eða eðli nafnorðsins. Til dæmis segir Markús 6:49 frá því er lærisveinarnir sáu Jesú ganga á vatninu. „Hugðu þeir, að þar færi vofa“ (á grísku fantasma). Nýheimsþýðingin nær betur merkingu frumtextans, en hún orðar þetta svo: „Þeir hugsuðu: ‚Það eru hillingar!‘“ Á sama hátt sýnir rétt þýðing Jóhannesar 1:1 að Orðið var ekki„ Guð“ heldur „guð“ (ótilgreindur guð, „einn guð“).
12. Nefndu dæmi um greinislaus nafnorð í Jóhannesi 8:44.
12 Tvö áþekk dæmi er að finna í Jóhannesi 8. kafla 44. versi. Þar talar Jesús um djöfulinn og segir: „Hann var manndrápari frá upphafi . . . hann er lygari og lyginnar faðir.“ Líkt og í Jóhannesi 1:1 stendur sagnfyllingin í frumgríska textanum („manndrápari,“ „lygari“) á báðum stöðunum á undan sagnorði og er án greinis. Í báðum tilvikum er verið að lýsa einkenni eða eiginleika djöfulsins. Mörg nútímamál geta ekki notað nafnorð sem sagnfyllingu í svo lýsandi merkingu án þess að það valdi ruglingi, en á sumum þeirra má komast nærri henni með því að skjóta inn óákveðnum greini á undan nafnorðinu. — Sjá einnig Markús 11:32; Jóhannes 4:19; 6:70; 9:17; 10:1, 13, 21; 12:6.
„Drottinn minn og Guð minn“
13, 14. Hvers vegna gat Tómas kallað Jesú ‚guð sinn‘ án þess að gefa í skyn að Jesús væri Jehóva?
13 Þrenningarsinnar vitna einnig í Jóhannes 20:28 til stuðnings kenningu sinni. Þar segir Tómas við Jesú: „Drottinn minn og Guð minn!“ Eins og fram er komið er ekkert athugavert við það að Tómas skuli kalla Jesú guð. Það er í samræmi við þá staðreynd að Jesús var vissulega í fortilveru sinni guð, það er að segja máttug, guðleg vera. Og það hefur hann vissulega einnig verið eftir dauða sinn og upprisu til himna. Jesús vitnaði jafnvel í Sálmana þar sem voldugir menn voru ávarpaðir „guðir.“ (Sálmur 82:1-6; Jóhannes 10:34, 35) Páll postuli lét þess getið að til væru „margir guðir og margir herrar.“ (1. Korintubréf 8:5) Jafnvel Satan er kallaður „guð þessarar aldar.“ — 2. Korintubréf 4:4.
14 Kristur gegnir langtum æðri stöðu en ófullkomnir menn eða Satan. Ef hægt er að kalla þá „guði“ hlýtur að vera hægt að kalla Jesú það enda er það gert. Vegna sérstöðu sinnar gagnvart Jehóva er Jesús nefndur ‚hinn eingetni guð‘ (Jóhannes 1:18, NW), „guðhetja“ (Jesaja 9:6) og „guð“ (Jóhannes 1:1, NW). Það var því ekkert athugavert við að Tómas skyldi ávarpa Jesú með þessum hætti. Tómas var að segja að Jesús væri guð gagnvart honum, guðlegur eða máttugur. Hann var hins vegar ekki að segja að Jesús væri Jehóva, en það er þess vegna sem Tómas sagði guð „minn“ en ekki „guðinn.“
15. Hvernig sýnir 31. vers í Jóhannesi 20. kafla greinilega hver Jesús er?
15 Aðeins þrem versum síðar, í Jóhannesi 20:31, segir Biblían: „En þetta er ritað til þess að þér trúið, að Jesús sé Kristur, sonur Guðs.“ Hér eru tekin af öll tvímæli um hvað Tómas kann að hafa átt við. Biblíuritarinn Jóhannes segir greinilega að Jesús sé sonur Guðs, ekki alvaldur Guð sjálfur.
Ekki jafn Guði
16. Hvað fullyrtu Gyðingarnir og hvernig hrakti Jesús það?
16 Kirkjurnar nota einnig Jóhannes 5:18 í því skyni að færa rök fyrir máli sínu. Þar segir að Gyðingarnir hafi viljað drepa Jesú vegna þess að hann „kallaði líka Guð sinn eigin föður og gjörði sjálfan sig þannig Guði jafnan.“ Hverjir sögðu að Jesús væri að gera sig Guði jafnan? Ekki Jesús sjálfur. Það kemur fram strax í næsta versi (19) þar sem hann segir: „Ekkert getur sonurinn gjört af sjálfum sér, nema það sem hann sér föðurinn gjöra.“ Jesús sagðist því ekki vera alvaldur Guð og ekki heldur jafn honum. Hann sýndi hér fram á að Gyðingar hefðu rangt fyrir sér, að hann væri ekki Guð heldur sonur Guðs, og sem talsmaður Guðs gæti hann ekkert gert af sjálfum sér. Getum við ímyndað okkur alvaldan Guð alheimsins segja að hann geti ekkert gert af sjálfum sér? Gyðingarnir komu með ásökun og Jesús hrakti hana.
17. (a) Hvaða skýran vitnisburð gefur innblásið orð Guðs um það hver Jehóva, Jesús Kristur og heilagur andi séu? (b) Hvað verður að gera í sambandi við hvern þann ritningarstað sem þrenningarsinnar kunna að benda á í því skyni að reyna að réttlæta trú sína?
17 Vitnisburður Guðs í innblásnu orði hans, vitnisburður Jesú og vitnisburður lærisveina Jesú er þannig óhrekjandi sönnun fyrir því að alvaldur Guð og Jesús Kristur séu tvær aðgreindar persónur, faðir og sonur. Sönnunargögnin sýna einnig berlega að heilagur andi er ekki þriðja persóna einhverrar þrenningar heldur starfskraftur Guðs. Það er tilgangslaust að taka ritningargreinar út úr samhengi eða reyna að snúa út úr þeim í því skyni að styðja þrenningarkenninguna. Allar slíkar ritningargreinar verða að vera í samræmi við skýran vitnisburð Biblíunnar í heild sinni.
Hvers vegna kom þrenningarkenningin fram?
18. Hvaðan er þrenningarkenningin komin?
18 Ef þú lítur á blaðsíðu 16, „Söguleg þróun þrenningarkenningarinnar,“ kemst þú að raun um að þrenningin er af heiðnum uppruna. Hún er ekki biblíukenning heldur tók kristni heimurinn hana upp á fjórðu öld. En löngu fyrir þann tíma voru dýrkaðar guðaþrenningar í Babýlon, Egyptalandi og öðrum fornríkjum. Kristni heimurinn innlimaði þannig heiðna hugmynd inn í kenningar sínar. Það var gert að undirlagi rómverska keisarans Konstantínusar sem gekk það ekki til að láta sannleikann ráða heldur að styrkja innviði heimsveldisins sem myndað var af heiðingjum og fráhvarfsmönnum frá kristinni trú. Hér var ekki að þróast kristin kenning heldur er upptaka hennar merki þess að kristni heimurinn hafi gert fráhvarf frá kenningum Krists og tekið upp heiðnar kenningar í staðinn.
19. Hvers vegna varð þrenningarkenningin til?
19 Hvers vegna skyldi kenning af þessu tagi verða til? Víst er að það þjónar ekki hagsmunum Guðs að gera hann, son hans og heilagan anda dularfullan og óskiljanlegan. Það þjónar ekki hagsmunum hans að gera fólk ráðvillt. Því fleiri sem verða ruglaðir á eðli Guðs og tilgangi hans, þeim mun betur þjónar það Satan djöflinum, andstæðingi Guðs, ‚guði þessa heims‘ sem vinnur að því að ‚blinda hugi hinna vantrúuðu.‘ (2. Korintubréf 4:4) Þar eð slík kenning lætur líta svo út að einungis guðfræðingar geti skilið kenningar Biblíunnar þjónar hún einnig hagsmunum trúarleiðtoga kristna heimsins. Hún hjálpar þeim að halda tökum sínum á almenningi.
20. (a) Hver er hinn einfaldi sannleikur um þrenninguna? (b) Hvað mun það þýða fyrir okkur að afla okkur nákvæmrar þekkingar á hinum frelsandi sannleika?
20 Samt sem áður er sannleikurinn í þessu máli svo einfaldur að barn getur skilið hann. Lítill drengur veit að hann er ekki sama persónan og faðir hans, heldur eru þeir tveir sjálfstæðir einstaklingar. Þegar Biblían segir að Jesús Kristur sé sonur Guðs er það nákvæmlega það sem hann á við. Þetta er einfaldur sannleikur en þrenningarkenningin er það ekki. Hún er lygi. Hún hlýtur því að vera runnin undan rifjum hans ‚sem heitir djöfull og Satan, hans sem afvegaleiðir alla heimsbyggðina.‘ (Opinberunarbókin 12:9) Hinn einfaldi, hressandi sannleikur um Guð, son hans Jesú Krist og hinn máttuga heilaga anda Guðs frelsar aftur á móti fólk úr fjötrum falskra kenninga er eiga rætur sínar í heiðni og eru hugverk Satans. Eins og Jesús sagði einlægum mönnum sem voru að leita sannleikans: „[Þið] munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa.“ (Jóhannes 8:32) Að afla sér nákvæmrar þekkingar á hinum frelsandi sannleika og breyta eftir honum hefur ‚eilíft líf‘ í för með sér. — Jóhannes 17:3.
Upprifjun
◻ Hvers vegna er nákvæm þekking á Guði og syni hans svona þýðingarmikil?
◻ Hvað átti Jesús við þegar hann sagði: „Ég og faðirinn erum eitt“?
◻ Hvernig gerir Jóhannes 1:1 greinarmun á Orðinu og Guði?
◻ Hvers vegna gat Tómas með réttu ávarpað Jesú: „Guð minn“?
◻ Hvernig varð þrenningarkenningin til og hver er höfundur hennar?
[Rammi á blaðsíðu 16]
Söguleg þróun þrenningarkenningarinnar
The New Encyclopædia Britannica, 1985, Micropædia, 11. bindi, bls. 928, segir undir yfirskriftinni þrenning: „Hvorki orðið þrenning né skýr kenning þar um kemur fyrir í Nýja testamentinu, enda ætluðu hvorki Jesús né fylgjendur hans sér að andmæla hinu svokallaða shema í Gamla testamentinu: ‚Heyr Ísrael! Drottinn er vor Guð; hann einn er Drottinn!‘ (5. Mós. 6:4)“ Þessi alfræðibók segir einnig: „Kenningin þróaðist smám saman á nokkurra alda tímabili og í gegnum miklar deilur. . . . Níkeuþingið árið 325 setti fram meginforskrift þessarar kenningar í þeirri játningu sinni að sonurinn sé ‚sama eðlis . . . og faðirinn,‘ enda þótt það segði mjög fátt um heilagan anda. . . . Undir lok fjórðu aldar tók þrenningarkenningin í meginatriðum á sig þá mynd sem hún hefur haldið æ síðan.“
Alfræðibókin New Catholic Encyclopedia frá 1967, 14. bindi, bls. 299, viðurkennir: „Trúarsetningin ‚Einn Guð í þrem persónum‘ öðlaðist ekki fastan sess og samlagaðist alls ekki fullkomlega kristnu lífi og játningu trúarinnar fyrr en undir lok fjórðu aldar. . . . Meðal hinna postullegu kirkjufeðra fyrirfannst ekkert sem einu sinni líktist hið minnsta slíkum hugsunarhætti eða heildarsýn.“
Þrenningarkenningin er því ekki biblíuleg heldur var hún opinberlega tekin upp á Níkeuþinginu árið 325. Kennisetningin innlimaði heiðna hugmynd sem átti upptök sín löngu fyrr í Forn-Babýlon og Egyptalandi og var einnig þekkt í öðrum löndum. Sagnfræðingurinn Will Durant segir í verki sínu The Story of Civilization: Part III, bls. 595: „Kristnin gerði ekki út af við heiðnina; hún innlimaði hana. . . . Hugmyndir um guðlega þrenningu komu frá Egyptalandi.“
Í An Encyclopedia of Religion, í ritstjórn Vergilius Ferm, útgefin árið 1964, bls. 793 og 794, eru taldar upp guðaþrenningar Babýloníumanna, búddhatrúarmanna, hindúa, norrænna manna, taóista og annarra trúarbragða, svo og kristna heimsins, undir yfirskriftinni „þrenning.“ Sem dæmi nefnir hún að á Indlandi sé „hin mikla þrenning mynduð af Brahma, skaparanum, Vishnú, verndaranum, og Síva, eyðandanum. Þeir tákna hringrás lífsins, líkt og babýlonska þrenningin Anú, Enlíl og Eha tákna efni tilverunar, loft, vatn og jörð.“
Í British Museum í Lundúnum eru geymdir gripir sem sýna fornar guðaþrenningar, svo sem Ísis, Harpokrates og Neftys Egypta. Rit, gefið út af þeirri deild safnsins sem sér um miðaldafornmenjar og yngri, segir um áletranir á fornum skartgripum: „Á framhlið eru egypsku guðirnir Horus-Baït (með fálkahaus), Búto-Akori (snákurinn) og Hator (með froskhaus). Á bakhlið standa grísku ljóðlínurnar ‚einn Baït, einn Hator, einn Akori, máttur þeirra er einn. Hyllið föður himinsins, hyllið þrímyndaða guðinn!‘ Guðirnir eru þannig sagðir vera þrjár opinberanir eins máttar, sennilega sólguðsins.“
Mannkynssagan staðfestir að þrenningin var tekin að láni frá heiðingjum og var til orðin mörgum öldum áður en Jesús kom til jarðar. Löngu eftir dauða hans var henni komið á framfæri af mönnum sem höfðu orðið fyrir áhrifum heiðinnar heimspeki og höfðu fallið frá sannri tilbeiðslu á Guði, eins og Jesús og postular hans kenndu hana.
[Mynd á blaðsíðu 14]
Jesús bað þess að lærisveinar hans mættu vera eitt í hugsun og tilgangi á sama hátt og hann og faðir hans voru eitt.