Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g88 8.1. bls. 11-16
  • Sigrað í baráttunni við þunglyndi

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Sigrað í baráttunni við þunglyndi
  • Vaknið! – 1988
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Segðu frá tilfinningum þínum
  • Hafðu rétt sjálfsmat
  • Er það mér að kenna?
  • ‚Gleymdu því sem að baki er‘
  • Raunsætt sjálfsmat
  • Að þreyja ‚eina stund í senn‘
  • Dýrleg von
  • Hvers vegna verð ég svona þunglyndur?
    Spurningar unga fólksins — svör sem duga
  • Hinar sálfræðilegu rætur
    Vaknið! – 1988
  • Sigrast á þunglyndi með hjálp annarra
    Vaknið! – 1988
  • Þunglyndi unglinga – hvað er til ráða?
    Vaknið! – 2017
Sjá meira
Vaknið! – 1988
g88 8.1. bls. 11-16

Sigrað í baráttunni við þunglyndi

„HOLL ráð skalt þú hafa, er þú heyr stríð,“ segja Orðskviðirnir 24:6. Hyggni og leikni eru nauðsynleg til að sigra í stríði. Góður ásetningur einn sér nægir ekki. Sá sem á við þunglyndi að stríða vill auðvitað ekki í ógáti gera vandamál sitt enn verra en það er. Í könnun, sem gerð var árið 1984, kom í ljós að þunglynt fólk reyndi stundum að vinna bug á þunglyndi sínu með því að ‚hella úr skálum reiði sinnar yfir aðra, draga úr spennu með því að drekka meira, borða meira og taka meira af róandi lyfjum.‘ Afleiðingin var „enn verra þunglyndi og fleiri líkamleg sjúkdómseinkenni.“

Þunglynt fólk leitar oft ekki hjálpar læknis eða annarra af því að það óttast að það verði álitið veilt á geðsmunum. Alvarlegt þunglyndi er þó hvorki merki um geðveilu né andlega bilun. Rannsóknir gefa til kynna að þessi alvarlegi sjúkdómur geti stafað af truflun á eðlilegri efnastarfsemi heilans. Þunglyndi getur því stafað af líkamlegum kvilla. Ef þú hefur verið mjög langt niðri í meira en hálfan mánuð er því ráðlegt að leita læknis. Ef enginn líkamlegur kvilli virðist stuðla að eða vera undirrót þunglyndisins er oft hægt að draga úr því eða vinna bug á því með því að breyta hugsunarhætti sínum, auk þess ef til vill að taka viðeigandi lyf eða næringarefni.a Þótt þú sigrir í baráttunni við þunglyndi er það engin trygging fyrir að þú verðir aldrei niðurdreginn eða þunglyndur aftur. Hryggð og daprar hugsanir eru hluti af lífinu. En ef þú veist hvar þú ert veikur fyrir og hvernig þú átt að bregðast við mun þér vegna betur í baráttunni.

Læknir mun í mörgum tilvikum mæla með að sjúklingur taki geðlægðarlyf, en þau gegna því hlutverki að lagfæra efnafræðilegt ójafnvægi sem kann að vera undirrót vandans. Elísabet, sem áður er nefnd, tók slík lyf og fann fyrir breytingu til batnaðar innan fáeinna vikna. „Eftir sem áður þurfti ég að rækta með mér jákvæð viðhorf, jafnhliða lyfjatökunni,“ sagði hún. „Lyfin ýttu mér af stað og ég var staðráðin í að notfæra mér þá hjáp til að verða heilbrigð. Ég gætti þess líka að fá góða hreyfingu dag hvern.“

Því miður koma geðlægðarlyf ekki alltaf að gagni og sumir finna fyrir óþægilegum aukaverkunum af þeim. Við það bætist að jafnvel þótt bætt sé úr hinu efnalega ójafnvægi er hætt við að þunglyndið sæki aftur á ef hugsanaganginum er ekki breytt. Það getur verið mikil hjálp að vera fús til að gera þetta:

Segðu frá tilfinningum þínum

Sara var mjög gröm yfir því að hún skyldi bæði þurfa að vinna úti og bera stóran hluta af heimilisstörfunum. (Sjá bls. 7.) „En ég lokaði bara þessar tilfinningar inni,“ sagði Sara. „En kvöld eitt, þegar mér fannst allt vonlaust, hringdi ég í yngri systur mína, og í fyrsta sinn á ævinni úthellti ég tilfinningum mínum fyrir öðrum. Það voru straumhvörf fyrir mig því að mér létti svo við að tala við hana.“

Ef þú ert niðurdreginn eða þunglyndur skaltu finna einhvern hluttekningarsaman einstakling sem þú getur trúað fyrir tilfinningum þínum. Það gæti verið maki þinn, náinn vinur, ættingi, trúbróðir, læknir eða félagsráðgjafi. Eitt af því mikilvægasta í baráttunni við þunglyndi er, að því er segir í niðurstöðum rannsókna sem birtust í Journal of Marriage and Family, „að hafa einhvern til að styðjast við sem hægt er að tala við um erfiðleika lífsins.“

Það hefur læknandi áhrif að tjá tilfinningar þínar með orðum og hindrar að hugur þinn reyni að afneita því að vandamálið sé fyrir hendi, með þeim afleiðingum að það verður ekki leyst. En mikilvægt er að segja frá sínum raunverulegu tilfinningum. Láttu ekki falskt stolt koma þér til að reyna að sýnast eins og klettur sem haggast ekki í ölduróti erfiðleikanna. „Hugsýki beygir manninn, en vingjarnlegt orð gleður hann,“ segja Orðskviðirnir 12:25. Aðrir geta með engu móti skilið „hugsýki“ þína eða sagt við þig „vingjarnlegt“ hvatningarorð nema þú talir opinskátt við þá um tilfinningar þínar.

„Ég var bara að leita eftir samúð þegar ég hringdi til systur minnar, en ég fékk miklu meira,“ segir Sara. „Hún hjálpaði mér að koma auga á hvar hugsun mín væri á rangri braut. Hún sagði mér að ég tæki of mikla ábyrgð á sjálfa mig. Í byrjun vildi ég ekki heyra það, en þegar ég fór að fara eftir ráðum hennar fann ég að stóru fargi var af mér létt.“ Orðskviðirnir 27:9 fara með satt mál þegar þeir segja: „Ilmolía og reykelsi gleðja hjartað, en indælli er vinur en ilmandi viður.“

Það er indælt að eiga vin eða maka sem talar opinskátt við þig og hjálpar þér að sjá hlutina í réttu ljósi. Það getur hjálpað þér að einbeita þér að aðeins einu vandamáli í einu. Í stað þess að fara í varnarstöðu skalt þú meta mikils „holl ráð“ hans. Ef þú átt við þunglyndi að stríða þarfnast þú kannski vinar sem getur, eftir að þið hafið rætt saman nokkrum sinnum, komið með tillögu um ýmis áfangamarkmið sem geta hjálpað þér skref fyrir skref að breyta eða bæta aðstæður þínar þannig að þú dragir smám saman úr því tilfinningalega álagi sem á þér hvílir.b

Sá sem berst gegn þunglyndi þarf oft samtímis að skoða sjálfsmat sitt og berjast gegn þeirri tilfinningu að hann sé líils eða einskis virði. Hvernig er best að gera það?

Hafðu rétt sjálfsmat

María, sem nefnd er í greininni á undan, varð mjög þunglynd eftir árekstra innan fjölskyldunnar. Hún dró þá áyktun að hún væri vond manneskja og gæti ekki gert nokkurn skapaðan hlut rétt. Það var auðvitað rangt. Ef hún hefði brotið hugsanir sínar til mergjar hefði hún getað andmælt þeirri tilfinningu með þessum rökum: ‚Ég geri sumt rétt og sumt rangt eins og allir aðrir menn. Mér urðu á nokkur mistök og ég þarf að leggja mig fram um að hugsa áður en ég tala, en það er engin ástæða til að gera úlfalda úr þessari mýflugu.‘ Hefði hún hugsað eftir þessum nótum hefði hún varðveitt sjálfsvirðingu sína.

Þessi óhóflega gagnrýna innri rödd, sem fordæmir okkur, fer stundum með rangt mál! Í meðfylgjandi ramma eru nefndar nokkrar dæmigerðar en rangar hugsanir sem geta framkallað þunglyndi. Lærðu að bera kennsl á slíkar hugsanir og setja spurningarmerki við þær.

Jean, 37 ára einstæð móðir, þurfti líka að glíma við þetta vandamál. „Það var töluvert álag fyrir mig að reyna að ala upp tvo drengi. En þegar ég sá aðrar einstæðar mæður giftast hugsaði ég með mér: ‚Það hlýtur að vera eitthvað að mér,‘“ segir hún. „Ég leyfði huganum að dvelja við neikvæðar hugsanir og þær hlóðu utan á sig með þeim afleiðingum að ég var að síðustu lögð inn á spítala vegna þunglyndis.“

Eftir að ég var útskrifuð af spítalanum las ég í Vaknið! þann 8. september 1981 [enskri útgáfu] skrá yfir ‚hugsanir sem geta gert menn hneigða til þunglyndis.‘ Ég las listann á hverju kvöldi. Nokkrar af hinum röngu hugsunum voru á þessa leið: ‚Manngildi mitt ræðst af því hvernig aðrir hugsa um mig,‘ ‚Ég ætti aldrei að finna mig særða; ég ætti alltaf að vera glöð og í góðu jafnvægi,‘ ‚Ég ætti að vera fullkomin móðir.‘ Ég var með allnokkra fullkomnunaráráttu, þannig að þegar ég fór að hugsa eftir þeim nótum bað ég Jehóva um að hjálpa mér að hætta því. Mér lærðist að neikvæðar hugsanir hafa í för með sér lágt sjálfsmat, því að allt sem maður sér eru erfiðleikarnir í lífinu en ekki hið góða sem Guð hefur gefið manni. Þegar ég þvingaði mig til að forðast vissar rangar hugsanir komst ég yfir þunglyndið.“ Þarft þú að rísa gegn eða vísa á bug ákveðnum hugsunum sem upp koma hjá þér?

Er það mér að kenna?

Alexander tókst að stunda starf sitt sem kennari enda þótt hann væri mjög þunglyndur. (Sjá bls. 3.) Þegar nokkrir nemenda hans féllu á mjög þýðingarmiklu lestrarprófi sóttu á hann sjálfsmorðshugsanir. „Honum fannst hann hafa brugðist,“ segir Ester, kona hans. „Ég sagði honum að það væri ekki honum að kenna. Það væri ekki hægt að búast við að allt sem maður gerði heppnaðist fullkomlega.“ Því miður varð sektarkennd hans yfirþyrmandi, blindaði hugsun hans og kom honum til að fyrirfara sér. Óhófleg sektarkennd stafar í mörgum tilfellum af því að menn telja sig ábyrga fyrir því sem aðrir gera, enda þótt það sé með öllu óraunhæft.

Jafnvel þegar barn á í hlut geta foreldrarnir ekki ráðið lífi þess að fullu, þótt þeir geti haft sterk áhrif á það. Ef eitthvað fer ekki eins og þú hafðir ætlað, þá skalt þú spyrja þig: Gerðist eitthvað óvænt sem ég réð ekki við? (Prédikarinn 9:11) Gerði ég allt sem ég megnaði miðað við líkamlegt, hugarfarslegt og tilfinningalegt atgervi mitt? Gerði ég mér einfaldlega óraunhæfar vonir? Þarf ég að læra að vera skynsamari og hógværari? — Filippíbréfið 4:5.

En ef þú gerir alvarleg mistök sem eru þín sök? Getur þú þá bætt fyrir orðinn hlut með því að ávíta sjálfan þig linnulaust? Er ekki Guð fús til að fyrirgefa þér, jafnvel „ríkulega,“ ef þú iðrast í einlægni? (Jesaja 55:7) Ef Guð „er eigi eilíflega reiður,“ ættir þú þá að dæma sjálfan þig til ævilangra þjáninga vegna mistaka sem þú hefur gert? (Sálmur 103:8-14) Jehóva Guð vill að þú stígir jákvæð skref til að leiðrétta það sem aflaga fór. Það er honum langtum þóknanlegra en dáðleysi og daprar hugsanir og það getur létt lund þína. — 2. Korintubréf 7:8-11.

‚Gleymdu því sem að baki er‘

Sum af tilfinningalegum vandamálum okkar geta átt sér rætur í fortíðinni, einkanlega ef við höfum orðið fórnarlömb ranglætis. Vertu fús til að gleyma og fyrirgefa. ‚En það er ekki auðvelt að gleyma!‘ hugsar þú kannski. Það er að vísu rétt, en það er betra en að eyðileggja það sem þú átt eftir ólifað með því að einblína á það sem þú færð engu um breytt.

„Ég gleymi því, sem að baki er, en seilist eftir því, sem framundan er,“ skrifaði Páll postuli, „og keppi þannig að markinu.“ (Filippíbréfið 3:13, 14) Páll gekk ekki um með hangandi höfði yfir því sem hann hafði gert í gyðingdóminum — og hann hafði meira að segja lagt blessun sína yfir morð. (Postulasagan 8:1) Hann einbeitti kröftum sínum að því að vera hæfur til að taka við sigurlaunum framtíðarinnar, eilífu lífi. María lét sér líka lærast að láta ekki hugann dvelja við það sem liðið var. Hún gekk svo langt að ásaka móður sína fyrir það hvernig hún hafði alið hana upp. Móðir hennar hafði lagt þunga áherslu á líkamlega fegurð og það að skara fram úr; og María var því haldin fullkomnunaráráttu og hafði tilhneigingu til að vera afbrýðisöm út í systur sína sem var aðlaðandi.

„Þessi afbrýðisemi var undirrót árekstranna, en ég ásakaði fjölskyldu mína fyrir það hvernig ég hafði komið fram. Að síðustu komst ég þó að þeirri niðurstöðu að það skipti í rauninni engu máli hverjum þetta væri að kenna. Kannski hafði ég til að bera einhver slæm einkenni, sem rekja mátti til uppeldis míns, en þá ætti ég að gera eitthvað til að bæta mig, ekki halda áfram að hegða mér svona.“ Þegar María hafði gert sér þetta ljóst átti hún auðveldara með að breyta hugsunarhætti sínum þannig að hún gæti sigrað í baráttunni gegn þunglyndinu. — Orðskviðirnir 14:30.

Raunsætt sjálfsmat

Þegar allt kemur til alls er rétt mat á eigin manngildi nauðsynlegt til að geta háð sigursæla baráttu gegn þunglyndi. Páll postuli hvatti kristna menn til að „hugsa ekki hærra um sig en hugsa ber, heldur í réttu hófi.“ (Rómverjabréfið 12:3) Óhóflegt stolt, fullkomnunarárátta og það að virða ekki takmörk sín ber allt vott um ofmat manns á sjálfum sér. Standa þarf gegn slíkum tilhneigingum. En forðastu að fara út í hinar öfgarnar.

Jesús Kristur lagði áherslu á að hver einasti lærisveinn hans væri mjög verðmætur. Hann sagði: „Eru ekki fimm spörvar seldir fyrir tvo smápeninga? Og þó er ekki einn þeirra gleymdur Guði. Hárin á höfði yðar eru jafnvel öll talin. Verið óhræddir, þér eruð meira verðir en margir spörvar.“ (Lúkas 12:6, 7) Við erum öll nógu verðmæt í augum Guðs til að hann taki eftir smæstu smáatriðum í fari okkar. Hann ber svo djúpa umhyggju fyrir okkur að hann gjörþekkir okkur — enn betur en við sjálf. — 1. Pétursbréf 5:7.

Þegar Söru varð ljóst að Guð hefði persónulegan áhuga á henni hjálpaði það henni að meta sjálfa sig rétt. „Ég bar alltaf lotningu fyrir skaparanum, en svo varð mér ljóst að hann bæri umhyggju fyrir mér sem persónu. Það rann upp fyrir mér að ég ætti persónulegt vináttusamband við Jehóva, óháð því hvað börnin mín gerðu, hvað maðurinn minn gerði og hvernig foreldrar mínir höfðu alið mig upp. Þessi uppgötvun hjálpaði mér að sjá manngildi mitt í réttu ljósi.“

Þar eð sérhver þjónn Guðs er honum dýrmætur ræðst manngildi okkar ekki af því hvað aðrir menn hugsa um okkur. Að sjálfsögðu er það óþægilegt ef öðrum geðjast ekki að okkur, en ef við notum velþóknun eða vanþóknun annarra sem mælistiku á manngildi okkar, þá erum við að gera okkur berskjölduð fyrir þunglyndi. Davíð konungur, sagður maður Guði að skapi, var einhverju sinni kallaður „hrakmenni,“ sem bókstaflega merkir „ónytjungur.“ En Davíð gerði sér ljóst að sá sem uppnefndi hann, Símeí, var alls ekki í réttu jafnvægi og leit því ekki á orð hans sem lokadóm á manngildi sitt. Og eins og oft gerist baðst Símeí afsökunar síðar. Jafnvel þótt einhver gagnrýni þig með réttu skaltu líta á það sem gagnrýni á eitthvað sem þú gerðir, ekki á manngildi þitt. — 2. Samúelsbók 16:7; 19:18, 19.

Einkanám Söru í Biblíunni og hjálpargögnum til biblíunáms, svo og það að sækja samkomur votta Jehóva, hjálpaði henni að leggja grundvöll að sambandi við Guð. „Breytt viðhorf til bænarinnar var mér mesta hjálpin,“ segir Sara. „Ég hafði verið þeirrar skoðunar að við ættum bara að biðja til Guðs í samband við hin stóru atriði, en ekki að ónáða hann út af smávægilegum vandamálum okkar. Núna finnst mér ég geta talað við hann um hvað sem er. Ef ég er taugatrekkt út af ákvörðun, sem ég þarf að taka, bið ég hann að hjálpa mér að vera róleg og yfirveguð. Ég finn til nánari og nánari tengsla við hann þegar ég sé hann svara bænum mínum og hjálpa mér að þreyja hvern dag og hverja prófraun.“ — 1. Jóhannesarbréf 5:14; Filippíbréfið 4:7.

Sú sannfæring að Guð hafi persónulegan áhuga á þér, skilji takmörk þín og vilji styrkja þig til að þreyja hvern dag er lykillinn að því að berjast gegn þunglyndi. En stundum heldur þunglyndið áfram, hvað sem þú gerir.

Að þreyja ‚eina stund í senn‘

„Ég hef reynt allt, þar á meðal næringar- og bætiefni og geðlægðarlyf,“ segir Eileen. Hún er 47 ára húsmóðir sem hefur í áraraðir barist gegn alvarlegu þunglyndi. „Ég hef lært að bægja frá mér röngum hugsunum og það hefur hjálpað mér að vera skynsamari manneskja. En þunglyndið hverfur ekki.“

Ef þunglyndið gefur sig ekki er ekki sjálfgefið að þú berjist ekki gegn því á réttan hátt. Læknar vita ekki allt um það hvernig meðhöndla skuli þennan sjúkdóm. Þess eru dæmi að þunglyndi sé aukaverkun af lyfi sem tekið er gegn alvarlegum sjúkdómi, og þegar á heildina er litið geta kostirnir við að taka þetta lyf verið þyngri á metunum en ókostirnir.

Það er auðvitað hjálp að geta trúað skilningsríkum vini fyrir tilfinningum þínum, en hafa ber í huga að enginn maður getur skilið kvöl þína til fulls. En Guð gerir það og hjálpar þér. „Jehóva hefur gefið mér styrk til að halda áfram baráttunni,“ segir Eileen. „Hann hefur hjálpað mér að halda út og gefið mér von.“

Ef þú notfærir þér hjálp Guðs, tilfinningalegan stuðning annarra og leggur þig sjálfur fram mun þunglyndið ekki verða svo yfirþyrmandi að þú gefist upp. Þú getur lært að aðlaga þig ástandinu alveg eins og hægt er að aðlaga sig hverjum öðrum langvinnum sjúkdómi. Það er að vísu hægara sagt en gert að sýna úthald, en það er þó gerlegt. Jean, sem þjáðist af alvarlegu og langvinnu þunglyndi, sagði: „Við hugsuðum ekki um að þreyja einu sinni einn dag í senn, heldur eina klukkustund í senn.“ Sú von, sem Biblían gefur, var bæði Eileen og Jean styrkur til að halda út. Hver er þessi von?

Dýrleg von

Biblían segir að í náinni framtíð muni Guð „þerra hvert tár af augum [manna]. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ (Opinberunarbókin 21:3, 4) Ríki Guðs mun þá veita jarðneskum þegnum sínum fullkomið heilbrigði á huga og líkama. — Sálmur 37:10, 11, 29.

Bæði munu líkamlegar þjáningar hverfa og einnig þungbærar sorgir og kvöl hjartans. Jehóva lofar: „Hins fyrra skal ekki minnst verða, og það skal engum í hug koma. Gleðjist og fagnið ævinlega yfir því, sem ég skapa.“ (Jesaja 65:17, 18) Það verður mikill léttir fyrir mannkynið að losna við byrðar fortíðarinnar og vakna hvern morgun með hreinan og heilan huga, óðfús að takast á við verkefni dagsins! Dáðleysi og daprar hugsanir þunglyndisins munu ekki lengur setja mönnum skorður.

Þegar ekki verður framar ‚dauði, harmur og kvöl‘ verður horfið það kvalræði sem er samfara ástvinamissi og leiðir oft til þunglyndis. Góðvild, sannleikur og friður munu einkenna dagleg samskipti fólks hvert við annað og átök, beiskja og undirferli hverfa. (Sálmur 85:11, 12) Þegar öll áhrif syndarinnar verða þurrkuð út mun það veita mönnum mikla gleði að standast fullkomlega mælikvarða Guðs á réttlæti og njóta ólýsanlegs friðar hið innra með sér!

Þessar stórkostlegu framtíðarhorfur eru mönnum mikil hvatning til að halda baráttunni áram, óháð því hve illbærilegt þunglyndið verður. Í nýrri skipan Guðs munu fullkomnir menn vinna algeran og endanlegan sigur yfir þunglyndinu. Það eru gleðitíðindi!

[Neðanmáls]

a Vaknið! er ekki málsvari meðferðar af einhverju sérstöku tagi, heldur birtir nýjustu upplýsingar um þetta efni í von um að þær geti reynst einhverjum hjálp. Sjá greinina „Attacking Major Depression — Professional Treatments“ í enskri útgáfu blaðsins þann 22. október 1981. Ef um er að ræða venjulegan dapurleika, sem er allt annar hlutur en alvarlegt þunglyndi, þá vísast til greinarinnar „How Can I Get Rid of the Blues?“ í enskri útgáfu blaðsins þann 8. október 1982.

b Sá sem niðurdreginn eða þunglyndur maður gerir að trúnaðarmanni sínum verður bæði að forðast athugasemdir sem gætu hljómað eins og hann sé að fella dóm og einungis aukið sektarkennd hins þunglynda og skort á sjálfsvirðingu, og gæta þess að vera ekki bjartsýnn úr hófi fram. Á bls. 17 hefst grein sem ræðir um hvernig aðrir geta hjálpað þeim sem þunglyndur er.

[Rammi á blaðsíðu 13]

Rangur hugsanagangur

Allt eða ekkert: Menn sjá allt annaðhvort sem svart eða hvítt. Ef þeim tekst ekki að gera eitthvað fullkomlega finnst þeim þeir algerlega misheppnaðir.

Alhæfing: Menn sjá einstakt, neikvætt atvik sem hlekk í óendanlegri mistakakeðju. Eftir að hafa lent í orðasennu við vin hugsa þeir: ‚Ég er að missa alla vini mína. Ekkert gengur mér í hag.‘

Öllu jákvæðu vísað á bug: Menn hafna jákvæðri lífsreynslu með því að fullyrða að hún ‚sé ómark‘ eða telja sér trú um að þeir ‚verðskuldi hana ekki.‘ Eitt neikvætt smáatriði skyggir á allt annað.

Hvatvíslegar ályktanir: Menn draga þá gerræðislegu ályktun að einhverjum geðjist ekki að þeim, og þeir hafa ekki fyrir að sannreyna það, eða eru algerlega sannfærðir um að allt fari alltaf á versta veg.

Ýkjur og öfgar: Menn ýkja fyrir sér mikilvægi ýmissa atriða, svo sem eigin mistaka eða afreka annarra, eða gera lítið úr þeim, til dæmis kostum sjálfs sín eða ófullkomleika annarra. Menn gera martröð úr algengu, neikvæðu atviki.

Óeðlileg sektarkennd: Menn líta á sjálfa sig sem orsök ýmissa neikvæðra atvika sem þeir báru alls ekki alla ábyrgð á.

Byggt á bókinni Feeling Good — The New Mood Therapy eftir David D. Burnes, dr. med.

[Mynd á blaðsíðu 12]

Það getur verið bæði lækning og léttir að segja skilningsríkum vini opinskátt frá tilfinningum sínum.

[Mynd á blaðsíðu 15]

Guð álítur jafnvel litla spörfugla verðmæta, hvað þá okkur.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila