Varist góðvild sem ekki á rétt á sér
1 Fólk Jehóva er þekkt fyrir kærleika og örlæti. Slíkt hugarþel birtist oft á efnislegan hátt þegar við líkjum eftir miskunnsama Samverjanum sem Jesús talaði um í hinni áhrifaríku dæmisögu sinni. (Lúk. 10:29-37) Sumir sem ekki eru verðir þess að fá efnislega aðstoð kunna þó að reyna að notfæra sér góðvild okkar. Kærleikur okkar til annarra verður þess vegna að vera samfara „þekkingu og allri dómgreind.“ — Fil. 1:9.
2 Innan safnaðarins: Einhver gæti til dæmis sagt að hann sé atvinnulaus eða gefið aðrar ástæður fyrir því að biðja um aðstoð. Stundum eru slíkir einstaklingar ekki raunverulega að leita sér að vinnu heldur vilja einfaldlega að aðrir framfleyti þeim. Varðandi slíka menn gaf Páll postuli þessi fyrirmæli: „Ef einhver vill ekki vinna, þá á hann heldur ekki mat að fá.“ — 2. Þess. 3:10.
3 „Tími og tilviljun“ mætir okkur öllum og ef okkur því vantar efnislegar nauðþurftir, skortir „í dag vort daglegt brauð,“ ættum við ekki að vera um of áhyggjufull af því að Jehóva sér um þá sem elska hann og gera vilja hans. (Préd. 9:11; Matt. 6:11, 31, 32) Gagnlegt getur verið fyrir þann sem líður skort að tala við einn öldunganna. Öldungunum er ef til vill kunnugt um ráðstafanir stjórnvalda sem gerðar eru til að veita aðstoð og þeir gætu verið í aðstöðu til að hjálpa hinum þurfandi að fylla út umsóknareyðublöð eða skilja hver séu skilyrðin fyrir slíkri aðstoð. Hvað sem öðru líður geta öldungarnir metið kringumstæður hvers og eins sem biður um aðstoð og ákveðið hvað hægt sé að gera. — Samanber 1. Tímóteusarbréf 5:3-16.
4 Menn sem ferðast undir fölsku flaggi: Fregnir halda áfram að berast til Félagsins um að menn, sem ferðast undir fölsku flaggi, hafi með svikum haft bæði fé og vörur út úr sumum í söfnuðunum. Það ætti ekki að koma okkur á óvart vegna þess að Ritningin varar við því að „vondir menn og svikarar munu magnast í vonskunni, villandi aðra og villuráfandi sjálfir.“ (2. Tím. 3:13) Oft segjast þessir svikarar vera strandaglópar og þarfnast peninga fyrir fargjöldum og fæði til að komast aftur heim. Þó að þeir virðist einlægir eru þeir í flestum tilfellum alls ekki vottar Jehóva heldur þykjast aðeins vera það.
5 Ef ókunnugur maður biður um aðstoð er skynsamlegt að ráðfæra sig við einhvern af safnaðaröldungunum sem getur tekið frumkvæðið í því að ákveða hvort þessi einstaklingur sé bróðir okkar eða ekki. Yfirleitt ætti að hringja í einn af öldungunum í heimasöfnuði þessa manns til þess að staðfesta megi hvernig staða hans er. Ósviknir bræður og systur, sem þurfa óvænt á aðstoð að halda, munu skilja að slík eftirgrennslun er gerð til verndar öllum sem hlut eiga að máli. Á hinn bóginn mun þess konar athugun koma upp um svikara. Það er engin ástæða til að vera óeðlilega tortrygginn gagnvart öllum sem við þekkjum ekki, en við verðum að vera á varðbergi gagnvart svikurum.
6 Hinn vitri konungur Salómon ráðlagði: „Synja eigi góðs þeim, er þarfnast þess, ef það er á þínu valdi að gjöra það.“ (Orðskv. 3:27) Ef við notum dómgreind okkar skynsamlega getum við haldið áfram að vera miskunnsöm en jafnframt forðast að sýna góðvild sem ekki á rétt á sér.