Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • Ritningarstaðir lesnir með réttum áherslum
    Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
    • Námskafli 21

      Ritningarstaðir lesnir með réttum áherslum

      Hvað þarftu að gera?

      Leggðu áherslu á þau orð og orðasambönd sem styrkja rökfærsluna. Lestu með viðeigandi tilfinningu.

      Hvers vegna er það mikilvægt?

      Kjarni þeirra ritningarstaða, sem lesnir eru, sker sig úr ef áherslur eru réttar.

      ÞEGAR þú talar við fólk um tilgang Guðs, annaðhvort einslega eða af ræðupallinum, ætti Biblían að vera kjarninn í umræðunni. Til þess þarf að jafnaði að lesa ritningartexta upp úr Biblíunni, og það ætti að lesa þá vel.

      Réttar áherslur byggjast á tilfinningu. Ritningartexta ætti að lesa með tilfinningu. Lítum á nokkur dæmi. Þegar þú lest Sálm 37:11 ætti raddblærinn að enduróma tilhlökkun eftir gæfunni sem er lofað þar. Þegar þú lest um endalok þjáninga og dauða í Opinberunarbókinni 21:4 ætti tónninn að lýsa innilegu þakklæti fyrir þá lausn sem boðuð er. Í Opinberunarbókinni 18:2, 4, 5 er sterk hvatning til að ganga út úr ‚Babýlon hinni miklu‘ sem er syndum hlaðin. Þessi vers þarf að lesa með vissum ákafa. En tilfinningin verður auðvitað að vera einlæg og má ekki vera ýkt. Tilfinningastyrkurinn ræðst af textanum sjálfum og tilganginum með því að lesa hann.

      Leggðu áherslu á réttu orðin. Ef þú ert aðeins að fjalla um ákveðinn hluta af versi ættirðu að draga hann fram þegar þú lest textann. Segjum að þú sért að lesa Matteus 6:33 og ætlir að skýra út hvað sé fólgið í því að ‚leita fyrst ríkis hans.‘ Þá myndirðu ekki leggja aðaláhersluna á ‚réttlæti‘ eða „allt þetta.“

      Setjum sem svo að þú ætlir að lesa Matteus 28:19 á þjónustusamkomu. Á hvaða orð áttu að leggja áherslu? Ef þú ætlar að hvetja áheyrendur til að vera duglegir að hefja ný biblíunámskeið myndi orðið ‚lærisveinar‘ fá áhersluna. Sértu hins vegar að fjalla um þá ábyrgð kristins manns að koma sannleika Biblíunnar á framfæri við innflytjendur eða ef þú ætlar að hvetja suma boðbera til að þjóna þar sem þörfin er meiri, þá gætirðu lagt áherslu á orðin „allar þjóðir.“

      Oft lesum við vers til að svara spurningu eða styðja röksemd í máli þar sem skoðanir manna eru skiptar. Ef öll atriði textans fá jafna áherslu er óvíst að áheyrendur átti sig á tengslunum. Þau blasa kannski við þér en þeir sjá þau ekki.

      Segjum að þú sért að lesa Sálm 83:19 í biblíu þar sem nafn Guðs stendur og leggir aðaláherslu á orðin „Hinn hæsti.“ Þá er óvíst að viðmælandinn átti sig á þeirri staðreynd, sem virðist þó augljós, að Guð heitir ákveðnu nafni. Þú ættir að leggja áherslu á nafnið „Jehóva.“ En ef þú notar þetta sama vers í umræðu um drottinvald Jehóva ættirðu að leggja aðaláherslu á orðin „Hinn hæsti.“ Hið sama er að segja um Jakobsbréfið 2:24. Ef þú notar það til að benda á að trúin þurfi að birtast í verki en leggur ekki áherslu á orðið „verkum“ heldur „réttlætist,“ þá er ekki víst að viðmælandinn eða áheyrendur átti sig á hvert aðalatriðið er.

      Annað gott dæmi er að finna í Rómverjabréfinu 15:7-13. Páll postuli skrifaði þetta bréf til safnaðar þar sem var bæði fólk af heiðnum uppruna og gyðinglegum. Hér færir postulinn rök fyrir því að þjónusta Krists gagnist ekki aðeins umskornum Gyðingum heldur einnig fólki af heiðnum uppruna, þannig að „heiðingjarnir vegsami Guð sakir miskunnar hans.“ Síðan vitnar Páll í fjóra ritningarstaði og vekur athygli á að þetta tækifæri standi þjóðunum til boða. Hvernig áttu að lesa þessar tilvitnanir Páls til að leggja áherslu á það sem hann hafði í huga? Ef þú ættir að merkja við áhersluorðin gætirðu merkt við „heiðingjarnir“ í níunda versinu, „þér heiðingjar“ í því tíunda, „allar þjóðir“ og „allir lýðir“ í því ellefta og „þjóðum“ og „þjóðir“ í því tólfta. Reyndu nú að lesa Rómverjabréfið 15:7-13 með áherslu á þessi orð. Þannig verður rökfærsla Páls skýr og auðskilin.

      Áhersluaðferðir. Beita má mismunandi aðferðum til að leggja áherslu á þau orð sem fela í sér hugsunina og þú vilt að skeri sig úr. Sú aðferð, sem þú beitir, þarf auðvitað að hæfa ritningarorðunum og umgjörð ræðunnar. Hér koma nokkrar uppástungur.

      Áhersla með raddbeitingu. Hér er átt við öll raddbrigði sem notuð eru til að láta aðalorðin skera sig úr setningunni í heild. Hægt er ná fram áherslu með því að breyta raddstyrk — annaðhvort með því að hækka róminn eða lækka. Í mörgum tungumálum má ná fram áherslu með því að breyta tónhæð. Í sumum tungumálum getur það hins vegar gerbreytt merkingunni. Hægt er að leggja áherslu á lykilorð með því að hægja á lestrinum. Sum tungumál bjóða ekki upp á raddbeitingu til að leggja áherslu á viss orð og þá þarf að nota aðrar aðferðir, sem málið býður upp á, til að ná tilætluðum árangri.

      Málhlé. Þau má gera á undan eða eftir aðalatriðinu í ritningarstað eða hvort tveggja. Hlé á undan mikilvægu efni vekur eftirvæntingu en hlé á eftir eykur áhrifin. Hléin mega samt ekki vera of mörg því að þá mun ekkert skera sig úr.

      Endurtekning. Þú getur lagt áherslu á ákveðið atriði með því að stöðva lesturinn og lesa orðið eða orðasambandið aftur. Oft er þó æskilegra að ljúka við að lesa textann og endurtaka síðan lykilorðið eða orðin.

      Tilburðir. Oft er hægt að leggja áherslu á orð eða orðasamband eða lýsa tilfinningu með líkamstjáningu og svipbrigðum.

      Raddblær. Í sumum tungumálum er hægt að hafa áhrif á merkingu orða og láta þau skera sig úr með ákveðnum raddblæ. En hér þarf einnig að sýna aðgát, sérstaklega í sambandi við kaldhæðni.

      Þegar aðrir lesa ritningartexta. Þegar húsráðandi les upp ritningartexta má vera að hann leggi áherslu á röng orð, ef nokkur. Hvað er þá til ráða? Oftast er best að þú dragir merkinguna fram sjálfur með því að skýra textann. Eftir að hafa skýrt hann geturðu bent húsráðanda sérstaklega á þau orð í Biblíunni sem bera uppi merkinguna.

      HVERNIG GETURÐU LÆRT AÐ LESA MEÐ ÁHERSLUM?

      • Spyrðu þig í sambandi við alla ritningarstaði sem þú ætlar að lesa: ‚Hvaða tilfinningu túlka þessi orð? Hvernig ætti ég að koma henni til skila?‘

      • Brjóttu til mergjar þá ritningarstaði sem þú ætlar að nota. Spyrðu um hvern þeirra: ‚Hvaða markmiði þjónar þessi texti? Hvaða orð þarf að leggja áherslu á til að ná þessu markmiði?‘

      ÆFINGAR: (1) Skoðaðu vandlega ritningarstað sem þú ætlar að nota í boðunarstarfinu. Æfðu þig í að lesa hann með viðeigandi tilfinningu. Hafðu í huga hvernig þú ætlar að nota textann og lestu hann síðan með áherslu á réttu orðin. (2) Veldu eina tölugrein í námsriti sem verið er að nota þar sem vitnað er í ritningarstaði. Glöggvaðu þig á því hvers vegna vitnað er í þá. Merktu við þau orð sem fela í sér aðalhugsunina. Lestu alla efnisgreinina upphátt þannig að ritningarorðin fái rétta áherslu.

  • Ritningarstaðir rétt heimfærðir
    Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
    • Námskafli 22

      Ritningarstaðir rétt heimfærðir

      Hvað þarftu að gera?

      Gættu þess alltaf að skýra og heimfæra ritningarstaði eftir samhengi og í samræmi við heildarefni Biblíunnar. Skýringin ætti einnig að samræmast því sem hinn „trúi og hyggni þjónn“ hefur birt á prenti.

      Hvers vegna er það mikilvægt?

      Það er alvarlegt mál að fræða aðra um orð Guðs. Hann vill að fólk „komist til þekkingar á sannleikanum.“ (1. Tím. 2:3, 4) Það leggur okkur þá ábyrgð á herðar að fara rétt með orð Guðs þegar við kennum.

      AÐ KENNA öðrum er annað og meira en að lesa eitt og eitt vers upp úr Biblíunni. Páll postuli skrifaði Tímóteusi, félaga sínum: „Legg kapp á að reynast hæfur fyrir Guði sem verkamaður, er ekki þarf að skammast sín og fer rétt með orð sannleikans.“ — 2. Tím. 2:15.

      Til að gera þetta þurfum við að gæta þess að skýra ritningargreinar í samræmi við það sem Biblían kennir. Það merkir að taka tillit til samhengisins en velja ekki aðeins ritningarorð sem höfða til sjálfra okkar og prjóna svo eigin skoðunum við þau. Fyrir munn Jeremía varaði Jehóva við spámönnum sem þóttust flytja orð hans en boðuðu í rauninni ‚vitranir sem þeir höfðu sjálfir spunnið upp.‘ (Jer. 23:16) Páll postuli varaði kristna menn við því að menga orð Guðs með heimspeki manna. Hann skrifaði: „Vér höfnum allri skammarlegri launung, vér framgöngum ekki með fláttskap né fölsum Guðs orð.“ Óheiðarlegir vínkaupmenn forðum daga áttu það til að þynna vín með vatni til að drýgja það og auka tekjur sínar. Við fölsum ekki orð Guðs með því að blanda heimspeki manna saman við það. „Ekki erum vér eins og hinir mörgu, er pranga með Guðs orð,“ skrifaði Páll, „heldur flytjum vér það af hreinum huga frá Guði frammi fyrir augliti Guðs, með því að vér erum í Kristi.“ — 2. Kor. 2:17; 4:2.

      Segjum að þú vitnir í ritningarstað til að draga fram ákveðna meginreglu. Biblían er uppfull af meginreglum sem eru góður leiðarvísir við alls konar aðstæður. (2. Tím. 3:16, 17) En þú þarft að fullvissa þig um að þú skýrir og heimfærir ritningarstaðinn rétt en misnotir hann ekki með því að láta virðast sem hann segi það sem þig langar til að hann segi. (Sálm. 91:11, 12; Matt. 4:5, 6) Heimfærslan þarf að vera í samræmi við ásetning Jehóva og orð hans í heild.

      Til að ‚fara rétt með orð sannleikans‘ þurfum við einnig að skilja andann í orðum Biblíunnar. Við megum ekki nota hana eins og „barefli“ til að ógna öðrum. Trúarkennararnir, sem börðust gegn Jesú Kristi, vitnuðu í Ritninguna en lokuðu augunum fyrir því sem skipti miklu meira máli og Guð krefst, það er að segja réttlæti, miskunn og trúfesti. (Matt. 22:23, 24; 23:23, 24) Jesús endurspeglaði persónuleika föður síns er hann fræddi fólk um orð hans. Brennandi sannleiksást hans hélst í hendur við sterkan kærleika til þeirra sem hann kenndi. Við ættum að leggja okkur fram um að líkja eftir honum. — Matt. 11:28.

      Hvernig getum við verið viss um að við skýrum ritningarorð rétt? Þar kemur reglulegur biblíulestur að gagni. Við þurfum einnig að hafa hugfast að Jehóva hefur skipað ‚trúan og hygginn þjón‘ til að gefa öllum trúum þjónum sínum andlega fæðu, og það eru andasmurðir kristnir menn sem mynda þennan þjón. (Matt. 24:45) Með einkanámi og með því að sækja safnaðarsamkomur reglulega og taka þátt í þeim getum við notið góðs af þeirri fræðslu sem hinn trúi og hyggni þjónshópur lætur í té.

      Ef þú getur notfært þér bókina Reasoning From the Scriptures (Rökræðubókina) og lærir vel á hana hefurðu handbærar leiðbeiningar um það hvernig þú getir skýrt hundruð ritningarstaða sem oft eru notaðir í boðunarstarfinu. Ef þú hefur hugsað þér að nota ritningarstað, sem er þér framandi, ættirðu að vera nógu hógvær til að kynna þér hann vel þannig að þú farir örugglega rétt með orð sannleikans þegar þú talar. — Orðskv. 11:2.

      Skýrðu ritningarstaðinn vel. Þegar þú kennir þarftu að fullvissa þig um að tengslin milli viðfangsefnisins og ritningarstaðarins, sem þú notar, séu ljós. Ef þú kynnir hann með spurningu ættu áheyrendur að átta sig á því hvernig hann svarar henni. Ef þú notar ritningarstaðinn til að styðja einhverja staðhæfingu þarftu að fullvissa þig um að nemandinn skilji sönnunargildi ritningartextans.

      Að öllu jöfnu er ekki nóg að lesa aðeins ritningargreinina, jafnvel þó að það sé með áherslum. Mundu að flestir eru illa heima í Biblíunni og átta sig sennilega ekki á rökum þínum þó að þeir heyri ritningarstað lesinn einu sinni. Þú þarft að vekja athygli á þeim hluta textans sem snýr beint að umræðuefninu.

      Yfirleitt þarf að benda á lykilorð ritningarstaðarins, þau orð sem tengjast umræðuefninu beint. Einfaldasta aðferðin er sú að endurtaka þau orð sem bera hugsunina uppi. Sértu að tala við eina manneskju gætirðu borið fram spurningu til að auðvelda henni að koma auga á lykilorðin. Þegar um hóp er að ræða velja sumir mælendur að nota samheiti eða endurtaka hugmyndina. En ef þú ákveður að gera það skaltu gæta þess að áheyrendur missi ekki sjónar á tengslunum milli umræðuefnisins og orðalagsins í versinu.

      Þú ert búinn að leggja góðan grundvöll þegar þú hefur einangrað lykilorðin. Nú þarftu að byggja ofan á. Kom greinilega fram í formála að ritningarstaðnum hvers vegna þú last hann? Þá skaltu benda á hvernig orðin, sem þú lagðir áherslu á, tengjast því sem þú nefndir í formálanum. Segðu skilmerkilega hver tengslin eru. Og jafnvel þó að þú hafir ekki svona ítarlegan formála að textanum ættirðu að láta einhverja skýringu fylgja lestrinum.

      Farísearnir spurðu Jesú erfiðrar spurningar, að þeir héldu: „Leyfist manni að skilja við konu sína fyrir hvaða sök sem er?“ Jesús byggði svarið á 1. Mósebók 2:24. Hann beindi athyglinni aðeins að einum hluta versins og heimfærði hann síðan. Eftir að hafa bent á að maðurinn og kona hans hafi orðið „einn maður“ sagði hann: „Það sem Guð hefur tengt saman, má maður eigi sundur skilja.“ — Matt. 19:3-6.

      Hve ítarlega ættirðu að skýra hvers vegna þú lest ákveðinn ritningarstað? Það ræðst af áheyrendum og því efni sem til umræðu er. En hafðu alltaf sem markmið að hafa skýringarnar einfaldar, skýrar og gagnorðar.

      Rökræddu út af Ritningunni. Postulasagan 17:2, 3 segir að Páll hafi ‚lagt út af ritningunum‘ þegar hann starfaði í Þessaloníku. Allir þjónar Jehóva ættu að þjálfa sig í þessu. Páll sagði til dæmis frá ýmsu úr ævi og þjónustu Jesú, benti á að því hefði verið spáð í Hebresku ritningunum og kom síðan með skýra niðurstöðu: „Jesús, sem ég boða yður, hann er Kristur.“

      Páll vitnaði margsinnis í Hebresku ritningarnar þegar hann skrifaði Hebreabréfið. Oft dró hann fram eitt orð eða stutt orðasamband til að leggja áherslu á eitthvað eða skýra það og benti síðan á hvað það þýddi. (Hebr. 12:26, 27) Í 3. kafla Hebreabréfsins vitnar hann í Sálm 95:7-11. Sjáðu hvernig hann vinnur síðan úr þrem atriðum í sálminum: (1) skírskotun til hjartans, (2) merkingu orðasambandsins „í dag“ (Hebr. 3:7, 13-15; 4:6-11) og (3) merkingu orðanna: „Eigi skulu þeir inn ganga til hvíldar minnar“ (Hebr. 3:11, 18, 19; 4:1-11). Reyndu að líkja eftir Páli þegar þú skýrir og heimfærir ritningarstað.

      Taktu eftir hvernig Jesús rökræddi út frá Ritningunni eins og lýst er í Lúkasi 10:25-37 og hversu áhrifaríkt það var. Lögfróður maður spurði hann: „Meistari, hvað á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?“ Jesús bað manninn þá að segja sér hvernig hann liti sjálfur á málið og benti síðan á að það skipti mestu máli að gera eins og orð Guðs segir. Þegar ljóst var að maðurinn skildi ekki kjarna málsins tók Jesús fyrir aðeins eitt ritningarorð — „náungi“ — og ræddi um það í löngu máli. En í stað þess að skilgreina merkingu orðsins sagði hann dæmisögu til að maðurinn gæti sjálfur dregið rétta ályktun.

      Ljóst er að Jesús vitnaði ekki aðeins í ritningartexta sem gáfu bein og augljós svör við spurningum heldur braut hann til mergjar það sem stóð í textanum og heimfærði það upp á spurninguna sem fyrir lá.

      Saddúkear komu einhverju sinni að máli við Jesú og véfengdu upprisuvonina. Hann vakti þá athygli þeirra á einu ákveðnu atriði í 2. Mósebók 3:6. En hann lét sér ekki nægja að vitna í versið heldur rökræddi út frá því og sýndi greinilega fram á að upprisan væri þáttur í ásetningi Guðs. — Mark. 12:24-27.

      Til að vera góður kennari er nauðsynlegt að fara rétt með orð Ritningarinnar og kunna að rökræða út frá þeim. Leggðu þig fram um að ná góðum tökum á því.

      AÐ NÁ TÖKUM Á TÆKNINNI

      • Lestu reglulega í Biblíunni. Þaullestu Varðturninn og búðu þig vel undir safnaðarsamkomur.

      • Fullvissaðu þig um að þú skiljir öll orðin í þeim ritningarstöðum sem þú ætlar að nota. Lestu þá vel þannig að þú skiljir textann rétt.

      • Vendu þig á að leita upplýsinga í biblíutengdum ritum.

      ÆFING: Veltu fyrir þér merkingu 2. Pétursbréfs 3:7. Sannar versið að jörðin eigi eftir að eyðast í eldi? (Þegar þú skilgreinir hvað ‚jörðin‘ er þarftu einnig að glöggva þig á því hvað orðið „himnar“ merkir. Hvaða ritningarstaðir sýna að orðið ‚jörð‘ getur haft táknræna merkingu? Hver eða hvað á raunverulega að tortímast samkvæmt 7. versinu? Hvernig kemur það heim og saman við atburði á dögum Nóa sem nefndir eru í 5. og 6. versi?)

  • Hagnýtt gildi dregið fram
    Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
    • Námskafli 23

      Hagnýtt gildi dregið fram

      Hvað þarftu að gera?

      Sýndu áheyrendum fram á að efnið snerti þá eða að þeir geti notað það sér að gagni.

      Hvers vegna er það mikilvægt?

      Ef fólk kemur ekki auga á hagnýtt gildi þess sem þú hefur fram að færa má búast við að það segist ekki hafa áhuga eða hætti að hlusta á þig og leyfi huganum að reika.

      ÞÓ AÐ þú hafir áhuga á ákveðnu viðfangsefni ættirðu ekki að ganga að því sem gefnum hlut að áheyrendur hafi það líka, og gildir þá einu hvort þeir eru einn eða fleiri. Þú hefur mikilvægt efni fram að færa, en takist þér ekki að sýna fram á notagildi þess er ósennilegt að þér takist að halda áhuga annarra vakandi nema um stund.

      Þetta getur jafnvel gerst í ríkissalnum. Áheyrendur sperra eyrun þegar þú bregður upp líkingu eða frásögu sem þeir hafa ekki heyrt áður, en athyglin getur dvínað þegar þú talar um efni sem þeir þekkja, einkum ef þú eykur ekki við það. Þú verður að sýna þeim fram á að þeir hafi gagn af því sem þú ert að segja og hvaða gagn þetta er.

      Biblían hvetur okkur til að vera raunsæ, skynsöm, hagsýn og hyggin — að sýna visku. (Orðskv. 3:21) Jehóva lét Jóhannes skírara beina fólki til „hugarfars [„hygginda,“ NW] réttlátra.“ (Lúk. 1:17) Þessi hyggindi og viska byggjast á heilnæmum guðsótta og hjálpa þeim sem kunna að meta hana að takast farsællega á við lífið eins og það er núna og að höndla hið sanna og eilífa líf sem er framundan. — Sálm. 111:10; 1. Tím. 4:8; 6:19.

      Að gefa ræðunni hagnýtt gildi. Þú þarft bæði að hugleiða efnið vel og velta fyrir þér áheyrendahópnum til að ræðan hafi hagnýtt gildi. Áheyrendur eru ekki bara hópur fólks heldur fjölskyldur og einstaklingar. Þar geta verið lítil börn, unglingar og fullorðnir á öllum aldri. Kannski er meðal viðstaddra fólk sem hefur nýlega sýnt áhuga og eins fólk sem byrjaði að þjóna Jehóva löngu áður en þú fæddist. Sumir eru andlega þroskaðir en aðrir eru kannski enn undir sterkum áhrifum vissra viðhorfa og háttsemi heimsins. Spyrðu þig: ‚Hvernig gæti efnið, sem ég ætla að fjalla um, komið áheyrendum að gagni? Hvernig get ég komið þeim í skilning um þetta?‘ Kannski ákveður þú að beina orðum þínum aðallega til eins eða tveggja af þeim hópum sem hér eru nefndir. En gleymdu samt ekki hinum.

      Setjum sem svo að þér sé falið að fjalla um ákveðna undirstöðukenningu Biblíunnar. Hvernig geturðu fjallað um efnið þannig að áheyrendur, sem trúa þessari kenningu hvort eð er, hafi gagn af ræðunni? Þú gætir reynt að styrkja sannfæringu þeirra. Hvernig? Með því að rökræða út frá þeim ritningarstöðum sem styðja kenninguna. Þú getur líka aukið virðingu þeirra fyrir þessari biblíukenningu, til dæmis með því að sýna fram á hvernig hún samræmist öðrum biblíusannindum og persónuleika Jehóva. Notaðu dæmi — helst raunsannar frásögur — sem sýna hvaða gagn fólk hefur haft af því að skilja þessa ákveðnu kenningu og hvaða áhrif hún hefur haft á framtíðarsýn þess.

      Einskorðaðu þig ekki við örfá orð í niðurlagi ræðunnar þegar þú bendir á hagnýtt gildi efnisins. Frá því að þú segir fyrsta orðið ættu allir í salnum að finna að efnið snertir þá persónulega. Eftir að þú hefur lagt þennan grunn skaltu halda áfram að benda á notagildi efnisins, bæði þegar þú vinnur úr hverju aðalatriði ræðunnar og eins í niðurlagsorðunum.

      Þegar þú bendir á hið hagnýta gildi þarftu að gera það í samræmi við meginreglur Biblíunnar. Hvað er átt við með því? Það merkir að gera það á kærleiksríkan hátt og setja þig í spor annarra. (1. Pét. 3:8; 1. Jóh. 4:8) Páll postuli þurfti að taka á ýmsum erfiðum vandamálum í Þessaloníku en gerði sér alltaf far um að benda á hið jákvæða, á andlegar framfarir kristinna bræðra sinna og systra. Hann lét jafnframt í ljós að hann treysti því að þau vildu gera rétt í því máli sem hann tók fyrir. (1. Þess. 4:1-12) Þetta er gott fordæmi til eftirbreytni.

      Er markmið ræðunnar að hvetja áheyrendur til að boða fagnaðarerindið og kenna öðrum? Vektu þá áhuga á þessum sérréttindum og virðingu fyrir þeim. En hafðu samt hugfast að það er misjafnt eftir aðstæðum hve mikinn þátt fólk getur tekið í þessu starfi, og Biblían tekur tillit til þess. (Matt. 13:23) Íþyngdu ekki trúsystkinum þínum með sektarkennd. Hebreabréfið 10:24 bendir okkur á að ‚hvetja hvert annað til kærleika og góðra verka.‘ Ef við hvetjum til kærleika fylgja góðu verkin í kjölfarið. Jehóva vill að við vekjum „hlýðni við trúna“ svo að þú ættir ekki að ætlast til þess að allir séu eins. (Rómv. 16:26) Þess vegna leggjum við okkur fram um að styrkja trúna — bæði okkar eigin og trúsystkina okkar.

      Hjálpaðu öðrum að átta sig á gildi efnisins. Þegar þú vitnar fyrir öðrum máttu ekki gleyma að halda hagnýtu gildi fagnaðarerindisins á loft. Til að gera það þarftu að íhuga hvað er fólki á starfssvæðinu ofarlega í huga. Þú getur hlustað á útvarps- og sjónvarpsfréttir til að glöggva þig á því. Renndu yfir forsíður dagblaða. Reyndu líka að draga fólk inn í samræður og hlustaðu þegar það talar. Kannski kemstu að raun um að það er að berjast við aðkallandi vandamál — atvinnuleysi, húsaleigu, veikindi, ástvinamissi, hættu á afbrotum, ranglæti af hendi ráðamanna, hjónaskilnað, barnauppeldi og svo mætti lengi telja. Getur Biblían hjálpað fólki? Já, vissulega.

      Sennilega ertu með ákveðið umræðuefni í huga þegar þú hefur samtal. En ef viðmælandi þinn gefur til kynna að eitthvað annað liggi honum á hjarta skaltu ekki hika við að snúa þér að því ef þú getur, eða að bjóðast til að koma aftur með gagnlegar upplýsingar. Við forðumst auðvitað að ‚gefa okkur að því sem okkur kemur ekki við‘ en segjum öðrum fúslega frá góðum ráðleggingum Biblíunnar. (2. Þess. 3:11) Biblíuráð, sem snerta fólk beinlínis, hafa auðvitað sterkust áhrif á það.

      Ef fólk áttar sig ekki á því að boðskapur okkar eigi erindi til sín er það líklega fljótt til að slíta samtalinu. Það leyfir okkur kannski að tala en boðskapurinn hefur sáralítil áhrif á það ef okkur tekst ekki að sýna fram á hagnýtt gildi hans. Þegar við sýnum hins vegar fram á hagnýtt gildi boðskaparins getur samtalið markað straumhvörf í lífi þess.

      Þegar þú sérð um biblíunámskeið þarftu einnig að draga fram notagildi efnisins. (Orðskv. 4:7) Hjálpaðu nemandanum að skilja ráðleggingar, meginreglur og frásögur Biblíunnar og kenndu honum að ganga á vegum Jehóva. Bentu honum á hve gagnlegt það sé. (Jes. 48:17, 18) Þannig hjálpar þú nemandanum að gera nauðsynlegar breytingar á lífi sínu. Kenndu honum að elska Jehóva og langa til að þóknast honum og vektu löngun með honum til að fara eftir þeim leiðbeiningum sem orð Guðs gefur.

      GERÐU EFTIRFARANDI

      • Þegar þú semur ræðu þarftu bæði að hugsa um efnið og áheyrendur. Komdu efninu þannig á framfæri að áheyrendur hafi raunverulegt gagn af því.

      • Láttu notagildi efnisins koma fram alls staðar í ræðunni, ekki aðeins í niðurlagsorðunum.

      • Glöggvaðu þig á því hvað er fólki á starfssvæðinu ofarlega í huga og taktu mið af því þegar þú býrð þig undir boðunarstarfið.

      • Hlustaðu vel á viðmælanda þinn í boðunarstarfinu og hagaðu kynningarorðunum eftir því.

      ÆFING: Farðu yfir tiltæk eintök Ríkisþjónustu okkar og veldu eina eða tvær kynningar sem þú telur eiga sérstaklega vel við á starfssvæðinu. Prófaðu þær í boðunarstarfinu.

Íslensk rit (1985-2025)
Útskrá
Innskrá
  • Íslenska
  • Deila
  • Stillingar
  • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
  • Notkunarskilmálar
  • Persónuverndarstefna
  • Persónuverndarstillingar
  • JW.ORG
  • Innskrá
Deila