Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • brw950901 bls. 15-20
  • Kærleikur sigrar óviðeigandi afbrýði

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Kærleikur sigrar óviðeigandi afbrýði
  • Námsgreinar úr Varðturninum
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Afbrýði meðal kristinna manna
  • Í söfnuðinum
  • Innan fjölskyldunnar
  • Dæmi um menn sem höfðu stjórn á afbrýðinni
  • Bestu fordæmin
  • Að ná tökum á afbrýðinni
  • Afbrýði vegna sannrar tilbeiðslu á Jehóva
    Námsgreinar úr Varðturninum
  • Jósef verður fórnarlamb afbrýðisemi
    Líf okkar og boðun - vinnubók fyrir samkomur – 2020
  • Hvernig má forðast afbrýðisemi í hjónabandi?
    Góð ráð handa fjölskyldunni
  • Kærleikur (agape) – það sem hann er og það sem hann er ekki
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1994
Sjá meira
Námsgreinar úr Varðturninum
brw950901 bls. 15-20

Kærleikur sigrar óviðeigandi afbrýði

„Kærleikurinn er ekki afbrýðisamur.“ — 1. KORINTUBRÉF 13:4, NW.

1, 2. (a) Hvað sagði Jesús lærisveinum sínum um kærleika? (b) Er hægt að vera bæði kærleiksríkur og afbrýðisamur og hvers vegna segir þú það?

KÆRLEIKUR er aðalsmerki sannrar kristni. „Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars,“ sagði Jesús Kristur. (Jóhannes 13:35) Páli postula var innblásið að skýra hvernig kærleikur ætti að hafa áhrif á samskipti kristinna manna. Meðal annars sagði hann: „Kærleikurinn er ekki afbrýðisamur.“ — 1. Korintubréf 13:4, NW.

2 Þegar Páll ritaði þessi orð var hann að tala um óviðeigandi afbrýði. Annars hefði hann ekki skrifað sama söfnuði: „Ég vakti yfir yður með afbrýði Guðs.“ (2. Korintubréf 11:2) „Afbrýði Guðs“ vaknaði hjá Páli vegna manna sem höfðu spillandi áhrif á söfnuðinn. Það kom Páli til að skrifa kristnum Korintumönnum annað innblásið bréf með fjölmörgum kærleiksríkum ráðleggingum. — 2. Korintubréf 11:3-5.

Afbrýði meðal kristinna manna

3. Hvernig þróaðist vandamál meðal kristinna manna í Korintu er tengdist afbrýðisemi?

3 Í fyrra bréfinu til Korintumanna þurfti Páll að taka á vandamáli sem kom í veg fyrir að þessum nýkristnu mönnum kæmi saman. Þeir upphófu vissa menn og ‚hrokuðu sér upp einum í vil, öðrum til niðrunar.‘ Það olli sundrung í söfnuðinum þegar einn sagði: „Ég er Páls,“ annar: „Ég er Apollóss“ og sá þriðji: „Ég er Kefasar.“ 1. Korintubréf 1:12; 4:6) Undir handleiðslu heilags anda gat Páll postuli komist fyrir rætur vandans. Korintumenn hegðuðu sér eins og holdlegir menn en ekki ‚andlegir.‘ Páll skrifaði því: „Enn þá eruð þér holdlegir menn. Fyrst metingur og þráttan er á meðal yðar, eruð þér þá eigi holdlegir og hegðið yður á manna hátt?“ — 1. Korintubréf 3:1-3.

4. Hvaða líkingu tók Páll til að hjálpa bræðrum sínum að sjá hver annan í réttu ljósi og hvaða lærdóm getum við dregið af því?

4 Páll hjálpaði Korintumönnum að skilja hvernig líta bæri á gáfur og hæfileika ólíkra einstaklinga í söfnuðinum. Hann spurði: „Hver gefur þér yfirburði? Og hvað hefur þú, sem þú hefur ekki þegið? En hafir þú nú þegið það, hví stærir þú þig þá eins og þú hefðir ekki fengið það að gjöf?“ (1. Korintubréf 4:7) Í 12. kafla 1. Korintubréfs útskýrði Páll að þeir sem tilheyrðu söfnuðinum væru eins og hinir ýmsu limir mannslíkama, svo sem höndin, augað og eyrað. Hann benti á að Guð gerði limi líkamans þannig úr garði til að þeir bæru umhyggju hver fyrir öðrum. Hann skrifaði einnig: „[Sé] einn limur . . . í hávegum hafður, samgleðjast allir limirnir honum.“ (1. Korintubréf 12:26) Allir þjónar Guðs nú á dögum ættu að fara eftir þessari meginreglu í samskiptum sínum hver við annan. Í stað þess að öfunda annan mann af verkefni hans eða afrekum í þjónustu Guðs ættum við að samgleðjast honum.

5. Hvað kemur fram í Jakobsbréfinu 4:5 og hvernig leggur Ritningin áherslu á sannleiksgildi þessara orða?

5 Óneitanlega er þetta hægara sagt en gert. Biblíuritarinn Jakob minnir okkur á að ‚öfundartilhneiging‘ búi í öllum syndugum mönnum. (Jakobsbréfið 4:5, NW) Fyrsti mannsdauðinn átti sér stað af því að Kain lét óviðeigandi afbrýði ná tökum á sér. Filistar ofsóttu Ísak af því að þeir öfunduðu hann af vaxandi velmegun hans. Rakel var afbrýðisöm út í systur sína vegna barneigna hennar. Synir Jakobs voru afbrýðisamir vegna þess að yngri bróðir þeirra, Jósef, var í sérstöku uppáhaldi. Mirjam var greinilega afbrýðisöm út í mágkonu sína sem var af erlendu bergi brotin. Það var öfund sem kom Kóra, Datan og Abíram til að gera samsæri gegn Móse og Aroni. Sál konungur varð afbrýðisamur út í Davíð vegna góðs gengis hans í hernaði. Vafalaust átti afbrýðisemi einnig þátt í því að lærisveinar Jesú þráttuðu oft um það hver þeirra væri mestur. Sannleikurinn er sá að enginn ófullkominn maður er algerlega laus við ‚öfundartilhneiginguna.‘ — 1. Mósebók 4:4-8; 26:14; 30:1; 37:11; 4. Mósebók 12:1, 2; 16:1-3; Sálmur 106:16; 1. Samúelsbók 18:7-9; Matteus 20:21, 24; Markús 9:33, 34; Lúkas 22:24.

Í söfnuðinum

6. Hvernig geta öldungarnir haft hemil á öfundartilhneigingunni?

6 Allir kristnir menn verða að vera á varðbergi gagnvart öfund og óviðeigandi afbrýði, einnig öldungaráðin sem skipuð eru til að annast söfnuði fólks Guðs. Ef öldungur er lítillátur reynir hann ekki í metnaði sínum að skara fram úr öðrum. En ef tiltekinn öldungur hefur aftur á móti framúrskarandi skipulagshæfileika eða er afbragðsræðumaður, þá gleðjast hinir yfir því og líta á það sem blessun handa söfnuðinum. (Rómverjabréfið 12:15, 16) Bróðir nokkur tekur kannski góðum framförum og ber þess merki að hann sé að þroska ávexti anda Guðs í fari sínu. Þegar svo öldungarnir íhuga hæfni hans ættu þeir að gæta þess að gera ekki mikið úr minni háttar göllum til að réttlæta það að mæla ekki með honum sem safnaðarþjóni eða öldungi. Það bæri vott um kærleiksskort og ósanngirni.

7. Hvaða vandamál getur gert vart við sig þegar kristinn maður fær eitthvert guðræðislegt verkefni?

7 Hljóti einhver guðræðislegt verkefni eða andlega blessun ættu aðrir í söfnuðinum að varast að öfunda hann. Segjum sem svo að tiltekin hæf systir sé kannski notuð oftar en aðrar til að fara með sýnikennslu á kristnum samkomum. Það gæti vakið upp afbrýði hjá sumum systrum. Sams konar ósamlyndi kann að hafa verið milli Evodíu og Sýntýke í söfnuðinum í Filippí. Konur, sem eru í slíkri aðstöðu, þurfa kannski að fá vingjarnlega hvatningu frá öldungunum um að vera auðmjúkar og „samlyndar vegna Drottins.“ — Filippíbréfið 2:2, 3; 4:2, 3.

8. Til hvaða synda getur afbrýðisemi leitt?

8 Kristinn maður veit kannski af mistökum einhvers áður fyrr sem núna hefur ýmis sérréttindi í söfnuðinum. (Jakobsbréfið 3:2) Sé hann afbrýðisamur gæti hann freistast til að tala við aðra um þau og véfengja að það sé réttmætt að viðkomandi hafi þetta verkefni með höndum í söfnuðinum. Það gengi í berhögg við kærleikann sem „hylur fjölda synda.“ (1. Pétursbréf 4:8) Afbrýðistal getur raskað friði safnaðarins. „Ef þér hafið beiskan ofsa [„afbrýði,“ NW] og eigingirni í hjarta yðar,“ segir lærisveinninn Jakob í viðvörunartón, „þá stærið yður ekki og ljúgið ekki gegn sannleikanum. Sú speki kemur ekki að ofan, heldur er hún jarðnesk, andlaus, djöfulleg.“ — Jakobsbréfið 3:14, 15.

Innan fjölskyldunnar

9. Hvernig geta hjón haft hemil á afbrýðiskennd?

9 Mörg hjónabönd bresta vegna óviðeigandi afbrýðisemi. Það er ekki kærleiksríkt að treysta ekki maka sínum. (1. Korintubréf 13:7) Hins vegar getur líka annað hjónanna verið tilfinningalaust gagnvart afbrýðiskennd maka síns. Eiginkona gæti til dæmis verið afbrýðisöm vegna umhyggju sem maðurinn hennar sýnir annarri konu. Eiginmaður gæti orðið afbrýðisamur vegna þess að konan hans eyðir miklum tíma í að annast ættingja sem er hjálparþurfi. Þau fyrirverða sig fyrir slíkar tilfinningar og eru þá kannski þegjandaleg og gera svo illt verra með því hvernig þau láta gremju sína í ljós. Í stað þess að koma þannig fram þarf afbrýðisamur maki að tjá sig og vera hreinskilinn um tilfinningar sínar. Hitt hjónanna þarf að vera skilningsríkt og fullvissa maka sinn um ást sína. (Efesusbréfið 5:28, 29) Bæði hjónin geta þurft að sefa afbrýðiskenndina með því að forðast aðstæður sem vekja hana. Stundum gæti kristinn umsjónarmaður þurft að leiða konu sinni fyrir sjónir að hann sé að veita annarri konu í söfnuðinum viðeigandi en takmarkaða athygli í því skyni að rækja skyldu sína sem hirðir hjarðar Guðs. (Jesaja 32:2) Öldungur ætti auðvitað að gæta þess að gefa konu sinni aldrei gilda ástæðu til að vera afbrýðisöm. Það kostar jafnvægi og hann þarf að gæta þess að taka sér tíma til að styrkja sitt eigið hjónaband. — 1. Tímóteusarbréf 3:5; 5:1, 2

10. Hvernig geta foreldrar hjálpað börnum sínum að takast á við afbrýðisemi?

10 Foreldrar verða líka að hjálpa börnum sínum að skilja hvað óviðeigandi afbrýði er. Börn lenda oft í þjarki sem endar með rifrildi. Oft er afbrýði undirrótin. Úr því að hvert barn hefur sínar sérstöku þarfir er ekki hægt að taka öll börn sömu tökum. Og börn þurfa að skilja að þau hafa öll ólíka styrkleika og veikleika. Ef eitt barn er sífellt hvatt til að gera eins vel og annað getur það alið á öfund og afbrýði með öðru þeirra og stolti með hinu. Þess vegna ættu foreldrar að kenna börnunum að mæla framfarir sínar með hliðsjón af þeim fordæmum, sem orð Guðs greinir frá, en ekki með því að keppa hvert við annað. Biblían segir: „Verum ekki hégómagjarnir, svo að vér áreitum hver annan og öfundum hver annan. En sérhver rannsaki breytni sjálfs sín og þá mun hann hafa hrósunarefni í samanburði við sjálfan sig, en ekki miðað við aðra.“ (Galatabréfið 5:26; 6:4) Mikilvægast er að kristnir foreldrar hjálpi börnum sínum með reglulegu biblíunámi og leggi áherslu á bæði góðar og slæmar fyrirmyndir sem orð Guðs greinir frá. — 2. Tímóteusarbréf 3:15.

Dæmi um menn sem höfðu stjórn á afbrýðinni

11. Hvernig var Móse gott fordæmi um hæfni til að takast á við afbrýði?

11 Móse var ólíkur valdagráðugum leiðtogum þessa heims því að hann var „einkar hógvær, framar öllum mönnum á jörðu.“ (4. Mósebók 12:3) Þegar það var orðið Móse ofviða að fara einn með forystuna fyrir Ísrael gaf Jehóva 70 öðrum Ísraelsmönnum af anda sínum þannig að þeir gátu aðstoðað Móse. Er tveir þessara manna tóku að hegða sér eins og spámenn fannst Jósúa sem það drægi með óviðeigandi hætti úr forystu Móse. Jósúa vildi hafa hemil á mönnunum en Móse sagði auðmjúkur í bragði: „Tekur þú upp þykkjuna fyrir mig [„ertu afbrýðisamur mín vegna,“ NW]? Ég vildi að allur lýður [Jehóva] væri spámenn, svo að [Jehóva] legði anda sinn yfir þá.“ (4. Mósebók 11:29) Já, Móse gladdist yfir því að aðrir skyldu hljóta þjónustusérréttindi. Hann sóttist ekki afbrýðisamur eftir því að upphefja sjálfan sig.

12. Hvað gerði Jónatan kleift að forðast afbrýðiskennd?

12 Jónatan, sonur Sáls Ísraelskonungs, er ágætt dæmi um það hvernig kærleikur sigrar óviðeigandi afbrýðiskennd. Jónatan var fyrsti erfingi hásætisins eftir föður sinn en Jehóva hafði hins vegar útvalið Davíð Ísaíson sem næsta konung. Í sporum Jónatans hefðu margir verið afbrýðisamir út í Davíð og litið á hann sem keppinaut. En ást Jónatans á Davíð kom í veg fyrir að slík kennd næði nokkurn tíma tökum á honum. Er Davíð fregnaði dauða Jónatans gat hann sagt: „Sárt trega ég þig, bróðir minn Jónatan, mjög varstu mér hugljúfur! Ást þín var mér undursamlegri en ástir kvenna.“ — 2. Samúelsbók 1:26.

Bestu fordæmin

13. Hver er besta fordæmið um afbrýði og hvers vegna?

13 Jehóva Guð er besta dæmið um fulla stjórn jafnvel á viðeigandi afbrýði. Hann hefur fullkomna stjórn á slíkum tilfinningum. Í hvert sinn sem Guð í mætti sínum sýnir afbrýði er það í samræmi við kærleika hans, réttvísi og visku. — Jesaja 42:13, 14.

14. Hvaða fordæmi gaf Jesús, ólíkt Satan?

14 Ástkær sonur Guðs, Jesús Kristur, er annað afbragðsdæmi um stjórn á afbrýðisemi. „Hann [Jesús] var í Guðs mynd. En hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur.“ (Filippíbréfið 2:6) Hvílík andstæða þeirrar stefnu sem metnaðargjarni engillinn, er varð Satan djöfullinn, tók! Líkt og ‚konungurinn í Babýlon‘ þráði Satan fullur afbrýðisemi að „gjörast líkur Hinum hæsta“ með því að hefja sig upp sem guð í andstöðu við Jehóva og í samkeppni við hann. (Jesaja 14:4, 14; 2. Korintubréf 4:4) Satan reyndi jafnvel að fá Jesú til að ‚falla fram og tilbiðja‘ sig. (Matteus 4:9) En ekkert fékk Jesú til að hvika frá auðmjúkri undirgefni sinni við drottinvald Jehóva. Ólíkt Satan „svipti [Jesús] sig öllu, tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur. Hann kom fram sem maður, lægði sjálfan sig og varð hlýðinn allt til dauða, já, dauðans á krossi.“ Jesús hélt réttmæti stjórnar föður síns á loft og hafnaði algerlega stolti og afbrýðisemi djöfulsins. Vegna trúfesti Jesú „hefur og Guð hátt upp hafið hann og gefið honum nafnið, sem hverju nafni er æðra, til þess að fyrir nafni Jesú skuli hvert kné beygja sig á himni, jörðu og undir jörðu og sérhver tunga játa Guði föður til dýrðar: Jesús Kristur er Drottinn.“ — Filippíbréfið 2:7-11.

Að ná tökum á afbrýðinni

15. Af hverju verðum við að gæta þess að hafa hemil á afbrýðiskennd?

15 Kristnir menn eru ófullkomnir, ólíkt Guði og Kristi. Þar sem þeir eru syndugir láta þeir syndsamlega afbrýðisemi stundum ná tökum á sér. Í stað þess að leyfa afbrýðisemi að koma okkur til að gagnrýna trúbróður vegna einhvers smágalla eða ímyndaðra ranginda er því mikilvægt að við hugleiðum þessi innblásnu orð: „Ver þú ekki of réttlátur og sýn þig ekki frábærlega vitran — hví vilt þú tortíma sjálfum þér?“ — Prédikarinn 7:16.

16. Hvaða gott ráð um afbrýði var gefið í þessu tímariti fyrir löngu?

16 Varðturninn sagði í viðvörunartón hinn 15. mars 1911 um afbrýði: „Við ættum að vera mjög kostgæfin, full afbrýði vegna málstaðar Drottins, en við verðum líka að fullvissa okkur um að [veikleiki annars kristins manns] sé ekki einkamál hans, og ættum að íhuga hvort við séum ‚slettirekur‘ eða ekki. En við ættum líka að íhuga hvort rétt sé að öldungarnir taki á því eða ekki og hvort það sé skylda okkar að leita til þeirra. Við ættum öll að vera mjög afbrýðisöm vegna málstaðar Drottins og verks Drottins en gæta þess vandlega að afbrýðin sé ekki beisk . . . með öðrum orðum ættum við að fullvissa okkur um að við séum ekki afbrýðisöm út í aðra heldur vegna annarra, vegna hagsmuna þeirra og velferðar.“ — 1. Pétursbréf 4:15.

17. Hvernig getum við forðast afbrýðissyndir?

17 Hvernig geta kristnir menn forðast stolt, afbrýðisemi og öfund? Með því að veita heilögum anda Guðs óhindraðan aðgang að lífi sínu. Við þurfum til dæmis að biðja um anda Guðs og hjálp til að sýna hina góðu ávexti andans. (Lúkas 11:13) Við þurfum að sækja kristnar samkomur sem hefjast með bæn og njóta blessunar Guðs og anda. Enn fremur þurfum við að nema Biblíuna sem er innblásin af Guði. (2. Tímóteusarbréf 3:16) Og við þurfum að taka þátt í að prédika Guðsríki sem er gert í krafti heilags anda Jehóva. (Postulasagan 1:8) Önnur leið til að lúta góðum áhrifum anda Guðs er sú að hjálpa trúsystkinum okkar sem eru niðurbrotin vegna einhverrar slæmrar reynslu. (Jesaja 57:15; 1. Jóhannesarbréf 3:15-17) Að rækja allar þessar kristnu skyldur er vernd gegn syndsamlegum afbrýðisverkum því að orð Guðs segir: „Lifið í andanum, og þá fullnægið þér alls ekki girnd holdsins.“ — Galatabréfið 5:16.

18. Af hverju munum við ekki alltaf þurfa að berjast við óviðeigandi afbrýðiskennd?

18 Kærleikur er nefndur fyrstur af ávöxtum heilags anda Guðs. (Galatabréfið 5:22, 23) Að ástunda kærleika er okkur hjálp til að hafa hemil á syndugum tilhneigingum núna. En hvað um framtíðina? Milljónir þjóna Jehóva eiga von um að lifa í hinni komandi jarðnesku paradís þar sem þeir geta hlakkað til að öðlast mannlegan fullkomleika. Í þessum nýja heimi mun kærleikurinn ríkja og enginn láta óviðeigandi afbrýðiskennd ná tökum á sér, því að ‚sjálf sköpunin mun verða leyst úr ánauð forgengileikans til dýrðarfrelsis Guðs barna.‘ — Rómverjabréfið 8:21.

Til umhugsunar

◻ Hvaða líkingu tók Páll til að hjálpa mönnum að sporna gegn afbrýði?

◻ Hvernig gæti afbrýði raskað friði safnaðarins?

◻ Hvernig geta foreldrar kennt börnum sínum að takast á við afbrýðisemi?

◻ Hvernig getum við forðast afbrýðissyndir?

[Mynd á blaðsíðu 16]

Láttu ekki afbrýði raska friði safnaðarins.

[Mynd á blaðsíðu 17]

Foreldrar geta kennt börnum sínum að takast á við afbrýðisemi.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila