Mánudagur 27. október
Eiginmaður á að elska konu sína eins og eigin líkama. – Ef. 5:28.
Jehóva væntir þess að eiginmaður elski eiginkonu sína, annist hana líkamlega og tilfinningalega og hjálpi henni að eiga náið samband við föður sinn á himni. Að þroska með þér skarpskyggni, bera virðingu fyrir konum og vera áreiðanlegur mun hjálpa þér að vera góður eiginmaður. Eftir að þú hefur gengið í hjónaband eignastu kannski börn. Hvað getum við lært af Jehóva um að vera góður faðir? (Ef. 6:4) Jehóva sagði Jesú syni sínum að hann elskaði hann og hefði velþóknun á honum. (Matt. 3:17) Ef þú eignast börn skaltu fullvissa þau reglulega um að þú elskir þau. Vertu duglegur að hrósa þeim fyrir það góða sem þau gera. Feður sem líkja eftir Jehóva hjálpa börnunum sínum að verða þroskaðir kristnir karlar og konur. Þú getur búið þig undir þetta hlutverk með því að annast af kærleika aðra í fjölskyldu þinni og söfnuðinum og með því að temja þér að segja þeim að þú kunnir að meta þá og elskir þá. – Jóh. 15:9. w23.12 28–29 gr. 17, 18
Þriðjudagur 28. október
Jehóva veitir þér stöðugleika. – Jes. 33:6.
Við göngum í gegnum erfiðleika og veikindi eins og annað fólk þótt við séum trúfastir þjónar Jehóva. Við gætum auk þess þurft að þola andstöðu eða ofsóknir af hálfu þeirra sem hata fólk Guðs. Enda þótt Jehóva komi ekki í veg fyrir slíka erfiðleika lofar hann að hjálpa okkur. (Jes. 41:10) Með hans hjálp getum við haldið gleði okkar, tekið góðar ákvarðanir og verið honum trúföst jafnvel við erfiðustu aðstæður. Jehóva lofar að gefa okkur það sem Biblían nefnir ‚frið Guðs‘. (Fil. 4:6, 7) Þessi friður vísar til þeirrar stillingar og rósemi sem maður getur aðeins öðlast vegna vináttu við hann. Friðurinn er „æðri öllum skilningi“ sem þýðir að hann er dásamlegri en við getum ímyndað okkur. Hefur þú einhvern tíma fundið fyrir ótrúlegri ró eftir að hafa beðið heitt til Jehóva? Þá hefurðu fundið fyrir ‚friði Guðs‘. w24.01 20 gr. 2; 21 gr. 4
Miðvikudagur 29. október
„Ég vil lofa Jehóva, allt sem í mér býr lofi heilagt nafn hans.“ – Sálm. 103:1.
Trúfastir menn sem elska Jehóva vilja lofa nafn hans af öllu hjarta. Davíð konungur skildi að þegar við lofum nafn Jehóva lofum við hann sjálfan. Nafn Jehóva felur í sér orðstír hans og kallar fram í hugann alla þá fögru eiginleika sem hann býr yfir og stórkostleg verk hans. Davíð áleit nafn föður síns heilagt og vildi lofa það með ‚öllu sem í honum bjó‘ – það er að segja af öllu hjarta. Það var líka hjartans mál hjá Levítunum að lofa nafn Jehóva. Þeir viðurkenndu auðmjúkir að orð þeirra gætu aldrei túlkað það lof sem heilagt nafn Jehóva verðskuldaði. (Neh. 9:5) Það hefur án efa yljað hjarta Jehóva að heyra þá lofa hann með þessum hætti. w24.02 9 gr. 6