Fimmta Mósebók
27 Móse og öldungar Ísraels gáfu nú fólkinu þessi fyrirmæli: „Haldið öll þau boðorð sem ég gef ykkur í dag. 2 Daginn sem þið haldið yfir Jórdan inn í landið sem Jehóva Guð ykkar gefur ykkur skuluð þið reisa stóra steina og kalkbera* þá.+ 3 Skrifið þessi lög á þá þegar þið eruð komin yfir ána. Þá fáið þið að fara inn í landið sem Jehóva Guð ykkar gefur ykkur, land sem flýtur í mjólk og hunangi eins og Jehóva, Guð forfeðra ykkar, hefur lofað ykkur.+ 4 Þegar þið eruð komin yfir Jórdan skuluð þið reisa þessa steina á Ebalfjalli+ og kalkbera* þá eins og ég gef ykkur fyrirmæli um í dag. 5 Þar skuluð þið einnig reisa Jehóva Guði ykkar altari úr steinum. Höggvið þá ekki til með járnverkfærum.+ 6 Reisið altari Jehóva Guðs ykkar úr óhöggnum steinum og færið Jehóva Guði ykkar brennifórnir á því. 7 Þið skuluð færa samneytisfórnir+ og borða þær þar+ og gleðjast frammi fyrir Jehóva Guði ykkar.+ 8 Og skrifið lögin skýrt og greinilega á steinana.“+
9 Móse og Levítaprestarnir ávörpuðu síðan allan Ísrael og sögðu: „Vertu hljóður, Ísrael, og hlustaðu. Í dag ertu orðinn þjóð Jehóva Guðs þíns.+ 10 Hlustaðu á Jehóva Guð þinn og fylgdu boðorðum hans+ og ákvæðum sem ég flyt þér í dag.“
11 Þennan dag gaf Móse fólkinu þessi fyrirmæli: 12 „Þegar þið eruð komin yfir Jórdan eiga þessar ættkvíslir að standa á Garísímfjalli+ og blessa fólkið: Símeon, Leví, Júda, Íssakar, Jósef og Benjamín. 13 Og þessar ættkvíslir eiga að standa á Ebalfjalli+ til að lýsa yfir bölvun: Rúben, Gað, Asser, Sebúlon, Dan og Naftalí. 14 Levítarnir skulu síðan svara öllum Ísraelsmönnum hárri röddu:+
15 ‚Bölvaður er sá maður sem býr til úthöggvið líkneski+ eða málmlíkneski,*+ verk handverksmanns,* og felur það. Jehóva hefur andstyggð á slíku.‘+ (Og allt fólkið skal svara: ‚Amen!‘*)
16 ‚Bölvaður er sá sem sýnir föður sínum eða móður fyrirlitningu.‘+ (Og allt fólkið skal segja: ‚Amen!‘)
17 ‚Bölvaður er sá sem færir til landamerki nágranna síns.‘+ (Og allt fólkið skal segja: ‚Amen!‘)
18 ‚Bölvaður er sá sem leiðir blindan mann afvega.‘+ (Og allt fólkið skal segja: ‚Amen!‘)
19 ‚Bölvaður er sá sem fellir ranglátan dóm+ í máli útlendings, föðurlauss barns* eða ekkju.‘+ (Og allt fólkið skal segja: ‚Amen!‘)
20 ‚Bölvaður er sá sem hefur samfarir við konu föður síns því að hann vanvirðir föður sinn.‘*+ (Og allt fólkið skal segja: ‚Amen!‘)
21 ‚Bölvaður er sá sem hefur samfarir við nokkurt dýr.‘+ (Og allt fólkið skal segja: ‚Amen!‘)
22 ‚Bölvaður er sá sem hefur samfarir við systur sína, hvort heldur dóttur föður síns eða móður sinnar.‘+ (Og allt fólkið skal segja: ‚Amen!‘)
23 ‚Bölvaður er sá sem hefur samfarir við tengdamóður sína.‘+ (Og allt fólkið skal segja: ‚Amen!‘)
24 ‚Bölvaður er sá sem liggur í launsátri fyrir náunga sínum og drepur hann.‘+ (Og allt fólkið skal segja: ‚Amen!‘)
25 ‚Bölvaður er sá sem lætur múta sér til að drepa saklausan mann.‘*+ (Og allt fólkið skal segja: ‚Amen!‘)
26 ‚Bölvaður er sá sem virðir ekki þessi lög og fer ekki eftir þeim.‘+ (Og allt fólkið skal segja: ‚Amen!‘)