Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • nwt Ljóðaljóðin 1:1-8:14
  • Ljóðaljóðin

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Ljóðaljóðin
  • Biblían – Nýheimsþýðingin
Biblían – Nýheimsþýðingin
Ljóðaljóðin

LJÓÐALJÓÐIN

1 Ljóðaljóðin,* ljóð Salómons:+

 2 „Kysstu mig kossi vara þinna,

blíðuhót þín eru ljúfari en vín.+

 3 Yndislegur ilmur er af olíum þínum.+

Eins og ljúfasta ilmolía er nafn þitt.+

Þess vegna elska ungu stúlkurnar þig.

 4 Taktu mig með þér,* flýtum okkur.

Konungurinn hefur leitt mig inn í herbergi sín!

Gleðjumst og fögnum saman.

Tölum um* blíðuhót þín, þau eru betri en vín.

Þær* elska þig ekki að ástæðulausu.

 5 Ég er dökk* en yndisleg, þið Jerúsalemdætur,

eins og tjöld Kedars,+ eins og tjalddúkar+ Salómons.

 6 Starið ekki á mig þó að húð mín sé dökk

því að ég er sólbrennd.

Synir móður minnar reiddust mér,

þeir létu mig gæta víngarðanna

en eigin víngarðs gætti ég ekki.

 7 Segðu mér, þú sem ég elska svo heitt,

hvar þú heldur hjörð þinni á beit,+

hvar þú lætur hana hvílast um hádegið.

Hvers vegna ætti ég að vera eins og kona með sorgarblæju

meðal hjarða vina þinna?“

 8 „Ef þú veist það ekki, þú sem ert fallegust kvenna,

skaltu rekja slóð hjarðarinnar

og halda kiðlingum þínum á beit hjá tjöldum hirðanna.“

 9 „Ég líki þér, ástin mín, við eina af hryssunum* fyrir vögnum faraós.+

10 Skartgripir* prýða vanga þína,

perlufesti háls þinn.

11 Við gerum handa þér skartgripi* úr gulli

með silfurskrauti.“

12 „Meðan konungur situr við hringborð sitt

leggur ilminn af ilmvatni mínu.*+

13 Elskan mín er mér eins og ilmandi myrrupoki+

sem hvílir við barm mér um nótt.

14 Ástin mín er mér eins og hennablóm+

sem vaxa hjá víngörðum Engedí.“+

15 „Þú ert falleg, ástin mín!

Þú ert falleg. Augu þín eru eins og dúfuaugu.“+

16 „Þú ert líka fallegur,* minn kæri, og yndislegur.+

Grængresið er rúm okkar.

17 Sedrustré eru bjálkarnir í húsi* okkar,

einitré mynda þakið.

2 Ég er bara krókus* á strandsléttunni,

lilja í dölunum.“+

 2 „Eins og lilja meðal þyrna

er ástin mín meðal ungu kvennanna.“

 3 „Eins og eplatré meðal skógartrjánna

er minn elskaði meðal ungu mannanna.

Ég þrái heitt að sitja í skugga hans

og ávöxtur hans er mér gómsætur.

 4 Hann leiddi mig inn í veislusalinn*

og ást hans var eins og fáni yfir mér.

 5 Hresstu mig með rúsínukökum,+

nærðu mig með eplum

því að ég er sjúk af ást.

 6 Vinstri hönd hans er undir höfði mér

og hann faðmar mig með þeirri hægri.+

 7 Sverjið mér, Jerúsalemdætur,

við gasellur+ og hindir merkurinnar:

Reynið ekki að kveikja logann, vekja ástina fyrr en hún sjálf vill.+

 8 Ég heyri í mínum elskaða!

Hér kemur hann,

klífur fjöllin, hleypur yfir hæðirnar.

 9 Ástin mín er eins og gasella, eins og ungur hjörtur.+

Þarna stendur hann, bak við húsvegginn,

horfir inn um gluggann,

rýnir inn um grindurnar.

10 Minn elskaði talar og segir við mig:

‚Stattu upp, ástin mín,

mín fagra, komdu með mér.

11 Veturinn* er liðinn

og hætt er að rigna.

12 Blómin eru sprungin út,+

tími kominn til að grisja vínviðinn+

og kurr turtildúfunnar heyrist í landinu.+

13 Fyrstu fíkjurnar þroskast á trjánum,+

vínviðurinn blómstrar og ilmar.

Stattu upp, ástin mín, og komdu,

mín fagra, komdu með mér.

14 Komdu út, dúfan mín, úr klettaskorunni,+

úr skjóli hamarsins.

Leyfðu mér að sjá þig og heyra rödd þína+

því að rödd þín er ljúf og yndislegt er að sjá þig.‘“+

15 „Veiddu refina fyrir okkur,

yrðlingana sem skemma víngarðana

því að víngarðar okkar standa í blóma.“

16 „Minn elskaði er minn og ég er hans.+

Hann gætir hjarðarinnar+ hjá liljunum.+

17 Áður en fer að kula og skuggarnir hverfa

skaltu flýta þér til mín, ástin mín,

eins og gasella+ eða ungur hjörtur+ yfir fjöllin sem skilja okkur að.*

3 Í rúmi mínu um nætur

þráði ég þann sem ég elska.+

Ég þráði hann en hann var ekki þar.+

 2 Ég fer á fætur og geng um borgina,

um göturnar og torgin,

og leita að mínum elskaða.

Ég leitaði hans en fann hann ekki.

 3 Verðirnir sáu mig á leið sinni um borgina.+

‚Hafið þið séð þann sem ég elska?‘

 4 Ég var varla komin fram hjá þeim

þegar ég fann þann sem ég elska.

Ég greip í hann og sleppti honum ekki

fyrr en ég hafði leitt hann í hús móður minnar,+

inn í herbergi hennar sem fæddi mig.

 5 Sverjið mér, Jerúsalemdætur,

við gasellur og hindir merkurinnar:

Reynið ekki að kveikja logann, vekja ástina fyrr en hún sjálf vill.“+

 6 „Hvað er það sem stígur upp eins og reykjarstrókur í óbyggðunum,

ilmandi af myrru og reykelsi,

af alls konar ilmdufti kaupmanna?“+

 7 „Þetta er burðarstóll Salómons.

Sextíu kappar umkringja hann,

hraustir hermenn Ísraels,+

 8 allir vopnaðir sverði,

allir þjálfaðir stríðsmenn.

Hver þeirra er gyrtur sverði

til að verjast ógnum næturinnar.“

 9 „Það er konunglegur burðarstóll Salómons

sem hann gerði úr viði frá Líbanon.+

10 Stoðirnar eru úr silfri,

bakið úr gulli

og sætið klætt purpuralitri ull.

Jerúsalemdætur skreyttu hann að innan

af ást og umhyggju.“

11 „Komið, Síonardætur,

og sjáið Salómon konung.

Hann ber brúðarkrans* sem móðir hans+ gerði

á brúðkaupsdegi hans,

þeim degi sem hjarta hans fagnaði.“

4 „Þú ert falleg, ástin mín!

Þú ert falleg.

Augu þín eru eins og dúfuaugu undir blæjunni.

Hár þitt er eins og geitahjörð

sem streymir niður Gíleaðfjöll.+

 2 Tennur þínar eru eins og hjörð af nýrúnum ám

sem komnar eru úr baði.

Allar eru tvílembdar

og engin hefur misst lamb.

 3 Varir þínar eru eins og skarlatsrautt band

og orð þín eru yndisleg.

Eins og sneitt granatepli

eru vangar þínir* undir blæjunni.

 4 Háls þinn+ er eins og turn Davíðs,+

hlaðinn úr steini.

Þar hanga þúsund skildir,

allir hringlaga skildir kappanna.+

 5 Brjóst þín eru eins og tveir gasellukálfar,

eins og gasellutvíburar+

á beit meðal liljanna.“

 6 „Áður en fer að kula og skuggarnir hverfa

vil ég fara til myrrufjallsins,

til reykelsishæðarinnar.“+

 7 „Öll ertu falleg, ástin mín,+

þú ert lýtalaus.

 8 Komdu með mér frá Líbanon, brúður mín,

komdu með mér frá Líbanon.+

Komdu niður af Amanatindi,*

af Senír- og Hermontindi,+

frá bælum ljónanna, frá fjöllum hlébarðanna.

 9 Þú hefur fangað hjarta mitt,+ systir mín og brúður,

þú hefur fangað hjarta mitt með einu augnatilliti,

með einni perlu á hálsfesti þinni.

10 Yndisleg eru atlot þín,+ systir mín og brúður!

Blíðuhót þín eru ljúfari en vín+

og ilmvatn þitt ljúfara en nokkurt krydd.+

11 Hunang drýpur af vörum þínum,+ brúður mín.

Hunang og mjólk eru undir tungu þinni+

og föt þín ilma eins og angan Líbanons.

12 Systir mín og brúður er eins og lokaður garður,

lokaður garður, innsigluð lind.

13 Garður þinn* er eins og paradís* með granateplatrjám,

með ljúffengum ávöxtum, henna og nardusjurtum,

14 nardus+ og saffrankrókusum, ilmreyr+ og kanil,+

með alls konar reykelsistrjám, myrru og alóe+

ásamt ilmjurtum af bestu gerð.+

15 Þú ert lind í garði, brunnur með fersku vatni,

eins og rennandi lækir frá Líbanon.+

16 Vaknaðu, norðanvindur,

komdu, sunnanvindur,

leiktu um* garðinn minn,

berðu með þér ilm hans.“

„Ég vildi að ástin mín kæmi inn í garð sinn

og borðaði ljúffenga ávextina.“

5 „Ég hef gengið inn í garðinn minn,+

systir mín og brúður.

Ég hef tínt myrru og kryddjurtir.+

Ég hef borðað hunangskökur og hunang,

drukkið vín mitt og mjólk.“+

„Borðið, kæru vinir!

Drekkið og verðið ölvuð af blíðuhótum!“+

 2 „Ég sef en hjarta mitt vakir.+

Ég heyri að vinur minn bankar!

‚Opnaðu fyrir mér, systir mín, ástin mín,

dúfan mín lýtalausa!

Höfuð mitt er vott af dögginni,

hárlokkarnir af dropum næturinnar.‘+

 3 Ég er komin úr kyrtlinum.

Þarf ég að fara í hann aftur?

Ég hef þvegið fæturna.

Þarf ég að óhreinka þá aftur?

 4 Ástin mín dró höndina frá opinu á hurðinni

og hjartað barðist í brjósti mér.

 5 Ég fór fram úr til að opna fyrir vini mínum.

Myrra draup af höndum mínum,

fljótandi myrra af fingrunum,

á handfang hurðarlokunnar.

 6 Ég opnaði fyrir vini mínum

en vinur minn var ekki þar, hann var horfinn.

Ég varð örvæntingarfull því að hann var farinn.*

Ég leitaði hans en fann hann ekki.+

Ég kallaði á hann en hann svaraði ekki.

 7 Verðirnir sáu mig á leið sinni um borgina.

Þeir slógu mig og særðu mig.

Verðir múranna rifu af mér sjalið.*

 8 Sverjið mér, Jerúsalemdætur:

Ef þið finnið minn elskaða

segið honum þá að ég sé sjúk af ást.“

 9 „Hvað hefur ástin þín fram yfir aðra,

þú sem ert fallegust kvenna?

Hvað hefur ástin þín fram yfir aðra

fyrst þú biður okkur að sverja slíkan eið?“

10 „Minn elskaði er gullfallegur og rjóður,

hann ber af tíu þúsundum.

11 Höfuð hans er gull, skíragull.

Lokkar hans eru eins og blaktandi pálmablöð,*

svartir sem hrafninn.

12 Augu hans eru eins og dúfur við læki

sem baða sig í mjólk

og sitja við bakkafulla tjörn.*

13 Vangar hans eru eins og kryddjurtabeð,+

vöndur af ilmandi jurtum.

Varir hans eru liljur sem fljótandi myrra drýpur af.+

14 Hendur hans eru gullkefli lögð krýsólít,

kviðurinn gljáfægt fílabein þakið safír.

15 Fætur hans eru marmarasúlur á undirstöðum úr skíragulli.

Hann er fagur eins og Líbanon, óviðjafnanlegur sem sedrustrén.+

16 Munnur* hans er fullur sætleika

og hann er aðlaðandi á allan hátt.+

Þannig er minn elskaði, Jerúsalemdætur, þannig er ástin mín.“

6 „Hvert er vinur þinn farinn,

þú sem ert fallegust kvenna?

Hvaða leið fór vinur þinn?

Við skulum leita hans með þér.“

 2 „Vinur minn er farinn niður í garð sinn,

að kryddjurtabeðunum.

Hjá görðunum gætir hann hjarðarinnar

og tínir liljur.+

 3 Ég tilheyri mínum elskaða

og minn elskaði er minn.+

Hann gætir hjarðarinnar hjá liljunum.“+

 4 „Þú ert falleg eins og Tirsa,*+ vina mín,+

jafn yndisleg og Jerúsalem,+

eins heillandi og herflokkar hjá fánum sínum.+

 5 Horfðu ekki á mig

því ég er gagntekinn af augum þínum.+

Hár þitt er eins og geitahjörð

sem streymir niður hlíðar Gíleaðs.+

 6 Tennur þínar eru eins og hjörð af ám

sem komnar eru úr baði.

Allar eru tvílembdar

og engin hefur misst lamb.

 7 Eins og sneitt granatepli

eru vangar þínir* undir blæjunni.

 8 Drottningarnar eru 60

og hjákonurnar 80

og ungu konurnar óteljandi.+

 9 En aðeins ein er dúfan mín+ lýtalausa.

Hún er uppáhald móður sinnar,

augasteinn* hennar sem fæddi hana.

Ungu konurnar sjá hana og segja hana sæla,

drottningar og hjákonur lofa hana.

10 ‚Hver er sú sem ljómar* eins og morgunroðinn,

falleg eins og tungl í fyllingu,

hrein eins og sólskinið,

heillandi eins og herflokkar hjá fánum sínum?‘“+

11 „Ég fór niður í hnetugarðinn+

til að sjá hvað væri sprottið í dalnum,

hvort vínviðurinn brumaði

og hvort granateplatrén stæðu í blóma.

12 Áður en ég vissi af

hafði löngunin til að sjá þetta

leitt mig að vögnum tignarmannanna.“

13 „Snúðu aftur, snúðu aftur, Súlamít!

Komdu aftur, komdu,

til að við getum horft á þig!“

„Af hverju viljið þið horfa á stúlku frá Súlam?“+

„Það er eins og að horfa á tvo dansflokka!“*

7 „Fagrir eru fætur þínir í sandölunum,

þú göfuga dóttir!

Ávalar mjaðmir þínar eru eins og skartgripir,

handaverk listasmiðs.

 2 Nafli þinn er kringlótt skál,

aldrei skal þar skorta kryddað vín.

Kviður þinn er hveitibingur

umkringdur liljum.

 3 Brjóst þín eru eins og tveir gasellukálfar,

eins og gasellutvíburar.+

 4 Háls þinn+ er sem fílabeinsturn,+

augun+ eins og tjarnirnar í Hesbon+

við hlið Batrabbím.

Nefið er eins og Líbanonsturninn

sem snýr í átt að Damaskus.

 5 Höfuð þitt er tignarlegt eins og Karmel,+

lokkarnir+ eru eins og purpuralit ull.+

Konungurinn er gagntekinn* af lokkaflóðinu.

 6 Falleg ertu og yndisleg,

elsku stúlka, þú gleður mig framar öllu öðru!

 7 Vöxtur þinn er eins og pálmatré

og brjóstin eins og döðluklasar.+

 8 Ég sagði: ‚Ég skal klifra upp í pálmatréð

og tína ávextina.‘

Brjóst þín séu sem vínberjaklasar,

andardráttur þinn eins og eplailmur

 9 og munnurinn* eins og úrvalsvín.“

„Ástin mín njóti vínsins

sem rennur ljúflega um varir þeirra sem sofa.

10 Ég tilheyri mínum elskaða+

og hann þráir mig.

11 Komdu, minn elskaði,

förum út á engið,

eyðum nóttinni hjá hennarunnunum.+

12 Förum snemma af stað til víngarðanna

til að sjá hvort vínviðurinn brumar,

hvort blómin eru sprungin út+

og granateplatrén standa í blóma.+

Þar mun ég tjá þér ást mína.+

13 Alrúnurnar+ ilma,

við dyr okkar eru úrvalsávextir af öllu tagi.+

Bæði nýtínda ávexti og geymda

hef ég varðveitt handa þér, ástin mín.

8 Bara að þú værir eins og bróðir minn

sem móðir mín hafði á brjósti!

Þá myndi ég kyssa þig+ ef ég hitti þig úti

og enginn myndi líta niður á mig.

 2 Ég myndi leiða þig

og fara með þig í hús móður minnar,+

hennar sem ól mig upp.

Ég myndi gefa þér kryddað vín að drekka,

ferskan granateplasafa.

 3 Vinstri hönd hans væri undir höfði mér

og hann faðmaði mig með þeirri hægri.+

 4 Sverjið mér, Jerúsalemdætur:

Reynið ekki að kveikja logann, vekja ástina fyrr en hún sjálf vill.“+

 5 „Hver er það sem kemur frá óbyggðunum

og hallar sér að sínum elskaða?“

„Undir eplatrénu vakti ég þig.

Þar fékk móðir þín fæðingarhríðir,

þar fæddi hún þig með miklum kvölum.

 6 Settu mig sem innsigli á hjarta þitt,

sem innsigli á handlegg þinn,

því að ástin er jafn sterk og dauðinn+

og óskipt hollusta er óbifanleg eins og gröfin.*

Logar hennar eru brennandi bál, logi Jah.*+

 7 Fossandi vatn fær ekki slökkt ástina+

né fljót skolað henni burt.+

Þótt maður byði aleiguna fyrir ástina

yrði því* hafnað með öllu.“

 8 „Við eigum litla systur+

og henni eru ekki vaxin brjóst.

Hvað eigum við að gera við systur okkar

daginn sem einhver biður hennar?“

 9 „Ef hún er múr

reisum við á honum víggirðingu úr silfri

en ef hún er hurð

lokum við fyrir með sedrusplanka.“

10 „Ég er múr

og brjóst mín eru eins og turnar.

Í augum hans er ég kona

sem hefur fundið frið.

11 Salómon átti víngarð+ í Baal Hamon.

Hann fól vínyrkjum að annast hann.

Hver og einn greiddi þúsund silfurpeninga fyrir ávöxtinn.

12 Ég á minn eigin víngarð.

Haltu silfurpeningunum þúsund,* Salómon,

og greiddu tvö hundruð þeim sem gæta ávaxtarins.“

13 „Þú sem dvelst í görðunum,+

félagar mínir* hlusta eftir rödd þinni.

Leyfðu mér að heyra hana.“+

14 „Flýttu þér, ástin mín,

hlauptu eins og gasella+

eða ungur hjörtur

yfir fjöllin sem ilma af kryddi.“

Eða „Æðsta ljóðið“.

Orðrétt „Dragðu mig á eftir þér“.

Eða „Lofum“.

Það er, ungu stúlkurnar.

Orðrétt „svört“.

Eða „hryssum mínum“.

Eða hugsanl. „Fléttur“.

Eða „ennisbönd“.

Orðrétt „nardus mínum“.

Eða „ert myndarlegur“.

Eða „veglegu húsi“.

Orðrétt „saffrankrókus“.

Orðrétt „vínhúsið“.

Eða „Regntíminn“.

Eða hugsanl. „sprungufjöllin“. Eða „Beterfjöll“.

Eða „brúðarkórónu“.

Eða „gagnaugu þín“.

Eða „tindi Antí-Líbanons“.

Eða hugsanl. „Húð þín“.

Eða „garður“.

Eða „andaðu á“.

Eða hugsanl. „Sál mín yfirgaf mig þegar hann talaði“.

Eða „slæðuna“.

Eða hugsanl. „eins og döðluklasar“.

Eða hugsanl. „barm lindarinnar“.

Orðrétt „Gómur“.

Eða „Borgin yndislega“.

Eða „gagnaugu þín“.

Orðrétt „hin hreina“.

Orðrétt „horfir niður“.

Eða „dans Mahanaím“.

Eða „fjötraður“.

Orðrétt „gómur þinn“.

Á hebr. Sheol, það er, sameiginleg gröf mannkyns. Sjá orðaskýringar.

„Jah“ er stytting nafnsins Jehóva.

Eða hugsanl. „honum“.

Orðrétt „Haltu þúsundinni“.

Eða hugsanl. „félagar þínir“.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila