‚Algengasta misþyrming barna sem til er‘
Konan grípur utan um háls barnsins. Síðan herðir hún hægt og hægt takið og næstum kyrkir barnið. Hið varnalausa ungbarn baðar út öllum öngum. Á síðasta augnabliki slakar konan á takinu. Barnið tekur andköf — það lifir. Nokkru síðar grípur konan aftur um smávaxinn hálsinn, kvelur barnið um stund, linar svo takið og barnið tekur andköf á ný . . .
Það sem þú varst að lesa lýsir þeim þjáningum sem ófætt barn má þola þegar móðir þess reykir.
Ævilangt tjón
Er verið að taka of djúpt í árinni? Tæplega. Samkvæmt grein í New York Times benda sífellt fleiri vísindarannsóknir til að móðir, sem reykir að staðaldri á meðgöngutímanum, geti með því valdið barni sínu ævilangri fötlun, bæði líkamlegri og andlegri. Sumt af þessu tjóni „kemur strax í ljós,“ segir greinin, „en annað sýnir sig ekki fyrr en síðar.“
Hvaða áhrif hafa reykingar móður á ófætt barn? Dr. William G. Cahan, læknir við Memorial Sloan-Kettering Cancer Center í Bandaríkjunum og höfundur greinarinnar í New York Times, segir: „Nokkrum mínútum eftir hvert reyksog er kolmónoxíð og níkótín búið að berast út í blóð móðurinnar.“ Þar eð kolmónoxíð spillir hæfni blóðsins til að bera súrefni og níkótín herpir saman æðarnar í legkökunni er „hið ófædda barn svipt eðlilegu súrefnisstreymi um stund. Ef það endurtekur sig nógu oft getur það valdið óbætanlegu tjóni á heila fóstursins sem er sérstaklega viðkvæmur fyrir súrefnisskorti,“ segir William Cahan.
Rannsóknir hafa sýnt fram á að fimm mínútum eftir að vanfær kona hefur reykt tvo vindlinga sýnir fóstrið merki óþæginda sem lýsa sér í hraðari hjartslætti og óeðlilegum hreyfingum sem líkjast því að það grípi andann á lofti.
Einn pakki á dag
Hvað má ófætt barn þola ef móðir þess reykir 20 vindlinga eða einn pakka á dag? Dr. Cahan áætlar að reykingamaður taki að meðaltali fimm sog af hverjum vindlingi. Sá sem reykir einn pakka á dag fær sér því hundrað sog á dag. Meðgöngutíminn er um 270 dagar og væntanleg móðir, sem reykir, lætur fóstrið verða fyrir „að minnsta kosti 27.000 líkams- og efnaárásum.“
Börn, sem hefur verið misþyrmt þannig, geta þurft að gjalda alla ævi fyrir reykingar móður sinnar. Auk líkamlegs tjóns geta börnin átt við að stríða „hegðunarvandamál, skerta lestrarhæfni, ofstarf og andlegan vanþroska,“ segir dr. Cahan. Það er ekkert undarlegt að hann skuli spyrja: „Hvaða ábyrg kona getur haldið áfram ósið sem er svona hættulegur ófæddu barni hennar?“
Foreldrar, sem reykja, stofna uppvaxandi börnum sínum einnig í hættu. Hvers vegna? Bæklingurinn Facts and Figures on Smoking, gefinn út af Bandaríska krabbameinsfélaginu, svarar: „Öndunarfærasjúkdómar, meðal annars tíðara lungnakvef og lungnabólga á fyrstu æviárum, eru algengari meðal barna reykingamanna en þeirra sem ekki reykja.“
Dr. Cahan lýkur því grein sinni með þeim orðum að ‚hér sé hugsanlega á ferðinni algengasta misþyrming barna sem til er.‘ Hvað um þig — reykir þú?