Louis Pasteur - Það sem starf hans leiddi í ljós
Eftir fréttaritara Vaknið! í Frakklandi
GETUR líf kviknað af sjálfu sér? Sumir vísindamenn 19. aldar voru þeirrar skoðunar. Þeir trúðu á sjálfkviknun lífs af lífvana efni, án þess að skapari kæmi nærri.
En vorkvöld eitt í apríl árið 1864 heyrðu menn aðra sögu í fyrirlestrarsal við Sorbonne-háskóla í París. Í snilldarlegum fyrirlestri frammi fyrir vísindanefnd hrakti Louis Pasteur lið fyrir lið kenninguna um sjálfkviknun lífs.
Þessi fyrirlestur og síðari uppgötvanir hans sýndu að hann var „einn af mestu vísindamönnum heims,“ eins og alfræðibókin The World Book Encyclopedia segir. En hvers vegna hafði þessi maður slík áhrif á samtíð sína og hvernig varð hann heimsfrægur? Hvernig njótum við gagns af sumum uppgötvunum hans nú á tímum?
Fyrstu rannsóknir hans
Louis Pasteur fæddist árið 1822 í smábænum Dôle í austurhluta Frakklands. Faðir hans var sútari og mjög metnaðarfullur vegna sonar síns. Louis nam vísindi þótt hann hefði bæði áhuga á listum og góða hæfileika á því sviði. Hann hlaut doktorsnafnbót í vísindum 25 ára gamall.
Fyrstu rannsóknir Pasteurs tengdust vínsýru sem er að finna í botnfalli í víntunnum. Aðrir vísindamenn notuðu rannsóknarniðurstöður hans fáeinum árum síðar sem grunn að lífrænni efnafræði nútímans. Pasteur sneri sér síðan að rannsóknum á gerefnum.
Mönnum var kunnugt um gerefni áður en Pasteur hóf rannsóknir sínar, en álitið var að þau yrðu til við gerjunina. Pasteur sannaði hins vegar að gerið yrði ekki til við gerjunina heldur væri það orsök hennar. Hann sýndi fram á að hver gertegund ylli ólíkri gerjun. Skýrslan, sem hann birti um þetta árið 1857, er álitin „fæðingarvottorð örverufræðinnar.“
Rannsóknir hans jukust þaðan í frá og uppgötvununum fjölgaði. Orðstír hans varð þess valdandi að ediksframleiðendur í Orléans leituðu til hans til að leysa fjölmörg tæknileg vandamál sem þeir áttu við að glíma. Pasteur sannaði að það var örvera sem breytti víni í edik og var hana að finna á yfirborði vökvans. Í lok rannsókna sinna lagði hann sína frægu „Lexíu í vínediksgerð“ fyrir ediksframleiðendur og tignarmenn borgarinnar.
Gerilsneyðing
Út frá rannsóknum sínum á gerjun dró Pasteur þá ályktun að skemmdir á matvælum í matvælaiðnaðinum stöfuðu í flestum tilvikum af örverum. Örverur væru í andrúmsloftinu eða illa þvegnum ílátum. Pasteur taldi að forðast mætti skemmdir á matvælum af völdum gerla með því að auka hreinlæti, og að koma mætti í veg fyrir að vökvi spilltist með því að hita hann upp í 50 til 60 gráður á Celsíus í fáeinar mínútur. Þessi aðferð var fyrst notuð á vín til að koma í veg fyrir óeðlilega gerjun. Þannig tókst að drepa helstu örverurnar án þess að breyta bragði eða ilmi svo heitið gæti.
Aðferðin, sem kölluð er gerilsneyðing og Pasteur fékk einkaleyfi á, olli byltingu í matvælaiðnaði. Þessi tækni er ekki notuð lengur við víngerð en hentar vel við meðferð ýmissa matvæla, svo sem mjólkur og ávaxtasafa. En einnig má nota aðrar aðferðir, til dæmis dauðhreinsun við miklu hærra hitastig.
Ölgerð var önnur mikilvæg iðngrein sem naut góðs af rannsóknum Pasteurs. Frakkar áttu við margs konar framleiðsluvandamál að glíma á þeim tíma, og bjuggu við harða samkeppni frá Þjóðverjum. Pasteur tók að rannsaka vandamálin og gaf ölgerðarmönnum ýmis ráð. Hann lagði til að þeir huguðu að hreinleika maltvökvans og loftsins umhverfis. Árangurinn lét ekki á sér standa og hann fékk mörg einkaleyfi eftir það.
Líf sprettur af lífi
Allt frá forneskju höfðu komið fram hinar kynlegustu hugmyndir um tilurð skordýra, orma og annarra lífvera í rotnandi efnum. Til dæmis stærði belgískur efnafræðingur á 17. öld sig af því að hafa framkallað mýs með því að troða óhreinni blússu í hveitikrús!
Í tíð Pasteurs var deilt harkalega meðal vísindamanna um þetta mál. Það var ekki hlaupið að því að standa uppi í hárinu á fylgismönnum kenningarinnar um sjálfkviknun lífs. En Pasteur var viss í sinni sök eftir rannsóknir sínar á gerjun. Hann gerði því tilraunir í því skyni að kveða niður hugmyndina um sjálfkviknun lífs í eitt skipti fyrir öll.
Hann notaði flöskur með svanahálsi í einhverri frægustu tilraun sinni. Næringarvökvi í opinni flösku með venjulegum hálsi smitaðist fljótt af gerlum. En þegar sami næringarvökvi var geymdur í flösku með svanahálsi smitast hann ekki. Hvers vegna?
Skýring Pasteurs var einföld: Á leið sinni um svanahálsinn setjast bakteríurnar í loftinu á yfirborð glersins þannig að loftið er dauðhreinsað þegar það snertir vökvann. Gerlarnir, sem koma fram í opnu flöskunni, kvikna ekki sjálfkrafa í næringarvökvanum heldur berast með loftinu.
Til að sýna fram á hve auðveldlega gerlar berast með lofti gerði Pasteur sér ferð upp á Mer de Glace sem er jökull í frönsku Ölpunum. Uppi í 1800 metra hæð opnaði hann innsiglaðar flöskurnar svo að loft kæmist í þær. Af 20 flöskum kom aðeins fram smit í einni. Þá fór hann að rótum Júrafjalla og endurtók tilraunina. Þar, mun lægra yfir sjávarmáli, smituðust átta flöskur. Þannig sannaði hann að smithætta væri minni í mikilli hæð yfir sjávarmáli vegna þess að þar er loftið hreinna.
Með slíkum tilraunum sýndi Pasteur fram á með sannfærandi hætti að líf sprettur aðeins af lífi. Það kviknar aldrei af sjálfu sér.
Baráttan gegn smitsjúkdómum
Þar eð örverur valda gerjun hugsaði Pasteur sem svo að hið sama hlyti að gilda um smitsjúkdóma. Rannsóknir hans á silkiormasjúkdómum, sem ollu silkiframleiðendum í Suður-Frakklandi alvarlegum búsifjum, sönnuðu að hann hafði rétt fyrir sér. Á fáeinum árum uppgötvaði hann orsök tveggja sjúkdóma og stakk upp á markvissum aðferðum til að velja heilbrigða silkiorma og afstýra sjúkdómsfaröldrum.
Er Pasteur var að rannsaka kóleru í alifuglum veitti hann athygli að kjúklingum varð ekki meint af sýkli, sem hafði verið í ræktun í nokkra mánuði, heldur verndaði hann þá gegn sjúkdómnum. Þar með hafði hann uppgötvað að hann gat gert þá ónæma með veiklaðri mynd sýkilsins.
Pasteur var ekki fyrstur manna til að bólusetja. Englendingurinnn Edward Jenner hafði beitt bólusetningu á undan honum. En Pasteur var fyrstur til að nota sjálfan sýkilinn í veiklaðri mynd í stað þess að nota skyldan sýkil. Honum tókst einnig vel til við bólusetningu gegn miltisbrandi, smitsjúkdómi sem leggst á dýr með jafnheitt blóð svo sem nautgripi og sauðfé.
Eftir þetta hóf hann síðustu baráttu sína og þá frægustu — gegn hundaæði. Enda þótt Pasteur væri það ekki ljóst var hann kominn út á allt annan vígvöll en í baráttunni við bakteríurnar. Nú átti hann í höggi við veirur sem voru ósýnilegar í smásjá.
Hinn 6. júlí 1885 kom móðir með níu ára gamlan dreng á rannsóknarstofu Pasteurs. Drengurinn hafði verið bitinn skömmu áður af óðum hundi. Pasteur var tregur til að hjálpa drengnum þrátt fyrir grátbeiðni móðurinnar. Hann var ekki læknir og átti á hættu að verða ákærður fyrir ólöglega lækningastarfsemi. Auk þess hafði hann enn ekki reynt aðferðir sínar á mönnum. Engu að síður bað hann samstarfsmann sinn, dr. Grancher, að bólusetja drenginn. Hann gerði það með góðum árangri. Af 350 manns, sem fengu meðferð á tæplega einu ári, lést aðeins einn en hann kom of seint til meðferðar.
Á sama tíma var Pasteur tekinn að sinna hreinlæti á spítölum. Fjölmargar sængurkonur dóu ár hvert á fæðingarspítala Parísarborgar af völdum barnsfararsóttar. Pasteur lagði til að beitt væri dauðhreinsiaðferðum og viðhaft strangt hreinlæti, einkum að gætt yrði að því að vera með hreinar hendur. Rannsóknir ensks læknis, Josephs Listers og annarra, sönnuðu síðar að Pasteur hafði verið á réttri braut.
Verðmætt starf
Pasteur lést árið 1895. En hann hafði unnið verðmætt starf sem við njótum góðs af enn þann dag í dag. Þess vegna hefur hann verið kallaður einn af „velgerðarmönnum mannkyns.“ Nafn hans er enn tengt þeim bóluefnum og aðferðum sem hann er yfirleitt viðurkenndur höfundur að.
Pasteur-stofnunin í París, sem sett var á laggirnar meðan Pasteur var uppi til að veita meðferð gegn hundaæði, er enn mjög virt rannsóknarstofnun á sviði smitsjúkdóma. Hún er sérstaklega þekkt fyrir þróun bóluefna og lyfja, og árið 1983 varð hópur vísindamanna á stofnuninni, undir forystu prófessors Lucs Montagniers, fyrstur til að einangra alnæmisveiruna.
Deilan um sjálfkviknun lífs, sem Pasteur blandaði sér í og vann, var ekki aðeins vísindaleg deila. Hún var meira en bara áhugavert málefni sem fáeinir vísindamenn eða menntamenn ræddu sín á milli. Hún hafði miklu meiri þýðingu því að hún tengdist rökum fyrir tilvist Guðs.
François Dagognet, franskur heimspekingur sem sérhæfir sig í vísindum, segir að andstæðingar Pasteurs, „bæði efnishyggjumenn og trúleysingjar, hafi álitið sig geta sannað að einfrumulífverur gætu kviknað við rotnun og sundrun sameinda. Með því gátu þeir afskrifað Guð. En Pasteur áleit enga leið færa frá dauða yfir til lífs.“
Enn þann dag í dag eru allar niðurstöður tilrauna, sögu, líffræði, fornleifafræði og mannfræði á sömu lund og Pasteur sýndi fram á — að líf getur aðeins kviknað af lífi, ekki af lífvana efni. Og sönnunargögnin sýna líka greinilega að lífverur tímgast „eftir sinni tegund“ eins og frásaga Biblíunnar í 1. Mósebók segir. Afkomendurnir eru alltaf sömu ‚tegundar‘ og foreldrarnir. — 1. Mósebók 1:11, 12, 20-25.
Þannig kom Louis Pasteur fram með sterkar sannanir og vitnisburð gegn þróunarkenninguni hvort sem hann gerði sér grein fyrir því eða ekki, og sýndi fram á að það varð að vera til skapari til að líf gæti kviknað á jörðinni. Starf hans endurspeglar það sem sálmaritarinn viðurkenndi auðmjúkur í bragði: „Vitið, að [Jehóva] er Guð, hann hefir skapað oss, og hans erum vér.“ — Sálmur 100:3.
[Mynd á blaðsíðu 26]
Tilraunir Pasteurs afsönnuðu kenninguna um sjálf- kviknun lífs.
[Mynd á blaðsíðu 27]
Tækið hér að ofan var notað til að gerilsneiða vín með því að drepa óæskilegar örverur; merkt með ramma á myndinni að neðan.
[Rétthafi myndar á blaðsíðu 25]
Allar myndir á bls. 25-27: © Institut Pasteur