Kristnir menn og erfðastéttaskipting
Eftir fréttaritara Vaknið! á Índlandi
HVAÐ kemur þér í hug þegar þú heyrir hugtakið „erfðastéttakerfi“? Ef til vill hugsarðu um Indland og þær milljónir manna sem eru án erfðastéttar — stéttleysingjana. Enda þótt erfðastéttakerfið sé hluti hindúatrúarinnar hafa umbótasinnaðir hindúar barist fyrir því að uppræta áhrifin sem það hefur haft á lægri stéttir og stéttleysingja. Hver yrðu þá viðbrögð þín ef þú heyrðir að erfðastéttakerfið væri jafnvel við lýði í „kristnum“ kirkjum?
Hugsanlegur uppruni erfðastéttakerfisins á Indlandi
Skipting manna í þjóðfélagsstéttir, þar sem sumir eru rétthærri en aðrir, er ekki bundin við Indland. Stéttamismunun hefur ríkt í einni eða annarri mynd í öllum heimsálfum. Það sem gerir erfðastéttakerfi Indlands frábrugðið öðrum er að þjóðfélagsleg undirokun var felld inn í trúarkerfi fyrir rösklega 3000 árum.
Enda þótt óvissa ríki um uppruna erfðastéttakerfisins segja sumir heimildarmenn að það eigi rætur að rekja til hinnar fornu siðmenningar Indusdalsins þar sem nú er Pakistan. Fornleifarannsóknir virðast benda til að í hinum svonefndu „arísku þjóðflutningum“ hafi ættflokkar úr norðvestri lagt fyrstu dalbúana undir sig. Í bókinni The Discovery of India kallar Jawaharlal Nehru þetta „fyrsta stórfellda menningarsamrunann,“ og af honum hafi „indversku kynstofnarnir og grundvallarmenning Indverja“ sprottið. En þessi samruni hafði ekki kynþáttajafnrétti í för með sér.
Alfræðiorðabókin The New Encyclopædia Britannica segir: „Hindúar segja skýringuna á fjölgun erfðastétta (jātis, bókstaflega ‚fæðingar‘) þá að meginstéttirnar fjórar eða varna skiptust vegna innbyrðis mægða (sem eru bannaðar í ritum hindúa um dharma, það er að segja heilaga skyldu hvers einstaklings). En kenningasmiðir nútímans hallast að því að erfðastéttirnar hafi sprottið af ólíkum fjölskyldusiðvenjum, kynþáttasérkennum, störfum og atvinnusérhæfingu. Margir fræðimenn efast jafnframt um að hið einfalda varna-kerfi hafi nokkurn tíma verið annað en ímynduð þjóðfélagsleg og trúarleg hugsjón og benda á að hin geysiflókna skipting hindúasamfélags í nærri 3000 stéttir og undirstéttir hafi sennilega verið til staðar í fornöld.“
Mægðir milli stétta áttu sér stað um tíma og minna bar á gömlum fordómum vegna litarháttar. Hinar ströngu reglur um erfðastéttir voru trúarleg framvinda síðari tíma og settar fram í vedaritum og lagasafni hindúaspekingsins Manusar. Brahmanar kenndu að æðri stéttirnar byggju yfir hreinleika frá fæðingu sem aðgreindi þær frá lægri stéttunum. Þeir innrættu súdrum, fólki af lægstu stétt, þá trú að auvirðileg störf þeirra væru refsing frá Guði fyrir vond verk í fyrri tilveru og sérhver tilraun til að rjúfa stéttamörkin myndi gera þá að stéttleysingjum. Maður af æðri erfðastétt gat glatað stéttarstöðu sinni ef hann giftist eða sæti til borðs með súdra, notaði sama vatnsból og hann eða færi inn í sama musteri.
Erfðastéttir og nútíminn
Eftir að Indland öðlaðist sjálfstæði árið 1947 sömdu yfirvöld stjórnarskrá þar sem stéttamismunun varð refsiverð. Stjórnvöld tóku tillit til aldalangrar mismununar gagnvart lágstéttarhindúum og settu lög þess efnis að stjórnarembætti, stöður sem kosið væri í og sæti í fræðslustofnunum skyldu frátekin handa lægstu stéttum og ættflokkum — stéttleysingjunum og hinum ósnertanlegu. Hugtakið „dalítar“ er notað yfir þessa hópa hindúa og merkir „kraminn, undirokaður.“ Í nýlegri dagblaðafyrirsögn stóð hins vegar: „Kristnir dalítar heimta að fá sitt [sinn skerf af atvinnutækifærum og háskólamenntun].“ Hvernig hefur þetta komið til?
Hin miklu fríðindi, sem stjórnvöld veita lágstéttarhindúum, byggjast á óréttlætinu sem þeir hafa mátt þola vegna erfðastéttakerfisins. Hugsunin var því sú að trúarbrögð, sem hefðu ekki búið við erfðastéttakerfi, gætu ekki vænst þessara fríðinda. En kristnir dalítar segja að vegna þess að þeir tilheyrðu áður lágstéttum eða hinum ósnertanlegu þurfi þeir líka að þola mismunun, ekki einasta frá hindúum heldur einnig ‚kristnum trúbræðrum‘ sínum. Er það rétt?
Trúboðar kristna heimsins og erfðastéttaskipting
Á nýlendutímabilinu sneru portúgalskir, franskir og breskir trúboðar fjölda hindúa til kaþólskrar trúar og mótmælendatrúar. Fólk af öllum erfðastéttum varð kristið að nafninu til. Sumir prédikarar löðuðu til sín brahmanana en aðrir hina ósnertanlegu. Hvaða áhrif hafði kennsla og framferði trúboðanna á hinar rótgrónu hugmyndir manna um erfðastéttir?
Rithöfundurinn Nirad Chaudhuri segir að meðan Bretar réðu ríkjum á Indlandi „hafi indversk sóknarbörn ekki getað setið hjá Evrópubúum. Kristnin gat ekki dulið stéttavitundina og kynþáttayfirburðina sem yfirráð Breta á Indlandi grundvölluðust á.“ Trúboði nokkur sýndi svipað hugarfar árið 1894 þegar hann gaf stjórn trúboðsfélags í Bandaríkjunum skýrslu og sagði að með því að snúa lágstéttarfólki til trúar væri verið að „sópa rusli inn í kirkjuna.“
Það er aðallega ímynduðum kynþáttayfirburðum fyrstu trúboðanna og samruna brahmanískrar hugsunar við kenningar kirkjunnar að kenna að erfðastéttaskipting lifir góðu lífi meðal margra „kristinna“ manna á Indlandi.
Erfðastéttir í kirkjum nú á tímum
Kaþólski erkibiskupinn George Zur sagði í ávarpi á ráðstefnu kaþólskra biskupa á Indlandi árið 1991: „Bæði hástéttarhindúar og kristnir menn af hástétt koma fram við trúskiptinga af hópi stéttleysingja og hinna ósnertanlegu eins og lágstéttarfólk. . . . Þeim eru ætlaðir afmarkaðir staðir í sóknarkirkjum og kirkjugörðum. Mægðir milli stétta eru litnar hornauga. . . . Erfðastéttaskipting er í algleymingi meðal klerkanna.“
M. Azariah biskup Suður-Indlandskirkju, sem er mótmælendakirkja, sagði í bókinni The Un-Christian Side of the Indian Church: „Þannig er kristnum [dalítum] að ósekju mismunað og þeir kúgaðir af trúbræðrum sínum í hinum ýmsu kirkjudeildum, einungis vegna þess að tilviljun réði hvar þeir fæddust, jafnvel þótt þeir hafi verið kristnir í tvo, þrjá eða fjóra ættliði. Kristnir menn af hástétt, sem eru í minnihluta í kirkjunni, eru haldnir stéttarfordómum kynslóð fram af kynslóð án þess að kristin trú og trúariðkun hafi nokkur áhrif þar á.“
Mandal-nefndin, stjórnskipuð nefnd til að rannsaka vandamál bágstöddu stéttanna á Indlandi, komst að raun um að þeir sem játuðu kristni í Kerala skiptust í „ýmsa minnihlutahópa eftir erfðastéttauppruna. . . . Jafnvel eftir að lágstéttarfólk hafði skipt um trú var áfram komið fram við það eins og haríjanaa . . . Sýrlensk sóknarbörn og púlajar í sömu kirkju héldu trúarlega helgisiði út af fyrir sig í aðgreindum byggingum.“
Í frétt í dagblaðinu Indian Express í ágúst 1996 um kristna dalíta sagði: „Í Tamil Nadu búa þeir aðgreindir frá hástéttunum. Í Kerala eru þeir yfirleitt landlausir verkamenn sem vinna fyrir kristna Sýrlendinga og aðra landeigendur af efri stéttum. Kristnir dalítar og Sýrlendingar mægjast hvorki né borða saman. Oft á tíðum tilbiðja dalítar í eigin kirkjum, svonefndum ‚púlaja-kirkjum‘ eða ‚paraja-kirkjum.‘“ Þetta eru neðristéttarheiti. Enska orðið fyrir „paraja“ er „pariah“ og merkir úrhrak.
Viðbrögð við óánægju
Ýmis leikmannasamtök á borð við FACE (samtök gegn arðráni kristinna manna) sækjast eftir fríðindum frá stjórnvöldum til handa kristnum dalítum. Þeim er mest í mun að kristnir trúskiptingar fái efnahagsaðstoð. Aðrir hafa hins vegar áhyggjur af meðferðinni sem fólk sætir innan kirkjunnar. Hundrað og tuttugu manns skrifuðu undir bréf til Jóhannesar Páls páfa annars og lýstu yfir að þeir hefðu „tekið við kristinni trú til að losna úr ánauð erfðastéttakerfisins“ en fái ekki að koma í þorpskirkjuna eða taka þátt í guðsþjónustum. Þeir neyddust til að byggja hús sín við eina götu sem engir kristnir menn af hástétt — og enginn sóknarprestur — stíga nokkurn tíma fæti á! Kaþólsk kona, sem átti í svipuðum vandræðum, sagði: „Það skiptir mig vissulega máli að sonur minn komist í góðan framhaldsskóla. En það er enn mikilvægara að [kaþólskir] trúbræður hans virði hann sem jafningja sinn.“
Þótt sumir reyni að bæta hlutskipti kristinna dalíta er þolinmæði margra á þrotum. Samtök á borð við Vishwa Hindu Parishad (Heimssamtök hindúa) eru að reyna að snúa kristnum trúskiptingum aftur til hindúatrúar. Dagblaðið Indian Express skýrði frá athöfn, sem 10.000 manns sóttu, þar sem rösklega 600 slíkar „kristnar“ fjölskyldur tóku hindúatrú á ný.
Hin sannkristna leið
Ef trúboðar kirknanna hefðu boðað kenningar Krists um kærleikann hefðu ekki verið til neinir „kristnir brahmanar,“ „kristnir dalítar“ eða „kristnir parajar.“ (Matteus 22:37-40) Þá væru engar aðgreindar kirkjur fyrir dalíta eða nokkur stéttaaðskilnaður við borðhald. Hver er þessi kenning Biblíunnar sem hafin er yfir stéttamismun og gerir menn frjálsa?
„Því að [Jehóva] Guð yðar, hann er Guð guðanna . . . , sem eigi gjörir sér mannamun og þiggur eigi mútur.“ — 5. Mósebók 10:17.
„Ég áminni yður, bræður, í nafni Drottins vors Jesú Krists, að þér séuð allir samhuga og ekki séu flokkadrættir á meðal yðar, heldur að þér séuð fullkomlega sameinaðir í sama hugarfari og í sömu skoðun.“ — 1. Korintubréf 1:10.
„Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“ — Jóhannes 13:35.
Biblían kennir að Guð hafi skapað allt mannkyn af einum manni. Hún segir líka að allir afkomendur þessa eina manns eigi að ‚leita Guðs og finna hann, þótt ekki sé hann langt frá neinum af oss.‘ — Postulasagan 17:26, 27.
Þegar stéttaskipting fór að gera vart við sig í frumkristna söfnuðinum fordæmdi innblásni ritarinn Jakob það harðlega og sagði: „Hafið þér . . . ekki mismunað mönnum og orðið dómarar með vondum hugsunum?“ (Jakobsbréfið 2:1-4) Sannkristin trú leyfir ekki stéttaskiptingu í nokkurri mynd.
Nýrrar hugsunar þörf
Milljónir manna hafa gerst vottar Jehóva og verið fúsar til að breyta fyrri trúarskoðunum og hegðun sem þær höfðu tileinkað sér hjá fjölmörgum ólíkum trúarbrögðum. Kenningar Biblíunnar hafa losað huga þeirra og hjarta við stéttarhroka og stéttarvitund, hvort heldur þessar tilfinningar hafa átt rætur að rekja til nýlendukúgunar, kynþáttar, aðskilnaðarstefnu eða erfðastéttakerfisins. (Rómverjabréfið 12:1, 2) Þeir hafa skýran skilning á því sem Biblían kallar ‚nýja jörð þar sem réttlæti mun búa.‘ Það eru stórfenglegar framtíðarhorfur fyrir alla þjáða íbúa jarðar! — 2. Pétursbréf 3:13.
[Neðanmáls]
a Hugtak sem M. K. Gandhi bjó til um lágstéttirnar. Það merkir „börn Harí“ sem er eitt af nöfnum guðsins Vishnú.
[Innskot á blaðsíðu 25]
„Guð fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim, sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.“ — Postulasagan 10:34, 35.
[Rammi/Mynd á blaðsíðu 23]
Hvernig er það?
Já, hvernig er að verða fyrir því að fólk, sem segist kristið, komi fram við mann eins og stéttleysingja? Ættfeður kristins manns í Kerala tilheyrðu lágstétt hindúa er nefnist cheramar eða púlaja áður en þeir skiptu um trú. Hann segir frá atviki sem átti sér stað í heimahéraði hans fyrir nokkrum árum:
Mér var boðið í brúðkaup og voru allmargir gestanna sóknarbörn í kristnum kirkjum. Þegar þeir sáu mig í veislunni varð uppi fótur og fit og þeir sem tilheyrðu sýrlensku rétttrúnaðarkirkjunni sögðust ekki vera áfram í veislunni nema ég færi þaðan þar eð þeir vildu ekki sitja til borðs með púlaja. Þegar faðir brúðarinnar neitaði að láta undan afarkostum þeirra gengu þeir fylktu liði úr veislunni. Eftir að þeir fóru var maturinn borinn fram. En þeir sem þjónuðu til borðs neituðu að fjarlægja mjölbananalaufblaðið sem ég hafði borðað af og hreinsa borðið mitt.
[Mynd]
Dæmigerð kirkja á Suður-Indlandi sem aðeins lágstéttarfólk sækir.