Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g99 8.1. bls. 11-15
  • Tungumál sem þú sérð

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Tungumál sem þú sérð
  • Vaknið! – 1999
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Séð en ekki heyrt
  • Mörg tungumál
  • Að lesa án þess að hafa heyrt
  • Að skilja heim heyrnarlausra
  • Að hlusta með augunum
    Vaknið! – 1999
  • Metum mikils heyrnarlaus trúsystkini okkar
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2009
  • Guði er annt um heyrnarlausa
    Fleiri viðfangsefni
  • Jehóva hefur ‚látið ásjónu sína lýsa yfir þá‘
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2009
Sjá meira
Vaknið! – 1999
g99 8.1. bls. 11-15

Tungumál sem þú sérð

HVERNIG lærðir þú móðurmálið? Eflaust með því að heyra fjölskyldu og vini tala þegar þú varst lítill. Flestir læra tungumál af því að heyra aðra tala, og þeir tjá sig með töluðum orðum. Heyrandi fólk æfir sig ósjálfrátt fyrir fram í huganum hvernig það ætli að koma hugsun sinni og hugmyndum á framfæri í töluðum orðum. En getur barn, sem fæðist heyrnarlaust eða heyrnarskert, mótað hugsanir og hugmyndir á einhvern annan hátt? Er til eitthvert mál sem menn geta notað til að tjá bæði hlutstæðar og óhlutstæðar hugmyndir án þess að gefa frá sér nokkurt hljóð?

Séð en ekki heyrt

Hæfni mannshugans til að tileinka sér tungumál og beita því er undraverð. En heyrnarlausir þurfa að nota augun en ekki eyrun til að læra tungumál. Sem betur fer er tjáningarþörf mannsins svo sterk að hann finnur leiðir til að yfirstíga allar hindranir sem verða á vegi hans. Þessi þörf hefur gert að verkum að heyrnarlausir um heim allan hafa þróað með sér mörg táknmál. Í samskiptum hver við annan, bæði í fjölskyldum heyrnarlausra, sérskólum og annars staðar í samfélaginu, hafa heyrnarlausir þróað með sér flókið mál sem er sérsniðið fyrir sjónina — táknmálið.

Carl, sem er búsettur í Bandaríkjunum, lærði táknmál af heyrnarlausum foreldrum sínum.a Þótt hann hafi verið heyrnarlaus frá fæðingu gat hann ungur að aldri nefnt hluti, raðað táknum saman í setningar og tjáð óhlutstæðar hugsanir á amerísku táknmáli eða ASL eins og það er skammstafað. Ef heyrnarlaus börn eiga heyrnarlausa foreldra, sem tala táknmál, byrja þau að jafnaði að mynda fyrstu táknin 10 til 12 mánaða gömul. Bókin A Journey Into the Deaf-World bendir á að „málvísindamenn viðurkenni að hæfileikinn til að tileinka sér tungumál og kenna börnum sínum það eigi sér djúpar rætur í mannshuganum. Litlu máli skiptir hvort þessi hæfileiki birtist í táknmáli eða talmáli.“

Sveta er fædd í Rússlandi í þriðju kynslóð heyrnarlausrar fjölskyldu. Hún og bróðir hennar lærðu rússneskt táknmál (RT). Þegar hún innritaðist þriggja ára gömul í forskóla fyrir heyrnarlausa hafði hún þegar allgóðan táknmálsþroska. „Hin heyrnarlausu börnin kunnu ekki táknmál og lærðu af mér,“ segir Sveta. Áður fyrr var fremur óalgengt að heyrandi foreldrar heyrnarlausra barna töluðu táknmál. Yngri börn lærðu oft táknmál af eldri heyrnarlausum börnum í skólanum svo að þau gátu vandræðalaust talað hvert við annað.

Nú er hins vegar nokkuð algengt að heyrandi foreldrar læri táknmál með heyrnarlausum börnum sínum. Börnin hafa þá náð góðu valdi á táknmáli áður en þau hefja skólagöngu. Foreldrar Andrews í Kanada, sem eru heyrandi, gerðu það. Þeir lærðu táknmál og töluðu við hann á táknmáli frá unga aldri. Með því var lagður góður grundvöllur sem hann gat byggt á um ókomin ár. Nú getur öll fjölskyldan talað saman um hvað sem er á táknmáli.

Heyrnarlausir geta mótað hugsanir, jafnt hlutstæðar sem óhlutstæðar, án þess að hugsa á talmáli. Heyrnarlausir hugsa á táknmáli, eins og heyrandi fólk hugsar í orðum.

Mörg tungumál

Samfélög heyrnarlausra um heim allan hafa annaðhvort búið til sitt eigið táknmál eða tekið upp þætti úr öðrum táknmálum. Orðaforði ameríska táknmálsins var að nokkru leyti sóttur í franskt táknmál fyrir 180 árum. Táknunum var bætt við það táknmál, sem þá var talað í Bandaríkjunum, og úr varð það sem nú heitir amerískt táknmál. Táknmál þróast á löngum tíma, og fágast og breytist með hverri kynslóð.

Táknmál fylgja yfirleitt ekki þjóðfélagslegri og landfræðilegri útbreiðslu talmáls. Á Púertóríkó er til dæmis talað amerískt táknmál þótt talmálið sé spænska. Og þótt enska sé töluð bæði á Englandi og Bandaríkjunum er verulegur munur á bresku táknmáli og amerísku. Mexíkóska táknmálið er líka frábrugðið þeim mörgu táknmálum sem töluð eru í Rómönsku-Ameríku.

Sá sem kynnir sér táknmál getur ekki annað en hrifist af blæbrigðum þess og tjáningarauðgi. Það er hægt að lýsa flestum hugsunum, hugmyndum og málefnum á táknmáli. Sem betur fer eru gefin út æ fleiri rit handa heyrnarlausum á myndböndum þar sem notað er táknmál til að segja sögur, lesa ljóð, lýsa sögulegum viðburðum og kenna biblíusannindi. Táknmálskunnátta fer vaxandi víða um lönd.

Að lesa án þess að hafa heyrt

Heyrandi fólk notar yfirleitt heyrnarminnið þegar það les. Það man hvernig orðin hljóma og skilur efnið að miklu leyti af því að það hefur heyrt orðin áður. Ritmálsorð flestra tungumála hvorki líkjast né lýsa hugmyndunum sem þau standa fyrir. Margir heyrandi læra þetta handahófskennda ritmálskerfi með því að tengja rittáknin talmálshljóðunum, þannig að þeir geta skilið það sem þeir lesa. En reyndu að ímynda þér að þú hafir aldrei á ævinni heyrt hljóð, orð eða talað mál! Það hlýtur að vera erfitt og ergjandi að læra handahófskennt ritmál einhvers talmáls sem maður getur ekki heyrt. Það er því skiljanlega mikil þraut fyrir heyrnarlausa að lesa slíkt lesmál, einkum fyrir þá sem hafa verið heyrnarlausir frá fæðingu eða snemma í bernsku.

Fræðslumiðstöðvar fyrir heyrnarlaus börn víða um heim hafa komist að raun um gildi þess að tala táknmál við börnin snemma á málþroskaskeiðinu. (Sjá rammagreinar á bls. 12 og 14.) Reynslan hefur sýnt að heyrnarlaus börn, sem kynnast táknmáli á unga aldri og fá þar með góða undirstöðu í málþroska, standa sig betur í námi og samfélaginu og eiga auðveldara með að tileinka sér ritmál síðar.

Fræðslunefnd heyrnarlausra, sem starfar á vegum Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, segir: „Ótækt er að menn haldi áfram að vanrækja táknmálið eða forðist að taka virkan þátt í mótun þess í fræðsluáætlunum fyrir heyrnarlausa.“ Því má þó ekki gleyma að full þátttaka beggja foreldra í þroska heyrnarlauss barns skiptir gríðarlegu máli, og gildir þá einu hvers konar menntun foreldrarnir velja handa því. — Sjá greinina „To Reach My Child, I Learned Another Language“ (Ég lærði nýtt tungumál til að ná til barnsins) í Vaknið! (enskri útgáfu) 8. nóvember 1996.

Að skilja heim heyrnarlausra

Heyrnarlausir á fullorðinsaldri viðurkenna oft að sem börn hafi þeir átt þá ósk heitasta að geta talað við foreldra sína. Jack, sem er heyrnarlaus, reyndi að tala við aldraða móður sína þegar hún lá banaleguna. Hún reyndi allt hvað hún gat til að segja honum eitthvað en gat ekki skrifað það og kunni ekki táknmál. Síðan féll hún í dá og lést svo. Tilhugsunin um þessi síðustu augnablik sótti lengi á Jack. Hann ráðleggur foreldrum heyrnarlausra barna: „Ef þið viljið eiga greið og innihaldsrík tjáskipti við barnið, og viljið eiga gagnkvæm hugmynda-, tilfinninga- og kærleikstengsl við það, talið þá táknmál. . . . Það er um seinan fyrir mig. Er það um seinan fyrir þig?“

Heyrnarlausir hafa lengi verið misskildir. Sumir hafa haldið að heyrnarlausir vissu næstum ekkert af því að þeir heyrðu ekkert. Foreldrar hafa ofverndað heyrnarlaus börn og varla þorað að hleypa þeim út í heiminn fyrir utan. Í sumum menningarsamfélögum hafa heyrnarlausir ranglega verið kallaðir „daufdumbir,“ „mállausir“ eða eitthvað í þá áttina, þótt yfirleitt sé ekkert að röddinni. Þeir heyra bara ekki. Og sumir hafa haldið að táknmál sé frumstætt eða lakara en talmál. Það er ekkert skrýtið að þessi vanþekking skuli hafa valdið því að heyrnarlausum hafi stundum fundist þeir vera kúgaðir og misskildir.

Joseph ólst upp í Bandaríkjunum á fjórða áratugnum og var sendur í sérskóla fyrir heyrnarlausa þar sem bannað var að tala táknmál. Honum og skólafélögum hans var oft refsað fyrir að nota tákn, jafnvel þótt þeir skildu alls ekki hvað kennararnir sögðu. Þeir þráðu einfaldlega að gera sig skiljanlega og skilja aðra! Sums staðar í heiminum eru menntunarmöguleikar heyrnarlausra barna litlir svo að þau fá litla skólagöngu. Fréttaritari Vaknið! í Vestur-Afríku segir til dæmis: „Lífið er erfitt og ömurlegt hjá flestum heyrnarlausum í Afríku. Líklega eru fáir fatlaðir jafnvanræktir og misskildir og þeir.“

Okkur er öllum sameiginlegt að vilja að aðrir skilji okkur. Því miður gætir sterkrar tilhneigingar hjá fólki að einblína á það að heyrnarlausir „geti ekki“ þetta eða hitt, og það blindar marga fyrir raunverulegum hæfileikum þeirra. Margir heyrnarlausir telja sig hins vegar færa í flestan sjó. Þeir geta tjáð sig reiprennandi hver við annan, byggt upp sjálfsvirðingu, staðið sig í námi og spjarað sig í samfélaginu og trúarlífinu. Því miður hefur skilningsleysi og ill meðferð af hálfu heyrandi fólks orðið til þess að sumir heyrnarlausir vantreysta því. En það er öllum til góðs þegar heyrandi fólk leggur sig fram um að skilja menningu heyrnarlausra og táknmál þeirra og viðurkenna að þeim séu allir vegir færir.

Ef þig langar til að læra táknmál skaltu muna að tungumál byggist á því hvernig við hugsum og vinnum úr hugmyndum. Til að ná góðum tökum á táknmáli þarftu að hugsa á táknmáli. Þess vegna verður maður ekki fær í táknmáli með því eingöngu að læra táknin af orðabók. Hví ekki að læra táknmál af þeim sem nota það dags daglega, það er að segja heyrnarlausum? Ef þú lærir nýtt tungumál með hjálp þeirra sem tala það lærir þú að hugsa og vinna úr hugmyndum eins og þeim er eðlilegt.

Heyrnarlausir um heim allan eru að víkka sjóndeildarhringinn með hjálp táknmálsins. Sjáðu sjálfur hvernig þeir nota hið auðuga mál sitt.

[Neðanmáls]

a Áætlað er að í Bandaríkjunum einum sé um ein milljón heyrnarlausra sem hafi „eigið tungumál og menningu.“ Flestir eru fæddir heyrnarlausir. Auk þess er talið að 20 milljónir manna séu heyrnarskertar en tjái sig aðallega á talmáli. — Harlan Lane, Robert Hoffmeister og Ben Bahan: A Journey Into the Deaf-World.

[Rammagrein á blaðsíðu 12]

„New York kennir heyrnarlausum fyrst táknmál, síðan ensku“

Þessi fyrirsögn birtist í dagblaðinu The New York Times 5. mars 1998. Þar skrifaði Felicia R. Lee: „Eini ríkisskólinn í borginni, sem kennir heyrnarlausum, verður endurbættur þannig að kennslan fari aðallega fram á táknmáli. Þessi breyting er talin marka þáttaskil í menntun heyrnarlausra nemenda.“ Hún segir að margir kennslufræðingar bendi á rannsóknir sem „sýni að aðalmál heyrnarlausra sé sjónrænt mál en ekki hljóðrænt, og þegar skólar noti þá aðferð, sem heyrnarlausir kjósi, það er að segja amerískt táknmál, skili það sér í betri menntun heyrnarlausra en þeir fá í öðrum skólum.

Þeir telja að það eigi að fara með heyrnarlausa nemendur sem tvítyngda nemendur, ekki fatlaða.“

Prófessor Harlan Lane við Northeastern-háskóla í Boston segir: „Ég tel að [umræddur skóli í New York] sé í fararbroddi.“ Hann sagði í viðtali við Vaknið! að hið endanlega markmið sé að kenna ensku sem annað tungumál, það er að segja ritmál.

[Rammagrein á blaðsíðu 13]

Táknmál er tungumál

Sumt heyrandi fólk hefur ranglega ímyndað sér að táknmál sé eins konar flókinn látbragðsleikur. Það hefur jafnvel verið kallað myndmál. Enda þótt andlit, bolur, hendur og umhverfi sé notað í táknmáli bera flest táknin lítinn eða engan keim af hugmyndunum sem þau tákna. Í amerísku táknmáli (ASL) er táknið, sem merkir „að búa til,“ gert með því að kreppa báða hnefa, leggja annan ofan á hinn og snúa. Þótt orðið sé algengt er merking táknsins ekki augljós fyrir þann sem ekki kann táknmál. Í rússnesku táknmáli (RT) er sögnin „að þurfa“ táknuð með báðum höndum þannig að þumalfingur snertir baugfingur og hendurnar eru síðan hreyfðar saman í hringi. (Sjá myndir.) Í íslensku táknmáli (ÍT) eru notuð önnur tákn um hvort tveggja. Mörg óhlutstæð hugtök eru þannig að ekki er hægt að tjá þau með lýsandi tákni. Hins vegar er hægt að nota lýsandi tákn fyrir áþreifanlega hluti eins og „hús“ og „barn.“ — Sjá myndir.

Annar mælikvarði á tungumál er að það hafi skipulegan orðaforða og málfræði sem er viðurkennd af ákveðnu samfélagi. Táknmál uppfylla þetta skilyrði. Í ASL er til dæmis byrjað á aðalhugsun setningarinnar og nánari skýringar koma svo á eftir. Það er líka sameiginlegt einkenni margra táknmála að raða hlutum í tímaröð.

Svipbrigði gegna einnig málfræðilegu hlutverki, eins og til dæmis til að greina milli spurningar og skipunar, og milli skilyrðissetningar og einfaldrar fullyrðingar eða umsagnar. Af því að táknmálið er sjónrænt hafa þróast með því þessi sérkenni og mörg önnur.

[Myndir á blaðsíðu 13]

„Að búa til“ á ASL

„Að þurfa“ á RT

„Hús“ á ASL og ÍT

„Barn“ á ASL og ÍT

[Rammagrein á blaðsíðu 14]

Raunveruleg tungumál

„Margir halda ranglega að táknmál sé fólgið í látbragði og bendingum, það sé fundið upp af kennurum og kennslufræðingum eða að það sé táknmál talmálsins sem talað er í samfélaginu. Alls staðar þar sem til er einhver hópur heyrnarlausra er til táknmál, og hvert táknmál er sérstakt, heilsteypt tungumál þar sem beitt er sams konar málfræðikerfi og þekkist í talmáli um heim allan.“

Skólar í Nikaragúa „einbeittu sér að því að æfa [heyrnarlaus] börn í varalestri og tali, og árangurinn var alltaf ömurlegur. En það skipti ekki máli. Á leikvöllum og í skólavögnum fundu börnin upp sitt eigið táknmál . . . Áður en langt um leið varð til það sem nú er kallað Lenguaje de Signos Nicaragüense.“ Ný kynslóð heyrnarlausra barna hefur nú þróað liprara mál sem kallað er Idioma de Signos Nicaragüense. — Steven Pinker: The Language Instinct.

[Myndir á blaðsíðu 15]

Þannig er hægt að segja á ASL: „Hann fór fyrst í búð og svo í vinnu.“

1 Búð

2 hann

3 fara til

4 búinn

5 fara til

6 vinna

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila