Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g99 8.10. bls. 9-11
  • Loksins örugg framtíð

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Loksins örugg framtíð
  • Vaknið! – 1999
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Það sem að baki liggur
  • Alþjóðasamvinna undir heimsstjórn
  • „Rósemi og öruggleiki“
  • Hvað segir Biblían um kjarnorkustríð?
    Fleiri viðfangsefni
  • Kjarnorkuváin fjarlægð fyrir fullt og allt!
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1994
  • Kjarnorkuváin er ekki liðin hjá
    Vaknið! – 1999
  • Hver getur komið á varanlegum friði?
    Vaknið! – 1996
Sjá meira
Vaknið! – 1999
g99 8.10. bls. 9-11

Loksins örugg framtíð

„Öll jörðin nýtur nú hvíldar og friðar, fagnaðarópin kveða við.“ — JESAJA 14:7.

„VIÐ erum stórmenni í kjarnorkumálum en smábörn í siðferðismálum. Við vitum meira um stríð en frið og meira um dráp en líf.“ Það var bandarískur hershöfðingi sem sagði þetta árið 1948, og orðin minna á þá ábendingu Biblíunnar að „einn maðurinn drottnar yfir öðrum honum til ógæfu.“ (Prédikarinn 8:9) Og þegar menn eru vopnaðir kjarnorkusprengjum geta þeir valdið meðbræðrum sínum meiru en ógæfu því að þeir geta hreinlega tortímt þeim!

Margir fallast á að það sé siðferðilega rangt að eiga og beita kjarnavopnum. Til dæmis er haft eftir George Lee Butler, fyrrverandi hershöfðingja í bandaríska flughernum: „Það eitt að eiga kjarnavopn í vopnabúri sínu sendir í sífellu þau skilaboð að við getum hugsað okkur þær aðstæður . . . að við getum einhvern veginn réttlætt það að þessu vopni sé beitt. Það er hreinlega rangt.“

Engu að síður segir breski dálkahöfundurinn Martin Woollacott: „Kjarnavopn hafa sama aðdráttarafl áfram, hvað svo sem hugmyndafræðingar og siðaprédikarar segja um tilgangsleysi þeirra og siðleysi. Ríkisstjórnir trúa að þær þarfnist kjarnavopna af eðlilegum öryggisástæðum og þær ríghalda einnig í þau af því að þau búa vafalaust yfir einhverju illu undraafli sem stjórnmálamenn og hermenn þekkja og vilja hafa.“

Einhvern veginn hefur mönnum tekist að afstýra kjarnorkustyrjöld síðastliðna fimm áratugi. Hins vegar hafa óteljandi þúsundir manna fallið fyrir hefðbundnum vopnum á sama tímabili. Þegar litið er á frammistöðu mannsins hingað til er ekki nema rökrétt að búast við að þessum ógurlegu kjarnavopnum verði beitt fyrr eða síðar.

Það sem að baki liggur

Er hægt að vinna bug á stríðshneigð mannsins? Sumir halda því fram að stríð stafi af heimsku, eigingirni og árásarhneigð á villigötum. „Ef þetta eru meginorsakir styrjalda, þá hlýtur útrýming styrjalda að byggjast á því að upplýsa og göfga manninn,“ segir prófessor Kenneth Waltz.

Aðrir segja að orsaka styrjalda sé að leita í því hvernig alþjóðastjórnmál eru uppbyggð. Átök séu óhjákvæmileg af því að hvert einasta fullvalda ríki keppist við að verja og efla eigin hagsmuni. Þar eð engin örugg og einföld leið sé til að setja niður ágreining hljóti að brjótast út stríð. William E. Burrows og Robert Windrem segja í bók sinni, Critical Mass, að „stjórnmálin séu örðugasti hjallinn. Það er ekki hægt að koma á neinu áhrifaríku stjórntæki nema það sé pólitískur vilji fyrir því að stöðva útbreiðslu gereyðingarvopna eða jafnvel draga úr henni.“

Sem dæmi má nefna hinar óslitnu samningaviðræður um algert bann við tilraunum með kjarnavopn. Tímaritið Guardian Weekly kallar þær „ákaft prútt milli kjarnorkuveldanna og þeirra ríkja sem ráða nú þegar yfir kjarnavopnum án þess að viðurkenna það eða ráða yfir tækni til að koma sér upp kjarnavopnum á skömmum tíma.“ Viðurkennt er í sömu grein að „hvorugur [hópurinn] hafi nokkur áform um að leggja niður vopnin eða tæknina til að smíða þau, eða afsala sér möguleikanum á að bæta hvort tveggja.“

Augljóst er að alþjóðlegt samstarf þarf að koma til ef takast á að útrýma öllum ógnum af völdum kjarnavopna. Bókin Critical Mass segir: „Gagnkvæma gereyðingarhugsunin þarf alls staðar að víkja fyrir gagnkvæmu trausti, . . . ella hljótast af stórhörmungar fyrr eða síðar.“ Því miður eru alþjóðasamskipti og samningaviðræður oft keimlíkar því sem spámaðurinn Daníel lýsti fyrir 26 öldum: „[Þeir] tala flærðarsamlega að hinu sama borði.“ — Daníel 11:27.

Alþjóðasamvinna undir heimsstjórn

En Biblían fullvissar okkur um að Guð ætli að koma á alþjóðasamvinnu undir dugmikilli heimsstjórn. Milljónir manna hafa óafvitandi beðið um þessa stjórn í Faðirvorinu: „Til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ (Matteus 6:10) Ríki er sama og stjórn, og það er Friðarhöfðinginn, Jesús Kristur, sem heldur um stjórnvölinn í Guðsríki. „Mikill skal höfðingjadómurinn verða og friðurinn engan enda taka,“ segir Biblían. „Vandlæting [Jehóva] allsherjar mun þessu til vegar koma.“ (Jesaja 9:6, 7) Því er lofað að þessi stjórn í höndum Jesú ‚knosi og að engu geri öll þessi ríki,‘ það er að segja mannastjórnirnar. — Daníel 2:44.

Þessi heimsstjórn veitir mannkyni sannan frið og öryggi, en ekki með kjarnorkuvopnafælingu eða ótraustum afvopnunarsamningum. Sálmur 46:10 spáir því að Jehóva Guð ‚stöðvi styrjaldir til endimarka jarðar, brjóti bogann, slái af oddinn og brenni skjöldu í eldi.‘ Það dugir ekkert hálfkák. Guðsríki í höndum Krists lætur sér ekki nægja að fækka kjarnavopnum heldur eyðir þeim algerlega ásamt öllum öðrum stríðstólum.

Engin kjarnorkuvá vofir þá yfir mannkyni því að það verða engin risaveldi til, engar óstýrilátar þjóðir og engir hryðjuverkamenn. Friðurinn verður raunverulegur: „Hver mun búa undir sínu víntré og undir sínu fíkjutré og enginn hræða þá. Því að munnur [Jehóva] allsherjar hefir talað það.“ Þessi hrífandi orð eru orð Guðs sem ekki lýgur. — Míka 4:4; Títusarbréfið 1:2.

Samkvæmt Sálmi 4:9 er sannan frið og öryggi aðeins að finna innan fyrirkomulags Jehóva Guðs: „Í friði leggst ég til hvíldar og sofna, því að þú, [Jehóva], lætur mig búa óhultan í náðum.“ Eins og mannkynssagan hefur sýnt með átakanlegum hætti eru öll fyrirheit um ‚frið og öryggi‘ fölsk nema þau sem stjórn Jehóva gefur. — Samanber 1. Þessaloníkubréf 5:3.

„Rósemi og öruggleiki“

En hvað um árásareðli mannsins? Biblían segir að ‚byggjendur jarðríkis læri réttlæti.‘ (Jesaja 26:9) Þessi kennsla í réttlæti mun hafa djúpstæð áhrif á mannlegt eðli og heimsástandið: „Ávöxtur réttlætisins skal vera friður, og árangur réttlætisins rósemi og öruggleiki að eilífu.“ (Jesaja 32:17) Árásarhneigð og ofbeldishvöt víkur fyrir náungakærleika og umhyggju fyrir almannaheill. Jarðarbúar „munu smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum. Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð, og ekki skulu þær temja sér hernað framar.“ — Jesaja 2:4.

Jesaja boðar með spádómlegu orðfæri að menn með dýrslegar hvatir taki breytingu. Hann talar um þann tíma þegar „jörðin er full af þekkingu á [Jehóva].“ Það hefur í för með sér að „þá mun úlfurinn búa hjá lambinu og pardusdýrið liggja hjá kiðlingnum, kálfar, ung ljón og alifé ganga saman og smásveinn gæta þeirra. . . . Hvergi á mínu heilaga fjalli munu menn illt fremja eða skaða gjöra.“ — Jesaja 11:6-9.

Trú votta Jehóva á þessi fyrirheit Guðs hefur gert þá bjartsýna. Þegar við horfum til framtíðar sjáum við ekki fyrir okkur sviðna jörð eftir kjarnorkubál heldur sjáum við uppfyllast loforð Biblíunnar í Sálmi 37:29: „Hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur.“ Sumir kalla það kannski barnalegt og óraunsætt að trúa þessu. En hverjir eru barnalegir í raun? Þeir sem trúa á loforð Guðs eða þeir sem gleypa við innantómum loforðum stjórnmálamanna? Svarið er augljóst þeim sem unna friði í raun og veru.a

[Neðanmáls]

a Vottar Jehóva hafa hjálpað milljónum manna að tileinka sér vonarboðskap Biblíunnar. Þú getur fengið einhverja þeirra í heimsókn og ókeypis biblíufræðslu á heimili þínu með því að hafa samband við útgefendur þessa tímarits eða koma við í næsta ríkissal votta Jehóva.

[Innskot á blaðsíðu 11]

„Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð, og ekki skulu þær temja sér hernað framar.“ — Jesaja 2:4.

[Mynd á blaðsíðu 9]

Í nýjum heimi Guðs munu fjölskyldur ‚búa óhultar‘ og öllum stríðsvopnum verður eytt.

[Mynd á blaðsíðu 10]

Með því að kynnast Biblíunni og fara eftir henni geta menn losað sig við árásarhneigðina.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila